All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Tvær stöður við ferðamáladeild Háskólans á Hólum lausar til umsóknar

Við deildina er í boði háskólanám í ferðamálafræðum og viðburðastjórnun og lögð stund á rannsóknir og fræðastarf. Aðsókn nemenda og umsvif deildarinnar hafa farið ört vaxandi undanfarin ár. Starfsaðstaða deildarinnar í háskólaþorpinu á Hólum er góð, þar er fjölskylduvænt samfélag með grunnskóla og leikskóla. Nánari upplýsingar um skólann og staðinn er að finna hér á Hólavefnum.

Staða deildarstjóra ferðamáladeildar

Í starfinu felst:
• Fagleg ábyrgð á kennslu og rannsóknum innan deildarinnar sem og samstarfi við atvinnulíf, stoðkerfi og fræðasvið ferðamála
• Dagleg stjórnun ferðamáladeildar og starfsmanna hennar
• Þátttaka í stefnumótun, stjórnun og rekstri Háskólans á Hólum, seta í framkvæmdaráði
• Rannsóknir og kennsla

Við leitum að einstaklingi með:
• Doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdum fræðasviðum
• Reynslu af stjórnun, rannsóknum, kennslu og þróunarstarfi
• Leiðtogahæfileika, frumkvæði, framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum og getu til að stýra samstarfi innan deildar sem utan
• Mikla skipulagshæfileika og yfirsýn

 

Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. sept. 2012 eða eins fljótt og hægt er. Umsóknir berist fyrir 1. júlí 2012. Umsóknir ásamt ferilskrá og persónulegu bréfi, sendist til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is .

 

Nánari upplýsingar veita Erla B. Örnólfsdóttir rektor s. 455 6300 / erlabjork@holar.is eða Kristina Tryselius deildarstjóri s. 863 2938 / kristina@holar.is .

 

Staða háskólakennara við ferðamáladeild

 

Í starfinu felst:
• Kennsla á sviði menningar og ferðamála
• Kennsla á sviði hátíða og viðburða
• Leiðbeining nema í lokaverkefnum
• Þátttaka í stefnumótun ferðamáladeildar
• Mótun eigin rannsókna á sviðum deildarinnar

Menntunar og hæfniskröfur:
• Framhaldsmenntun á sviði ferðamálafræða, menningar og viðburða eða tengdra fræða, hæfi sem háskólakennari, doktorspróf æskilegt
• Reynsla af kennslu og rannsóknum
• Frumkvæði, sjálfstæði í vinnu og færni í mannlegum samskiptum

Um fullt starf er að ræða. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. sept. 2012 eða eins fljótt og hægt er. Umsóknir berist fyrir 1. júlí 2012. Umsóknir ásamt ferilskrá og persónulegu bréfi, sendist til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is

Nánari upplýsingar veitir Kristina Tryselius deildarstjóri s. 863 2938 / kristina@holar.is .

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Ritstjóri og umsjón með vef: Hjördís Gísladóttir | Vefurinn er unnin í vefumsjón

Fimmtudagsmót í frjálsum á Sauðárkróki

Fimmtudagsmót verður haldið á Sauðárkróksvelli fimmtudaginn 14 júní. Mótið byrjar kl 17:00 og lýkur um 21:00. Keppnisgreinar eru stangarstökk, kringlukast, hástökk og langstökk. Möguleiki er á að bætt verði við greinum ef áhugi er til staðar.

Hægt er að senda skráningar á UMSS@simnet.is

Verið velkomin að mæta og taka þátt

Messa í Hóladómkirkju alla sunnudaga í sumar

Nú er komið að sumardagskrá á Hólastað.   Messað verður kl 11 alla sunnudaga í sumar frá 10. júní.

Frá 1. júní til 10. september verður kirkjan opin daglega frá kl 10 -18.  Stuttar kvöldbænir eru alla daga nema sunnudaga kl 18-18:15, auk annarra helgistunda vegna sérstakra atburða sem auglýstar verða sérstaklega.

