All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Jólaviðtal – Erla Gunnlaugsdóttir

Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Erla er fædd og uppalin á Siglufirði og hefur starfað fyrir Grunnskóla Siglufjarðar og Grunnskóla Fjallabyggðar í 25 ár, lengst af sem kennari og síðar verkefnastjóri í sérkennslu. Erla var ráðin skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar úr hópi þriggja umsækjenda sl. sumar. Erla lauk B.Ed-prófi í grunnskólakennarafræði árið 2002 og er með framhaldsmenntun í sérkennslufræðum.

Erla skipaði 16. sæti á lista Sjálfsstæðismanna í sveitarstjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2006 og 5. sætið í bæjarstjórnarkosningum á Siglufirði árið 2002.  Erla hefur m.a. verið stjórnarmaður í Kvæðamannafélaginu Rímu og varamaður í stjórn Stemmu – Landssamtökum kvæðamanna. Hún var einnig eigandinn af fyrirtæki í hópferðaakstri milli Sauðárkróks og Siglufjarðar sem komið var á eftir að Íslandsflug hætti að fljúga til Siglufjarðar. Þá voru þau hjónin eigendur af veitingahúsinu Torginu í 8 ár.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið

 Hvað finnst þér best við jólin? 

Allt er gott við jólin. Aðventan er minn uppáhalds tími. Allur jólaundirbúningur. Jólaljós, skreytingar, bakstur og sérlegt áhugamál mitt, jólaþorp sem ég leika mér við að setja upp og að fá barnabörnin í heimsókn sem spá mikið í þetta jólaþorp hennar ömmu sinnar. Að njóta tímans og undirbúningsins með fjölskyldunni.   

 Hvað kemur þér í jólaskap?

Falleg jólatónlist, jólasnjór, Biscotti og góður kaffibolli í skálanum mínum.  

 Hvað borðar þú á jólunum?

Kalkún, villigæsir, ris al a mande sem ég geri alltaf og bara allskyns góðgæti.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Ég á mér uppáhalds jóladisk sem ég dreg gjarnan fram í desember,  Kenny G jóladiskur svo eru bara til svo mörg falleg jólalög.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? 

Já, við fjölskyldan förum yfirleitt í kirkju á aðfangadag og við förum í kirkjugarðana með kerti.

Hvernig jólatré ertu með?

Hef verið með lifandi tré til margra ára.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Get ekki valið neina sérstaka úr.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég versla jólagjafirnar að mestu í heimabyggð þessi jólin en eitthvað versla ég nú á Akureyri eða Reykjavík, það sem ég fæ ekki hér heima.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já stundum, en hef ekki farið á tónleika þessa aðventuna.  

Ferðu á brennu um áramótin?

Geri það afar sjaldan – er ekki mikið fyrir brennur og flugelda.

Mynd úr einkasafni Erlu.

Jólatónleikar Sölku í Ólafsfjarðarkirkju

Salka kvennakór heldur tónleika í Ólafsfjarðarkirkju í dag, 9. desember klukkan 20:30 og miðaverðið verður 2000 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri. Stjórnandi kórsins er Mathias Spoerry.

Kórinn heldur einnig tónleika í Dalvíkurkirkju klukkan 14:30. Að tónleikunum loknum á Dalvík verður boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð fyrir gesti í safnaðarheimilinu.

Miðaverð á Dalvík 3000 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri.

Jólaviðtal – Elsa Guðrún Jónsdóttir

Elsa Guðrún Jónsdóttir mætti í jólaviðtal til okkar í desember.  Elsa Guðrún starfar sem útibússtjóri Arion banka í Fjallabyggð og er búsett í Ólafsfirði.  Elsa Guðrún er 32 ára viðskiptalögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst, en hún er einnig með ML gráðu frá sama skóla ( 120 ECTS eininga nám í viðskiptalögfræði með 30 eininga meistararitgerð). Auk þess er hún vottaður fjármálaráðgjafi. Hún starfaði áður sem fjármálaráðgjafi hjá Arion banka í Fjallabyggð frá árinu 2015. Þar á undan starfaði hún meðal annars hjá Creditinfo.

Elsa Guðrún er einnig margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og fyrr á árinu tók hún fyrst kvenna, þátt fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á Ólympíuleikunum.

Gönguskíði hefur verið stór hluti af lífi hennar, en Elsa byrjaði 5 ára og þá var ekki aftur snúið. Hún tók þátt á öllum göngumótum sem í boði voru.  Andrésar- og unglingameistari öll árin og í fullorðinsflokki einnig margfaldur Íslands- og bikarmeistari í skíðagöngu.  Þegar Elsa var 17 ára lék hún í meistaraflokki Leifurs/Dalvík í 1. deild kvenna B. Hún lék 10 leiki og skoraði 4 mörk.

