All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Hestamótið Mývatn Open 2012

Hið vinsæla hestamót Mývatn Open eða Hestar á ís verður haldið helgina 9. og 10. mars. Hestamannafélgið Þjálfi býður í reiðtúr út á frosið Mývatn á föstudeginum og er öllum hjartanlega velkomið að taka þátt í því að kostnaðarlausu.

Sel-Hótel Mývatn býður knöpum upp á samlokur og heitt kakó út í eyju.
Síðan hefst mótshaldið á laugardeginum sem endar með hestamannahófi á Sel – Hótel Mývatni um kvöldið.

Hesthúsapláss hefur ekki verið vandamál hingað til og mun Marinó (s. 8960593) aðstoða ykkur við að hýsa hestana.

Laugardagur 10. mars

Kl. 10:30          Tölt B   Ekkert aldurstakmark
Kl. 13:00          Tölt A
Stóðhestakeppni
Skeið
Verðlaunaafhending yfir kaffihlaðborði í Selinu
Kl. 19:30          Húsið opnar fyrir stemmingu kvöldsins,
Videosýning frá afrekum dagsins á breiðtjaldi
Kl. 20:30          Hestamannahóf hefst  – öllum opið.
Kl. 23:30          Kráarstemning og lifandi tónlist fram á nótt

Stóðhestakeppni- þar sem að alhliða og klárhestar etja kappi saman. Riðnar verða þrjár ferðir fram og til baka(samtals 6.ferðir) Fyrsta ferð hægt tölt og milliferðartölt til baka. Önnur ferð brokk og yfirferð til baka og má þá knapi velja milli skeiðs og tölts. Þriðja ferðin er svo frjáls báðar leiðir , þar sem knapinn má sýna allt það besta sem hesturinn hefur uppá að bjóða.

Skráningar hefjast Sunnudagskvöldið 4. mars og standa til miðvikudagskvölds 7.mars á netfanginu birnaholmgeirs@hotmail.com

Upplýsingar um nafn, föður, móður, lit, aldur, eiganda og knapa þurfa að koma fram (frekari uppl.um mótið og ráslisti verður á heimasíðu Þjálfa sem er www.123.is/thjalfi).

Skráningargjald er kr. 3.500,- og er borgað á staðnum í síðasta lagi klukkutíma áður en keppni hefst.
Vegleg verðlaun í boði (nánari uppl. verða á www.123.is/thjalfi)
Sel-Hótel Mývatn býður upp á gistitilboð
kr. 6.450,- á mann í tveggja manna herbergi og aukanótt  3.900,- á mann með morgunmat.  Kr. 9.900,- í eins manns herbergi.  Morgunmatur innifalinn.

Þriggja rétta glæsilegur kvöldverður og hestamannahóf á laugardagskvöldinu verð kr. 7.500,- á mann.

Bókanir í s. 464 4164 eða myvatn@myvatn.is
Hestamannafélagið Þjálfi og Sel-Hótel Mývatn.

 

Ólafur Ragnar gefur kost á sér áfram

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ætlar að bjóða sig aftur fram til forseta. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var frá skrifstofu forseta fyrir stundu. Ólafur segist með þessu bregðast við þeim áskorunum og óskum almennings um það að hann bjóði sig fram að nýju. Þetta er fimmta kjörtímabil Ólafs en hann hefur nú verið forseti síðan 1996, eða í sextán ár.

Í yfirlýsingunni segir Ólafur Ragnar:

Að undanförnu hefur birst í áskorunum, könnunum, viðræðum og erindum ríkur vilji til þess að ég breyti þeirri ákvörðun sem ég tilkynnti í nýársávarpinu.
Í rökstuðningi er vísað til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands. Þá er einnig áréttað mikilvægi þess að standa vörð um málstað þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Í ljósi alls þessa og í kjölfar samráðs okkar hjóna og fjölskyldunnar hef ég ákveðið að verða við þessum óskum og gefa kost á því að gegna áfram embætti forseta Íslands sé það vilji kjósenda í landinu.
Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.

Bessastöðum 4. mars 2012
Ólafur Ragnar Grímsson

Byggðastofnun auglýsir laust starf

Byggðastofnun óskar eftir að ráða verkefnisstjóra til að starfa með stýrineti ráðuneyta að gerð og útfærslu sóknaráætlana landshluta.

Verkefnisstjórinn er ráðinn til Byggðastofnunar en verður staðsettur í Arnarhvoli í Reykjavík og hefur jafnframt vinnuaðstöðu hjá Byggðastofnun á Sauðárkróki. Starfið krefst umtalverðra ferðalaga um landið. Verkefnisstjórinn verður tengiliður milli ráðuneyta, landshlutasamtaka sveitarfélaga, Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Um er að ræða fullt starf til eins árs.