17. júní hefjast svo sumartónleikarnir sem verða kl 14 á sunnudögum. Það er harmónikkusnillingurinn Jón Þorsteinn Reynisson sem ríður á vaðið á þjóðhátíðardaginn.  Aðrir tónleikar verða einnig haldnir í tengslum við hátíðir sumarsins. Ókeypis aðgangur er að öllum tónleikunum.

Byggðarráð styrkir ekki Sögusetur íslenska hestins

Umsókn Söguseturs íslenska hestsins um rekstrarstyrk 2012.

Byggðarráð Skagafjarðar getur ekki orðið við umsókn Sögusetursins um rekstrarstyrk á árinu 2012, nema að mótframlag frá ríkinu komi til rekstrarins eins og verið hefur á undangengnum árum.  Byggðarráð Skagafjarðar beinir því jafnframt til Byggðasafns Skagfirðinga að tryggja að sýning Sögusetursins verði opin í sumar með því að leggja verkefninu til starfsmann.

Hljóðupptökur Fræðifélags Vestur-Húnvetninga

Þann 8. júní var opnaður nýr vefur ismus.is þar sem verður hægt að hlusta á hljóðupptökur í eigu Fræðafélags Vestur-Húnvetninga sem hafa verið í geymslu Héraðsskjalasafnsins á Hvammstanga. Upptökurnar eru meðal annars viðtöl með lífsferilssögum 42 sveitunga frá 7.-10. áratug síðustu aldar, ásamt upptökum af mannamótum, skemmtunum og pólitískum fundum.Vefurinn með húnvetnsku upptökunum er undir heitinu “Fræðafélag”

Afritun og skráning heimildanna er verkefni unnið að frumkvæði Rannsóknarseturs HÍ á Norðurlandi vestra á Skagaströnd í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvars ehf. á Hvammstanga sem sá um skráninguna,.

 Vaxtarsamningur Norðurlands vestra, Menningarsamningur Norðurlands vestra, Húnaþing vestra og Þjóðhátíðarsjóður styrktu verkefnið.

Heimild: Skagastrond.is

Tindastóll náði stigi á Akureyri

Tindastóll og KA léku í dag 9. júní í 1. deild karla í knattspyrnu. Leikið var á Akureyrarvellinum og voru áhorfendur 250.

Ben Everson kom Tindastóli yfir á 11. mínútu, en KA menn svöruðu aðeins 4 mínútum síðar með marki frá Brian Gilmour. Ævar Jóhannesson kom svo KA í 2-1 á 29. mínútu en Stólarnir svöruðu fyrir sig á þeirri 44. mínútu með marki frá Ingva Hrannari. Staðan var því 2-2 í leikhléi og engin mörk voru skoruð í síðari hálfleik.

Undir lok leiksins var Arnari Atlasyni hjá Tindastóli og Brian Gilmour frá KA vikið af leikvelli með rautt spjald.

Malarvegum illa viðhaldið

Viðhald á þjóðvegum landsins er í algeru lágmarki vegna niðurskurðar undanfarin ár. Ástandið er verst á malarvegum og óttast menn að sá hluti vegakerfisins sé að grotna niður.

Þeir sem aka reglulega um malarvegi þekkja vel hve mikilvægt það er að bera reglulega ofan í þá og hefla.  En malarvegir hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar á peningum til viðhalds undanfarin ár. Og það er ekki útlit fyrir aukið fé á þessu ári.

Á veginum um Bárðardal, svo dæmis séu tekin, stendur stórgrýti upp úr veginum og erfitt er að ímynda sér að þetta sé þjóðvegur í byggð. En svona er þetta víða, misslæmt auðvitað, en mikið vantar upp á að þetta sé í lagi.

En þegar fjármagn skortir þarf að forgangsraða og þá er áherslan lögð á að viðhalda dýrasta hluta vegakerfisins, vegum með bundnu slitlagi.

Landstólpinn 2012 afhentur

Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði  þann 1. júní var Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði afhentur Landstólpinn árið 2012.