Elsa var í landsliðinu um tvítugt og bjó þá í Noregi og reyndi við Ólympíuleikana árið 2006 en náði ekki því markmiði. Hún hélt áfram á Íslandi eftir það og var áfram ósigrandi, eignaðist börn og fór svo í háskóla og tók þá 4 ára pásu frá skíðunum. Hún ákvað svo árið 2015 að byrja æfa og leika sér á skíðum og var í framhaldinu boðið pláss í B-landsliði í skíðagöngu og tók þátt á HM í Finnlandi árið 2017, og var þar með fyrsta konan til að ná þeim árangri. Elsa sigraði þar undankeppnina og fékk þar með þátttökurétt í öllum greinum á HM. Þá komst hún upp í A landsliðið og náði sínum stærsta árangri, þegar hún komst á Ólympíuleikana í Suður-Kóreu árið 2018 og var einnig fyrsta konan til að ná því.

Jólaviðtal – Elsa Guðrún Jónsdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Að njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að baka laufabrauð með stórfjölskyldunni og hlusta á góða jólatónlist.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er alveg föst hefð að hafa hamborgarahrygg, brúnaðar kartöflur, gular baunir, og ekki má gleyma waldorf salatinu.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

 Dansaðu vindur- Eivör

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

 Fer stundum í kirkju,en ég reyni að halda í þá hefð að fara kirkjugarðinn á aðfangadag.

Hvernig jólatré ertu með? 

Grænt gervitré

 Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap? 

Love actually og Home alone með börnunum.

 Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Ég nýti mér tæknina og versla mest megnis á netinu og svo á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ? 

Já ég fer þetta árið á “Heima um jólin” í Hofi, er mjög spennt.

 Ferðu á brennu um áramótin?

 Yfirleitt hef ég farið, en stundum hef ég horft á hana heimanfrá mér.

 

Mynd: Úr einkasafni Elsu, aðsend.

Vilja reisa sólstofu og gróðurhús við Kaffi Klöru

Eigendur Kaffi Klöru í Ólafsfirði hyggjast reisa sólstofu meðfram vesturhlið Strandgötu 2 og gróðurhús á lóðinni í tengslum við verkefnið Matur er manns gaman.

Send hefur verið fyrirspurn til skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar sem hefur tekið jákvætt í erindið.

Eigendur Kaffi Klöru hlutu styrk í vor frá Velferðarráðuneytinu til að gera viðskiptaáætlun vegna verkefnisins Matur er manns gaman.

KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA, laugardaginn 1. desember sl. og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þetta var í 85. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust tæplega 140 umsóknir.  Úthlutað var rúmlega 15,6 milljónum króna til 64 aðila.
Styrkúthlutun tók til þriggja flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefni, Rannsókna- og menntastyrkir og Íþrótta- og æskulýðsstyrkir.

Í Fjallabyggð hlaut Leikfélag Fjallabyggðar styrk til að ráða til sín leikstjóra fyrir leikárið 2019. Skíðafélag Ólafsfjarðar og Hestamannafélagið Gnýfari fengu einnig styrk.

Í flokknum Menningar- og samfélagsverkefni hlutu 19 aðilar styrki, rúmlega 2,9 milljónir króna.

Blásarasveit Akureyrar- Til að fara á stórhátíð evrópska skólahljómsveita í Gautaborg.
Hrútavinafélag Raufarhafnar- Vegna hrútadaga.
Alexander Smári Kristjánsson Edelstein- Vegna náms í píanóleik og tónleikaferða.
Vilhjálmur B. Bragason- Til að halda vinnubúðir fyrir upprennandi tónskáld og textahöfunda.
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju- Fjórir tónleikar í Akureyrarkirkju sumarið 2019.
AkureyrarAkademían- Til að halda fyrirlestra á öldrunarheimilum.
Kvennakór Akureyrar- Til að taka þátt í kóramóti á Ítalíu sumarið 2019.
Rauði krossinn við Eyjafjörð- Til reksturs Ungfrú Ragnheiðar, sem er verkefni er aðstoðar einstaklinga í vímuefnavanda.
Þórduna nemendafélag VMA, Leikfélag VMA Til að setja upp söngleikinn Bugsy Malone í Hofi.
Þroskahjálp á Norðurlandi Eystra- Til útgáfu bókar um sögu málefna þroskaheftra og fatlaðra á Norðurlandi.
Leikfélag Hörgdæla- Til kaupa á ljósabúnaði.
Markus Meckl- Til að halda ritlistarsamkeppni fyrir börn af erlendum uppruna á Akureyri.
Hollvinafélag Húna II- Til endurbóta á bátnum.
Iðunn Andradóttir- Vegna náms í Ballettakademien í Stokkhólmi.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri- Vegna verkefninsins Orðaleiks, sem styður íslenskunám barna af erlendum uppruna.
Karlakór Eyjafjarðar- Til að halda tónlistarviðburð til minningar um Eydalsbræður.
Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri- Til að halda Vísindaskóla unga fólksins.
Þóra Kristín Gunnarsdóttir- Vegna náms í klassískum píanóleik í Sviss.
Leikfélag Fjallabyggðar- Til að ráða til sín leikstjóra fyrir leikárið 2019.

Í flokknum Íþrótta- og æskulýðsmál hlutu 20 aðilar styrki, samtals að fjárhæð 7,5 milljónir króna.

