All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Íþróttaskóli UMFÍ á Sauðárkróki í júní

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður haldinn á Sauðárkróki  dagana 11. – 15. júní í sumar.  Skólinn verður með hefðbundnu sniði eins og síðustu ár.  Umsjónarmaður skólans verður Árni Geir Sigurbjörnsson. Frjálsíþróttaskólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum. Auk frjálsra íþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir og haldnar kvöldvökur. Ungmennin borga þátttökugjald en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting.

Ungmennafélag Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd skólans og annast sameiginlega kynningu á starfseminni. Skólinn er í samvinnu við Frjálsíþróttasamband Íslands.

Sambandsaðilar á því svæði sem skólinn er haldinn á hverju sinni sjá um að finna kennara og aðstoðarmenn til starfa við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Einnig er lagður fyrir þá stuttur spurningarlisti til að athuga hug þeirra til skólans almennt. Skólinn hefur fengið eindæmum góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku. Þátttaka ungmenna hefur aukist umtalsvert milli ára. Góð þátttaka undirstrikar að skólinn er ákjósanlegur vettvangur til að kynna og breiða út frjálsar íþróttir á Íslandi.

Þannig gegnir skólinn mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Lokahóf körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Lokahóf meistaraflokks Tindastóls í körfubolta var haldið síðasta vetrardag með stæl. Helgi Rafn Viggósson var valinn besti leikmaður keppnistímabilsins af félögum sínum og er hann vel að þeim titli kominn.

Eftir gómsætan mat og vel heppnuð skemmtiatriði var komið að hefðbundnum verðlaunaafhendingum sem ávallt ríkir spenna fyrir.

Verðlaunahafar að þessu sinni urðu eftirtaldir leikmenn:

 

 •  Mestu framfarir: Þröstur Leó Jóhannsson og Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Stigahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Frákastahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Besta ástundun: Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Efnilegastur: Pálmi Geir Jónsson
 •  Besti varnarmaður: Helgi Freyr Margeirsson
 •  Besti leikmaður kosinn af leikmönnum: Helgi Rafn Viggósson

Helgi Rafn skoraði 8.9 stig að meðaltali í leik og tók 6 fráköst.

Nemandi úr Varmahlíðarskóla vann Stærðfræðikeppnina

Föstudaginn 20. apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í fimmtán ár.

Í fyrsta sæti var Hákon Ingi Stefánsson, Varmahlíðarskóla, í öðru sæti var Valdimar Daðason, Dalvíkurskóla og í þriðja sæti var Ásdís Birta Árnadóttir, Höfðaskóla.  Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í 15. mars og tóku 115 nemendur frá Norðurlandi vestra,  Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 14 nemendur í úrslitakeppnina.

Af þeim voru 2 frá Árskóla, 3 frá Varmahlíðarskóla, 1 frá Höfðaskóla, 3 frá Blönduskóla, 2 frá Grunnskóla Húnaþings vestra, 2 frá Grunnskóla Fjallabyggðar og 1 frá Dalvíkurskóla.

Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við FNV báru hitann og þungann af gerð og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni.

Byggðarráð Skagafjarðar varar við kvótafrumvörpum

Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins. Sérfræðingarnir búast við ”umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum“ og segja að áformuð lagasetning muni verða ”mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja“. Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa ”kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“ Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ”ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að“, enda skorti enn þann ”langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum“. Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að ”umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með en minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.

Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Jón Magnússon og Þorsteinn T. Broddason.

Laun Vinnuskóla Skagafjarðar ákveðin

Félags- og tómstundanefnd Skagafjarðar hefur samþykkt fyrirlagða áætlun um laun í Vinnuskóla Sveitarfélagsins Skagafjarðar sumarið 2012 og er hún í samræmi við það sem samþykkt var í fjárhagsáætlun fyrir árið.

 

Tímalaun með orlofi verða sem hér segir:

 • 7. bekkur kr. 361, heildartímar 40
 • 8. bekkur kr. 413, heildartímar 120
 • 9. bekkur kr. 491, heildartímar 180
 • 10. bekkur kr. 620, heildartímar 240

Viðræður við Norlandair um flug til Sauðárkróks

Heimamenn í Skagafirði eiga nú í viðræðum við flugfélagið Norlandair á Akureyri, áður Flugfélag Norðurlands, um að taka að sér áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur.