Auglýst var eftir tilnefningum bæði í blöðum og á heimasíðunni. Dómnefnd valdi síðan úr, því hér var ekki um kosningu að ræða, eins og tekið var fram í auglýsingunni. Hins vegar voru tekin fram nokkur atriði sem vert væri að hafa í huga við val á viðurkenningarhafa, en þau voru:

Hefur verkefnið/starfsemin/umfjöllunin:

 • Dregið fram jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði?
 • Aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu?
 • Orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til?
 • Dregið að gesti?

Ákveðið var að viðurkenningin yrði listmunur sem listafólk eða handverksfólk á því svæði þar sem fundurinn er haldinn hverju sinni hannar. Þar sem fundurinn er að þessu sinni haldinn á Sauðárkróki var ákveðið að finna skagfirskan listamann til að hanna grip. Sá heitir Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og er myndlistamaður, myndlistakennari og sjálfstætt starfandi ljósa- og sviðshönnuður, búsettur á Sauðárkróki. Hann er menntaður myndhöggvari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1994 og er einnig menntaður rafvirki frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og kennari frá Háskólanum á Akureyri.

Ábendingar bárust víðsvegar að af landinu og alls voru 13 aðilar tilnefndir og sumir fengu fleiri en eina tilnefningu. Niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði Landstólpann árið 2012.

Dómnefnd telur að Örlygur hafi með störfum sínum undanfarin ár vakið athygli á Siglufirði á jákvæðan hátt. Segja má að árangurinn sem náðst hefur á Siglufirði byggi að miklu leyti á því frumkvöðlastarfi sem Örlygur hefur unnið gegnum tíðina.  Hann er einn af frumkvöðlunum að Síldarminjasafni Íslands, sem hefur hlotið viðurkenningar bæði  innanlands og erlendis.  Örlygur  hefur einnig staðið að uppbyggingu Herhússins og þeirri starfssemi sem þar fer fram.   Örlygur hefur verið ötull í að gera upp gömul hús á Siglufirði sem hafa breytt ásýnd bæjarins verulega.   Þau verkefni sem Örlygur hefur komið að á Siglufirði hafa breytt ásýnd og ímynd staðarins.  Hann hefur virkjað heimafólk til þátttöku í verkefnunum áhugi hans á gömlum húsum hefur smitað út frá sér og má sjá það á fjölda gamalla uppgerðra húsa á Siglufirði. Örlygur er  frumkvöðull í menningarferðaþjónustu á Siglufirði.  Fleiri hafa komið í kjölfarið,  s.s.  Þjóðlagasetrið, Herhúsið, Rauðka, Þjóðlagahátíð, Síldardagar og fl. Frá því að uppbyggingin Síldarminjasafnsins hófst hefur fjöldi gesta komið á Siglufjörð.  Eftir að Héðinsfjarðagöngin voru opnuð fjölgaði gestum Síldarminjasafnsins verulega, frá tæplega 12 þús. gestum árið 2010 í 20 þúsund árið 2011.  Því er ljóst að safnið hefur veruleg áhrif á samfélagið. Í nýrri rannsókn um áhrif atvinnuuppbyggingar á sviði menningar og lista kemur fram að uppbyggingin á Siglufirði hefur haft áhrif á samfélagið.  Jákvæð ímynd, sterkari sjálfsmynd íbúa, meiri jákvæðni í samfélaginu eru atriði sem nefnd eru.  Þetta hefur síðan áhrif á aðdráttarafl samfélagsins, bæði til búsetu og heimsóknar. Efnahagsleg áhrif eru af uppbyggingunni.

Afmælisganga á Nonnaslóð á Akureyri

Hefur þú séð Nonnasteininn? Hefur þú gengið í fótspor hins ástsæla barnabókarithöfundar Nonna? Ef ekki þá er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag og ganga í fylgd kunnugra um Nonnaslóð fimmtudaginn 7. júní kl. 20.

