All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Hvatningarverðlaun SSNV – atvinnuþróunar árið 2012 til sjávarlíftæknisetursins BioPol á Skagaströnd

Sjávarlíftæknisetrið BioPol

Fyrirtækið var stofnað árið 2007 af Sveitarfélaginu Skagaströnd. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að koma á fót þekkingarsetri þar sem rannsóknir á lífríki hafsins og hagnýting staðbundinna auðlinda úr Húnaflóa væru í forgrunni. Fyrirtækið hefur nú þegar skapað sér nokkra sérstöðu með rannsóknarverkefnum, m.a á útbreiðslu grásleppu hér við land, hagnýtingu svifþörunga til eldsneytisframleiðslu, kortlagningu og lífríkisrannsóknum á ræktunarstöðum fyrir krækling og nýtingu ígulkera til manneldis, svo eitthvað sé nefnt.

Stefna fyrirtækisins er að BioPol muni á næstu  árum ná að byggja upp nauðsynlega færni til þess að fyrirtæki og sjóðir telji fýsilegt að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og þróun á sviði sjávarlíftækni. Þess er  vænst að rannsóknarniðurstöður fyrirtækisins „leiti út á markað“  sem í framhaldinu leiði til stofnunar sprotafyrirtæki sem hefji framleiðslu á vörum til neytenda eða til áframhaldandi vinnslu. Þá er þess vænst að setrið stuðli að eflingu samkeppnishæfni Íslands varðandi nýtingu verðmæta úr sjó og sjávarfangi.

Árið 2010 tók fyrirtækið í notkun nýja og vel útbúna rannsóknastofu þar sem hægt er að vinna flestar þær rannsóknir sem í gangi eru. Hjá fyrirtækinu starfa nú níu manns, flestir háskólamenntaðir, í margvíslegum sjávarrannsóknum.

Verðlaunagripurinn.

Hefð er fyrir því að verðlaunagripurinn fyrir hvatningaverðlaunin sé unninn af listamanni á svæðinu. Að þessu sinni er það Erlendur F. Magnússon, listamaður á Blönduósi, sem hannar og smíðar gripinn. Erlendur er lærður húsasmiður en var einnig við nám í Handíða- og myndlistaskóla Íslands og hefur tekið þátt í nokkrum sýningum. Hann sinnti kennslu um árabil og var frumkvöðull að skákkennslu í grunnskólum.

Frá árinu 1984 hefur Erlendur unnið við fjölbreytt hönnunar-, útskurðar- og sérsmíðaverkefni á eigin verkstæði og við hönnun og byggingu húsa víða um land. Helstu verkefni hans eru: Safnahús, hótel og fl. við Geysi í Haukadal, Fjörukráin í Hafnarfirði, Eden í Hveragerði, Ásgarður við Hvolsvöll og Ingólfsskáli í Ölfusi. Þá hefur hann unnið við endurbætur gamalla húsa og fundið þeim nýtt hlutverk til framtíðar.

Jólamarkaður Blönduósi

Markaður verður í íþróttahúsinu (gengið inn Samkaupsmeginn) á Blönduósi laugardaginn 8. desember frá kl. 13:00-16:00. Allt mögulegt verður á boðstólnum, notað, nýtt og húnvetnskt handverk. Um 20 söluaðilar hafa boðað komu sína.

Allur ágóði af borðaleigu rennuróskiptur til ADHD samtakana og einnig verður hægt að kaupa jólakort og endurskinsmerki til styrktar samtökunum.

Úrslit tilkynnt í Fugl fyrir milljón

Laugardaginn 8. desember næstkomandi, klukkan 14:00, verða úrslit kynnt í ljósmyndakeppninni Fugl fyrir milljón 2012, í húsakynnum Rauðku á Siglufirði í Fjallabyggð. Þrír ljósmyndarar munu hljóta viðurkenningar fyrir myndir sínar.

Keppnin snýst um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaganum, Hrísey, Grímsey, Drangey og Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012. Auk viðurkenninga fyrir myndirnar í 2. og 3. sæti, verður besta myndin verðlaunuð með 1.000.000 króna í reiðufé.