KA aðalstjórn
Þór aðalstjórn
Skíðafélag Akureyrar
Völsungur
Hestamannafélagið Léttir
Ungmennafélag Svarfdæla Dalvík
Akureyri handboltafélag
Skíðafélag Dalvíkur
Íþróttafélagið Magni
Þór KA kvennaknattspyrna
Sundfélagið Óðinn
Skautafélag Akureyrar
Hestamannafélagið Funi
Ungmennafélagið Smárinn, Hörgársveit
Hestamannafélagið Gnýfari, Ólafsfirði
Karatefélag Akureyrar
Skíðafélag Ólafsfjarðar
Héraðssamband Þingeyinga
Íþóttafélagið Akur
KFUM & KFUK á Akureyri

Í flokknum Ungir afreksmenn, hlutu 19 aðilar styrk hver að upphæð kr 150.000.-

Alexander Heiðarsson, júdó
Kara Gautadóttir, kraftlyftingar
Silvía Rán Björgvinsdóttir, íshokkí
Berenka Bernat, júdó
Glódís Edda Þuríðardóttir, knattspyrna
Aron Birkir Stefánsson, knattspyrna
Hulda Björg Hannesdóttir, knattspyrna
Andrea Ýr Ásmundsdóttir, golf
Ísabella Sól Tryggvadóttir, siglingar
Baldur Vilhelmsson, snjóbretti
Sigþór Gunnar Jónsson, handbolti
Unnur Árnadóttir, blak
Hafþór Vignisson, handbolti
Ólöf Marín Hlynsdóttir, handbolti
Guðni Berg Einarsson, skíði
Lárus Ingi Antonsson, golf
Arndís Atladóttir, sund
Fannar Logi Jóhannesson, frjálsíþróttir
Védís Elva Þorsteinsdóttir, boccia

 

Sex verkefni hlutu styrk í flokknum Styrkir til Rannsókna- og menntamála, samtals 1,9 milljónir króna.

Rannsóknamiðstöð ferðamála – Til að gera ferðahegðunar- og útgjaldakönnun meðal farþega skemmtiferðaskipa.
Verkmenntaskólinn á Akureyri, starfsbraut- Til áframhaldandi þróunar starfsbrautarinnar.
Námsbraut í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri – Til að halda ráðstefnuna Löggæsla og samfélagið.
Fræðafélag um forystufé – Til að gera athugun á næmni forystufjár gegn riðu.
Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir – Til að kortleggja og setja í samhengi áhrif tilkomu samfélagsmiðla á stjórnmál.
Skafti Ingimarsson – Til að rannsaka ævi og störf Einars Olgeirssonar.

Jólaviðtal – Linda Lea Bogadóttir

Linda Lea Bogadóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Linda Lea býr á Siglufirði og starfar sem markaðs- og menningarfulltrúi hjá Fjallabyggð. Linda hóf störf fyrir sveitarfélagið um mitt ár 2016 og var valin úr hópi 17 umsækjenda um starfið.  Linda Lea er viðskiptafræðingur að mennt af stjórnunarbraut frá Háskólanum á Akureyri hefur lokið MA námi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði meðal annars sem sérfræðingur hjá Landsneti í níu ár á sviði viðskiptatengsla, markaðsmála og kerfisstjórnar. Linda var í nokkur ár framkvæmdastjóri dægurlagakeppnis Kvenfélags Sauðárkróks, en þar bjó hún í nokkur ár.

Linda æfði blak með HK og var Íslandsmeistari í 4. flokki kvenna árið 1981. Hún fermdist í Kópavogskirkju árið 1982.  Linda er uppalin í Kópavogi en á ættir að rekja til Siglufjarðar. Hún hefur einnig búið í Hafnarfirði, Skagafirði, á Akureyri og í Danmörku.

Nokkrir punktar um Lindu

Linda hélt úti bloggsíðu í nokkur ár, lindalea.blog.is, og rötuðu pistlar hennar stundum á vef mbl.is. og víðar. Linda er annar þýðenda bókarinnar Brunch á 100 vegu frá árinu 2000.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið – Linda Lea Bogadóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með börnunum og fjölskyldunni, friðurinn og kærleikurinn sem umvefur alla.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Desember allur og undirbúningurinn heima og svo snjórinn og jólaljósin. Kemst í svaka jólafíling þegar ég byrja að skreyta heima hjá mér.

Hvað borðar þú á jólunum?

Alltaf hamborgahrygg á aðfangadag með öllu tilheyrandi. Yfirleitt kalkún á jóladag og afganga og hangikjöt á annan í jólum.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Á svo mörg uppáhalds. En ætli It´s beginning to look a lot like Chrismas með Michael Bublé og Dansaðu vindur með Eivöru séu ekki þau sem koma mér helst í jólaskap.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Já, finnst jólin ekki koma nema ég fari í messu kl. 18:00 á aðfangadag. Já ég vitja þeirra sem hvíla í kirkjugarðinum yfir jólin. Reyni helst að fara á aðfangadag en ef aðstæður leyfa það ekki þá fer ég milli jóla og nýárs. Eftir að ég flutti til Siglufjarðar hef ég ekki farið þó svo að ég eigi langafa og langömmu þar.

Hvernig jólatré ertu með?

