All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Vélsleðamaður féll niður um ís á Svínavatni

Vélsleðamaður féll niður um ís á Svínavatni, skammt frá Húnavöllum, á fjórða tímanum í gær. Ísinn á vatninu reyndist ótraustur og um fimmtíu metra frá landi brotnaði hann.

Tveir urðu vitni að óhappinu og gátu dregið manninn upp úr með kaðalspotta. Vélsleðinn sökk hins vegar til botns. Björgunarsveitir voru kallaðar út þar sem óttast var að maðurinn kólnaði hratt niður í vatninu en þær voru afturkallaðar þegar í ljós kom að maðurinn náðist fljótt upp úr vatninu.

Honum varð ekki meint af volkinu og þurfti ekki á frekari aðhlynningu að halda, eftir að hann komst í þurr föt.

Björgunarsveitarmenn vinna þó að því að ná sleðanum upp úr vatninu en lögreglan á Blönduósi telur að það sé hátt í tveggja metra djúpt þar sem sleðinn fór niður.

Heimild: Rúv.is

Tindastóll vann Njarðvík í körfunni

Tindastólsmenn mörðu baráttuglaða Njarðvíkinga í Síkinu á fimmtudagskvöld en gestirnir þurftu að sigra heimamenn með yfir átta stiga mun til að stela af þeim sjöunda sætinu í Iceland Express deildinni. Njarðvíkingar gerðu ágæta atlögu en þegar upp var staðið höfðu heimamenn betur, Miller tók leikinn í sínar hendur á lokakaflanum og staldraði oft við á vítalínunni. Lokatölur 81-79.

Tindastóll mætir svo KR í úrslitakeppninni.

Varðskipið Ægir á Sauðárkróki í gær

Ægir, varðskip Landhelgisgæslunnar, lagði að bryggju á Sauðárkróki rétt fyrir kl. 16 í gær og var við höfn til kl. 20 í gærkvöldi. Þá halda þeir út á fjörðinn þar sem stefnt er á að halda björgunaræfingu á sjó, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Ægir kom síðast á Sauðárkrók þegar skipið átti að flytja ísbjörninn, sem hingað kom á land árið 2009, til Grænlands en ekkert varð þó úr því.

Sjá nánar um fréttina og myndir á Feykir.is

Sumarstörf í Skagafirði

Starfsmaður við persónulega þjónustu ótg.

Málefni fatlaðra- Sumarstörf í Skagafirði

Fyrirtæki/stofnun: Sveitarfélagið Skagafjörður

Óskað er eftir starfsfólki af báðum kynjum, 20 ára og eldri í sumarafleysingar 2012.

Reynsla af starfi með fötluðu fólki æskileg. Starfstími er frá júníbyrjun til loka ágúst. Eftirfarandi starfsstöðvar óska eftir sumarafleysingum:

Frekari liðveisla:

Um það bil 50% starfshlutfall, vaktavinna og dagvinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Iðja- Hæfing:

Starfshlufall samkomulag, dagvinna.

Upplýsingar gefur Jónína í síma 453 6853 eða á idja@skagafjordur.is

Sambýlið Fellstúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Edda í síma 453 6692 eða á fellstun@skagafjordur.is

Skammtímavistun:

Starfhlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Dóra Heiða í síma 692 7511 eða á doraheida@skagafjordur.is

Þjónustuíbúðir Kleifatúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Umsóknarfrestur er til 1. apríl. Launakjör miðast við kjarasamninga Öldunar stéttarfélags, starfsmannafélags Skagafjarðar við Sveitarfélagið Skagafjörð.

Umsækjendur eru hvattir til að nýta umsóknareyðublað í íbúagátt sveitarfélagsins, rafræn umsóknareyðublöð eru einnig á vef sveitarfélagsins – www.skagafjordur.is

Starfsmaður óskast á minnkabú

Landbúnaðarverkamaður, ósérhæfður

Minnkabú – Skagafjörður.

Fyrirtæki/stofnun: Vinnumálastofnun Norðurl vestra

Starfsmaður óskast í fullt starf á minnkabú í Skagafirði. Um framtíðarstarf er að ræða. Vinnutími er frá 8:00-17:00 virka daga. Áhugasamir beðnir að hafa samband við Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra í síma 455-4200 eða á netfangið: nordurland.vestra@vmst.is

Íslenska fánasaumastofan á Hofsósi leitar að starfsmanni

Saumakona/-maður og útsaumari

Saumastofa- “Vinnandi Vegur” Hofsós.

