All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Ljósmyndasýning á Minjasafni Akureyrar

Áttu laust veggpláss? Viltu eignast fallega ljósmynd eða gefa öðruvísi gjöf?
Ef svo er þá skaltu ekki láta ljósmyndasölu Minjasafnsins á Akureyri helgina 24. og 25. nóvember kl. 14-16 fram hjá þér fara!
Í fyrsta skipti í 50 ára sögu Minjasafnsins er heil ljósmyndasýning til sölu. Hér er um að ræða ljósmyndasýninguna MANSTU – Akureyri í myndum sem sett var upp í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Sýninguna prýða ljósmyndir frá ýmsum tímum eftir ólíka ljósmyndara.

Þetta er skemmtilegt tækifæri fyrir unga sem aldna Akureyringa, brottflutta, aðflutta og vini Akureyrar til þess að eignast mynd eða gefa ljósmynd til að prýða veggi heimilisins eða vinnustaðarins. Á sölusýningunni má sjá marga konfektmola fyrir áhugasama um sögu Akureyrar í myndum og fagurkera sem sjá myndir á vegg sem augnkonfekt og gera hús að heimili .

Vilt þú eignast mynd af til dæmis spekingslegum strákpöttum á gúmmískóm í fjörunni á Akureyri um 1960, byggingasmiðum við smíði norðurhluta Torfunesbryggju 1927, Kaupvangstrætinu (Gilinu) uppúr 1960, fjörunni 1850, ráðhústorginu 1922 sem þá var kallað „Sóðavík“ og/ eða smábátahöfninni við Slippinn 1957?? Viltu eignast fyrstu litmyndina af Akureyri sem tekin var 1943 eða myndir úr verksmiðjunum Sjöfn, Flóru og Kjötiðnaðarstöðinni Kea frá 1966 nú eða mynd af Akureyri 1962?

Tindastóll áfram í undanúrslit í körfunni

Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Fyrirtækjabikars karla í körfuknattleik.

Tindastóll hafnaði í efsta sæti C-riðils þrátt fyrir tap gegn Stjörnunni 98-86 í Garðabæ en Stjörnumenn uðru í öðru sæti. Brian Mills og Justin Shouse skoruðu báðir 19 stig fyrir Stjörnuna auk þess sem Mills tók átta fráköst og Shouse 7 fráköst en hjá Tindastól var  George Valentine atkvæðamestur með 25 stig og 11 fráköst.

Gríðarlegur snjór á Sauðárkróki

Almannavarnir afléttu síðdegis í dag hættu- og óvissustigi vegna snjóflóðahættu á  Norðurlandi. Á Sauðárkróki hefur ekki fallið meiri snjór í áratugi og þar voru þrjú íbúðarhús rýmd í gær.

Það er gríðarlegt fannfergi á Sauðárkróki og hefur ekki fallið svo mikill snjór þar í áratugi. Það er því mikil vinna framundan við að moka götur og halda þeim færum. Mikill snjór safnaðist meðal annars um helgina á svokallaðar Nafarbrúnir ofan við byggðina nyrst í bænum og fór svo að snjóhengja féll um tvöleytið í gær á efsta húsið í Kambastíg.

Snjórinn ruddist inn í garð og braut þar tré, en ekki urðu aðrar skemmdir.Hins vegar mun almannavarnarnefnd Skagafjarðar áfram fylgjast vel með snjólögum enda hefur hætta skapast á á fleiri svæðum.

Heimild: rúv.is

Hús rýmd á Sauðárkróki vegna snjóflóða

Þrjú íbúðarhús við Kambastíg á Sauðárkróki voru rýmd síðdegis í dag, sunnudaginn 18. nóvember, eftir að snjóflóð féll fyrir ofan þau og spýja féll að efsta húsinu. Mikil snjóhengja er í Nafarbrúnum fyrir ofan húsin og var því brugðið á það ráð að rýma þau. Fólkið sem þar býr hefur fengið inni hjá vinum og kunningjum.