Síðustu jól vorum við með lifandi tré en ég er annars alltaf með gervi tré. Það var mjög erfið ákvörðun að skipta en ég prófaði það fyrir 8 árum og sé ekki eftir því í dag.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Ó já – The Holliday með Kate Winset og Cameron Diaz og allar jólateikimyndirnar með yngstu dótturinni.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Þetta árið að mestu í Reykjavík og á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já, alltaf á aðventu. Ég sæki tónleika eins og ég get hér heima og á miða á Heima um Jólin á Akureyri núna.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já hef reynt að fara en það er samt ekki fastur liður hjá mér.

Mynd úr einkasafni Lindu.

 

Fjölmenni á útgáfuhófi Síldarminjasafnsins

Fyrr í vikunni kom fyrsta sending af nýrri bók Síldarminjasafnsins til Siglufjarðar.  Var talsvert verk að koma bókunum inn á safnið, enda vógu þær 3.5 tonn á vörubrettinu. Forpantanir voru einnig sendar með pósti og ættu að berast næstu daga. Í kvöld var svo samkoma í Gránu þar sem útgáfuhóf var haldið. Lesnir voru valdir kaflar úr bókinni og einnig var hún seld á staðnum. Bókin verður einnig til sölu í Eymundsson bókabúðunum.

.

 

Rótarýklúbburinn kveikti á krossum og jólatrénu

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur kveikt á jólatrénu sem klúbburinn setti upp í kirkjugarðinum í Ólafsfirði. Samhliða var svo kveikt á leiðiskrossunum sem klúbburinn hefur einnig umsjón með.
Þetta er hátíðlega stund sem fjöldi bæjarbúa taka þátt í.  Ave Kara settur forseti klúbbsins og stjórnandi kirkjukórs Ólafsfjarðar setti athöfnina og því næst söng kirkjukórinn. Sóknarprestuirnn, séra Sigríður Munda flutti stutta hugvekju og í framhaldinu var lesið úr ritningunni.

Það voru félagar í jólatrésnefnd Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar sem söguðu niður jólatré í Ólafsfirði og settu á það ljósaséríu, áður en því var komið fyrir.

Myndir: Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar

 

Anna Kristjana er Ungskáld Akureyrar 2018

Fyrr í dag var tilkynnt um úrslit í ritlistarsamkeppninni Ungskáld 2018 við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu á Akureyri. Ungu fólki á aldrinum 16-25 ára á Eyþingssvæðinu gafst kostur á að senda inn texta í keppnina og hlutu þrjú bestu verkin peningarverðlaun.  Alls bárust 82 verk í keppnina sem er tvöfalt meira en í fyrra. Engar hömlur voru settar á hvers kyns textum væri skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurftu þó að vera á íslensku.

Niðurstaða dómnefndar, sem í sátu Hrönn Björgvinsdóttir bókavörður á Amtsbókasafninu, Kristín Árnadóttir fyrrverandi íslenskukennari við VMA og Þórarinn Torfason bókmenntafræðingur og kennari við Oddeyrarskóla, var eftirfarandi: Þriðja besta verkið var valið “Dagur á veginum” eftir Söndru Marín Kristínardóttur, í öðru sæti var “Tækifærin” eftir Önnu Kristjönu Helgadóttir og svo skemmtilega vildi til að ljóðið “Án titils” var valið í fyrsta sæti en það var einnig eftir Önnu Kristjönu.

Við upphaf athafnarinnar í dag fluttu systurnar Sólrún Svava og Sunneva Kjartansdætur lagið Schottis från Haverö eftir Duo Systrami og síðan las Tinna Sif söguna “Dagur á veginum” eftir systur sína Söndru Marín og Anna Kristjana las sín verk. Loks var boðið upp á kakó og smákökur.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.  Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á landinu.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtsbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

 

Á myndinni eru frá vinstri: Kristín Árnadóttir, Hrönn Björgvinsdóttir, Tinna Sif Kristínardóttir, Anna Kristjana Helgadóttir og Þórarinn Torfason.

Aðsend fréttatilkynning.

Jólastemning í Arion banka í Fjallabyggð

Það verður jólastemning í Arion banka í Fjallabyggð, föstudaginn 7. desember. Íbúar Fjallabyggðar eru boðnir velkomnir í útibúið á Siglufirði milli kl. 13:00-15:00. Jólasveinninn mætir í hús með gjafir handa börnunum og hægt verður að fá mynd af börnunum með sveinka. Boðið verður upp á rjúkandi jóladrykk og piparkökur.

Húsnæði bankans í Ólafsfirði verður einnig opið föstudaginn 7. desember kl. 20:00-22:00 í tilefni jólakvölds í miðbæ Ólafsfjarðar.

Jólastemning í Arion banka í Fjallabyggð

Það verður jólastemning í Arion banka í Fjallabyggð, föstudaginn 7. desember. Íbúar Fjallabyggðar eru boðnir velkomnir í útibúið á Siglufirði milli kl. 13:00-15:00. Jólasveinninn mætir í hús með gjafir handa börnunum og hægt verður að fá mynd af börnunum með sveinka. Boðið verður upp á rjúkandi jóladrykk og piparkökur.

Húsnæði bankans í Ólafsfirði verður einnig opið föstudaginn 7. desember kl. 20:00-22:00 í tilefni jólakvölds í miðbæ Ólafsfjarðar.