Haraldur Þór Egilsson, sagnfræðingur og safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, leiðir gönguna sem tekur rúmlega klukkustund og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þetta er létt og þægileg ganga þar sem farið verður stuttlega yfir lífshlaup Nonna, lesið upp úr bókum hans og staðir skoðaðir sem tengjast lífi hans og sögum.

Lagt verður af stað frá Nonnahúsi kl. 20.

Það eru afmælisnefnd Akureyrarbæjar og Minjasafnið á Akureyri sem bjóða upp á þessar forvitnilegu gönguferðir um bæinn í tilefni stórafmælisins.

Tengilflug Icelandair frá Akureyri hefst

Á morgun, fimmtudaginn 7. júní, hefst beint tengiflug Icelandair frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll við helstu áfangastaði félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Áætlað er að fyrsta vélin lendi kl. 17.30 á morgun og verður tengiflugið alla jafna í boði á sunnudögum, mánudögum, fimmtudögum og föstudögum.

Tímasetningar á fluginu í sumar verða miðaðar við það að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggi sem best við þessu tengiflugi, til dæmis New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Bandaríkjunum og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Osló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10. Þannig skapast góð tenging við komutíma frá helstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

Vorvaka í Húnaveri

Vorvaka í minningu Gísla Ólafssonar skálds frá Eiríksstöðum verður haldin í Húnaveri laugardaginn 9. júní næstkomandi og hefst klukkan 14:00. Kristján Eiríksson, íslenskufræðingur hjá Árnastofnun, mun fjalla um Gísla og verk hans. Friðrún Guðmundsdóttir les ljóð eftir Gísla.

Kvæðamennirnir, Ingimar Halldórsson og Arnþór Helgason, kveða vísur Gísla m.a. Lækjarvísurnar. Sigurður Torfi Guðmundsson syngur nokkur lög við ljóð Gísla við undirleik Inga Heiðmars Jónssonar.

Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholtskirkna í Árnessýslu syngur við undirleik Inga Heiðmars, organista síns, sem einnig stýrir almennum söng. Kynnir er Ólafur Hallgrímsson.

Aðgangseyrir er1.500 krónur og frítt fyrir 12 ára og yngri.

(Athugið kort ekki tekin). Kaffi verður selt í hléi.

Rafræn bókun heimsókna á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi

Hægt er að panta tíma hjá læknum Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi með rafrænum hætti, en slíkt hefur ekki verið hægt að gera hjá opinberum heilbrigðisstofnunum hér á landi til þessa. Annars-staðar þarf að panta viðtal við lækni símleiðis.

Valbjörn Steingrímsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, segir kerfið einfalt í notkun, fleiri heilbrigðisstofnanir taki án efa upp slíkt bókunarkerfi á næstunni. Hann segist ekki efast um að fólk taki þessu vel enda þjóðin vel tæknivædd. Á heimasíðu stofnunarinnar er sömuleiðis hægt óska eftir endurnýjun lyfseðla. Og kostnaðurinn við kerfið er ekki mikill, eða rétt um eitthundrað þúsund krónur.

Snorri Björnsson, heilsugæslulæknir, segir þetta þýða það að heilsugæslan sé orðin opnari og auki aðgengi fólks. Þetta sé enn einn möguleiki til þess að nálgast lækna og í þessu felist aukin þjónusta.

Heimild:Rúv.is

Nýr opnunartími í sundlaugar í Skagafirði

1. júní síðastliðinn tók gildi lengri afgreiðslutími sundlauganna í Skagafirði.

 • Á Hofsósi er opið alla daga frá klukkan 9 á morgnana til kl. 21 á kvöldin.
 • Sundlaugin á Sauðárkróki er opin frá klukkan 6.50 til klukkan 21 á kvöldin og frá klukkan 10 – 17 um helgar.
 • Sundlaugin í Varmahlíð  opnar alla daga klukkan 10.30 .
 • Þar er opið virka daga til klukkan 21 og um helgar til klukkan 18.
 • Þá er minnt á sundlaugarnar á Sólgörðum í Fljótum, á Hólum og  Steinsstöðum sem allar eru opnar í sumar.