Mikið hefur snjóað á Sauðárkróki og er meiri snjór í bænum en bæjarbúar eiga að venjast síðustu ár. Rýmingin gildir í það minnsta í nótt en staðan var metin á ný í hádeginu á morgun. Almannavarnanefnd tekur þá ákvörðun um framhaldið.

Ekki er vitað um önnur flóð á Norðurlandi en það sem féll á Sauðárkróki í dag. Þó getur verið að fleiri snjóflóð hafi fallið en fólk ekki orðið vart við það enda er fólk minna á ferli nú en venjulega vegna veðurs. Hætta er þó talin á snjóflóðum í giljum og hlémegin í fjöllum þar sem snjór hefur safnast saman.

Eigendur hesthúsa við Siglufjörð og Ólafsfjörð eru hvattir til að fara varlega enda er talin snjóflóðahætta í aðkomunni að hesthúsunum.

Heimild: Rúv.is

 

16 verðlaun til Skagfirðinga í frjálsum

Frjálsíþróttadeild ÍR hélt sína árlegu Silfurleika ÍR í Laugardalshöllinni í Reykjavík laugardaginn 17. nóvember.  Metþátttaka var á mótinu að þessu sinni, skráðir keppendur voru 666 talsins og í mörgum greinum voru keppendur á bilinu 40-60 talsins.  Skagfirðingar sem kepptu voru 13 og unnu þeir alls til 16 verðlauna.  Jóhann Björn Sigurbjörnsson sigraði í 60m hlaupi í flokki 16-17 ára pilta.  Auk þess unnu Skagfirðingar til 12 silfurverðlauna og 3 bronsverðlauna á mótinu.

Verðlaunahafar UMSS:

 • Jóhann Björn Sigurbjörnsson (16-17):  1. sæti í 60m og 2. sæti í 200m hlaupi.
 • Fríða Ísabel Friðriksdóttir (14):  2. sæti í 60m, 200m, 60m grindahlaupi og þrístökki.
 • Ragna Vigdís Vésteinsdóttir (15):  2. sæti í 60m, 60m grindahlaupi og hástökki.
 • Ari Óskar Víkingsson (11):  2. sæti í 60m hlaupi.
 • Berglind Gunnarsdóttir (11):  2. sæti í kúluvarpi.
 • Sæþór Már Hinriksson (12):  2. sæti í þrístökki.
 • Vala Rún Stefánsdóttir (13):  2. sæti í kúluvarpi.
 • Hrafnhildur Gunnarsdóttir (14):  3. sæti í 60m grindahlaupi og kúluvarpi.
 • Elínborg Margrét Sigfúsdóttir (13):  3. sæti í 600m hlaupi.
 • Aðrir keppendur UMSS stóðu sig líka með sóma og voru framarlega í sínum greinum.

Byrjendanámskeið hjá Skíðadeild Tindastóls

Þann 8. desember mun byrjendanámskeiðið hjá Skíðadeild Tindastóls byrja. Námskeiðið verður fjórir dagar, 8-9 des og 15-16 des. Markmið námskeiðsins er að nemandinn kunni að stoppa sig, taka lyftuna og sleppa og geta rennt sér einn niður með nokkuð góðu valdi á skíðunum. Og nemandinn geti komið og verið með á æfingum í vetur ef áhugi er fyrir hendi.

Námskeiðsgjaldið er 12 þús krónur og innifalið í því er skíðabúnaður fyrir þá sem að þurfa að fá lánað, lyftugjald (verður að kaupa lykilkort) og foreldri getur fengið búnað einn af þessum dögum til prufu endurgjaldslaust (greiðir eingöngu lyftugjald og lykilkort).

ATH að börn 7 ára og yngri fá frítt árskort ef gengið er frá því fyrir jól. Eingöngu þarf að kaupa lykilkortið, sem að fæst endurgreitt (800 kr) að hluta þegar því er skilað.

Stefnt er að því að halda annað námskeið eftir áramót.