Sóknaráætlanir landshluta eru eitt verkefni innan Ísland 2020 sem er stefnumörkun og framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag. Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs 2011 en í þeim áfanga var opnað fyrir ákveðinn samskiptaás milli Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga sem áframhaldandi vinna mun að byggja á.

Sóknaráætlunum landshluta er ætlað skerpa og skýra samskiptaferlið milli ríkis og sveitarfélaga. Með slíkum samskiptaási ættu sveitarfélög landsins í gegnum landshlutasamtökin að hafa aukin áhrif á úthlutun almannafjár og þannig haft áhrif á forgangsröðun opinberra verkefna í eigin landshlutum hvort sem þau snúa að fjárfestingum eða rekstri.

Menntunar og hæfniskröfur: Gerð er krafa um háskólapróf sem nýtist í starfi. Reynsla af störfum innan stjórnsýslu er æskileg. Gerð er krafa um reynslu af verkefnastjórnun, stefnumótun og áætlanagerð. Þekking á byggðamálum og reynsla af samskiptum við sveitarfélög er mjög æskileg.

Starfið krefst: Greiningarhæfileika og eiginleika til að hafa góða yfirsýn. Sjálfstæðis í vinnubrögðum, skipulagshæfni og markvissra vinnubragða. Frumkvæði, áhuga og metnaðar í starfi ásamt hæfni til að starfa sjálfstætt sem og með hópi. Jákvæðs viðmóts og lipurðar í mannlegum samskiptum. Hæfni í framsetningu upplýsinga og góðrar tölvukunnáttu. Færni í að tjá sig í ræðu og riti.

Laun samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Starfið hentar jafnt konum sem körlum.

Starfsmaður þarf að geta hafið störf 1. apríl 2012.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar í síma 455 5400.

Umsóknir skulu sendar til Byggðastofnunar, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki, eða á netfangið byggdastofnun@byggdastofnun.is fyrir 17. mars.

Aðstaða fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli

Félags- og tómstundarnefnd Skagafjarðar þakkar þann dugnað og sjálfboðaliðsstarf íþróttahreyfingarinnar, sem hér felst í því að byggja og kosta aðstöðu fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli.

Áður hefur frjálsíþróttadeild Tindastóls byggt tímatökuskýli á vellinum og knattspyrnudeild Tindastóls áhorfendastúku í sjálfboðamennsku. Viðhald þeirra mannvirkja hefur ekki verið íþyngjandi fyrir sveitarsjóð. Starf sjálfboðaliða innan vébanda ungmenna-og íþróttahreyfingarinnar í Skagafirði verður seint fullþakkað.

Söngkeppni Samfés sýnd á tjaldi í Húsi frítímans

Söngkeppni Samfés fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 3. mars kl. 13, en flytja krakkar úr félagsmiðstöðvum vítt og breytt af landinu 30 atriði sem valin hafa verið í undankeppnum um land allt.  Á síðasta ári hlaut atriði Félagsmiðstöðvarinnar Friðar í Skagafirði sérstaka viðurkenningu sem faglegasta atriði, en þá söng Sigvaldi Gunnarsson og lét á gítar ásamt fríðum flokki bakraddasöngkvenna.  Nú munu tvær af þessum bakraddasöngkonum halda uppi heiðri Friðar í keppninni, en það eru þær Bergrún Sóla sem syngur, Sunna Líf sem leikur á píanó og með þeim verður Daníel Logi sem leikur á gítar.  Þau munu flytja lagið Ó elskan mín sem er úr smiðju Guns N Roses, en með íslenskum texta Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar.

Hús frítímans á Sauðárkróki opnar af þessu tilefni kl. 13 á laugardaginn þar sem söngkeppnin verður sýnd á stóru tjaldi og eru sem flestir hvattir til að mæta og fylgjast með sínu fólki.

Beint flug frá Akureyri í sumar

Iceland Express býður í sumar upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Félagið hafði áður tilkynnt að ekki yrði af fluginu en hefur nú skipt um skoðun vegna þrýstings frá heimamönnum.