Dómnefnd er leidd af Jóhanni Óla Hilmarssyni, fuglafræðingi og einum þekktasta fuglaljósmyndara Íslands.Með honum sátu í nefndinni Daniel Bergmann, ljósmyndari og Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður og forstöðumaður Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Keppnin var nú haldin í annað sinn og er tilgangur hennar að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu.

Það eru Brimnes hótel í Ólafsfirði og Rauðka á Siglufirði sem standa að keppninni.

Með bestu kveðju,

Axel Pétur Ásgeirsson

www.fuglfyrirmilljon.com

Dagskrá 1. desember á Sauðárkróki

Það verður sannkölluð jólastemning á Sauðárkróki laugardaginn 1. desember 2012 þegar ljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi kl. 15:30.

 • Skólakór Árskóla syngur jólalög undir stjórn Írisar Baldvinsdóttur. Rögnvaldur Valbergsson annast undirleik.
 • Hátíðarávarp sveitarstjóra Skagafjarðar, Ástu Bjargar Pálmadóttur.
 • Hó, hó, hó! Jólasveinar koma í heimsókn og hafa eflaust eitthvað í pokahorninu.
 • Dansað í kringum jólatréð og sungin jólalög.

Jólatréð er gjöf frá Kongsberg í Noregi, vinabæ Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Aðventustemning í Gamla bænum og nágrenni laugardaginn 1. desember 2012

 • Opin vinnustofa í Gúttó frá kl. 13-16. Kaffi á könnunni og list til sölu.
 • Opið hús í Maddömukoti frá kl. 14-17. Maddömurnar bjóða upp á kjötsúpu að hætti hússins og handverk til sölu.
 • Jólabasar, kaffi, heitt súkkulaði og rjómavöfflur í húsi Rauða krossins frá kl. 14-17. Kvenfélag Sauðárkróks býður alla velkomna.
 • Landsbankinn, aðventustemning frá kl. 14:30-16. Heitt skátakakó og ljúffengar piparkökur í boði.
 • Minjahúsið verður opið frá kl. 13-16. Nemendur 10. bekkjar Varmahlíðarskóla selja ýmsar nauðsynjar eins og jólakort og lakkrís til styrktar vorferðalagi sínu til Danmerkur.
 • Jólahlaðborð fyrir alla fjölskylduna í Sauðárkróksbakaríi. Opið til kl. 17.
 • Táin og Strata. Ýmis tilboð. Heitt á könnunni. Opið frá kl. 12-16.
 • Blóma- og gjafabúðin býður upp á kaffi, kakó og piparkökur. Opið frá kl. 10-17.
 • Hard Wok Café. Naglasúpubar (humar og kjúklinga), heimalagað heilsubrauð og viðbit, rjúkandi kaffi og konfekt. Opið frá kl. 12-21:30.
 • Móðins, hársnyrtistofa. Heitt kakó, kaffi og piparkökur. Lófalestur og lesið í bolla. Opið frá kl. 14-17:30.
 • Fjölskylduvænt pizzahlaðborð á Ólafshúsi frá kl. 12-18.
 • Barnabókakynning Forlagsins í Safnaðarheimilinu frá kl. 14-17. Barnabókagetraun og heppnir þátttakendur fá bók að gjöf.
 • Jólamarkaður í Safnahúsinu frá kl. 12-18
 • Verslun Haraldar Júlíussonar opin frá kl. 10-14.
 • Tískuhúsið, full búð af nýjum vörum. Opið frá kl. 11-16.
 • Skagfirðingabúð, ýmis tilboð. Opið frá kl. 10-16. Verið velkomin.
 • Jólaljós tendruð á jólatré kl. 15:30 á Kirkjutorgi á Sauðárkróki. Skólakór Árskóla syngur, ávarp sveitarstjóra og jólasveinar mæta með góða skapið og eitthvað í poka.
 • Að lokinni tendrun jólaljósa á jólatrénu á Kirkjutorgi býður Hótel Tindastóll upp á kakó, piparkökur og spjall í Jarlsstofunni.

Aðalgötu verður lokað fyrir bílaumferð frá Kambastíg og að Skagfirðingabraut við Skólastíg frá kl. 14-17.

Vefmyndavélar frá jólatrénu á Sauðárkróki

Búið er að setja upp vefmyndavélar við Kirkjutorg á Sauðárkróki þannig að brottfluttum Skagfirðingum og öðrum sem ekki eiga heimangengt gefst kostur á að fylgjast með tendrun jólaljósa á jólatrénu kl. 15:30 í dag , 1. desember.