Einnig ef áhugi er fyrir byrjenda námskeiði fyrir fullorðna að hafa þá endilega samband og sjáum hvort að við náum í hóp.

Skráning óskast send á snjoa.m@gmail.com fyrir 6. desember. Gefa þarf upp nafn og aldur á barni ásamt símanúmeri til að hafa samband.

 

Hlökkum til að sjá ykkur í brekkunum í vetur

Skíðadeild Tindastóls.

Ályktun um minka- og refaveiði

Atvinnu- og ferðamálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja nauðsynlegt fjármagn til refa- og minkaveiði í fjárlögum fyrir árið 2013 og að heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts að fullu til sveitarfélaga vegna veiðanna.
Á liðnum árum hefur ríkið veitt sífellt minna fjármagni til málaflokksins og er svo komið að engu fjármagni er varið í refaveiði og litlu í minkaveiði.
Er þetta afar bagalegt þar sem ótvíræðar vísbendingar eru um fjölgun dýra í refastofnum og sýna rannsóknir fram á að refastofnar hafa tífaldast á 30 árum. Má í þessu sambandi m.a. benda á að ný greni finnast sífellt nær byggð í Skagafirði en áður hefur verið.
Vegna fjárskaðans sem hlaust af óveðrinu sem gekk yfir í september sl. má leiða líkum að því að refurinn muni í vetur hafa meira fæðuframboð en á liðnum árum og stofnunum vaxi því enn ásmegin. Afleiðingarnar verða frekari fækkun fugla og aukin tíðni dýrbitins sauðfjár.
Atvinnu- og ferðamaálanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur nauðsynlegt að aftur verði teknar upp greiðslur úr ríkissjóði til fækkunar refa þannig að unnt sé að halda refastofnum í hæfilegri stærð og í jafnvægi við annað lífríki náttúrunnar.

Heimild: Skagafjordur.is

 

Tvö prósent líkur á stórum skjálfta

Líkurnar á að stór skjálfti ríði yfir í Eyjafjarðarál eru tvö prósent. Þetta kom fram á þokkalega vel sóttum fundi sem haldinn var á Sauðárkróki í kvöld. Þar fluttu meðal annars erindi fulltrúar frá almannavarnanefnd Skagafjarðar, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingu.

Á fundinum var fjallað um jarðskjálftana síðastliðin mánuð, áhrif þeirra og þróun auk þess sem farið var yfir vinnu við viðbragðsáætlun í umdæminu. Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði, sagði fundinn hafa verið afar gagnlegan og fræðandi. Meðal annars hafi verið farið yfir hvað orsaki jarðskjálfta, hvers vegna íbúar í sveitarfélaginu finni fyrir þeim og hvers vegna lýst var yfir óvissustigi.

Þá var komið inn á fregnir af því að stór skjálfti geti riðið yfir á svæðinu. Ásta segir að fram hafi komi á fundinum að það væru 2% líkur á slíkum skjálfta, og einnig að virknin sé að minnka og færast austur.

Næstu skref á svæðinu eru þau að almannavarnadeild Skagafjarðar er að vinna áhættumat og aðgerðaráætlun vegna jarðskjálfta ásamt sveitarfélögunum þremur. Þá hafi farið fram stórslysaæfing í lok október.

Heimild: mbl.is

Alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa 18. nóvember um land allt

Ætlunin er að boða til minningarathafnar við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11 sunnudaginn 18. nóvember 2012 þar sem minnst verður fórnarlamba umferðarslysa og jafnframt heiðraðar þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu. Frá árinu 1993 hefur þriðji sunnudagur í nóvember verið tileinkaður minningu fórnarlamba umferðarslysa. Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða annast undirbúning þessa verkefnis.

Við teljum mikilvægt að allir landsmenn taki þátt í þessu hvort sem menn eiga heimagengt til þessarar athafnar við Landspítalann eða ekki. Með þessu erindi er farið þess á leit við ykkur að vakin sé athygli á þessu innan sveitarfélagsins þannig að þeir sem vilja geti tekið þátt í athöfninni með táknrænum hætti eða boðað til einhverrar samverustundar að þessu tilefni.