Síðastliðin sex sumur hefur Iceland Express boðið upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar en í lok síðasta árs tilkynnti félagið að því yrði hætt. Nú hefur flugfélagið hinsvegar ákveðið að hætta við fyrri ákvörðun sína og fljúga vikulega til Kaupmannahafnar frá Akureyri allan júlí og fram í miðjan ágúst. Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að mikill þrýstingur hafi verið frá heimamönnum að halda fluginu enda vinsælt að geta flogið beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar. „Þannig að við einfaldlega létum undan þeim mikla þrýstingi sem við urðum fyrir,” segir Heimir.

Tímabilið sem flogið verður á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar er styttra en undanfarin sumur en á móti kemur að flugfélagið mun enda sumarið á því að fljúga nokkrum sinnum beint til Kaupmannahafnar frá Egilsstöðum. Heimir segir að eftir að fluginu ljúki frá Akureyri muni félagið fljúga frá miðjum ágúst, kannski eitthvað inn í september, nokkrar beinar flugferðir frá Egilsstöðum til Kaupmannahafnar.

Rúv.is greinir frá.

Tindastóll vann Hauka í körfunni

Í Iceland Express-deild karla í kvöld vann Tindastóll lið Hauka úr Hafnarfirði í háspennuslag á Sauðárkróki.

Hér að neðan má sjá úrslit og stigaskor úr leik kvöldsins.

Tindastóll-Haukar 68-64 (22-21, 16-16, 14-15, 16-12)

Tindastóll: Helgi Rafn Viggósson 19/12 fráköst, Maurice Miller 13/8 fráköst/7 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 11, Igor Tratnik 8/10 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 8, Hreinn Gunnar Birgisson 5/5 fráköst, Curtis Allen 4/7 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 0, Friðrik Hreinsson 0, Páll Bárðason 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0.

Haukar: Christopher Smith 20/11 fráköst/5 varin skot, Helgi Björn Einarsson 11, Haukur Óskarsson 9, Alik Joseph-Pauline 9/8 fráköst, Örn Sigurðarson 8/4 fráköst, Emil Barja 3/5 fráköst, Steinar Aronsson 2, Davíð Páll Hermannsson 2, Alex Óli Ívarsson 0, Andri Freysson 0.

Konukvöld til styrktar Körfuknattleiksdeild Tindastóls

Konukvöld verður haldið á Mælifelli föstudagskvöldið 16. mars kl. 20:30. Kvöldið er til styrktar körfuknattleiksdeild Tindastóls.

Í ár mun Siggi Hlö halda uppi stuðinu og verður t.d. með bingó þar sem vinningarnir verða í anda þess sem þeir voru í fyrra eins og t.d. skartgripir, m.a. frá Sign, snyrtidót, út að borða, klipping og litun, vörur frá Bláa lóninu og fleira.

Strákarnir í körfunni verða á svæðinu til að sinna gestum og verða þeir látnir sprella eitthvað fyrir gestina. Þetta verður frábært kvöld með allskyns uppákomum og eru allar konur hvattar til að mæta og taka þátt í gleðinni.

Konukvöldið verður haldið á Mælifelli eins og í fyrra. Húsið opnar kl. 20.30 og aðgangseyrir 2.500 krónur. Innifalið í aðgangseyri er bingóspjald, fordrykkur og ball.

Þeir sem vilja mæta bara á ballið þá kostar 1.500 krónur inn.

Skagfirðingar stóðu sig vel á meistaramóti Íslands í Frjálsum

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, fyrir 11-14 ára, fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík um sl. helgi. Mótið var vel sótt, um 360 keppendur voru frá 19 félögum og samböndum. Flestir keppendur komu frá ÍR eða 61, FH sendi 44, HSK/Selfoss 36, Breiðablik 31, UMSE 28 og frá UMSS og Fjölni voru 23 keppendur.

 Skagfirðingarnir stóðu sig mjög vel á mótinu, urðu í 5. sæti af 19 liðum í samanlagðri stigakeppni og unnu 1 gull, 3 silfur og 5 bronsverðlaun. Keppendur UMSS sem unnu til verðlauna voru: Fríða Isabel Friðriksdóttir (14) varð Íslandsmeistari í hástökki (1,58m). Hún varð einnig í 2. sæti í 60m grindahlaupi og langstökki, og 3. sæti í 60m hlaupi. Berglind Gunnarsdóttir (11) varð í 2. sæti í kúluvarpi. Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir (14) varð í 3. sæti í hástökki. Gunnar Freyr Þórarinsson (13) varð í 3. sæti í kúluvarpi. Sæþór Már Hinriksson (12) varð í 3. sæti í langstökki. Stúlknasveit UMSS (14) varð í 3 sæti í 4x200m boðhlaupi. Í sveitinni voru Þórdís Inga Pálsdóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir og Fríða Isabel Friðriksdóttir.