Flugfélagið Ernir hætti flugi þangað um áramótin en Sveitarfélagið Skagafjörður hefur haft frumkvæði að því að ræða við önnur félög um að halda fluginu áfram frá Alexandersflugvelli.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, átti í gær fund með forsvarsmönnum Norlandair og hann segir þær viðræður hafa verið jákvæðar. „Þeir ætla að liggja yfir kostnaðartölum í þessu og ef þær niðurstöður verða jákvæðar er næsta skref að ræða á ný við innanríkisráðuneytið,“ segir Stefán en ríkið hefur eyrnamerkt um 10 milljónir króna til áætlunarflugs á Sauðárkrók

Heimild: Mbl.is

Tónleikar í Blönduóskirkju og Hvammstangakirkju

Sunnudaginn 22. apríl verða haldnir tónleikar í Blönduóskirkju kl. 15:00 og Hvammstangakirkju kl. 20:30. Söngfólk úr kórum í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum halda tónleika í Blönduós- og Hvammstangakirkju.

Á efnisskránni er messa Franz Sehuberts í 9 liðum, auk tónlistar útsettri af Gunnari Gunnarssyni.

Stjórnendur kóranna eru Sólveig Sigríður Einarsdóttir, Pálína Fanney Skúladóttir og Sigrún Grímsdóttir.

Kynnir og flytjandi talaðs máls verður sr. Sveinbjörn Einarsson.

Aðgangseyrir kr. 2.000.-Ekki tekið við greiðslukortum.

Menningarráð Norðurlands vestra styrkir tónleikana.

Sumarvinna á Sauðárkróki

Frístundasvið Skagafjarðar auglýsir eftir fyrirtækjum/ atvinnurekendum/stofnunum, sem vilja vera samstarfsaðilar í atvinnuátaki 16-18 ára í sumar. Það felst í því að fyrirtæki ráða til sín ungmenni á þessum aldri, þ.e. fædd 1994 og 1995,  í a.m.k. 6 tíma vinnu á dag að lágmarki í 6 vikur, eða alls 240 tíma á tímabilinu 4.júní – 17.ágúst. Launakostnaður skiptist 50-50%  . Markmiðið er að enginn yngri en 18 ára verði atvinnulaus í sumar.

Ungmennin þurfa að sýna fram á að þau hafi sótt um starf annarsstaðar en verið synjað. Einnig þurfa þau að sækja um að komast í verkefnið . Alls er gert ráð fyrir að 20 ungmenni geti fengið vinnu á vegum V.I.T. ( vinna -íþróttir-tómstundir ) .

Opnað verður fyrir umsóknir í næstu viku á heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is. Nánari upplýsingar veitir Stefán Arnar yfirmaður Vinnuskólans í síma 6604685 , eða á netfangið vinnuskoli@skagafjordur.is

Hlaupa 65 km til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar

Á morgun miðvikudaginn 17. apríl  munu nemendur 7. og 8. bekkjar Varmahlíðarskóla hlaupa áheitahlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar, en undanfarna daga hafa þeir verið að safna áheitum til málefnisins. Stefnt er að hlaupa 65 km hring: Frá Varmahlíð út á Sauðárkrók, yfir Hegranesið, fram úthlíð Blönduhlíðar og aftur í Varmahlíð meðfram þjóðvegi 1.

Hefja fyrstu menn hlaupið klukkan 10 og áætlað er að þeir síðustu mæti um kvöldmatarleytið aftur í Varmahlíð. Í dag er síðasti dagur nemenda til að safna áheitum og vonast er til að tekið verði vel á móti þeim.

Á morgun, miðvikudaginn 17. apríl klukkan 12:40 verða svo sömu bekkir með fræðslu og skemmtun um tóbak og notkun þess, en bæði fræðslan og áheitahlaupið eru framlag verkefnisins Tóbakslaus bekkur sem Landlæknisembættið heldur utan um.