Lista- og menningarganga í Ólafsfirði

Lista- og menningarganga verður í Ólafsfirði, föstudaginn 7. desember frá kl. 18:30 til 19:30.  Gangan hefst við jólatréð við Menningarhúsið Tjarnarborg. Þá verður miðbærinn lokaður fyrir umferð ökutækja og hluti Aðalgötunar gerður af göngugötu. Ýmis konar varningur verður til sölu í jólahúsunum. Tónlistarfólk kemur fram á svæðinu og einnig verður lifandi jólatónlist í Tjarnarborg eftir kl. 21:30.

Dagskrá: 

Kl. 18:30 Listhús Artspace – Sýningaropnun Flóðljós
Kl 19:00 Pálshús – Jólasveinasafn Egils Sigvaldasonar
Kl: 19:15 Kaffi Klara – Sýningin Land of Vertigo
Kl. 19:30 Jólabærinn Ólafsfjörður, hið árlega jólakvöld í miðbæ Ólafsfjarðar

Bjarney Lea Guðmundsdóttir mun leiða gönguna. Allir hjartanlega velkomnir.

Jólaviðtal – Bylgja Hafþórsdóttir

Við fengum Bylgju Hafþórsdóttur í stutt jólaviðtal núna í desember. Bylgja vinnur sem þjónustufulltrúi á Bókasafni Fjallabyggðar og er tvíburasystir Hrannar, sem vinnur einnig á Bókasafninu.  Bylgja er fædd og uppalin á Siglufirði, fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1978 ásamt systur sinni. Bylgja fluttist svo frá Siglufirði og stundaði nám Verslunarskóla Íslands og síðar Verslunarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún bjó meðal annars í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit og einnig í Ólafsfirði og á Akureyri. Helstu áhugamál hennar eru lestur góðra bók, dýr og útivera.

Bylgja skipaði 7. sæti H-listans í Fjallabyggð í síðustu sveitastjórnarkosningum. Bylgja kallar ekki allt ömmu sína en hún missti húsið sitt úr myglusveppi fyrir um 10 árum í Hvalfjarðarsveit. Hún býr núna í gamla Gagganum á Siglufirði á Hlíðarvegi en það húsnæði hefur verið uppgert á glæsilegan máta.

Öll jólaviðtölin má lesa hér.

 

Jólaviðtalið – Bylgja Hafþórsdóttir

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með fjölskyldunni og gleðin í augum barnabarnanna. 

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að baka smákökur,  gera laufabrauð með stórfjölskyldunni og skreyta í kringum mig.

Hvað borðar þú á jólunum?

Ég borða jólagraut, hamborgarhrygg á aðfangadag. Hangikjöt og tilheyrandi í hádeginu á jóladag,  á náttfötunum með öllu liðinu mínu.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Eitt lítið grenitré í flutningi frænda míns, Ívars Helgasonar.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Nei, hvorugt.

Hvernig jólatré ertu með?

Oftast með lifandi en eftir að ég kom aftur á Sigló þá var skipt yfir í gervitré sökum fyrirhafnarinnar við að nálgast lifandi tré hér.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Já, Polar Express og svo jólaþætti The Big Bang Theory.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Á öllum stöðunum. Spara alltaf nokkrar til jólakvölds verslananna hér í Fjallabyggð. Finnst það svo mikil stemmning.

Ferðu á jólatónleika ?

Ekki þetta árið.

Ferðu á brennu um áramótin?

Ég horfi á brennuna og flugeldasýningunna úr lúxussæti heima hjá Aroni syni mínum og hans fjölskyldu sem búa í Suðurgötu 75.

 

 

 

Afreks íþróttafólk styrkt í Dalvíkurbyggð

Íþrótta- og æskulýðsráð Dalvíkurbyggðar hefur tekið fyrir umsóknir til afreks- og styrktarsjóð vegna ársins 2018.  Styrkirnir verða afhentir á hátíðarfundi ráðsins 17. janúar 2019.

Þeir sem hljóta styrk eru:

a) Harpa Hrönn Sigurðardóttir, kr. 75.000.-

b) Rebekka Lind Aðalsteinsdóttir, kr. 30.000.-

c) Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, kr. 30.000.-

d) Hjörleifur H Sveinbjarnarson, kr. 30.000.-

e) Amalía Nanna Júlíusdóttir, kr. 30.000.-

f) Arnór Snær Guðmundsson, kr. 75.000.-

g) Agnes Fjóla Flosadóttir,  kr. 30.000.-

h) Gunnlaugur Rafn Ingvarsson, kr. 75.000.-

i) Svavar Örn Hreiðarsson, kr. 30.000.-

j) Guðni Berg Einarsson, kr. 75.000.-

k) Ingvi Örn Friðriksson, kr. 150.000.-

l) Amanda Guðrún Bjarnadóttir, kr. 150.000.-

m) Viktor Hugi Júlíusson, kr. 75.000.-

n) Skíðafélag Dalvíkur – Allir læra skíði, kr. 100.000.-

o) Skíðafélag Dalvíkur – Snjór um víða veröld, kr. 45.000.-

p) Hestamannafélagið Hringur, kr. 250.000.-

r) Knattspyrnudeild Dalvík/Reynir, kr. 250.000.-

Jólaviðtal – Hrönn Hafþórsdóttir

Jólaviðtalið var nýr liður á síðunni í fyrra, og nú verður þráðurinn tekinn upp aftur. Ritstjóri síðunnar hafið samband við nokkra einstaklinga í Fjallabyggð í desember og spurði þá spurninga. Næstu daga og vikur munu þessi viðtöl birtast hér á síðunni. Öll jólaviðtölin má lesa hér.