Myndir frá vefmyndavélum í Sveitarfélaginu Skagafirði má finna hér.

Minnt er á dagskrána í kringum tendrun ljósa á jólatrénu en hana má finna hér.

Stærðfræðkennari óskast við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra

Við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er laust til umsóknar 100% starf kennara í stærðfræði á vorönn 2013.

Um laun fer eftir kjarasamningi fjármálaráðherra og Kennarasambands Íslands skv. nánari útfærslu í stofnanasamningi. Ráðning verður frá 4. janúar 2013.

Ekki þarf að sækja um starfið á sérstökum eyðublöðum, en í umsókn þarf að greina frá menntun og fyrri störfum. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins.

Umsóknarfrestur er til 15. desember n.k.

Nánari upplýsingar um starfið og launakjör veitir skólameistari eða aðstoðarstjórnendur í síma 455-8000.

Skólameistari

Tindastóll er Lengjubikarmeistari

Tindastóll sigrað Snæfell örugglega í úrslitaleik Lengjubikarsins 96-81 og eru því ákaflega verðskuldaðir Lengjubikarmeistarar 2012 í körfuknattleik. Frábært bikarár að baki hjá Tindastól en það er því miður ekkert alltof algengt að Tindastóll kemst í tvo bikarúrslitaleiki á sama árinu. En sá fyrsti er kominn í hús, núna eru bara tveir eftir.

Það var gríðarleg stemmning og mikið hungur í öllu Tindastólsliðinu í úrslitaleiknum og þeir gerðu heimamönnum lífið leitt með flottri vörn, góðri samvinnu og einstakri baráttu. Bárður Eyþórsson var með sína menn rétt stillta og Snæfellingar áttu fá svör ekki síst í seinni hálfleiknum sem var algjör einstefna.

Tindastóll var að vinna Fyrirtækjabikar karla í annað skiptið í sögu félagsins en liðið vann einnig þessa keppni fyrir þrettán árum. Tveir leikmenn liðsins, Svavar Birgisson og Helgi Freyr Margeirsson, tóku þátt í báðum þessum titlum.

Snæfell var með frumkvæðið nær allan fyrri hálfeikinn og 38-29 forystu þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Tindastóll minnkaði muninn í eitt stig fyrir hálfleik. 45-44, og tók síðan öll völd á vellinum í þriðja leikhlutanum sem liðið vann 28-14 og náði 72-59 forystu fyrir lokaleikhlutann.

Tindastóll komst mest fimmtán stigum yfir í fjórða leikhlutanum en Snæfell náði að minnka þetta aftur niður í sjö stig áður en Stólarnir lönduði sigrinum í lokin.

George Valentine fór á kostum í liði Tindastóls með 26 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Þröstur Leó Jóhannsson kom með þvílíkan kraft af bekknum og skoraði 25 stig, fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson fór fyrir sprettinum í þriðja leikhlutunum og allir leikmenn liðsins skiluðu sínu í vörninni.

Jay Threatt skoraði 30 stig í gær og 18 stig í fyrri hálfleiknum í kvöld en hann var alveg búinn að orkuna í seinni hálfleiknum og því máttu Snæfellingar ekki við. Threatt náði aðeins að skora 4 stig í seinni hálfleik en var samt stigahæsti leikmaður Snæfellsliðsins með 22 stig.

Snæfell-Tindastóll 81-96 (20-18, 25-26, 14-28, 22-24)

Snæfell: Jay Threatt 22/8 fráköst/8 stoðsendingar, Asim McQueen 17/14 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 12/12 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9, Sveinn Arnar Davíðsson 8, Hafþór Ingi Gunnarsson 7, Ólafur Torfason 5, Sigurður Á. Þorvaldsson 1.

Tindastóll: Þröstur Leó Jóhannsson 27/6 fráköst, George Valentine 26/14 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 16, Drew Gibson 16/5 fráköst/8 stoðsendingar, Svavar Atli Birgisson 6, Helgi Freyr Margeirsson 3, Ingvi Rafn Ingvarsson 2, Sigtryggur Arnar Björnsson 0/4 fráköst.

Alla fréttina má lesa hér.