Fyrirtæki/stofnun: Íslenska fánasaumastofan

Íslenska fánasaumastofan á Hofsósi leitar að starfsmanni í fullt starf.

Starfið er hluti af átakinu “Vinnandi vegur”.

Nánari upplýsingar veitir Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra á netfanginu : nordurland.vestra@vmst.is eða í síma 455-4200.

Sumarstarf í ferðaþjónustu á Hofsósi

Ráðgjafi eða sölumaður í ferðaþjónustu Ferðaþjónusta – “Vinnandi vegur ” Hofsós.

Fyrirtæki/stofnun: Vesturfarasetrið ses

Vesturfarasetrið leitar að starsfólki í ferðaþjónustutengd störf í sumar. Störfin eru hluti af átakinu “Vinnandi vegur”. Nánari upplýsingar veitir Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra á netfanginu : nordurland.vestra@vmst.is eða í síma 455-4200.

Styrkir til fornleifarannsókna í Skagafirði

Fornleifadeild Byggðasafnsins fékk veglega verkefnastyrki úr Fornleifasjóði, samtals 4,5 milljónir.

Tvær milljónir fengust til rannsókna á fornum kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti. Garðurinn kom óvænt í ljós við jarðsjármælingar á elsta bæjarstæði Seylubæjar árið 2008. Vitað var um annan og yngri garð við yngra bæjarstæði, sem liggur ofar í landinu. Það kom mjög á óvart að eldri garður skyldi finnast en við nánari könnun kom í ljós að garðurinn hefur verið nánast fullur þegar að hætt var að grafa í hann, einhvern tímann skömmu fyrir aldamótin 1100.  Ætlunin er að grafa garðinn upp að fullu en þannig fást einstakar heimildir um lífsviðurværi þeirr sem bjuggu í Seylu á 11. öld, gerð kirkju og kirkjugarðs og greftrunarsiði. Rannsóknin er unnin í samstarfi við hóp bandarískra sérfræðinga sem hafa unnið að jarðsjár- og fornleifarannsóknum í Skagafirði undanfarin 10 ár.

Ein og hálf milljón fékkst til að ljúka úrvinnslu uppgraftar kirkjugarðs og kumlateigs í Keldudal, Hegranesi. Minjarnar þar komu óvænt upp við framkvæmdir 2002 og 2003 og fór fram á staðnum svokölluð björgunarrannsókn þar sem leitast var við að bjarga sem mestum upplýsingum um minjarnar áður en þær hurfa að fullu. Rannsóknirnar voru á sínum tíma unnar fyrir takmarkað fjármagn og þótt styrkir hafi fengist til ýmissa sértækra rannsókna s.s. DNA rannsókna á beinum, var aldrei til nægt fjármagn til að klára úrvinnslu og útgáfu verksins. Styrkurinn gerir það mögulegt að klára úrvinnsluna og gefa út ítarlega skýrslu.

Milljón fékkst til skráningar minja á strandlengjunni út að austan (austurströnd Skagafjarðar). Mikið landbrot hefur átt sér stað, einkum á austurströnd fjarðarins, á seinustu áratugum. Við það hafa fjölmargar minjar horfið í hafið og margar eru í fyrirsjáanlegri hættu. Engin heildarmynd er til um hvernig eða hversu margar minjar kunna að vera í hættu vegna landbrots. Með skráningunni er ætlunin að fá slíka heildarmynd og vonandi að ná heimildum um hverfandi minjar áður en þær fara í sjóinn, sem mun gerast innan fárra ára ef fram fer sem horfir.

Styrkirnir hafa afar mikla þýðingu fyrir rannsóknarstarf Byggðasafnsins og stuðla að frumrannsóknum á skagfirskum minjaarfi sem leiða til aukinnar þekkingar, markvissari varðveislu hans og nýtingar í framtíðinni. Þrír starfsmenn eru nú í fullu starfi á fornleifadeild safnsins. Auk þeirra starfa er eitt og hálft starf á ársgrundvelli við safnið, til að annast almenn safnastörf. Í þeim eru safnstjóri og starfsmaður við munaskráningar.