Úrslit í samanlagðri stigakeppni mótsins: 1. FH 432 stig, 2. ÍR 422, 3. HSK/Selfoss 336,8 stig, 4. Breiðablik 278,5 stig, 5. UMSS 192,5 stig, 6. Fjölnir 169,5 stig.

Uppeldistmiðstöð opnar á Akureyri

Uppeldismiðstöð sem veita mun alhliða ráðgjöf um barnauppeldi verður fljótlega opnuð á Akureyri. Þar geta foreldrar fengið lausn á vandamálum er tengjast uppeldi barna sinna í gegnum símalínu – og jafnvel fengið aðstoð heim í stofu.

Fjölskyldulínan er nýtt fyrirtæki á Akureyri sem veita mun foreldrum aðstoð í uppeldishlutverkinu. Að sögn Soffíu Gísladóttur, uppeldis- og menntunarfræðings, mun fyrirtækið veita aðstoð í stóru sem smáu, til að mynda með námskeiðahaldi og með rekstri símalínu og gagnvirkrar heimasíðu.

Soffía segir að foreldrar geti leitað til Fjölskyldulínunnar af minnsta tilefni en miðstöðin er hugsuð sem bakland fyrir foreldra í uppeldinu. Áætlað er að Fjölskyldulínan verði opnuð á sumardaginn fyrsta en fyrirtækið var eitt af fjölmörgum verkefnum sem kynnt voru á nýliðinni atvinnu-og nýsköpunarhelgi á Akureyri.

Heimild: Rúv.is

180 slóvenskir ferðamenn á Norðurlandi í sumar

Hinn 26. júní nk. lendir Airbus 320 þota á Akureyrarflugvelli með allt að 180 ferðamenn frá Slóveníu á vegum Ferðaskrifstofunnar Nonna. Fólkið mun leggja leið sína um Norðurland og önnur landsvæði næstu 7 dagana áður en það snýr aftur til síns heima 3. júlí. Samstarfsaðilar í Slóveníu eru Adria Airways og ferðaskrifstofur sem hafa selt ferðir til Íslands í mörg ár. Það hefur kostað mikla fyrirhöfn að telja hina erlendu samstrafsaðila á að fljúga til Akureyrar því Reykjavík og Keflavíkurflugvöllur eru flestum efst í huga.

Ferðaskrifstofan Nonni var stofnuð árið 1989 með það að markmiði að taka á móti erlendum ferðamönnum á Akureyri og greiða leið þeirra um Norðurland sérstaklega. Þetta hefur tekist bærilega og er skrifstofan sem betur fer ekki lengur ein, heldur eru fjölmargir aðilar hér á svæðinu sem allir leggjast á eitt. Í fyrra var ferðaskrifstofan einnig með beint flug frá Slóveníu og eru þessi flug liður í þeirri viðleitni að fá sem flesta ferðamenn beint til Akureyrar. Fyrir ári síðan voru 20 ár liðin síðan Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða sjálfstæði Slóveníu og gróðursettu þá hver og einn hinna erlendu gesta eitt tré í sérstakanlundí Kjarnaskógi við Akureyri. Nú er ætlunin að endurtaka þetta og stækka lundinn.

Viðunandi nýting á flugvélunum byggist á því að Íslendingar nýti flugið einnig. Ferðaskrifstofan hefur því sett saman áhugaverð ferðatilboð fyrir Íslendinga sem býðst að fljúga beint til og frá Slóveníu sömu daga. Hefur eftirspurn verið mjög góð og nær hún til allra landshluta. Einn af kostum Akureyrarflugvallar er hversu stuttan tíma það tekur að innrita sig og fara í gegnum vopnaleit. Lítil fríhöfn er á vellinum og allur aðbúnaður með ágætum.

Vetrarleikarnir í Tindastóli

Á laugardaginn s.l.  hófust Vetrarleikar í Tindastól þar sem ýmislegt var í boði fyrir skíðaiðkendur. Margir mættu með skíði, bretti, þotur og fleira til að skemmta sér og sínum og tókst ágætlega. Vegna bilunar í skíðalyftu og óhagstæðs veðurs á sunnudeginum var dagskrá þann daginn frestað til sunnudagsins 4. mars.