Þess skal getið að við Landspítalann koma m.a. saman fulltrúar þeirra starfstétta sem kallaðar eru til þegar alvarleg umferðarslys eiga sér stað. Einnig verða viðstaddir forseti Íslands, ráðherrar innanríkismála og/eða velferðarmála ásamt fjölmiðlum auk fleiri gesta.

Klukkan 11:15 verður boðað til einnar mínútu þagnar til minningar um fórnarlömb umferðarslysa. Með almennri kynningu, dagana á undan, verður reynt að fá sem flesta landsmenn til að taka þátt í þögninni.

Ríkistjórnin bætir tjón bænda vegna óveðurs

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 120 milljónir úr ríkissjóði til að koma til móts við tjón vegna óveðursins fyrir norðan í byrjun september. 224 jarðir urðu fyrir tjóni og þúsundir fjár drapst. Þetta kemur frá á rúv.is.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu Rúv að tjón væri metið á um 140 milljónir og nú væri komið í ljós að bjargráðasjóður væri ekki aflögufær um það. Það hafi því verið samþykkt samhljóða í ríkisstjórn að veita áðurnefndar upphæð úr ríkissjóði.

Heimild: rúv.is

Æfingabúðir í Tindastóli

Skíðasvæðið í Tindastól verður opnað um miðjan nóvember með Æfingabúðum í Tindastól í samstarfi við Björgvin Björgvinsson og Elan.

16. – 18. nóvember n.k. verða æfingabúðir í Tindastóli ætlaðar krökkum 10 – 15 ára. Þátttökugjald er 15.000 kr á mann (lyftukort innifalið).  Skráning hjá: sbr@simnet.is (Skráningarfrestur til kl. 20:00 mánudaginn 12. nóvember)

ATH. þeir sem kaupa árskort fyrir 1. desember fá 10% afslátt.

 

Dagskrá:

Föstudagur:                   Mæting við Skagfirðingabúð kl. 15:00 og þaðan verður ekið upp á    skíðasvæði
Æfing til kl. 19:00 (Boðið upp á hressingu um miðjan daginn).

Laugardagur:                  Mæting við Skagfirðingabúð kl. 09:00 og þaðan verður ekið upp á skíðasvæði
Æfing til kl. 16:00 (Boðið upp  hádegismat og miðdegishressingu í fjallinu)
Kl. 16:00 verður haldið í óvissuferð. Kvöldmatur og kvöldvaka…

Sunnudagur :                  Mæting við Skagfirðingabúð kl. 09:00 og þaðan verður ekið upp á skíðasvæði
Æfing til kl. 14:00 (Boðið upp  hádegismat).

 

Sýningartímar Stellu í Orlofi

Leikhópur Nemendafélags Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra setur upp sýninguna Stellu í orlofi eftir Guðrúnu Halldórsdóttur og sýnir í Bóknámshúsi FNV. Frumsýning verður mánudaginn 12. nóvember en stefnt er að því að sýna átta sinnum. Myndir af æfingu má sjá hér.

Sýningartímar verða sem hér segir:

 • Frumsýning mánudaginn 12. nóvember kl. 20:00
 • 2. sýning miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20:00
 • 3. sýning fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:00
 • 4. sýning föstudaginn 16. nóvember kl. 20:00
 • 5. sýning laugardaginn 17. nóvember kl. 17:00
 • 6. sýning sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00
 • 7. sýning sunnudaginn 18. nóvember kl. 20:00
 • 8. sýning þriðjudaginn 20. nóvember kl. 20:00

Pöntunarsími er 455 8070, opinn á milli kl. 16 til 18 alla sýningardaga.