Heimild: Feykir.is

Dreifinám á Hvammstanga

Unglingar á Hvammstanga sjá nú fram á að geta búið lengur heima hjá foreldrum sínum. Unnið er að því að opna framhaldsskóladeild í þorpinu þar sem kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Til þessa hafa unglingar á svæðinu ekki átt annan kost en að flytja að heiman 16 ára hyggi þau á framhaldsskólanám. Margir fara til Sauðárkróks, aðrir til Akureyrar og enn aðrir suður, oft eftir því hvar fólk á ættmenni til að búa hjá. Nú vonast íbúar á Hvammstanga og í sveitunum í kring, til þess að geta haldið lengur í unglingana sína því unnið er að því að setja upp svokallað dreifnám á Hvammstanga

„Útgangspunkturinn á dreifnáminu er að auka möguleika til menntunar í heimabyggð,“ segir Eydís Aðalbjörnsdóttir, fræðslu- og félagsmálastjóri í Húnaþingi vestra. „Það var strax árið 2004 sem sveitarfélagið tók frumkvæði að því að opna fjarnámsstofu hér og núna eru tekin um 100 próf í fjarnámi bæði á framhalds- og háskólastigi þannig að næsta skref var eiginlega að opna framhaldsskóladeild.“

Kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað í félagsheimilinu á Hvammstanga. Af þessu verður þó ekki nema þátttakan verði næg. Unglingar á staðnum hafa fengið að taka þátt í undirbúningsvinnunni og eru flest jákvæð fyrir dreifnáminu þó mörgum þyki líka spennandi að flytja í burt og fara á heimavist.

Landanir og losanir á Sauðárkrókshöfn

Á föstudaginn 13. apríl var verið að losa áburð fyrir Skeljung, úr Hollensku flutningaskipi er Waaldijk heitir, samtals um 1.795 tonn. Þar af eru 315 tonn sem átti að skipa upp á Hvammstanga en eru sett á land á Sauðárkróki.

Í vikunni sem leið lönduðu Klakkur SK-5 og Málmey SK-1.  Málmey var með 403 tonn af frosnum afurðum, mest var af karfa eða 160 tonn, 75 tonn af ýsu, 58 tonn af ufsa og 86 tonn af þorski. Einnig var slæðingur af ýmsum öðrum tegundum.  Klakkur var með 107 tonn af fiski. Uppistaðan þorskur, um 82 tonn, 12 tonn ufsi og slattar af öðrum tegundum.  Þá var hann einnig með 7 tonn af þorsklifur.

Grásleppuveiðin gengur bærilega, en þó var eitthvað um að net vöðluðust saman í NA skoti sem gerði fyrripart vikunnar sem leið, en ekkert stórtjón.

Magnaðar myndir frá AK Extreme

AK Extreme snjóbretta- og tónlistarhátíðin var haldin á Akureyri dagana 12.  – 15. apríl og er þetta í sjötta sinn sem hún er haldin.

Dagskráin í ár var afar fjölbreytt og glæsileg. Þrír skemmtistaðir buðu upp á fjölbreytta tónleikadagskrá þ.e. Græni Hatturinn, Pósthúsbarinn og Kaffi Akureyri. Meðal hljómsveita og tónlistarmanna sem að koma fram eru:Agent Fresco, BlazRoca, Oculus, Óli Ofur, Intro Beats, ThizOne, Eldar, The Vintage Caravan, Endless Dark, Elín Ey, Gísli Pálmi, Konni Conga, Þórunn Antónía, Emmsjé Gauti og Captain Fufanu.

Magnaðar ljósmyndir frá Einari Guðmundssyni er að finna hér.

Íþróttavellir á Akureyri koma vel undan vetri

Íþróttavellir á Akureyri komu mjög illa undan vetri á síðasta ári og vegna kalskemmda var ásigkomulag knattspyrnuvalla og golfvallarins að Jaðri einstaklega slæmt. Fyrir vikið þurftu KA, Þór og GA að leggja í umtalsverðan kostnað við lagfæringar á svæðum sínum, en fengu félögin þó styrki frá Akureyrarbæ.

Útlitið í ár er hins vegar mun bjartara og líta vellirnir vel út miðað við árstíma.  Félögin leituðu eftir fjárframlagi frá Akureyrarbæ vegna ástands vallanna í fyrra og lagði bærinn félögunum til milljónir króna vegna þeirra aðgerða sem grípa þurfti til við lagfæringar. Sú vinna, sem framkvæmd var í fyrra, virðist ætla að skila sér vel, auk þess sem veðurfarslegar aðstæður hafa verið betri í ár en í fyrra.

Tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalda í Skagafirði

Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 22. febrúar 2011 var samþykkt að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld af byggingum íbúðarhúsnæðis af hálfu einstaklinga og verktaka á lóðum við þegar tilbúnar götur á Sauðárkróki, Hofsósi og Varmahlíð. Niðurfellingin tók þegar gildi eftir samþykktina í sveitarstjórn og gildir hún til 1. júlí 2012. Er miðað við að framkvæmdir hefjist fyrir þann tíma en ákvæðið gildir ekki afturvirkt.