400 kg af rusli hreinsuð úr fjörunni

Vinnuskóli Skagafjarðar tók til starfa á mánudag en fyrsta verk unglinganna er að hreinsa rusl úr fjörunni við Borgarsand. Verkið sóttist vel og vóg dagsverkið 400 kíló.

Um 150 unglingar starfa við Vinnuskólann í sumar og 25 í átaksverkefninu V.I.T. sem er fyrir 16-18 ára ungmenni. Allir unglingar yngri en 18 ára sem hafa lögheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði og sóttu um starf, fá vinnu hjá Vinnuskólanum í sumar. Fjölmörg verkefni bíða unglinganna, hreinsun gatna og torga, sláttur í görðum auk hefðbundinna garðyrkjustarfa. Þá er hluti hópsins  að vinna við stofnanir sveitarfélagsins, íþróttamannvirki, leikskóla, sumar T.Í.M., golfvöllinn og nokkur fyrirtæki sem eru í samstarfi við Vinnuskólann um að fóstra og leiðbeina ungmennum í vinnu.

Opna KS mótið í golfi á Sauðárkróki

Dagsetning: 9. júní 2012, kl. 09:00

KS open – Texas Scramble

Texas Scramble forgjöf fundin með því að deila með 5 í forgjöf spilafélaga. Glæsileg verðlaun frá Kaupfélagi Skagfirðinga Gert er ráð fyrir því að ræst sé út af öllum teigum kl. 10:00 ef þátttaka leyfir. Keppendur eru beðnir um að vera mættir eigi síðar en 9:30 en þá verður dregið um hvað lið ræsa út af hvaða teig. Keppendur geta skráð sig saman í ráshópa á netinu eða hringt í skála. Vanti menn spilafélaga verður allt gert til þess að finna fyrir þá félaga.

Mótsstjórar Gunnar Sandholt og Guðni Kristjánsson

Kljásteinavefstóll að miðaldagerð í smíðum

Þann 31. maí hófst smíði miðaldavefstóls (vefstaðar) sem Byggðasafn Skagfirðinga vinnur að í samstarfi við Safnamiðstöð Hörðalandsfylkis í Noregi og Fornverkaskólann. Verkið er unnið fyrir styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra og Hólanefnd, sem gefur mestallt efni í stólinn. Trésmiðjan Ýr hýsir verkefnið á meðan á smíðunum stendur. Stóllinn verður settur upp í Auðunarstofu á Hólum, enda er samhljómur í byggingaraðferðum við smíði hússins og vefstólsins. Bæði standa þau fyrir norskan menningararf og tengsl við Noreg á miðöldum.

Byggðasafn Skagfirðinga hefur verið og verður í margskonar samstarfi við Hörðlendinga um varðveislu minjaarfs og -erfða, hvort sem það er að kanna og kenna hverfandi byggingahandverk eða önnur gömul handbrögð. Stefnt er að því að halda vefnaðarnáskeið í sumar þegar vefstólinn verður tilbúinn.

Útboð á endurbyggingu Skagafjarðarvegar hjá Vegagerðinni

Opnun tilboða 30. maí 2012. Endurbygging um 8,2 km Skagafjarðarvegar frá Svartá að Stekkjarholti, ásamt útlögn klæðingar.

Helstu magntölur eru:

Skeringar 8.100 m3
Fláafleygar 4.700 m3
Fylling 3.500 m3
Ræsi 85 m
Neðra burðarlag 13.200 m3
Efra burðarlag 9.900 m3
Tvöföld klæðing 53.900 m2
Frágangur fláa 65.700 m2

Skila skal 5 km af vegi með neðra lagi klæðingar fyrir 1. september 2012 og öllu verkinu fyrir 15. júlí 2013.