Myndband frá Feykir.is og Youtube.com

Knattspyrnuakademía Norðurlands með knattspyrnuskóla á Akureyri

Knattspyrnuakademía Norðurlands stendur fyrir knattspyrnuskóla í Boganum á Akureyri í lok þessa mánaðar og í mars og apríl. Um er að ræða tveggja vikna námskeið fyrir hressa fótboltakrakka sem hafa metnað og áhuga á að ná langt í íþróttinni. Á hverju námskeiði fyrir sig verður lögð áhersla á að styrkja alla helstu grunnþætti knattspyrnunar. Hver þjálfari mun stýra hópi með 10 börnum.

Æfingartímar:
Mánudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Þriðudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Miðvikudagur: 18:30-20:00, bókleg fræðsla,
Fimmtudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Föstudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.

Námskeið eitt er dagana 27.02.2012. til 09.03.2012. fyrir stráka og stelpur í 4. flokki.
Námskeið tvö er daganna 19.03.2102 til 29.03.2012 fyrir stráka og stelpur í 5. flokki.
Námskeið þrjú er daganna 16.04.2012 til 27.04.2012 fyrir stráka og stelpur í 3. flokki.

Einungis eru 30 sæti í boði á hverju námskeiði fyrir sig
Verð á námskeiði er 7.500 kr. og er morgunmatur innifalin.

Þjálfarar á námskeiðinu eru eftirfarandi:
•    Þórólfur Sveinsson, 12 ára reynsla af þjálfun barna og unglinga – UEFA B
•    Sandor Matus, Markvörður meistarflokks KA og þjálfari yngri flokka – UEFA B
•    Magnús Eggertsson, Íþróttafræðingur með mikla reynslu af yngriflokkaþjálfun.
•    Ásamt gestaþjálfurum og gestafyrirlesurum.

Upplýsingar og skráning á námskeiðin fer fram á academia.nordurlands@gmail.com

Nánari upplýsingar veita:
Ólafur Örn Torfason, 867 7034
Eiður Arnar Pálmason, 896 6782
Þórólfur Sveinsson, 891 9081

Víkingar áttu ekki í erfiðleikum með Tindastól

Víkingar og Tindastóll áttust við í dag í Lengjubikarnum í knattspyrnu karla. Víkingar gerðu út um leikinn á nokkrum mínútum með þremur mörkum. Eftir 15 mínútna leik var staðan orðin 3-0 fyrir Víkinga. Fyrsta markið gerði Patrik Snær á 11 mínútu, annað markaði kom svo á 14. mínútu og var það  Viktor Jónsson sem átti það mark. Mínútu seinna eða á 15. mínútu var það markahrókurinn mikli Hjörtur Hjartarson sem gerði út um leikinn og bætti við þriðja markinu.

Víkingar gerðu fjórar skiptingar í síðari hálfleik og gátu leyft sér að hvíla menn eins og Helga Sigurðsson og Reyni Leósson. Tindastólsmenn gerðu eina skiptingu en Hilmar Þór kom inná fyrir Pálma Þór á 76 mínútu.  Lokamarkið kom í blálokin og var það varamaðurinn Þórður Rúnar sem skoraði markið á 92. mínútu.

Víkingar eru þar með komnir á topp riðilsins með fullt hús stiga eftir tvo sigurleiki gegn Keflavík og Tindastól í dag. Tindastóll er stigalaust á botninum eftir tvo leiki.

1-0 Patrik Snær Atlason 11. mín
2-0 Viktor Jónsson  14. mín.
3-0 Hjörtur Hjartarson 15. mín
4-0 Þórður Rúnar Friðjónsson 92. mín.

Leikskýrslan frá KSÍ er hér.

Árshátíð Léttfeta

Árshátíð hestamannafélagsins Léttfeta verður föstudagskvöldið 2. mars nk. þar sem boðið verður upp á enn eina magnaða skemmtun.
Maturinn sem verður sem fyrr eldaður af félagsmönnum og rennur allur afrakstur til kaupa á eldhústækjum í Tjarnarbæ.
Dulmögnuð skemmtiatriði verða á dagskrá og í veislustjórn var narraður Guðmundur Sveinsson. Geiri og Jói munu svo halda fólkinu í skagfirskri sveiflu fram á nótt.
Einungis 100 miðar eru í boði og stendur forsalan fram til kl. 20:00 þriðjudagskvöld 28. feb hjá Steinunni í síma 865-0945 og Camillu í síma 869-6056.

Miðaverð er hlægilega lágt eða aðeins kr. 4000.
Húsið opnar kl. 19:30 og dagskrá hefst stundvíslega kl. 20:00.

DJ kvöld á Mælifelli

Mælifell í kvöld

FM957 plötusnúðarnir HEIÐAR AUSTMANN og RIKKI G taka höndum sama á Króknum í fyrsta skipti. Drengirnir hafa túrað um landið og næsta stopp er Mælifell. Búast má við flugeldasýningu. Ekki missa af einum stærsta DJ viðburðinum á Mælifelli.