Fyrsta jólaviðtalið er við hana Hrönn Hafþórsdóttur sem starfar hjá Fjallabyggð sem forstöðumaður Bóka- og héraðsskjalasafns. Hrönn er tvíburi og starfar systir hennar einnig hjá Fjallabyggð, en við birtum síðar viðtal við hana. Hrönn hefur starfað hjá Fjallabyggð síðan 2014. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði, fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1978 og flutti að heiman 21 árs en rúmum 30 árum síðar flutti hún aftur til Fjallabyggðar. Hún bjó m.a. í Hafnarfirði og starfaði hjá Bókasafni Hafnarfjarðar og var þar deildarstjóri upplýsingaþjónustu og hafði umsjón með bókhaldi. Hrönn stundaði nám við Flensborgarskólann og síðar við Háskóla Íslands.

Jólaviðtalið – Hrönn Hafþórsdóttir

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Rólegheitin og maturinn.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Falleg jólalög.

Hvað borðar þú á jólunum?

Eftir að börnin urðu fullorðin og þorandi að breyta til – Sjávarréttasúpu a la ég, Nautalund Wellington og einhvern góðan eftirrétt.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Öll jólalög Baggalúts ef ég er að jólastússast en Heims um ból ef hátíðleikinn á að ráða.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Já, ég fer í kirkju en eftir að ég flutti norður úr Hafnarfirðinum hef ég ekki farið í kirkjugarðinn á jólunum.

Hvernig jólatré ertu með?

Lifandi tré keypt hjá henni Báru í Býflugan og blómið á Akureyri.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Já, alltaf, Trölli stal jólunum.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Öllum þessum stöðum. 😊

Ferðu á jólatónleika ?

Já, hef reynt það, tilheyrir því að komast í jólaskapið.

Ferðu á brennu um áramótin?

Nei ekki eftir að börnin urðu stór.

Lista- og menningarganga á Siglufirði

Fjallabyggð býður uppá Lista- og menningargöngu um Siglufjörð fimmtudaginn 6. desember nk. frá kl. 18:00 til 20:00.  Gangan hefst á Ráðhústorginu kl. 18:00.

Vakin er athygli á að kl. 17:00 mun starfsfólk Síldarminjasafnsins kynna nýútgefna bók safnsins, Siglufjörður. Ljósmyndir/Photographs 1872-2018 í Gránu. Því er tilvalið fyrir áhugasama að byrja í Gránu og sameinast svo listagöngunni kl. 18:00 á Ráðhústorginu.

Þetta sama kvöld verður árlegt jólakvöld á Siglufirði þar sem verslanir verða með opið frá kl. 19:00 – 22:00.

Kíkt verður í heimsókn til eftirtalinna aðila og gert ráð fyrir að hver heimsókn taki um 10 mínútur.

Dagskrá:

18:00-18:10        Ljóðasetur Íslands – Opið hús
18:15-18:25        Alþýðuhúsið – Kompan, Sýningaropnun jólasýning Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur
18:30-18:40        Fríða – Súkkulaðikaffihús – Opið hús
18:50-19:00        Gallerí Imba – Fossvegi 33
19:10-19:20        Ljósmyndasögusafnið
19:25-19:35        Iðjan Dagvist – Opið hús
19:40-19:50        Vinnustofa Abbýjar – Jólamarkaður opið hús
19:55-20:05        Söluturninn í Ytrahúsi: Listsýning Arnars Herbertssonar
20:05-20:15        Sjálfsbjörg Siglufirði – Opið hús

Kl. 19:00-22:00 Jólakvöld á Siglufirði – lengri opnunartími verslana víðs vegar um bæinn.

Kveikt á jólatrénu á Siglufirði

Ljósin verða tendruð á jólatrénu á Ráðhústorginu á Siglufirði, þriðjudaginn 4. desember kl. 17:00. Athöfnin átti að vera um helgina en var frestað vegna veðurs.

Dagskrá: 

 • Hátíðarávarp; Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir
 • Börn úr leikskólanum Leikskálum syngja
 • Barn úr leikskólanum Leikskálum tendrar ljósin á trénu
 • Hó, hó, hó! Jólasveinarnir koma í í heimsókn með eitthvað gott í pokanum
 • Dansað kringum jólatréð með jólasveinunum

Skíðasvæðið á Dalvík opnar

Umsjónarmenn Skíðasvæðisins í Böggvistaðafjalli hafa tilkynnt að fyrsti opnunardagur verði þriðjudagurinn 4. desember. Fyrstu dagana verður lyftan aðeins opin upp að þriðja staur og hægt verður að skíða á barnasvæðinu. Næstu daga verður svo snjóframleiðsla á svæðinu og mun í framhaldinu opna fleiri brekkur þegar aðstæður leyfa. Nánari upplýsingar má finna á skidalvik.is.