Heimild: Byggðasafn Skagfirðinga

Marriot hótel rís í Reykjavík

Náðst hefur samkomulag um byggingu Marriott-hótels við hlið tónlistarhússins Hörpu en samningur verður undirritaður um miðjan apríl, segir í frétt á Visi.is. Að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Sítusar, eiganda Austurhafnarlóðanna, mun fyrirtækið World Leisure Investment byggja hótelið, en það átti hæsta tilboðið í lóðina, eða um 1,8 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að byggja hótelið í lok árs eða eftir áramót, ef samningar nást. Pétur segir að það séu mikil gleðitíðindi að fá Marriott-keðjuna til landsins en keðjan, sem er bandarísk, hefur opnað um 18 hótel á Norðurlöndunum á síðustu árum.

95. ársþing USAH og íþróttamaður ársins

95. ársþing USAH. fór fram um s.l. helgi á 100 ára afmælisári sambandsins en það verður 100 ára þann 30. mars n.k. Um 10 fulltrúar voru mættir ásamt gestum frá ÍSÍ og UMFÍ. Fram kom á þinginu að mikil afmælisveisla verður í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi laugardaginn 31. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var Íþróttamaður ársins valinn en það var að þessu sinni Magnús Örn Valsson úr Geislum en Magnús Örn hefur aðallega einbeitt sér að kúluvarpi og stóð sig mjög vel á síðasta ári.

Tindastóll gerði jafntefli við Stjörnuna

Fjórði leikur Tindastóls í A-riðli Lengjubikarsins fór fram í gærkvöldi. Fram að þessu hefur Tindastóll ekki enn náð í stig. Andstæðingur gærkvöldsins var Stjarnan úr Garðabæ.

Leikurinn hófst klukkan 20:05 og það tók Fannar Freyr Gíslason 20 mín að skora fyrsta markið í leiknum fyrir Tindastól.

Eftir markið tóku Stjörnumenn völdin á vellinum og stjórnuðu leiknum, en Tindastóll varðist gríðarlega vel.

Menn voru þéttir til baka og gáfu lítið af færum á sér, en það var síðan í uppbótartíma sem Stjörnumenn jöfnuðu leikinn, þar var á ferðinni Gunnar Örn Jónsson sem skoraði með skalla. Tindastólsmenn grátlega nálægt því að landa sínum fyrsta sigri í lengjubikarnum, en jafntefli gegn sterku liði Stjörnunnar teljast mjög góð úrslit.

Þess má til gamans geta að meðalaldur byrjunarliðs Tindastóls var 20,3 ár í þessum leik.

Næsti leikur er 24. mars gegn ÍBV og verður spilað uppá Skaga.

Auglýst eftir viðburðum í Sæluviku í Skagafirði

Setning Sæluvikunnar fer að þessu sinni fram á atvinnulífssýningunni Skagafjörður – Lífsins gæði og gleði, í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki 29. apríl.
Þeir sem hafa hug á að setja upp viðburð í Sæluvikunni er bent á að hafa samband við Áskel Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóra Markaðs- og þróunarsviðs; heidar@skagafjordur.is eða í síma 455 6000 fyrir 1. apríl nk.

Laus störf hjá Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki auglýsir eftir hjúkrunarfræðingi eða hjúkrunarfræðinema, ljósmóður og sjúkraliða.

Hjúkrunarfræðingar, hjúkrunarfræðinemar

Okkur vantar hjúkrunarfræðing til starfa við heimahjúkrun og á heilsugæslusviði. Tímabil er júní, júlí og ágúst. Starfshlutfall er samkomulag

Ljósmæður

Staða ljósmóður í mæðra- og ungbarnavernd er laus  í júlí í 3-4 vikur vegna sumarleyfa. Starfshlutfall er samkomulag.

Sjúkraliðar

Sjúkraliða vantar í heimahjúkrun í júní, júlí og ágúst. Starfshlutfall er samkomulag.

Umsóknarfrestur til 20. mars.

Öllum umsóknum verður svarað. Sjá nánar á heimasíðu HS: http://www.hskrokur.is/.

Allar nánari upplýsingar veitir Herdís Klausen framkvæmdastjóri hjúkrunar Í síma 455 4011/ netfang: herdis@hskrokur.is.

Hægt að sækja um rafrænt: http://www.hskrokur.is/.

Gvendardagur á Hólum

Gvendardagur verður haldinn á Hólum föstudaginn 16. mars. Dagskráin hefst með veitingum í Auðunarstofu kl. 16:00. Að málþingi loknu verða síðan tónleikar í Hóladómkirkju.