Þá kemur Sálin hans Jóns míns á Mælifell laugardaginn 10. mars og spilar fram eftir nóttu.

Uppskeruhátíð sunddeildar Tindastóls

Uppskeruhátíð Sunddeildar Tindastóls verður haldin miðvikudaginn 29. febrúar klukkan 17:30 á Mælifelli.
Á uppskeruhátíðinni verða veitt ýmis verðlaun fyrir árangur á árinu 2011 m.a. titillinn sundmaður ársins. Öllum iðkendum verður afhent gjöf frá deildinni.
Veittar verða veitingar s.s. pizzur og gos.
Í lok uppskeruhátíðarinnar verður haldinn aðalfundur Sunddeildarinnar fyrir árið 2011.
Sundiðkendur og foreldrar eru hvattir til að fjölmenna á Mælifell.

Kaffihúsakvöld ferðastúdenta

KAFFIHÚS

FERÐASTÚDENTAR STANDA FYRIR KAFFIHÚSAKVÖLDI Á SAL FJÖLBRAUTARSKÓLANS (FNV) MIÐVIKUDAGINN 29. FEBRÚAR FRÁ KL. 20-23.
OPIÐ HÚS FYRIR ALLA. KAFFI OG VEITINGASALA TIL STYRKTAR
FERÐASTÚDENTUM.

LIFANDI TÓNLIST Í BOÐI TÓNLISTARKLÚBBSINS.
SPENNANDI KEPPNI ÞAR SEM KENNARAR OG NEMENDUR KEPPA SÍN Á MILLI Í FJÖLBREYTTUM KEPPNISGREINUM.
– ALLIR AÐ MÆTA!

Opið hús á vegum kvenfélags Sauðárkróks

Kvenfélag Sauðárkróks hefur opið hús í Borgartúni 2 (Skátaheimilinu) miðvikudaginn 29. febrúar frá kl. 17:00 til 21:00.
Hugmyndin er að þangað geti komið konur og karlar og fengið hjálp við að setja í rennilása, stytta pils og buxur, fatabreytingar, prjóna sokkahæla og annað í þeim dúr.
Hjálpar þá hver öðrum eftir kunnáttu og getu.

  • Verkfæri á staðnum.
  • Allir velKomnir.
  • Heitt verður á könnunni og hægt að fá kaffi og vöfflur gegn vægu gjaldi.

Skagfirðingar keppa í frjálsum um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, fyrir 11-14 ára, fer fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík helgina 25.-26. febrúar.  Mótið er vel sótt, 360 keppendur eru skráðir frá 19 félögum og samböndum.  Flestir keppendur koma frá ÍR eða 61, FH sendir 44, HSK/Selfoss 35, UMSE 29 og frá UMSS eru 23 keppendur á mótinu.

Keppni á MÍ 11-14 hefst á laugardag kl. 10 og stendur fram undir kl 17.  Á sunnudag hefst keppnin einnig kl. 10, en lýkur um kl. 15.

Tindastóll sigraði Valsara á Hlíðarenda

Tindastóll gerði góða ferð til Reykjavíkur í kvöld og sigraði Valsara á Hlíðarenda. Lokatölur urðu 61-74, en leikhlutarnir fóru þannig : (14-14) (12-15) (17-25) (18-20).

Tindastóll gerði útslagið í 3ja leikhluta og jók forskotið enn frekar en leikurinn var sagður afar illa leikinn og leiðinlegur. Tölfræði leiksins má finna hér.

Sjá nánari lýsingu frá Tindastóli.

Nýr leikmaður til meistaraflokks Tindastóls

Fannar Freyr Gíslason Sigurðssonar hefur spilað með ÍA undanfarin ár, en snýr nú aftur til Tindastóls á lánssamningi.

Fannar er fæddur árið 1991 og byrjaði að spila með meistaraflokki Tindastóls árið 2006, en það ár spilaði hann einn bikarleik.
Fannar spilaði síðan 12 leiki og skoraði 4 mörk árið 2008
2009 spilaði hann 14 leiki og skoraði 1 mark fyrir liðið.
Árið 2010 skipti hann síðan yfir í ÍA og spilaði einn leik það ár, á síðasta tímabili spilaði hann 12 leiki og skoraði 2 mörk fyrir Skagamenn, en var síðan lánaður í HK og spilaði þar 10 leiki og skoraði í þeim 2 mörk.