Í greinargerð með tillögu meirihluta sveitarstjórnar segir að mikill skortur hafi verið á íbúðarhúsnæði í Sveitarfélaginu Skagafirði að undanförnu. Eigi það bæði við um húsnæði til sölu og ekki síður framboð á leiguíbúðum. Markmið samþykktarinnar er að greiða fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í að ráðast í byggingu íbúða, parhúsa og einbýlishúsa í sveitarfélaginu.

Þess má geta að í niðurstöðum þjónustukönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2009 kom fram að 50% svarenda voru óánægðir með framboð af leiguhúsnæði í sveitarfélaginu.

Á fundi Sveitarstjórnar Sveitarfélagins Skagafjarðar þann 28. mars 2012 var þetta ákvæði framlengt til 1. júlí 2013

Akureyrarstofa auglýsir eftir verkefnastjóra

Akureyrarstofa auglýsir 100% starf verkefnastjóra atvinnumála laust til umsóknar. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Verkefnastjóri atvinnumála heyrir undir framkvæmdastjóra Akureyrarstofu og er jafnframt starfsmaður verkefnisstjórnar um atvinnumál sem er þverpólitískur vinnuhópur.
Helstu viðfangsefni hópsins eru að móta atvinnustefnu og vera stjórn Akureyrarstofu til ráðgjafar um atvinnumál.

Helstu verkefni:

 • Samstarf og samskipti við hagsmunasamtök, fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir
 • Leiða mótun nýrrar atvinnumálastefnu og sinna eftirfylgni hennar
 • Halda utan um atvinnuátaksverkefni á vegum Akureyrarbæjar
 • Gagnaöflun um atvinnulífið á Akureyri og framkvæmd viðhorfskannana
 • Þátttaka í verkefnum á sviði atvinnuþróunar og -uppbyggingar
 • Önnur verkefni sem verkefnastjóra eru falin

  Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Háskólapróf sem nýtist í starfi
 • Þekking á atvinnulífi svæðisins æskileg
 • Reynsla af þátttöku í atvinnuuppbyggingu og/eða atvinnuþróun æskileg
 • Stjórnunar- og skipulagshæfileikar
 • Góð tölvufærni og geta til að vinna með tölulegar upplýsingar
 • Góð íslensku- og enskukunnátta og geta til að tjá sig í ræðu og riti
 • Sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum
 • Jákvæðni og hæfni í mannlegum samskiptum

  Tekið verður tillit til samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar um jafnréttismál við ráðningu í starfið. Laun eru samkvæmt kjarasamningi sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

  Á Akureyrarstofu fer fram fjölbreytt og öflugt starf en hún heldur utan um atvinnumál, markaðs- og ferðamál og menningarmál fyrir Akureyrarbæ.
  Megináhersla er lögð á að örva kraft og frumkvæði einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, finna þeim farveg og koma á samstarfi aðila sem geta gert góðar hugmyndir að veruleika. Akureyrarstofa er til húsa í menningarhúsinu Hofi og eru starfsmenn fimm talsins.

  Umsjón með ráðningu

  Jónína Guðmundsdóttir – jonina.gudmundsdottir@capacent.is
  Sigríður Pétursdóttir – sigridur.petursdottir@capacent.is

  Umsóknafrestur til og með:

  25. apríl 2012

Markaðsetning ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi

Yfir 200.000 Íslendingar eru komnir á Facebook og 800 milljónir manna á heims vísu. Yfir 5 milljarðar mynda eru á flickr.com. YouTube er önnur vinsælasta leitarvélin. Tækifærin fyrir markaðssetningu eru gríðarleg, en hætturnar eru líka margar og fyrirtækjum gengur mjög misvel að fóta sig þar.

Fimmtudaginn 26.apríl stendur Markaðsstofa Norðurlands fyrir námskeiði í markaðssetningu á samfélagsmiðlunum. Námskeiðið verður haldið á Hótel KEA frá kl. 09-17.  Á námskeiðinu verður farið yfir hvaða breytingar eru að eiga sér stað og hvað þær þýða, hvernig hægt er að nýta Facebook, twitter, foursquare, flickr, youtube og aðra miðla til þess að breiða út boðskapinn og byggja upp sterkt vörumerki.