Formleg opnun framhaldsdeildar á Hvammstanga

Í haust var stofnuð dreifnámsdeild frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Hvammstanga.  Verkefnið er samstarfsverkefni milli Húnaþings vestra og FNV.  Í dreifnáminu geta nemendur úr Húnaþingi vestra stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara FNV,  með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Markmiðið er að nemendur geti stundað almennt bóknám fyrstu 2 árin í sinni heimabyggð.

Umsjónarmaður deildarinnar á Hvammstanga er Rakel Runólfsdóttir og heldur hún utan um starfsemina þar. Öll kennsla fer fram gegnum fjarfundabúnað frá Sauðárkróki.  Nemendafjöldi í dreifnáminu er 17, þar af 12 sem útskrifuðust úr 10. bekk s.l. vor.

Dreifnámið byggir á að veita nemendum almennan bóklegan grunn fyrstu tvö árin.  En almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda nám hvar sem þeir eru staðsettir.

Nemendur í dreifnámi fara í tvær námslotur á Sauðárkróki á hverri önn,  viku í senn.  Loturnar eru mikilvægur hluti af náminu, þá gefst nemendum tækifæri til þess að hitta kennara, fá verklega kennslu og stunda félagslíf.

Heimild:  fnv.is

Nýr golfhermir í Skagafjörð?

Ágætu félagar í GSS
Að undanförnu hafa nokkrir félagar í GSS rætt sín á milli um kaup á golfhermi í nýja inniaðstöðu klúbbsins. Sá hermir sem helst kemur til greina er af gerðinni Double Eagle DE3000 sem er einn sá besti sem völ er á. Í herminum er hægt að spila marga heimsþekkta golfvelli og er grafík eins og best verður á kosið. Einnig er afar mikilvægt að nútíma golfhermar gefa mjög raunhæfa mynd af sveiflu og raunverulegri getu. Þetta er því ekki bara tölvuleikur, heldur tæki til að bæta sig í golfi. Auk þess að spila golfvelli er hægt að vera á æfingarsvæðinu og fá nákvæmar upplýsingar um högg, lengdir, sveifluhraða o.s.frv. á sama hátt og mæling fer fram hjá söluaðilum á golfkylfum.

Ákveðið hefur verið að kanna áhuga félagsmanna og stofna áhugamannafélag um kaup á slíkum hermi. Ljóst er að einungis verður hægt að festa kaup á slíku tæki með samstilltu átaki margra. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að fara þess á leit við félagsmenn að þeir kaupi fyrirfram tíma í herminn með afslætti og þannig verði hægt að safna nægu fjármagni til að hefjast handa. Jafnframt er mikilvægt að hefjast þegar handa, þannig að hermirinn geti verið kominn í gagnið fyrir áramót.

Í stuttu máli er hugmyndin sú að áhugamannafélagið kaupi golfherminn, safni fjármagni í upphafi að upphæð 1 milljón króna, en síðan verði seldir tímar í herminn. Hver klukkustund í herminum kosti 2500 krónur fyrir félagsmenn, en allt að 5 manns geti spilað í einu. Utan félagsmenn munu greiða hærra gjald, 3-3500 krónur. Einn 18. holu hringur tekur um 2-3 klukkustundir, en kostnaður dreifist að sjálfsögðu eftir því hversu margir spila í einu. Þess má geta að á höfuðborgarsvæðinu kostar klukkutíminn 3000-3500 krónur og er þar um að ræða eldri gerðir herma. Heildarkostnaður vegna hermisins og uppsetningar hans er um 5 milljónir króna.

Alla fréttina má lesa hér.

Heimild: gss.is

Ekki til fjármagn til að ljúka breytingu Þverárfjallsvegar

Þjóðvegur í þéttbýli – Strandvegur

Vegagerðin er sammála Byggðarráði Skagafjarðar að ljúka þurfi breytingu á legu Þverárfjallsvegar/Strandvegar um Sauðárkrók á móts við norðurenda Aðalgötu.

Ekki hefur enn verið unnt að tryggja fjárveitingu til þeirrar framkvæmdar og er vísað til heildarendurskoðunar samgönguáætlunar 2015-2026, sem fer fram innan tveggja ára, vegna þess.

