Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Aftureldingu X í dag í Mosfellsbænum eftir að hafa unnið Grundfirðinga á laugardaginn. Búist var við erfiðum leik, en Afturelding er eitt af toppliðunum í deildinni.

BF stelpurnar byrjuðu fyrstu hrinuna feikilega vel og náðu sannfærandi forystu á tímabili og komust í 4-10 og tóku þá heimastelpurnar leikhlé. BF hélt áfram að skora og komst í 9-15 og 15-19 og aftur tóku Afturelding leikhlé. Afturelding náði góðum leikkafla og jafnaði metin í 21-21. BF tókst erfiðlega að klára hrinuna og heimakonur voru sterkari á lokamínútum hrinunnar og unnu 25-23 eftir frábæra frammistöðu BF í hrinunni, og virkilega sárt fyrir þær að tapa eftir góða spilamennsku.

Önnur hrina var algerlega eign BF og voru þær yfir allan tíman og höfðu á tímabili yfirburða forystu. Eftir jafnar upphafsmínútur þegar jafnt var á 3-3, 8-8 og 9-9 þá tók BF öll völd á vellinum. BF skoraði sex stig í röð og breyttu stöðunni í 9-15 og 10-20 og á þessum kafla tók þjálfari Aftureldingar tvö leikhlé, en það skilaði engu. BF vann hrinuna afar sannfærandi 11-25 og hafði mikla yfirburði.

Í þriðju hrinu byrjaði Afturelding betur og komst í 4-0 og 11-6 en BF minnkaði muninn í 12-10. Afturelding skoraði þá sex stig í röð og komust í 18-10 og í 20-13 en þá loksins kom frábær kafli hjá BF og minnkuðu muninn í 20-16. Mikil spenna var á lokamínútum hrinunnar og jafnaðist leikurinn verulega. Afturelding komst í 22-19 en BF jafnaði 23-23 og aftur var jafnt 25-25 og fór hrinan í upphækkun. Jafnt var í 27-27 og 28-28, en Afturelding braut ísinn og skoraði tvö stig í röð og komst í 30-28 og voru komnar í 2-1 og þurftu aðeins eina hrinu til viðbótar.

Í fjórðu hrinu höfðu heimakonur yfirhöndina alla hrinuna og komust í 4-0 og 9-4 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 11-8 og 15-13 en Afturelding svaraði og náðu góðri forystu, 21-14 sem erfitt var að vinna upp.  Aftur tók BF leikhlé ogn náðu þær aðeins að ógna í lok hrinunnar og minnkuðu muninn í 23-19 en Afturelding kláraði hrinuna 25-19 og unni leikinn 3-1, sem var heilt yfir jafnt og spennandi og voru BF stelpur óheppnar að vinna ekki tvær hrinur í þessum leik.