Fyrirlesari er Hjörtur Smárason sem unnið hefur við markaðssetningu á netinu frá 1997. Hjörtur hefur haldið námskeið og fyrirlestra um efnið víða um heim og kennir markaðsfræði og nýsköpun við Háskólann á Hólum.
Verðið er 28.000 kr. fyrir samstarfsfyrirtæki Markaðsstofunnar en 38.000 fyrir aðra.

Nánari upplýsingar á skráning hjá Kötu í síma 462-3300 eða á netfangið kata@nordurland.is

Flottir tónleikar í Miðgarði í byrjun Sæluvikunnar

Spennandi tónleikar verða í Menningarhúsinu Miðgarði í byrjun Sæluviku, þann 27. apríl.

Söngvarar eru; Guðrún Gunnarsdóttir, Óskar Pétursson, Sigvaldi Helgi Gunnarsson, Herdís  Rútsdóttir, Kolbrún Grétarsdóttir, Sigurlína Einarsdóttir,Íris Lúðvíksdóttir, Álftagerðisbræður og Unglingakór Varmahlíðarskóla.
Hljómsveit: Stefán R. Gíslason, Einar Þorvaldsson, Kristján Reynir
Kristjánsson, Margeir Friðriksson, Guðbrandur Guðbrandsson, Sveinn
Sigurbjörnsson og Berglind Stefánsdóttir.
Kórstjóri barnakórsins: Helga Rós Sigfúsdóttir
Kynnir: Jón Hallur Ingólfsson

Námskeið í Fyrstu hjálp 1 á vegum Skagfirðingasveitar

Námskeið í Fyrstu hjálp 1 verður haldið í Sveinsbúð á vegum Björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar.

Námskeiðin verða dagana:

 • Mánudaginn 16. apríl kl 18-22
 • Þriðjudaginn 17. apríl kl 18-22
 • Sunnudaginn 22. apríl kl 10-17
 • Mánudaginn 23. apríl kl 18-22

Skráning með því að senda sms í síma 892-6073 (Ásta Birna Jónsdóttir).

Heimasíða sveitarinnar er www.bjargari.is

Endurskoðun á húsaleigu fasteigna í Skagafirði

Endurskoðun hefur verið gerð á  húsaleigu fasteigna sveitarfélagsins Skagafjarðar.  Undanfarin misseri  hafa leigusamningar einungis verið gerðir til sex mánaða í senn, svo réttur leigjenda til húsaleigubóta tapaðist ekki.  Sveitarstjórn samþykkt 28. mars 2012 nýjar reglur um húsnæðismál. Frá og með 1. apríl 2012 verður farið eftir þessum nýju reglum við endurnýjun eldir leigusamninga og við gerð nýrra.

Með þessum aðgerðum er verið að færa leiguverð íbúða sveitarfélagsins Skagafjarðar nær því sem gerist á almennum markaði í sveitarfélaginu.  Telja má að í einhverjum tilfellum verði hækkunin töluverð, en á móti kemur að réttur þeirra sem leigja á s.k. félagslegum forsendum verður skýrari og hafa ber í huga að húsaleigubætur hækka á móti hjá þeim sem þann rétt eiga.  Greint er á milli almennrar leigu og félagslegrar leigu.

Í reglunum er almenn húsaleiga fyrir hvern fermetra  ákvörðuð kr. 950 frá og með 1. apríl 2012 (eða síðar við endurnýjun gildandi leigusamninga).  Hámark almennrar mánaðarleigu er kr. 112.500.

Þeir leigjendur sem uppfylla skilyrði sem þarf til félagslegrar leigu, leigja fermetrann á 20% lægra verði, kr. 760.  Hámark þeirrar leigu er kr. 90.000 á mánuði. Athugið að leiguupphæð fylgir  íbúðarstærð (fjölda fermetra).

Ef leigjandi telur eða vill láta á reyna hvort hann eigi rétt á félagslegri leigu, skal hann panta viðtal hjá félagsráðgjafa sveitarfélagsins.

Reglurnar eru aðgengilegar hér á heimasíðu sveitarfélagsins.  Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta óskað eftir því að fá þær sendar bréfleiðis. Félagsmálastjóri veitir frekari upplýsingar í síma 455 6000.