Heimild: visir.is / tindastoll.is

Tindastóll vann Þór í undanúrslitum

Þórsarar lagðir – komnir í úrslitaleikinn

Tindastóll vann frækinn og sanngjarnan sigur á Þórsurum 82-81 á þessu fallega föstudagskvöldi. Leikurinn var jafn og skemmtilegur en Tindastóll var þó með undirtökin mest allan leikinn. Í lokin var leikurinn æsi-æsi-æsi spennandi en okkar menn höfðu það fyrir rest til allrar hamingju. Næsta verkefni, úrslitaleikurinn í Lengjubikarnum 2012.

Þórsarar byrjuðu þó eilítið betur og náðu smá forskoti rétt á meðan Tindastólstrákarnir voru að hita á sér lappirnar en eftir að þær urðu heitar þá byrjuðu strákarnir á fullum krafti og komu sér vel inn í leikinn. Í hálfleik leiddu þeir með heilu einu stigi 39-38 og dúndrandi stemning út um allt land og allan heim en leikurinn var sýndur beint á sporttv.is í ágætis gæðum.

Seinni hálfleikur var epískur og allt að gerast. Í fjórða leikhluta virtust strákarnir vera komnir með þetta þegar þeir náðu 8 stiga forskoti þegar lítið var eftir, en þá hefur eflaust einhver stuðningsmaðurinn haldið að þetta væri komið og óvart sagt það upp hátt. Niðurstaðan var að sjálfsögðu feitt jinx eða Adolf Ingi eins og sumir vilja kalla það og Þórsarar skelltu niður tveimur þristum á stuttum tíma og leikurinn orðinn ömurlega spennandi aftur. En allt kom fyrir ekki, Tindastólsstrákarnir náðu með mikilli baráttu að halda Þórsurum undir og lokasókn Þórsarar rann út veður og vin. Sigur, gleði og hamingja.

Frétt frá Tindastóll.is

Fimm aðilar hljóta styrki til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn

Ferðamálastofa auglýsti í september eftir umsóknum um styrki til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn. Alls bárust 20 umsóknir sem flestar voru vandaðar og verkefnin áhugaverð.

Dómnefnd
Dómnefnd var skipuð til að fjalla um umsóknir en í henni sátu:

 • Ragnar Frank Kristjánsson f.h. Félags íslenskra landslagsarkitekta
 • Pétur Bolli Jóhannesson  f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga
 • Erna Hauksdóttir  f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar
 • Elías Bj. Gíslason  f.h. Ferðamálastofu

Niðurstaða dómnefndar er að 5 aðilar hljóti styrk.

Sjávarsmiðjan og Reykhólahreppur  kr. 2.900.000
THanna og þróa faglega heildarmynd fyrir svæðið og þá uppbyggingu sem þar á að fara fram og er ætluð ferðamönnum. Um er að ræða bætt aðgengi til sjóbaða, göngustíga, hleðslur í hringum hveri, aðgengi og verndun á gamalli torfsundlaug. Hanna  merkingar, bæði til að miðla upplýsingum um öryggi, aðgengi sem og í fræðslutilgangi um náttúru- og söguminjar svæðisins.

Útihvalasafn og göngustígar í Súðavík  kr. 2.500.000
Hanna og skipuleggja útihvalasafn í gömlu byggðinni í Súðavík sem og göngustíga við sjávarsíðuna þar sem saga hvalveiða og vinnslu við Álftarfjörð verður sögð í máli og myndum á  upplýsingaskiltum.

Hrútleiðinlegt safn í Hrútafirði   kr. 1.800.000
Endurhanna sýningarrými og inngang í byggðasafninu á Reykjum í Hrútafirði sem og endurskipuleggja útisvæði safnsins með það að markmiði að tengja það betur sögu héraðsins.

Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd kr. 1.700.000
Vinna hönnun og skipulag við Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd, friðlýstum fornleifum sem draga nafn sitt af Hrafna-Flóka. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á merkri sögu svæðisins og hvernig, samkvæmt sögnum, hugmyndin um nafnið Ísland varð til á svæðinu.