Fjölliðamót í körfubolta á Sauðárkróki

Önnur umferð fjölliðamótanna að hefjast

Nú er önnur umferð fjölliðamótanna að hefjast um næstu helgi og eru það fjórir flokkar sem hefja umferðina. 8. flokkur stúlkna í Tindastóli keppir á Sauðárkróki, stúlknaflokkur í Grafarvogi, 8. flokkur drengja á Akureyri og 11. flokkur drengja í Kópavogi. Þá spilar unglingaflokkur karla við Breiðablik á laugardaginn.

Stelpurnar í 8. flokki spila í B-riðli hér heima gegn Kormáki, Snæfelli, Hamar/Þór Þorlákshöfn og Njarðvík. Leikjaprógrammið þeirra er svona:

 

10-11-2012 11:00 gegn Kormákur 8. fl. st. Sauðárkrókur
10-11-2012 14:00 gegn Snæfell 8. fl. st. Sauðárkrókur
11-11-2012 10:00 gegn Hamar/Þór Þ. 8. fl. st. Sauðárkrókur
11-11-2012 13:00 gegn Njarðvík 8. fl. st. Sauðárkrókur

Umferðarkönnun á Tröllaskaga

Fimmtudaginn 8. nóvember og laugardaginn 10. nóvember nk. verður gerð umferðarkönnun á þremur stöðum á Mið-Norðurlandi; (1) á Ólafsfjarðarvegi norðan Dalvíkur, (2) í Héðinsfirði og (3) við Ketilás í Fljótum. Könnunin stendur yfir frá kl. 08:00 – 23:00 báða dagana.

Könnunin er unnin af starfsmönnum Háskólans á Akureyri í samráði við Vegagerðina og hefur þann tilgang að að afla upplýsinga um flæði umferðar um norðanverðan Tröllaskaga og áfangastaði og erindi vegfarenda.

Búast má við lítilsháttar töfum á umferð vegna þessa en allir bílstjórar sem leið eiga um könnunarstaðina verða beðir að svara örfáum spurningum. Reiknað er með að það taki innan við mínútu að svara könnuninni og er vonast til þess að vegfarendur sýni starfsfólki þolinmæði og skilning.

Nemendur MA í heimsókn á Hólum

Það hefur verið óvenju mannmargt á Hólum í Hjaltadal, í upphafi vikunnar. Nemendur í Menntaskólanum á Akureyri voru í vettvangsferðum, ásamt sögukennurum sínum. Þetta er orðinn fastur liður í sögunáminu, í 2. bekk.

Gestirnir skoðuðu sig um á staðnum, og voru fræddir um sögu hans og núverandi starfsemi og stöðu. Það kom í hlut rektors að fara með þeim í Hóladómkirkju.

Myndir má sjá hér.

 

Heimild: www.holar.is

Fræðslufundur um jarðskjálfta og viðbrögð við þeim

Fræðslu og kynningarfundur verður haldinn á Sauðárkróki þriðjudaginn 13.11.2012 klukkan 17:30 í Bóknámshúsi Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra.

   Dagskrá fundarins

 

 • Kynning á fundarefni og fyrirkomulagi
 • Jarðskjálftar á Norðurlandi, hvað veldur?
 • Áætlanir, viðbragð, kynningarefni
 • Hvað getur fólk gert?
 • Hvernig bregstu við tjóni
 • Næstu skref
 • Sérfræðingar frá Veðurstofu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fleirum flytja erindi og svara spurningum úr sal.
 • Íbúar Skagafjarðar eru hvattir til að mæta og fræðast um jarðskjálfta og viðbrögð við þeim

Almannavarnanefnd Skagafjarðar.

Fyrirtæki í Eyjafirði vilja hasla sér völl á Grænlandi

Fyrirtæki í Eyjafirði hafa í sameiningu hrundið af stað átaki til tveggja ára, með það að markmiði að hasla sér völl á Grænlandi. Þar eru fyrirsjáanleg í náinni framtíð mikil umsvif sem Eyfirðingar vilja taka þátt í.