ÍR vann Tindastól í Lengjubikarnum

ÍR vann 2-1 sigur á Tindastóli í Lengjubikar karla í gærkvöld. Spilað var á gervigrasinu í Breiðholtinu.

Fyrir leikinn var ljóst að liðin myndu enda í neðstu tveimur sætum riðilsins og það lið sem myndi vinna yrði í næst neðsta sæti.

Axel Kári Vignisson kom ÍR -ingum yfir með furðumarki þegar fyrirgjöf hans utan af kanti fór yfir markvörð Tindastóls og í markið.

Guðjón Gunnarsson bætti svo við öðru marki þegar hann fylgdi eftir skoti sem markvörður Tindastóls hafði varið og þrumaði í þaknetið.

Tindastóll minnkaði svo muninn en þar var að verki Theodore Furness sem kom til félagsins á dögunum. Markið var eins undarlegt og það fyrsta í leiknum því hann skoraði beint úr hornspyrnu.

Þetta var fyrsti og eini sigur ÍR í riðlinum og enda þeir því með þrjú stig. Tindastóll endar með eitt stig eftir að hafa aðeins náð einu jafntefli úr sjö leikjum.
ÍR 2-1 Tindastóll:
1-0 Axel Kári Vignisson
2-0 Guðjón Gunnarsson
2-1 Theodore Eugene Furness

1 Keflavík 7 6 0 1 20  –    9 11 18
2 ÍA 7 5 1 1 19  –    8 11 16
3 Víkingur R. 7 3 3 1 16  –    8 8 12
4 Stjarnan 7 3 2 2 13  –  12 1 11
5 ÍBV 6 3 0 3 14  –  10 4 9
6 KA 6 2 1 3 11  –    9 2 7
7 ÍR 7 1 0 6   6  –  18 -12 3
8 Tindastóll 7 0 1 6   3  –  28 -25 1

Heimild: Fótbolti.net

Hlíðarendavöllur í frábæru ástandi eftir veturinn

Sjaldan eða aldrei hefur golfvöllurinn komið betur undan vetri en nú. Vakin er athygli á því að völlurinn er opinn, en einungis fyrir félagsmenn.

Mjög mikilvægt er að félagsmenn lagi boltaför á flötum, á því hefur verið mikill misbrestur. Einnig að laga kylfuför á brautum og færa úr bleytu yfir í karga þar sem hætta er á skemmdum. Jafnframt er ætlast til þess að fólk fari ekki með kerrur inn á völlinn, heldur beri kylfurnar. Völlurinn er ennþá í viðkvæmu ástandi og mikilvægt að gæta að honum okkar allra vegna.

Æfingasvæðið verður opið um helgina og boltavélin í gangi.

Húsavíkurflug hefst, ekkert bólar á flugi til Sauðárkróks ennþá

Áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll hefst að nýju á sunnudag en ekki hefur verið flogið þangað í 12 ár. Það er flugfélagið Ernir sem mun bjóða upp á ferðir þangað fjóra daga vikunnar.

Flugfélag Íslands flaug á Húsavíkurflugvöll í Aðaldal fram til 1998 en eftir það hélt Mýflug upp áætlunarflugi þangað fram til ársins 2000. Tólf ár eru því síðan áætlunarflug um völlinn lagðist af en á sunnudag verður breyting þar á þegar flugfélagið Ernir flýgur fyrstu áætlunarferð sína þangað, en félagið mun í sumar bjóða upp á sjö ferðir á viku, fjóra daga vikunnar, milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Ásgeir Örn Þorsteinsson er sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins.

„Við erum búnir að vera að skoða möguleikann með Húsavík í töluverðan tíma, nokkur ár og við sáum einfaldlega tækifæri í stöðunni núna. Þannig að það eru bæði heimamenn og ferðaiðnaðurinn sem kveikti í okkur og fékk okkur til þess að starta flugi á Húsavík.”

Bókanir hafa farið vel af stað að sögn Ásgeirs og viðtökur ferðageirans hafa ekki síst verið góðar.

„Þetta er í boði fram á haustið og munum við taka ákvörðun vonandi bara um mitt sumar hvort að áframhald verði en það veltur á heimamönnum að mestu leyti og fyrirtækjum að nýta flugið til þess að hægt sé að halda þessu gangandi yfir veturinn.”