Magnea Tómasdóttir sópransöngkona og Guðmundur Sigurðsson organisti
flytja sálmalög í útsetningu Smára Ólasonar.
Aðgangur í boði Hóladómkirkju.

Skíðakennsla Tindastóls hefst 21 mars

Byrjendanámskeið í skíðakennslu Tindastóls hefst miðvikudaginn 21. mars og stendur til 25. mars. Kennt er í eina klukkustund í senn.

Dagskráin er:

  • miðvikudagur 16:00-17:00
  • fimmtudagur 16:00-17:00
  • föstudagur 16:00-17:00
  • sunnudagur 11:00-12:00 og 13:00-14:00
  • Gjaldið er 10,000.-kr

Krakkarnir geta fengið búnað á leigunni endurgjaldslaust á meðan á námskeiðinu stendur. Foreldrar geta fengið búnað endurgjaldslaust í einn dag. Markmiðið er að allir verði skíðandi og geti tekið lyftu eftir námskeiðið.

Skráning fer fram frá 15.mars til 18.mars á Skíðasvæði Tindastóls.

Góður árangur yngri flokka Tindastóls í körfubolta

Yngri flokkar Tindastóls náðu góðum árangri í síðustu umferð fjölliðamótanna um s.l. helgi. 11. flokkur drengja og 8. flokkur stúlkna unnu B-riðilsmót og 8. flokkur drengja vann tvo og tapaði einum leik í D-riðli.

Breytingar urðu í öllum fjölliðamótum þessara flokka þar sem eitt lið í hverjum flokki mætti ekki til leiks. Er það því miður algengt að félög sendi ekki lið til keppni í síðustu umferðinni, nema að einhverju sérstöku sé að keppa eins og er í A-riðli. Er þetta bagalegt fyrir þau lið sem eru í þessu af alvöru, leikjum fækkar í síðustu umferðinni og leikmenn fá minna út úr mótinu en æskilegt er. Að vísu ber að geta þess að Þórsarar sendu ekki lið til keppni í 8. flokki stúlkna, vegna slæmrar veðurspár, en hugur mun vera hjá þeim til þess að spila sína leiki engu að síður á næstunni.

Valsmenn mættu ekki til leiks í 11. flokki drengja hér á Sauðárkróki. Okkar strákar spiluðu því aðeins þrjá leiki. Töpuðu fyrir Keflavík 44-46, en unnu Hauka 77-65 og Breiðablik 60-45. Þrátt fyrir að tapa þessum eina leik, unnu þeir mótið strákarnir og er þetta í fyrsta skiptið sem þessi aldurshópur sigrar B-riðilsmót sem er afar gleðilegt.

Heimild: Tindastóll.is

Karlmaður barði nemenda í Hólaskóla

Kona á þrítugsaldri, nemandi í Hólaskóla, var flutt á sjúkrahús í Reykjavík aðfararnótt sunnudags eftir alvarlega líkamsárás á nemendagörðum skólans. Karlmaður sem var gestkomandi í skólanum réðist á konuna eftir gleðskap og barði hana ítrekað í andlitið.

Hlaut hún mikla áverka, skurði í andlit og þá brotnuðu í henni margar tennur.

Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Sauðárkróki er líðan konunnar eftir atvikum. Árásarmaðurinn var handtekinn um nóttina og yfirheyrður á sunnudag. Málið telst upplýst.

heimild: Rúv.is

Skýrsla vegna byggingar Árskóla

Fundargerð Sveitarstjórnar vegna byggingar Árskóla:

Sigurjón Þórðarson tók  til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.

Skýrsla Centra um fjárhagslega áhrif viðbyggingar við Árskóla á fjárhag sveitarfélagsins, byggir fyrst og fremst á óraunhæfum áætlunum og framreiknuðum hagræðingaraðgerðum í rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem ekki bólar enn á. Á óvart kemur sömuleiðis að Centra skuli leggja það til að farið verið á svig við 64. grein nýsamþykktra sveitarstjórnarlaga, sem kveður á um 150% skuldaþak.

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og ítrekar fyrri bókun byggðarráðs.

”Ljóst er út frá þeim gögnum sem fyrir liggja að sveitarfélagið ræður vel við framkvæmdina. Með henni fer sveitarfélagið ekki upp fyrir það skuldaþak sem sett hefur verið og munar nokkru þar um. Niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi og tala þær sínu máli: “Ástand núverandi skólahúsnæðis að Freyjugötu veldur því að nauðsynlegt er að verja verulegum fjármunum til viðhalds eða byggja viðbyggingu við Árskóla. Miðað við þær forsendur um kostnað og fjármögnun sem framkvæmdin byggir á, auk þess rekstrarhagræðis sem af henni hlýst, er viðbygging við Árskóla mun hagfelldari fyrir sveitarfélagið og mun hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.”