Óbyggðasafn Íslands    kr. 1.100.000
Vinna hönnun og skipulag við Óbyggðasafn Íslands sem verður byggt upp á sveitabænum Egilsstöðum.  Bærinn er innsta byggða bólið í Norðurdal í Fljótsdal og er við þröskuld Vatnajökulsþjóðgarðs og við stærstu óbyggðir norður Evrópu.  Markmið Óbyggðasafnsins er að bjóða upp á hágæða menningarferðaþjónustu sem byggir á menningararfi og náttúru óbyggðanna og jaðarbyggða þeirra.

Auglýst aftur að ári
Áætlað er styrkir sem þessir verði aftur í boði á næsta ári og að auglýst verði eftir umsóknum haustið 2013.

Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður Akureyri elias@ferdamalastofa.is

Bókin Eyðibýli á Íslandi komin út

Út eru komin þrjú bindi af ritinu Eyðibýli á Íslandi. Útgáfan er afrakstur rannsókna síðustu tveggja ára.
Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á Suður- og Suðausturlandi. Sumarið 2012 náði rannsóknin til tveggja landsvæða; Norðurlands eystra og Vesturlands.

Verkefnið hefur verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra. Upplýsingar um verkefnið eru á www.facebook.com/Eydibyli

Efni hvers bindis er sem hér segir:

Eyðibýli á Íslandi, 1. bindi
Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla og Rangárvallasýsla. Höfundar: Arnþór Tryggvason, Árni Gíslason, Birkir Ingibjartsson, Steinunn Eik Egilsdóttir og Yngvi Karl Sigurjónsson. Ritið er 136 bls. að stærð og fjallar um 103 hús.

Eyðibýli á Íslandi, 2. bindi
Norður-Þingeyjarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla og Eyjafjarðarsýsla. Höfundar: Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. Ritið er 168 bls. að stærð og fjallar um 115 hús.

Eyðibýli á Íslandi, 3. bindi
Dalasýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla, Mýrasýsla og Borgarfjarðarsýsla. Höfundar eru þeir sömu og að 2. bindi. Ritið er 160 bls. að stærð og fjallar um 121 hús.

Ritið er gefið út í litlu upplagi af áhugamannafélagi sem stendur fyrir rannsóknunum. Hvert eintak kostar 5.500 kr. Hægt er að panta ritið á heimasíðuni http://www.eydibyli.is/, senda póst á netfangið gislisv@r3.is eða hringja í síma 588 5800.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður:
Eyðibýli – áhugamannafélag
Gísli Sverrir Árnason formaður
Sími: 588 5800 og 892 5599. Netfang: gislisv@r3.is

Ljósmyndasýning á Minjasafni Akureyrar

Áttu laust veggpláss? Viltu eignast fallega ljósmynd eða gefa öðruvísi gjöf?
Ef svo er þá skaltu ekki láta ljósmyndasölu Minjasafnsins á Akureyri helgina 24. og 25. nóvember kl. 14-16 fram hjá þér fara!
Í fyrsta skipti í 50 ára sögu Minjasafnsins er heil ljósmyndasýning til sölu. Hér er um að ræða ljósmyndasýninguna MANSTU – Akureyri í myndum sem sett var upp í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Sýninguna prýða ljósmyndir frá ýmsum tímum eftir ólíka ljósmyndara.

Þetta er skemmtilegt tækifæri fyrir unga sem aldna Akureyringa, brottflutta, aðflutta og vini Akureyrar til þess að eignast mynd eða gefa ljósmynd til að prýða veggi heimilisins eða vinnustaðarins. Á sölusýningunni má sjá marga konfektmola fyrir áhugasama um sögu Akureyrar í myndum og fagurkera sem sjá myndir á vegg sem augnkonfekt og gera hús að heimili .

Vilt þú eignast mynd af til dæmis spekingslegum strákpöttum á gúmmískóm í fjörunni á Akureyri um 1960, byggingasmiðum við smíði norðurhluta Torfunesbryggju 1927, Kaupvangstrætinu (Gilinu) uppúr 1960, fjörunni 1850, ráðhústorginu 1922 sem þá var kallað „Sóðavík“ og/ eða smábátahöfninni við Slippinn 1957?? Viltu eignast fyrstu litmyndina af Akureyri sem tekin var 1943 eða myndir úr verksmiðjunum Sjöfn, Flóru og Kjötiðnaðarstöðinni Kea frá 1966 nú eða mynd af Akureyri 1962?