Heimild: Rúv.is

Jarðstrengur of dýr um Skagafjörð

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að ekki komi til greina miðað við núverandi aðstæður að leggja nýja Blöndulínu í jarðstreng um Skagafjörð. Landeigendur þar segjast ekki munu leyfa lagningu loftlínu yfir þeirra lönd.

Landsnet undirbýr nú lagningu nýrrar 220 kílóvolta háspennulínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar, Blöndulínu 3. Með henni á að styrkja flutningskerfið því núverandi byggðalína uppfyllir ekki lengur kröfur um flutningsgetu. Tvær tillögur eru um lagningu línunnar um Skagafjörð og gerir önnur ráð fyrir svokallaðri Efribyggðarleið. Landeigendur þar hafa lýst því yfir að þeir muni alfarið hafna lagningu loftlínu og benda þess í stað á lagningu jarðstrengs.

Þórður segist þeirrar skoðunar að Landsnet geti ekki með góðu móti hafið þá vegferð að leggja jarðstrengi á alhæstu spennum vegna þess mikla kostnaðarmunar sem sé á milli línulagningar og jarðstrengs.

Þórður bendir á að nær allar nýjar lagnir fyrir lægri spennu séu í formi jarðstrengja. Blöndulína 3 verði hinsvegar ekki byggð fyrir lægri spennu en 220 kílóvolt og miðað við núverandi aðstæður muni kostnaður við slíkan jarðstreng hafa veruleg áhrif á flutningsverð raforku til lengri tíma litið. Hinsvegar liggi fyrir Alþingi þingsárlyktunartillaga um frekari jarðstrengjavæðingu, niðurstöðu þar sé að vænta næsta haust.

Þórður segir að ekkert sé þannig í pípunum að rjúka þurfi af stað í þetta verkefni að leggja Blöndulínu 3. Landsnet vilji gera það sem allra fyrst en geti alveg beðið í einhverja mánuði í viðbót eftir því að taka skynsamlega ákvörðun.

Heimild: Rúv.is

Stebbi og Eyfi með tónleika í Skagafirði í apríl

Tveir af mestu lagahöfundum Íslands, þeir  Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson, Stebbi og Eyfi, verða með tónleika í Sauðárkrókskirkju miðvikudaginn 25. apríl kl. 20:30. Kapparnir eru á tónleikaferð um landið og flytja nokkrar notalegar ábreiður í bland við annað efni sem þeir hafa flutt í gegnum tíðina.

Þeir verða einnig með tónleika í Hofsósskirkju fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:30.

Stefán og Eyjólfur hafa starfað saman í áratugi og komu meðal annars fram í Eurovison fyrir Íslands hönd árið 1991 með lagið Nína. Þá hafa þeir gefið undanfarin ár út plöturnar “Nokkrar notalegar ábreiður” og “Fleiri notalegar ábreiður”

Sauðburður hafinn í Skagafirði

Sauðburður hefst ekki fyrr en í maí á flestum bæjum, en á Minni-Ökrum í Skagafirði hófust vorverkin óvenju snemma í ár og þar skoppa nú nýfædd lömb í túni.

Fyrsta lambið komin í heiminn þann 22. mars og síðan hafa 33 ær borið. Lömbin á Minni-Ökrum eru því orðin 63 talsins.

Þar sem hrútarnir voru teknir frá ánum þremur dögum seinna en vanalega segist Vagn Þormar Stefánsson, bóndi á Minni-Ökrum, hafa reiknað með því að hann fengi nokkur snemmborin lömb.

Hann grunaði hinsvegar ekki að þau yrðu svona mörg. Sauðburðurinn hefur gengið vel að hans sögn og náttúran hefur tekið blíðlega á móti ungviðinu með nýsprottnu grasi í túnum.

Heimild: Rúv.is

Ljósmynd: Sauðárkrókur.is

Skagfirskur stúlknakór gerir það gott

Stúlknakórinn Draumaraddir Norðursins í Skagafirði syngja um súkkulaðilandið sem margir hafa eflaust heimsótt um páskana.

Undir styrkri stjórn Alexöndru Chernyshova hafa stelpurnar náð miklum árangri, ferðast út um allan heim til að syngja og gáfu nýlega út geisladisk þar sem bjartar og fallegar raddir þeirra njóta sín. Alexandra segir stelpurnar vera svona flinkar söngkonur því þær æfa sig stíft en þó er gleðin og ánægjan alltaf í fyrirrúmi. Þarna eru saman komnar söngstjörnur framtíðarinnar enda hafa stelpurnar mikinn metnað til að verða fullnuma í sönglistinni.