Nánar umferil hans má skoða á vef KSÍ hér.

Söfnun á rúlluplasti í Húnavatnshreppi

Þriðjudaginn 28. febrúar nk fer fram söfnun á rúlluplasti í Húnavatnshreppi.

Þeir aðilar sem ætla að koma rúlluplasti á söfnunaraðila verða að gæta þess að plastið sé tilbúið til flutnings og hæft til endurvinnslu. Plastið verður að vera þokkalega hreint og í því mega ekki vera aðskotahlutir s.s. net eða heyafgangar.

Þeir sem vilja nýta sér þessa þjónustu vinsamlega tilkynni það til skrifstofu Húnavatnshrepps í síma 452-4660 / 452-4661 eða á netföngin hunavatnshreppur@emax.is eða jens@emax.is fyrir þriðjudaginn 28. febrúar.

Óskað eftir umsjónaraðila fyrir ferðaþjónustu

Áfangi, gistiheimili við Kjalveg

Húnavatnshreppur óskar eftir að ráða umsjónaraðila með ferðaþjónustu í Áfangaskála sumarið 2012. Um er að ræða tímabilið frá 20. júní  til 20. ágúst.

  • Svefnpláss er fyrir 32 í 8 herbergjum. Matsalur fyrir 40 manns, setustofa og heitur pottur.
  • Góð aðstaða er fyrir hesta, hesthús og tvö afgirt hólf.
  • Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Húnavatnshrepps og í síma 452 4661.

Umsóknum skal skilað á skrifstofu Húnavatnshrepps á Húnavöllum, eða á netfangið jens@emax.is

Umsóknarfrestur er til 14. mars 2012.

Bjarki Már verður ekki með Tindastóli næsta sumar

Bjarki Már Árnason hefur skipt yfir í lið KF, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Bjarki hefur verið lykilmaður hjá Tindastóli undanfarin ár en hann var í liði ársins í annarri deildinni síðastliðið sumar sem og árið 2009. Einnig þjálfaði hann kvennalið Tindastóls árin 2010-2011. Hann er fæddur árið 1978 og hefur leikið 167 leiki fyrir meistaraflokk og skorað 21 mark. Hann hefur meðal annars leikið í Noregi og fyrir Keflavík.

Þessi 33 ára gamli varnarjaxl hefur ákveðið að breyta til og æfði meðal annars með Magna Grenivík og lék fyrir þá á Norðurlandsmótinu nú fyrir skömmu.

Tindastóll hefur misst fjóra reynda leikmenn frá síðustu leiktíð. Dejan Miljokovic er genginn í raðir Fjarðabyggðar, ekki verður samið aftur við Milan Markovic og Gísli Eyland hefur lagt hanskana á hilluna.

KF hafnaði í sjötta sæti 2. deildarinnar í fyrra en Tindastóll vann deildina og spilar í 1. deild í sumar.

Sjá einnig frétt frá Tindastóli hér.

Myndband frá leik ÍA og Tindastóls

Tindastóll mætti uppá Skipasaga og mætti Skagamönnum. Leikurinn endaði 4-1. Fannar Örn Kolbeinsson skoraði fyrir Tindastól, en Andri Adolphsson, Mark Doninger skoruðu sitt markið hvor og Egger Kári Karlsson skorði tvö mörk fyrir ÍA. Næsti leikur Tindastóls er gegn Víkingi n.k. laugardag kl. 17 í Egilshöll.

Leiklýsing frá Tindastól

Tindastóll spilaði sinn fyrsta leik í A-riðli lengjubikarsins á þessu ári. Mótherjarnir voru Íslandsmeistaraefni Skagamanna uppá Akranesi.

Leikurinn var flautaður á kl:12:00 á laugardaginn. Leikurinn var spilaður inn í Akraneshöllinni í nýstingskulda. Mikið frost var inni í höllinni og þeir sem stóðu fyrir utan völl áttu í mestu erfiðleikum með að halda á sér hita.

Tindastólsmenn vissu ekki hvað á sig stóð veðrið fyrsta korterið, en Skagamenn byrjuðu af gríðarlegum krafti og skoruðu mark strax eftir 2.mín. Markið kemur eftir hornspyrnu þar sem boltinn er ílla misreiknaður og leikmaður ÍA setur boltann yfir línuna af stuttu færi.
Áfram halda þungar sóknir Skagamanna og okkar menn höfðu mjög lítinn tíma á boltanum. Annað markið kemur eftir að hornspyrna er hreinsuð í burtu en Skagamenn ná, bolta nr.2 og senda háan bolta fyrir þar sem Skagamaður hoppar hæst og skallar boltann í markið.