Tindastóll áfram í undanúrslit í körfunni

Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Fyrirtækjabikars karla í körfuknattleik.

Tindastóll hafnaði í efsta sæti C-riðils þrátt fyrir tap gegn Stjörnunni 98-86 í Garðabæ en Stjörnumenn uðru í öðru sæti. Brian Mills og Justin Shouse skoruðu báðir 19 stig fyrir Stjörnuna auk þess sem Mills tók átta fráköst og Shouse 7 fráköst en hjá Tindastól var  George Valentine atkvæðamestur með 25 stig og 11 fráköst.

Gríðarlegur snjór á Sauðárkróki

Almannavarnir afléttu síðdegis í dag hættu- og óvissustigi vegna snjóflóðahættu á  Norðurlandi. Á Sauðárkróki hefur ekki fallið meiri snjór í áratugi og þar voru þrjú íbúðarhús rýmd í gær.

Það er gríðarlegt fannfergi á Sauðárkróki og hefur ekki fallið svo mikill snjór þar í áratugi. Það er því mikil vinna framundan við að moka götur og halda þeim færum. Mikill snjór safnaðist meðal annars um helgina á svokallaðar Nafarbrúnir ofan við byggðina nyrst í bænum og fór svo að snjóhengja féll um tvöleytið í gær á efsta húsið í Kambastíg.

Snjórinn ruddist inn í garð og braut þar tré, en ekki urðu aðrar skemmdir.Hins vegar mun almannavarnarnefnd Skagafjarðar áfram fylgjast vel með snjólögum enda hefur hætta skapast á á fleiri svæðum.

Heimild: rúv.is

Hús rýmd á Sauðárkróki vegna snjóflóða

Þrjú íbúðarhús við Kambastíg á Sauðárkróki voru rýmd síðdegis í dag, sunnudaginn 18. nóvember, eftir að snjóflóð féll fyrir ofan þau og spýja féll að efsta húsinu. Mikil snjóhengja er í Nafarbrúnum fyrir ofan húsin og var því brugðið á það ráð að rýma þau. Fólkið sem þar býr hefur fengið inni hjá vinum og kunningjum.

Mikið hefur snjóað á Sauðárkróki og er meiri snjór í bænum en bæjarbúar eiga að venjast síðustu ár. Rýmingin gildir í það minnsta í nótt en staðan var metin á ný í hádeginu á morgun. Almannavarnanefnd tekur þá ákvörðun um framhaldið.

Ekki er vitað um önnur flóð á Norðurlandi en það sem féll á Sauðárkróki í dag. Þó getur verið að fleiri snjóflóð hafi fallið en fólk ekki orðið vart við það enda er fólk minna á ferli nú en venjulega vegna veðurs. Hætta er þó talin á snjóflóðum í giljum og hlémegin í fjöllum þar sem snjór hefur safnast saman.

Eigendur hesthúsa við Siglufjörð og Ólafsfjörð eru hvattir til að fara varlega enda er talin snjóflóðahætta í aðkomunni að hesthúsunum.

Heimild: Rúv.is

 

16 verðlaun til Skagfirðinga í frjálsum

Frjálsíþróttadeild ÍR hélt sína árlegu Silfurleika ÍR í Laugardalshöllinni í Reykjavík laugardaginn 17. nóvember.  Metþátttaka var á mótinu að þessu sinni, skráðir keppendur voru 666 talsins og í mörgum greinum voru keppendur á bilinu 40-60 talsins.  Skagfirðingar sem kepptu voru 13 og unnu þeir alls til 16 verðlauna.  Jóhann Björn Sigurbjörnsson sigraði í 60m hlaupi í flokki 16-17 ára pilta.  Auk þess unnu Skagfirðingar til 12 silfurverðlauna og 3 bronsverðlauna á mótinu.