 

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tók til máls og lagði fram eftirfarandi:

Sveitarstjóri óskar bókað, í  64.grein sveitarstjórnarlaga stendur m.a.:

64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Ráðherra skilgreinir í reglugerð nánar þau viðmið sem lögð eru til grundvallar skv. 2. mgr., þar á meðal um útgjöld, tekjur, eignir, skuldir og skuldbindingar og aðlögun sveitarfélaga að þeim. Þar skal jafnframt heimilt að undanþiggja nánar tilgreindar skuldir eða skuldbindingar einstakra sveitarfélaga þannig að þær hafi engin eða aðeins hlutfallsleg áhrif skv. 2. tölul. 2. mgr.

Texti frá Skagafjordur.is

 

Evrópa unga fólksins

Evrópa unga fólksins styrkir verkefni ungs fólks á aldrinum 13 – 30 ára og þeirra sem starfa með ungu fólki.

  •  Langar þig að fara í hópferð til Evrópu með vinum þínum að hitta annað ungt fólk í Evrópu?
  •  Ertu með góða hugmynd og langar í milljón í styrk til að framkvæma hana?
  •  Langar þig að fara til Spánar í heilt ár fyrir 10.000kr?

Mættu í Hús frítímans þann 13. mars til að kynnast tækifærum í Evrópu fyrir þig.

  Nánar um EUF á www.euf.is

Keflavík valtaði yfir Tindastól í Lengjubikarnum

Keflavík og Tindastóll mættust í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag í Reykjaneshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að lið heimamanna gjörsigraði Tindastól með 7 mörkum gegn engu. Staðan var 4-0 í hálfleik og Keflavík bætti við marki á 60. mínútu en það var svo í blálokin að tvo mörk komu frá heimamönnum og lokatölur því 7-0.

Keflavík gerði sex skiptingar en Tindastóll fjórar. Leikskýrsluna frá KSÍ má finna hér.

Næsti leikur Tindastóls:

sun. 18. mar. 12 16:00 Stjarnan – Tindastóll
Byrjunarliðin:  Keflavík – Tindastóll
1 Ómar Jóhannsson  (M) 3 Pálmi Þór Valgeirsson
4 Haraldur Freyr Guðmundsson  (F) 4 Magnús Örn Þórsson
7 Jóhann Birnir Guðmundsson 6 Björn Anton Guðmundsson
8 Grétar Atli Grétarsson 7 Aðalsteinn Arnarson
9 Guðmundur Steinarsson 8 Atli Arnarson
11 Magnús Sverrir Þorsteinsson 9 Árni Einar Adolfsson  (F)
15 Bojan Stefán Ljubicic 10 Fannar Freyr Gíslason
17 Arnór Ingvi Traustason 11 Fannar Örn Kolbeinsson
22 Magnús Þór Magnússon 12 Arnar Magnús Róbertsson  (M)
25 Frans Elvarsson 17 Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson
28 Viktor Smári Hafsteinsson 20 Árni Arnarson

Matís á Sauðárkróki rannsakar fiskprótein gegn sykursýki

Fiskprótín gegn sykursýki

Í starfstöð Matís á Sauðárkróki er nú verið að kanna virkni blóðsykurslækkandi lífefna úr sjávarfangi en markmið rannsóknarinnar er að komast að því hvort hægt sé að nota fiskprótín í baráttunni gegn sykursýki.

„Við höfum verið að skoða hvort það sé hægt að einangra prótín úr fiski og nota það til þess að lækka blóðsykur því að of hár blóðsykur er stækkandi vandamál í heiminum,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, starfsmaður Matís. Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að hjá þjóðum þar sem fiskneysla er mikil sé tíðni sykursýki 2 lægri en annars staðar. Starfsmenn Matís vilja því meina að hægt sé að nota fiskprótín til að hamla of háum blóðsykri – og um leið bæta nýtingu og verðmæti sjávarfangs.