Heimasíða stúlknakórsins er hér.
http://www.dreamvoices.is/pages.php?idpage=10915

Heimild: Rúv.is

Tindastóll spilar við ÍR á föstudaginn á ÍR-velli

Tindastóll og ÍR eigast við Lengjubikarnum í knattspyrnu karla í Reykjavík föstudaginn 13. apríl klukkan 19. Leikurinn fer fram á ÍR-vellinum í Breiðholti. Þetta er baráttan um botnsætið en hvorugu liðinu hefur gengið vel A-deild,2. riðli í Lengjubikarnum í ár. ÍR situr á botninum með 0 stig en Tindastóll er með 1 stig. Bæði lið hafa leikið 6 leiki. Tindastóll hefur náð einu jafntefli og tapað 5 leikjum, skorað 2 mörk og fengið á sig 26.

Vonandi verður þetta leikurinn sem verður upphafið af góðu sumri í boltanum. Hvetjum alla til að mæta og styðja sína menn.

Landeigendur í Skagafirði vilja Blöndulínu í jörðina

Mikil óánægja er meðal landeigenda í Skagafirði með að leggja eigi tvö hundruð og tuttugu kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð að Akureyri. Landeigendur munu ekki leyfa að línan verði lögð yfir þeirra lönd, segir fulltrúi þeirra.

Landsnet hyggst leggja 200 kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar, svokallaða Blöndulínu, sem yrði samtals 107 kílómetra löng. Línan á meðal annars að liggja um svokallaða Efribyggðarleið í Skagafirði, en samkvæmt frummatsskýrslu er gert ráð fyrir talsvert neikvæðum áhrifum á nokkrum bæjum þar, frá Kolgröf að Brúnastöðum, vegna nálægðar við línuna.

Helga Rós Indriðadóttir, fulltrúi landeigenda, segir kröfu þeirra þá að línan verði lögð í jörð.

„Hins vegar er það ljóst að 220 kílóvolta lína er ansi hreint ríflegt til að sinna raforkuþörf almennings. Hér er um að ræða línu sem mun þjóna hagsmunum stóriðju.“

Landsnet segir hins vegar að tilgangurinn sé að styrkja flutningskerfið. Núverandi byggðalína fullnægi ekki þeim kröfum sem séu gerðar. Helga Rós segir að athugasemdir verði sendar við þessar áætlanir.

„Landeigendur hér munu hafna þessu. Þeir munu ekki leyfa það að loftlína verði lögð í gegnum þeirra lönd.“

Heimild: Rúv.is

Körfuboltamót Molduxa í Skagafirði í maí

Hið árlega vormót Molduxa  í körfuknattleik verður  haldið laugardaginn 5. maí. 2012. Mótið er fyrir körfuknattleikslið  40 ára og eldri hjá körlum og fyrir kvennalið 20 ára og eldri. Stefnt er að því að mótið byrji klukkan  12 á laugardegi og er leiktíminn 2 x 12 mínútur og leikur hvert lið 3- 4 leiki.

Hægt er að skrá lið og fá nánari upplýsingar hjá Alla Munda á allimunda@internet.is  eða í síma 865-0819 og lýkur  skráningu 25. apríl. Þess skal getið að mótið er hluti af sæluvikugleði í Skagafirði þannig að nóg er um að vera um þessa helgi á Sauðárkróki.

Heimasíða Molduxa er www.molduxar.is

Skíðasvæðið í Tindastóli opið í dag

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið til klukkan 16 í dag. Núna er snjókoma og hægviðri þessa stundina og færið er alveg ágætt.  Það er um að gera að nota nú páskafríið vel og drífa sig á skíði.

 • kl. 10:00 til 16:00 Opið á skíðasvæðinu.
 • Troðin göngubraut bara fyrir alla.
 • Mætum í eftirtektarverðum fötum 
 • kl. 12.00   Paint ball skotið í mark, verð 1000 kr hver 100 skot
 • kl. 13.00   Þrautabraut fyrir 8 ára og yngri allir fá páskaegg að loknum tveimur ferðum.
 • kl. 13.00   Hæfnisbraut á brettum, páskaegg í verðlaun,  mikið hlegið.  
 • Kl. 14:00   Snjóþotu- og sleðarall – Músík í fjallinu.