Verðlaunahafar UMSS:

 • Jóhann Björn Sigurbjörnsson (16-17):  1. sæti í 60m og 2. sæti í 200m hlaupi.
 • Fríða Ísabel Friðriksdóttir (14):  2. sæti í 60m, 200m, 60m grindahlaupi og þrístökki.
 • Ragna Vigdís Vésteinsdóttir (15):  2. sæti í 60m, 60m grindahlaupi og hástökki.
 • Ari Óskar Víkingsson (11):  2. sæti í 60m hlaupi.
 • Berglind Gunnarsdóttir (11):  2. sæti í kúluvarpi.
 • Sæþór Már Hinriksson (12):  2. sæti í þrístökki.
 • Vala Rún Stefánsdóttir (13):  2. sæti í kúluvarpi.
 • Hrafnhildur Gunnarsdóttir (14):  3. sæti í 60m grindahlaupi og kúluvarpi.
 • Elínborg Margrét Sigfúsdóttir (13):  3. sæti í 600m hlaupi.
 • Aðrir keppendur UMSS stóðu sig líka með sóma og voru framarlega í sínum greinum.

Byrjendanámskeið hjá Skíðadeild Tindastóls

Þann 8. desember mun byrjendanámskeiðið hjá Skíðadeild Tindastóls byrja. Námskeiðið verður fjórir dagar, 8-9 des og 15-16 des. Markmið námskeiðsins er að nemandinn kunni að stoppa sig, taka lyftuna og sleppa og geta rennt sér einn niður með nokkuð góðu valdi á skíðunum. Og nemandinn geti komið og verið með á æfingum í vetur ef áhugi er fyrir hendi.

Námskeiðsgjaldið er 12 þús krónur og innifalið í því er skíðabúnaður fyrir þá sem að þurfa að fá lánað, lyftugjald (verður að kaupa lykilkort) og foreldri getur fengið búnað einn af þessum dögum til prufu endurgjaldslaust (greiðir eingöngu lyftugjald og lykilkort).

ATH að börn 7 ára og yngri fá frítt árskort ef gengið er frá því fyrir jól. Eingöngu þarf að kaupa lykilkortið, sem að fæst endurgreitt (800 kr) að hluta þegar því er skilað.

Stefnt er að því að halda annað námskeið eftir áramót.

Einnig ef áhugi er fyrir byrjenda námskeiði fyrir fullorðna að hafa þá endilega samband og sjáum hvort að við náum í hóp.

Skráning óskast send á snjoa.m@gmail.com fyrir 6. desember. Gefa þarf upp nafn og aldur á barni ásamt símanúmeri til að hafa samband.

 

Hlökkum til að sjá ykkur í brekkunum í vetur

Skíðadeild Tindastóls.

Ályktun um minka- og refaveiði

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja nauðsynlegt fjármagn til refa- og minkaveiði í fjárlögum fyrir árið 2013 og að heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts að fullu til sveitarfélaga vegna veiðanna.
Á liðnum árum hefur ríkið veitt sífellt minna fjármagni til málaflokksins og er svo komið að engu fjármagni er varið í refaveiði og litlu í minkaveiði.
Er þetta afar bagalegt þar sem ótvíræðar vísbendingar eru um fjölgun dýra í refastofnum og sýna rannsóknir fram á að refastofnar hafa tífaldast á 30 árum. Má í þessu sambandi m.a. benda á að ný greni finnast sífellt nær byggð í Skagafirði en áður hefur verið.
Vegna fjárskaðans sem hlaust af óveðrinu sem gekk yfir í september sl. má leiða líkum að því að refurinn muni í vetur hafa meira fæðuframboð en á liðnum árum og stofnunum vaxi því enn ásmegin. Afleiðingarnar verða frekari fækkun fugla og aukin tíðni dýrbitins sauðfjár.
Atvinnu- og ferðamaálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur nauðsynlegt að aftur verði teknar upp greiðslur úr ríkissjóði til fækkunar refa þannig að unnt sé að halda refastofnum í hæfilegri stærð og í jafnvægi við annað lífríki náttúrunnar.

Heimild: Skagafjordur.is

 

Tvö prósent líkur á stórum skjálfta

Líkurnar á að stór skjálfti ríði yfir í Eyjafjarðarál eru tvö prósent. Þetta kom fram á þokkalega vel sóttum fundi sem haldinn var á Sauðárkróki í kvöld. Þar fluttu meðal annars erindi fulltrúar frá almannavarnanefnd Skagafjarðar, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingu.