Á kynningarfundi á Akureyri kom fram að fyrirsjáanleg eru þrjátíu stór verkefni á sviði olíu- og námavinnslu og uppbyggingu innviða á Grænlandi. Fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu hafa nú tekið höndum saman og hyggjast á næstu tveimur árum markaðssetja þjónustu sína á meðal stórfyrirtækja sem þarna verða að störfum.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir ljóst að það vanti mikið af innviðum, tækniþekkingu og fagþekkingu á ýmsum sviðum á Grænlandi. „Við erum nærtækasti kostur hvað varðar flutninga, heilbrigðisþjónustu og fleira, enda kannski með áratuga reynslu hér á þessu svæði við að þjónusta Grænland.“

Þorvaldur viðurkennir að seint sé af stað farið, auk þess sem fámennt íslenskt samfélag sé örsmátt í alþjóðlegri samkeppni. Því sé mikil vinna framundan næstu 24 mánuði ef Eyfirðingar ætli sér að vera með í þessari uppbyggingu. En mikil samstaða sé um verkefnið og það hjálpi til.

„Þegar mörg ólík fyrirtæki úr mismunandi greinum geta komið saman, tekið höndum saman, lagst sameiginlega á árarnar í stað þess að vera hver á minni báti að róa í sína átt.“

Frétt frá Rúv.is

Skagfirðingafélagið í Reykjavík 75 ára

Skagfirðingafélagið í Reykjavík fagnar 75 ára afmæli sínu í dag laugardaginn 3. nóvember í Þróttaraheimilinu í Laugardal í Reykjavík. Af því tilefni býður félagið öllum brottfluttum Skagfirðingum til kaffisamsætis milli klukkan 14:00 og 16:00 en þar verða einnig skagfirskir skemmtikraftar sem hjálpa til við að gera stemninguna léttari. Um kvöldið verður svo dansað fram á nótt.

Meðal þeirra sem koma fram eru söngvararnir Ásgeir Eiríksson og Svana Berglind Karlsdóttir ásamt píanóleikaranum Jónasi Þóri en öll eiga þau ættir sínar að rekja í fjörðinn fagra. Það gera þeir einnig Kristján Runólfsson hagyrðingur sem yrkir um allt sem sést hefur á jarðarkringlunni og Björn Jóhann Björnsson sem skráð hefur skemmtilegar sögur af Skagfirðingum en annað bindið af þeim er að koma út á næstunni og mun hann efalaust segja sannar og lognar sögur af sveitungum sínum í afmælinu.

Klukkan 22:30 verður Þróttaraheimilið opnað á ný en þá verður boðið upp á tónlist samda og flutta af Skagfirðingum….m.a. lög eftir Geirmund Valtýsson, Hörð G. Ólafsson, Von, Kristján Gísla, Dætur Satans, Ellert Jóhanns, Herramenn, Álftagerðisbræður, Erlu Gígju, Ásdísi Guðmunds, Hreindísi Ylvu, Snorra Everts og lög sem keppt hafa í Sæluvikulögunum svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveitin Gildran mun svo setja punktinn yfir I-ið og halda uppi fjöri upp úr miðnætti.

Heimild: www.feykir.is

Laust starf frístundaráðgjafa á Sauðárkróki

Hús Frítímans á Sauðárkróki óskar eftir að ráða frístundaráðgjafa í 100 % starfshlutfall.  Um er að ræða tímabundna ráðningu frá 6. nóvember 2012 til 31. mars 2013.

 • Uppeldismenntun eða sambærileg menntun er æskileg.
 • Starfið hentar bæði körlum og konum.
 • Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
 • Umsóknafrestur er til 6. nóvember 2012

Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins, eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Sigríður A. Jóhannsdóttir, mannauðsstjóri, sigriduraj@skagafjordur.is, s: 455 6000.