Norðurlandsmótið í knattspyrnu hefst um næstu helgi

Norðurlandsmótið í knattspyrnu hefst um næstu helgi og verður leikið í A og B deild, mótið nefnist einnig Kjarnafæðismótið.  KF, Dalvík/Reynir, Tindastóll, Þór-2, KA-3 og Höttur leika í B-deild. Opnunarleikur B-deildar er 8. desember, en þá fer fram leikur Dalvíkur/Reynis og  Þórs-2. Leikirnir fara fram í Boganum á Akureyri.  Mótið er ekki skipulagt af KSÍ eða FIFA og því mega liðin nota leikmenn sem eru á reynslu hjá félögunum í þessum leikjum.

Fyrsti leikur KF er miðvikudaginn 12. des gegn KA-3. Fyrsti leikur Tindastóls verður 5. janúar 2019 gegn Hetti.

Í A-deild leika KA, KA-2, Þór, Völsungur, Magni og Leiknir F. Opnunarleikur A-deildar verður 8. desember en þá mætast Magni og KA-2.

Greint verður frá helstu úrslitum leikja hér á síðunni.

Aðalheiður sýnir í Kompunni – Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Fimmtudaginn 6. desember kl. 16.00 -22.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir málverkasýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Verkin eru unnin í vinnustofudvöl í Svorbæk í Danmörku á haustdögum og bera yfirskriftina frjó.  Sýningin er opin út næstu helgi og virka daga kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti eða til 21. desember.

Ár hvert hefur skapast sú hefð að Aðalheiður setur upp nýjustu verk sín í galleríinu sem eru þá oft á tilraunastigi. Þannig gefur hún áhorfendum innsýn í þróunarferli listsköpunar og um leið opnar hún fyrir samtal um það efni.

Aðalheiður segir um verkin.

Undanfarin ár hef ég hugsað töluvert um fegurðina sem fylgir hverju lífi sem kviknar og frjósemina sem ber það síðan áfram blóm frá blómi, mann fram af manni. Blóm birtast okkur í öllum regnbogans litum og ótrúlegustu formum, og gefa sköpunarkraftinum byr undir báða vængi. Í þessum tilraunum um málverk , flæða litir og form í frjálsum farvegi og mynda frjósemi og erotik sem er undirrót alls lífs.

Vel heppnaðar úrbætur á lóð leikskólans

Í sumar voru gerðar miklar endurbætur á lóð Leikskóla Fjallabyggðar á Siglufirði. Lóðin var ansi brött og voru leiktæki orðin þreytt og illa staðsett á lóðinni. Þá var hún sérstaklega erfið yfirferðar þegar snjór er í byggð.  Eftir framkvæmdir er búið að slétta talsvert úr lóðinni og taka brattar rennubrautir og kastala sem voru hátt í brekkunni. Ný leiktæki eru nú staðsett slétta svæðinu og góður aðgangur fyrir börn og leikskólakennara.

Blakfélag Fjallabyggðar skellti Fylki 3-0

Blakfélag Fjallabyggðar og Fylkir áttust við í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag í 1. deild karla í blaki.  Fylkismenn höfðu unnið Völsunga á Húsavík á laugardag nokkuð örugglega 0-3 og komu því sjóðheitir til leiks.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og áttu heimamenn ekki svör við sóknum Fylkis í upphafi fyrstu hrinu. Fylkir komst í 0-4 og tók þá BF strax leikhlé. Fylkismenn héldu áfram að skora stigin og komust í 1-8, en þó tóku BF menn við sér og skoruðu 3 stig í röð og breyttu stöðunni í 4-8 og 5-10. Aftur skoraði BF þrjú stig í röð og var staðan orðin 8-10 og fljótlega 12-12, en þá tóku gestirnir leikhlé. Í stöðunni 16-18 tók BF sitt seinna leikhlé og komust fljótlega yfir í fyrsta sinn í hrinunni í stöðunni 20-19 eftir að hafa skorað þrjú stig í röð. Spennandi loka mínútur hrinunnar og jafnt á tölum 21-21 og 23-23 en BF hafði að lokum sigur 25-23 og máttu Fylkismenn naga á sér handabökin eftir að hafa leitt nánast alla hrinuna. Staðan 1-0 !

Meira jafnræði var með liðunum í 2. hrinu en BF byrjaði þó mun betur en í fyrstu hrinunni og náði forystu 7-3 eftir að hafa gert fjögur stig í röð. Fylkir svaraði með sex stigum í röð og komust yfir 7-9 og tóku nú heimamenn leikhlé. BF komst aftur yfir og var staðan 12-10 og tók Fylkir þá leikhlé en BF komst í 14-12 en Fylkir jafnaði fljótt metin í 14-14 og 18-18. BF skoraði nú 4 stig í röð og nálguðust sigur í hrinunni, staðan orðin 22-18. Fylkir skoraði aðeins eitt stig til viðbótar og átti BF síðustu 3 stigin og lokað hrinunni 25-19, staðan orðin 2-0 !