Tindastólsmenn fóru síðan fljótlega að vinna sig inn í leikinn og fóru að halda boltanum betur. Árni Einar átti tvö góð langskot að marki Skagamanna og uppúr einu slíku fengum við horn þar sem Fannar Örn Kolbeinsson skoraði flott skallamark. Staðan orðin 2-1 og við vel inní leiknum.

Sóknir Skagamanna voru hættulegar í leiknum þó þeir hafi ekki átt mörk skot á markið. En þeir bæta síðan þriðja markinu við rétt fyrir hálfleik. Þar er enn ein fyrirgjöfin og Mark Doninger leikmaður ÍA stekkur hæst og skallar hann í markið.

Í seinni hálfleik höldum við boltanum vel innan liðsins og þær sóknir sem við fáum, útfærum við mjög vel en oft á tíðum vorum við að komast upp að endalínu en það vantaði fleiri menn inní boxið.
Skagamenn skora síðan fjórða mark sitt eftir að varnarmenn okkar voru ílla leiknir og Andri Adolphsson skorar í autt markið.

Lokatölur í leiknum voru 4-1 og leikmenn Tindastóls fundu fyrir því að vera að spila gegn liði sem er komið upp í Pepsí deildina. Hinsvegar var þetta fínn leikur að mörgu leiti hjá Tindastólsmönnum. Byrjunin var það sem fór með leikinn. Tvö mörk á fyrstu sjö mínutunum slógu okkar menn svoldið útaf laginu. Hinsvegar sýndum við mikinn karkakter að koma til baka og minnka muninn. Flott spila oft á tíðum var í leik okkar manna og gaman að sjá að liðið vill spila fótbolta.

Fleiri krefjandi verkefni fyrir okkar stráka eru á næstu vikum en liðið hefur engu að kvíða því Tindastólsliðið er mjög vel spilandi og vísir til alls.

Heimild: Tindastóll.is

Tindastóll næstum því bikarmeistarar

Skemmtileg grein frá vef Tindastóls.

Tindastóll tapaði með tveimur stigum í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík eins og væntanlega allir vita enda var ekki Skagfirðingur í heiminum sem var ekki á leiknum eða fylgdist með honum með einhverjum hætti. Þrátt fyrir tapið þá stóðu strákarnir sig með sóma og vöktu athygli langt út fyrir landssteinana fyrir eljusemi og baráttu.

Í stuttu máli spilaðist leikurinn þannig að Keflavík átti þrusugóðan fyrsta leikhluta, enduðu nánast hverju einustu sókn með stigi og náðu góðri 10 stiga forystu eftir að hafa náð að setja 29 stig í leiklutanum. Tindastólsmenn eltu allan leikinn og náðu stundum að minnka forskotið niður fyrir 10 stigin en þá fylgdi alltaf þristur eða þristar frá Keflvíkingum þannig að forskotið hélst í 10 stiginum nánast allan leikinn.

Í lokin reyndu Stólarnir allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og náðu muninum mest niður í 3 stig þegar 14 sekúndur voru eftir en það var of lítið eftir að klukkunni og Keflvíkingar enduðu sem sigurvegarar þrátt fyrir ævintýralega lokakörfu frá Þresti í lokin. Líklega ekkert alltof ósanngjarnt þar sem Keflvíkingar spiluðu ansi vel en mikið ofboðslega vorum við nálægt.

Ef sniðskotið hans Mo hefði dottið ofan í í næst síðustu sókninni, tvo eða þrjú þriggja stiga skot sem duttu ekki niður á síðustu mínútunum, Keflvíkingar hefðu ekki fengið stig á töfluna fyrir að klúðra troðslu eða hreinlega bara öll vítin sem Keflvíkingar settu niður. Keflvíkingar klúðruðu bara tveimur vítum allan leikinn sem segir kannski mikið um hversu vel þeir voru stemmdir í þessum leik.

En frábær skemmtun, mikil forréttindi að fá að taka þátt í bikarúrslitaleik og einhverstaðar heyrði ég að íþróttafréttamennirnir sem voru að lýsa leiknum hefðu aldrei orðið vitni að annari eins stemningu á bikarúrslitaleik enda var höllin troðfull og stuðningsmenn Tindastóls áttu stúkuna. Þarf ekkert að deila um það.

En allt í allt, allir leikmenn og stuðningsmenn eiga að ganga stoltir af þessum leik og vonandi mætum við aftur þarna að ári og klárum þetta dæmi.

Heimild: Tindastóll.is