Talið er að árið 2025 verði 300 milljónir manna með sykursýki. „Þannig að það yrði mjög jákvætt ef við gætum notað þurrkað fiskprótin og hvað þá ef það væri hægt að nota afskurð úr fiskvinnslunum og einangra prótín og þurrka það og selja sem fæðubótarefni með andsykursýkisvirkni,“ segir Hólmfríður, Slíkt yrði ekki aðeins bylting fyrir þá sem þjást af sykursýki, heldur einnig fyrir íslenskan fiskiðnað.

Heimild: Rúv.is

Bílvelta á Þverárfjalli og á Holtavörðuheiði í gær

Bíll valt á Þverárfjalli í gærkvöld og á svipuðum tíma eða um kl. 21.30 valt bíll á Holtavörðuheiði. Bæði óhöppin tengjast slæmri færð á svæðinu en enginn slasaðist. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Blönduósi valt bíll á Holtavörðuheiði um kl. 21.30. Þrennt var í bílnum og slasaðist enginn en bíllinn sem var á norðurleið, er nokkuð skemmdur og þurfti að draga hann af staðnum með dráttarbíl. Mikil hálka var á heiðinni. Lögreglan á Sauðárkróki segir að par sem var í bílnum er valt á Þverárfjalli hafi verið flutt á sjúkrahúsið á Sauðárkróki til skoðunar og síðan sent heim. Þau hafi sloppið við meiðsl. Vond færð var efst á Þverárfjalli og lenti bíll parsins í skafli á miðjum vegi, ökumaður missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að hann valt og endaði á toppnum.

EFLING FERÐAÞJÓNUSTU Á NORÐUR- OG AUSTURLANDI

 EFLING FERÐAÞJÓNUSTU Á NORÐUR- OG AUSTURLANDI

 Sólarhringstilboð milli Akureyrar og Kaupmannahafnar – aðrir áfangastaðir í Evrópu til skoðunar í haust og vetur

 Iceland Express mun fljúga vikulega milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í júlí og fram í ágúst. Fyrsta flugið verður frá Akureyri síðdegis mánuaginn 2. júlí. Ef vel gengur með þessa þjónustu í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, sveitarfélög á Norðurlandi og fleiri er Iceland Express með í skoðun að fljúga frá Akureyri til annarra áfangastaða í Evrópu í haust og vetur. Er þá helst horft til Lundúna.

Samningur hefur verið gerður milli Iceland Express annars vegar og Flugklasa Norðurlands Air 66N og ISAVIA hins vegar um að styrkja millilandaflug frá Akureyri. En að Flugklasa standa aðilar í ferðaþjónustu, sveitarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi. Sameiginlega og hver um sig munu þessir aðilar kynna Norðurland sem ferðamannasvæði og þá þjónustu sem fyrirtæki þar hafa upp á að bjóða sem og þjónustu Iceland Express.

Af þessu tilefni býður Iceland Express upp á sólarhrings tilboð sem hefst kl. 12 á hádegi föstudaginn 9. mars og lýkur á hádegi á laugardag. Tiltekinn sætafjöldi býðst á 39.800 samanlagt með sköttum og gjöldum fram og til baka milli Akureyrar og Kaupmannahafnar

*. Flogið verður frá Kaupmannahöfn til Akureyrar á mánudögum kl. 13:10 og lent á Akureyri kl. 16:20 og þaðan flogið aftur til Kaupmannahafnar kl. 17:20 þar sem lent er kl. 20:20 að staðartíma.

*Takmarkað sætaframboð, valdar dagsetningar og valin flug í tilboðinu.

 

Þegar flugtímabilinu milli Akureyrar og Kaupmannahafnar lýkur verður boðið upp á beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar í þrjár vikur. Fyrsta flugið frá Egilsstöðum verður mánudaginn 13. ágúst og eru brottfarartímar þeir sömu og í fluginu milli Kaupmannahafnar og Akureyrar.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Heimir Már Pétursson upplýsingafulltrúi S: 862 2868 heimirp@icelandexpress.is

Kaupfélag Skagfirðinga fjármagnar skólabyggingu

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt að ráðast í framkvæmdir við viðbyggingu Árskóla á Sauðárkróki. Kaupfélag Skagfirðinga hefur boðist til að lána fyrir framkvæmdum fyrsta áfanga, án vaxta og afborgana, á byggingartímanum.

Skólinn starfar nú á tveimur stöðum í bænum og er ætlunin að byggja við og bæta skólahúsið við Skagfirðingabraut og færa allt skólastarfið þangað. Sameining skólans á einum stað skapar mikla hagræðingu og er til bóta fyrir nemendur og starfsfólk.