Fylkismenn byrjuðu þriðju hrinuna vel og tóku forystu í 3-7 eftir að hafa skorað 4 stig í röð og tóku nú heimamenn leikhlé. Fylkir voru áfram sterkari og leiddu 5-9 og 8-12. BF fór nú að taka völdin á vellinum og jöfnuðu í 12-12 og komust yfir í fyrsta sinn 14-13 og 15-13 en þá tóku Fylkismenn leikhlé. BF hélt áfram að auka forystuna og komust í 18-14 og 20-16 og 23-17 eftir þrjú stig í röð. BF vann svo hrinuna nokkuð örugglega 25-19. Glæsilegur 3-0 sigur á Fylki og hafa nú BF leikið 6 leiki og eru komnir með 11 stig.

 

Opið um Ólafsfjarðarmúla

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla og Víkurskarð eru opnir en þar er snjóþekja og éljagangur. Víðast hvar er nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar enn einhver ofankoma. Þæfingsfærð víða m.a. milli Dalvíkur og Hjalteyrar og þungfært er frá Hofsósi að Ketilási. Unnið er að mokstri.  Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar í morgun.

Lokað á Hólasandi og Dettifossvegi og ófært er yfir Vatnsskarð eystra. Sumstaðar þungfært á sveitavegum en annars hálka og snjóþekja á aðal leiðum.

Ljósin tendruð í Ólafsfirði á sunnudag

Ljósin verða tendruð á jólatrénu við Menningarhúsið Tjarnarborg sunnudaginn 2. desember kl. 15:00. Aðventuhátíð verður í Ólafsfjarðarkirkju kl. 17:00.  Jólamarkaður hefst kl. 13:00 í Tjarnarborg.

 • Hátíðarávarp; Ólafur Stefánsson
 • Börn úr leikskólanum Leikhólum syngja jólalög
 • Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir flytja nokkur vel valin lög
 • Barn úr leikskólanum Leikhólum tendrar ljósin á trénu
 • Hó, hó, hó! Jólasveinarnir koma í heimsókn með eitthvað gott í pokanum
 • Dansað í kringum jólatréð með jólasveinunum

Skíðafélag Ólafsfjarðar býður öllum uppá heitt kakó og piparkökur. Einnig verður nýi troðari Skíðafélagsins til sýnis, kynning á námskeiðum framundan og tilboð á árskortum.

 •  13:00-16:00     Hinn árlegi Jólamarkaður Tjarnarborgar opinn í tengslum við tendrun jólatrésins í Ólafsfirði.
 • 17:00-18:00     Aðventuhátíð í Ólafsfjarðarkirkju

Tillögur að sumarlokun leikskóla í Skagafirði

Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur lagt til og samþykkt að sumarlokun leikskóla í Sveitarfélaginu Skagafirði verði með eftirfarandi hætti sumarið 2019:
Birkilundur loki í 5 vikur frá kl. 12 þann 5. júlí til kl. 12 þann 12. ágúst.
Ársalir loki í 4 vikur frá kl. 12 þann 11. júlí til kl. 12 þann 8. ágúst.
Tröllaborg loki í 5 vikur frá kl. 12 þann 28. júní til kl. 12 þann 6. ágúst.

Fagna fullveldisdeginum á Akureyri

Mikið verður um að vera á Akureyri í dag þegar Íslendingar fagna 100 ára afmæli fullveldisins.

Dagskráin hefst við Íslandsklukkuna hjá Háskóla Akureyrar kl. 13:00 þegar klukkunni verður hringt 100 sinnum í tilefni dagsins. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, flytur ávarp, og Karlakór Akureyrar – Geysir syngur. Bæjarbúum gefst kostur á að hringja Íslandsklukkunni, hver einu sinni en samtals 100 sinnum og fá þannig nöfn sín skráð í sögubækurnar. Skráning er á www.unak.is/is/1918. Að athöfninni lokinni verður boðið upp á kakó og smákökur í Miðborg háskólans.

Klukkan 14:00 verður sýningin Bæjarbragur: Í upphafi fullveldis opnuð á Amtsbókasafninu. Á sýningunni verða til sýnis ljósmyndir frá Akureyri í upphafi fullveldis ásamt upplýsingum sem unnar eru upp úr skjölum og bókum frá sama tímabili. Hvernig leit bærinn út þá? Um er að ræða samsýningu þriggja safna: Amtsbókasafns, Hérðasskjalasafns og Minjasafns og er hún liður í dagskrá afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og nýtur styrks frá fullveldissjóði. Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnastjóri Amtsbókasafnsins á Akureyri, býður fólk velkomið, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, ávarpar gesti og opnar sýninguna. Boðið verður upp á kaffi, kleinur og konfekt fyrir svanga sýningargesti.

Efnt verður til Rósaboðs í Listasafninu kl. 15:00. Listakonurnar Hekla Björt Helgadóttir og Brák Jónsdóttir flytja gjörning í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins.

Um kvöldið kl. 20:00 verður Fullveldiskantatan síðan frumflutt í Menningarhúsinu Hofi. Þar er á ferðinni glæný fagnaðarkantata þar sem kynslóðir og tónlistarstefnur mætast og fagna saman fullveldinu með norðlenskum ofurkröftum. Flytjendur eru Stebbi Jak, Þórhildur Örvarsdóttir, Gísli Rúnar Víðisson, Hymnodia, Æskuraddir fullveldisins, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Strengjasveit fullveldisins. Ljóð: Sigurður Ingólfsson. Tónlist: Michael Jón Clarke.

Heimild: Akureyri.is