Á fundinum var fjallað um jarðskjálftana síðastliðin mánuð, áhrif þeirra og þróun auk þess sem farið var yfir vinnu við viðbragðsáætlun í umdæminu. Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði, sagði fundinn hafa verið afar gagnlegan og fræðandi. Meðal annars hafi verið farið yfir hvað orsaki jarðskjálfta, hvers vegna íbúar í sveitarfélaginu finni fyrir þeim og hvers vegna lýst var yfir óvissustigi.

Þá var komið inn á fregnir af því að stór skjálfti geti riðið yfir á svæðinu. Ásta segir að fram hafi komi á fundinum að það væru 2% líkur á slíkum skjálfta, og einnig að virknin sé að minnka og færast austur.

Næstu skref á svæðinu eru þau að almannavarnadeild Skagafjarðar er að vinna áhættumat og aðgerðaráætlun vegna jarðskjálfta ásamt sveitarfélögunum þremur. Þá hafi farið fram stórslysaæfing í lok október.

Heimild: mbl.is

Alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa 18. nóvember um land allt

Ætlunin er að boða til minningarathafnar við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11 sunnudaginn 18. nóvember 2012 þar sem minnst verður fórnarlamba umferðarslysa og jafnframt heiðraðar þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu. Frá árinu 1993 hefur þriðji sunnudagur í nóvember verið tileinkaður minningu fórnarlamba umferðarslysa. Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða annast undirbúning þessa verkefnis.

Við teljum mikilvægt að allir landsmenn taki þátt í þessu hvort sem menn eiga heimagengt til þessarar athafnar við Landspítalann eða ekki. Með þessu erindi er farið þess á leit við ykkur að vakin sé athygli á þessu innan sveitarfélagsins þannig að þeir sem vilja geti tekið þátt í athöfninni með táknrænum hætti eða boðað til einhverrar samverustundar að þessu tilefni.

Þess skal getið að við Landspítalann koma m.a. saman fulltrúar þeirra starfstétta sem kallaðar eru til þegar alvarleg umferðarslys eiga sér stað. Einnig verða viðstaddir forseti Íslands, ráðherrar innanríkismála og/eða velferðarmála ásamt fjölmiðlum auk fleiri gesta.

Klukkan 11:15 verður boðað til einnar mínútu þagnar til minningar um fórnarlömb umferðarslysa. Með almennri kynningu, dagana á undan, verður reynt að fá sem flesta landsmenn til að taka þátt í þögninni.

Ríkistjórnin bætir tjón bænda vegna óveðurs

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 120 milljónir úr ríkissjóði til að koma til móts við tjón vegna óveðursins fyrir norðan í byrjun september. 224 jarðir urðu fyrir tjóni og þúsundir fjár drapst. Þetta kemur frá á rúv.is.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu Rúv að tjón væri metið á um 140 milljónir og nú væri komið í ljós að bjargráðasjóður væri ekki aflögufær um það. Það hafi því verið samþykkt samhljóða í ríkisstjórn að veita áðurnefndar upphæð úr ríkissjóði.

Heimild: rúv.is

Æfingabúðir í Tindastóli

Skíðasvæðið í Tindastól verður opnað um miðjan nóvember með Æfingabúðum í Tindastól í samstarfi við Björgvin Björgvinsson og Elan.

16. – 18. nóvember n.k. verða æfingabúðir í Tindastóli ætlaðar krökkum 10 – 15 ára. Þátttökugjald er 15.000 kr á mann (lyftukort innifalið).  Skráning hjá: sbr@simnet.is (Skráningarfrestur til kl. 20:00 mánudaginn 12. nóvember)

ATH. þeir sem kaupa árskort fyrir 1. desember fá 10% afslátt.

 

Dagskrá:

Föstudagur:                   Mæting við Skagfirðingabúð kl. 15:00 og þaðan verður ekið upp á    skíðasvæði
Æfing til kl. 19:00 (Boðið upp á hressingu um miðjan daginn).

Laugardagur:                  Mæting við Skagfirðingabúð kl. 09:00 og þaðan verður ekið upp á skíðasvæði
Æfing til kl. 16:00 (Boðið upp  hádegismat og miðdegishressingu í fjallinu)
Kl. 16:00 verður haldið í óvissuferð. Kvöldmatur og kvöldvaka…

Sunnudagur :                  Mæting við Skagfirðingabúð kl. 09:00 og þaðan verður ekið upp á skíðasvæði
Æfing til kl. 14:00 (Boðið upp  hádegismat).