Bjóðandi Tilboð kr. Hlutfall Frávik þús.kr.
Skagfirskir verktakar ehf., Sauðárkróki 84.804.600 100,7 10.105
Áætlaður verktakakostnaður 84.198.000 100,0 9.498
G. Hjálmarsson hf., Akureyri 74.700.000 88,7 0

Netkerfi og tölvur ehf. deila íslenskri tónlist út á netið

Norðlenska fyrirtækið Netkerfi og tölvur ehf (www.netkerfi.is) deila nú út á netið ógrynni af tónlist, innlendri og erlendri í mp3 formi. Fari maður á slóðina www.netkerfi.is/log þá birtist þar mörg hundruð titlar af geisladiskum og einstökum lögum.

Má þarna meðal annars finna geisladisk með Geirmundi Valtýs sé eitthvað nefnt.  Hér hefur greinilega einhver opnað fyrir svokallað “share” og nú getur alþjóð sótt þessi lög, en slíkt er vitaskuld ekki leyfilegt samkvæmt lögum.

Já… Netkerfi og tölvur ehf.. Norðurlenskur valkostur í umsjón tölvukerfa.

Vilja opna Fjallavegi fyrr

Starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs segir að þurfi jafnmarga þjónustuaðila á hálendinu til að sinna tíu ferðamönnum og hundrað. Það þurfi samstillt átak margra eigi hálendisvegir að opna fyrr á sumrin.

Ferðaþjónustufólk á Norðurlandi hefur bent á að hægt sé að opna suma hálendisvegi miklu fyrr en gert er. Norðan Vatnajökuls eru sumir vegir sem ekki liggja um friðlönd með viðkvæmu lífríki orðnir auðir. Hægt væri að hleypa ferðafólki að hálendisperlum eins og Öskju og Kverkfjöllum. „Við erum mjög náttúrutengd og viljum láta náttúruna njóta vafans í öllum en  eins og núna er klárt að það má opna inn á hálendið, hálendið er tilbúið til að opna,“ segir Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi á Möðruvöllum

Fjöldi ferðafólks kemur hingað á þjónustusvæði ferðafélags Akureyrar í Dreka á leið í Ösku á sumri hverju. Skálarnir eru þó allajafna ekki opnaðir fyrr en eftir miðjan júní – enda er vegurinn lokaður
„Það þurfa margir aðilar að vera samstíga, ekki bara þjóðgarðurinn, ekki bara vegagerðin, heldur líka rekstraraðilar þjónustunnar eins og er hér bakvið mig, það þarf hreinlætisaðstöðu, það þarf að þrífa hana, það þarf að veita upplýsingar, það þarf að tryggja öryggi fólks. Fram hjá þessu verður ekkert litið og vegagerðin ein getur ekki sagt og ákveðið nú bara opnum við veginn hérna þvert á allt svona, það bara gengur ekki,“ segir Kári Kristjánsson, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðar, og bætir því við að tíu til fimmtán ferðamenn á dag þýði svipaðan mannafla og aðbúnað fyrir þessa ferðamenn eins og þeir væru hundrað og fimmtíu.

Æfingartafla Frjálsíþróttadeildar Tindastóls

Æfingatafla

Frjálsíþróttadeildar Tindastóls

Frjálsíþróttadeild Tindastóls hefur birt æfingatöflu sumarsins 2012.  Gildir hún frá 1. júní – 31. ágúst, birt með fyrirvara um breytingar, ef nauðsynlegar reynast.

Yfirþjálfari deildarinnar er sem fyrr Sigurður Arnar Björnsson, en aðrir þjálfarar eru Aron Björnsson, Vignir Gunnarsson og Ragndís Hilmarsdóttir.  Skipulagðar eru æfingar í flokkum 10-14 ára og 15 ára og eldri.

 

 

ÆFINGATAFLA
Frjálsíþróttadeildar  UMF Tindastóls
sumarið 2012
  Mánud.   Þriðjud.   Miðvikud.   Fimmtud.   Föstud.
 10-14 ára    10-14 ára  10-14 ára  
 Kl. 17-19    Kl. 17-19  Kl. 17-19  
 VG – RH    VG – RH  VG – RH  
 15 ára +  15 ára +  15 ára +  15 ára +  15 ára +
 Kl. 19-21  Kl. 19-21  Kl. 19-21  Kl. 19-21  Kl. 19-20
 SAB – AB  SAB – AB  SAB – AB  SAB – AB  SAB – AB
Þjálfarar:
Sigurður Arnar Björnsson:  Yfirþjálfari / Eldri flokkur
Aron Björnsson:  Eldri flokkur
Vignir Gunnarsson:  Yngri flokkur
Ragndís Hilmarsdóttir:  Yngri flokkur

 

 • Skráning:  Hjá þjálfurum á vellinum eða á netfanginu frjalsar@tindastoll.is.
 • Gjaldskrá:  10-14 ára kr. 2500 á mánuði, 15 ára og eldri kr. 3500 á mánuði.

Börnum sem ekki hafa æft frjálsíþróttir er velkomið að prófa nokkrar æfingar endurgjaldslaust.

Í samráði við yfirþjálfara geta 14 ára börn fengið að æfa með eldri flokki, ef þau vilja.  Deildin er ekki með æfingar fyrir börn yngri en 10 ára.

Tindastóll tapaði gegn ÍR

ÍRingar komu í heimsókn á Sauðárkrók í dag 2. júní. Tindastól gerði tvo mörk snemma í fyrri hálfleik og var staðan 2-0 fyrir heimamenn í hálfleik. Í síðari hálfleik gerðu hins vegar gestirnir 4 mörk og kláruðu leikinn 2-4.

Max Touloute skoraði fyrsta mark Tindastóls á 17. mínútu og Ben Everson það síðara nokkrum mínútum síðar.

Mörk ÍRinga komu á 20 mínútna kafla í síðari hálfleik en þau skoruðu : Nigel Quashie á 63. mínútu, Guðjón Gunnarsson, Davíð Einarsson og Elvar Páll Sigurðsson með lokamarkið á 85. mínútu.

Um Barokkhátíðina á Hólum

Barokkhátíð Barokksmiðju Hólastiftis verður haldin á Hólum í Hjaltadal í fjórða sinn
dagana 21.-24. júní 2012.

Dagskráin verður lífleg með tónlist, dansi, fræðslu, skemmtun, barokkmessu og
hátíðartónleikum. Hátíðin hefst með hádegistónleikum fimmtudaginn 21. júní og
lýkur með tónleikum sunnudaginn 24. júní kl. 14.
Á hátíðinni verður m.a. meistaranámskeið í söng og dansnámskeið undir leiðsögn
Ingibjargar Björnsdóttur listdansara þar sem kenndir verða dansar frá
barokktímabilinu. Fræðslufyrirlestra og tónleika halda m.a. Viljálmur Ingi
Sigurðarson, Sigurður Halldórsson og Hildigunnur Halldórsdóttir, Petri Arvo,
Q Consort auk annarra listamanna. Haldnir verða þrennir hádegistónleikar í umsjón
þekktra tónlistamanna auk hátíðartónleika og söngstunda.

Dansnámskeiðið er ókeypis og öllum er velkomið að fylgjast með söngnámskeiðinu.
Aðgangur er einnig ókeypis að öllum tónleikum og fyrirlestrum á hátíðinni.
Vinsamlegast skráið þátttöku í netfanginu barokksmidjan@holar.is eða guttikristin@simnet.is.

Gistingu má panta hjá Ferðaþjónustunni á Hólum í síma 453-6333
Allir eru velkomnir!
Barokkmessa verður haldin sunnudaginn 24. júní kl. 11 í Hóladómkirkju.
Lokatónleikar Barokkhátíðarinnar 2012 verða haldnir sunnudaginn 24. júní kl. 14 í
Hóladómkirkju. Efnisskráin er blanda af fyrir fram æfðu efni og afrakstri
hátíðarinnar.
Aðgangur ókeypis.

Söngnámskeið í barokksöng verður á hátíðinni.

Ingibjörg Björnsdóttir verður með námskeið í barokkdansi, opið öllum.
Sigurður Halldórsson og Hildugunnur Halldórsdóttir halda utan um
hljóðfæraleikara hátíðarinnar og setja saman dagskrá lokatónleikanna.
Á Hólum í Hjaltadal er rekin ferðaþjónusta með fjölbreyttu gistiúrvali.

Gestir geta leigt íbúðir, stök herbergi eða lítil einbýlishús eða parhús. Einnig er frábært tjaldsvæði í skóginum norðan við skólann. Panta má gistingu eða tjaldstæði hjá Ferðaþjónustunni á Hólum í síma 455-6333 eða með því að senda póst á netfangið booking@holar.is.

Einnig er hægt að hafa samband við Kristínu Höllu í gsm: 868-6851
Tengiliðir við hátíðina eru: Kristín Halla Bergsdóttir viðburðastjórnandi,
netfang: guttikristin@simnet.is og gsm. 868-6851 og svo netfang Barokksmiðjunnar: barokksmidjan@holar.is

Heimild veitt til að stugga við seli í ósi Blöndu

Bæjarráð Blönduósbæjar hefur veitt Vigni Björnssyni heimild til að stugga við sel í ósi Blöndu með skotvopni. Það var veiðifélag Blöndu og Svartár sem óskaði eftir því að leyfið yrði veitt en algengt er á hverju sumri að selir gangi upp í Blöndu á eftir feitum og gómsætum löxum.

Í sumum tilfellum hafa selir gengið upp á Breiðina og í Damminn, sem eru fengsælustu veiðistaðirnir í Blöndu.

Í samþykkt bæjarráðs kemur fram að áhersla er lögð á að aðgerð sem þessi valdi bæjarbúum og ferðamönnum ekki ónæði.

Heimild: Húni.is

Árleg kvennareið frá Blönduósi 9. júní

Hin árlega kvennareið verður farin laugardaginn 9. júní næstkomandi kl. 15:00. Farið verður frá Reiðhöllinni á Blönduósi. Nefndin hefur valið góða og skemmtilega reiðleið sem endar svo í Reiðhöllinni í grilli og gríni. Gaman væri ef konur skreyttu sig og hesta sína, frjálst þema.

Skráning þarf að berast fyrir þriðjudaginn 5. júní svo að við getum gert ráðstafanir varðandi matinn.

Konur! Fjölmennum nú og eigum góðan dag saman. Skráning og nánari upplýsingar hjá Guðrúnu í síma 894-7543, Gullu í síma 848-9447, Eddu í síma 660-3253 og Evu í síma 844-5624.

Golfkennsla fyrir fullorðna hjá Golfklúbbi Sauðárkróks

Thomas Olsen golfkennari mun bjóða upp á kennslu fyrir einstaklinga sem hópa í sumar á Sauðárkróki. Verð fyrir hvern einkatíma er 3000 krónur, en einnig er hægt að kaupa fleiri tíma með afslætti.

Byrjendanámskeið hefst þriðjudaginn 5. júní kl. 20. Um hópkennslu er að ræða, þar sem farið verður yfir helstu atriðin í golfíþróttinni. Byrjendanámskeið er nauðsynlegur undanfari þess að spila golf á vellinum, enda er þar einnig farið yfir reglur og umgengni um völlinn. Verð fyrir byrjendanámskeið er 6000 krónur og er gert ráð fyrir að námskeiðið sé í heild 10 klukkustundir og skiptist á nokkra daga.

Þá verður boðið upp á þá nýbreytni í sumar að bjóða upp á stutt hópanámskeið í einstökum þáttum s.s. púttum, að slá upp úr glompu o.s. frv. Námskeiðin verða auglýst betur síðar, en þau eru ætluð þeim sem eru komin nokkuð á veg í íþróttinni.

Hægt er að fá nánari upplýsingar hjá Thomas í síma 691 5075 eða senda fyrirspurnir í netfangið unnar.ingvarsson@gmail.com