All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Fréttatilkynning frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Ástralskur ferðamaður um fertugt lést stuttu eftir að hann leitaði á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík vegna skyndilegra og alvarlegra veikinda. Bæði hann og eiginkona hans reyndust jákvæð fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Sjúkdómseinkenni mannsins voru þó ekki dæmigerð fyrir COVID-19 og er unnið að því að skera úr um hvað orsakaði veikindi mannsins, hvort það var COVID-19 eða annað ótengt.

Mikil og margþætt vinna tekur nú við. Styðja þarf við eiginkonu hins látna og staðfesta þarf dánarorsök. Þá þarf að styðja við og setja þá heilbrigðisstarfsmenn sem komu að meðferð mannsins í sóttkví, sótthreinsa heilsugæsustöðina ásamt því að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir Húsvíkinga og nærsveitamenn. Öll þessi verkefni eru unnin á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samvinnu við sóttvarnalækni, landlækni, Rauða krossinn og er unnið í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra og Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík verður í lágmarki, en eins og áður sagði er allt kapp lagt á að tryggja að hægt verði að halda uppi mikilvægri þjónustu við íbúa á starfssvæði hennar og aðra sem kunna að þurfa á þjónustu hennar að halda. Tilkynningar er að vænta um hvernig þjónustu verður hagað.

Að gefnu tilefni vill Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík ítreka að þeir einstaklingar sem rætt er um hér að ofan og reyndust vera smitaðir af COVID-19 voru ekki í neinum tengslum við innliggjandi einstaklinga á stofnuninni. Einnig var þessum einstaklingum haldið aðskildum frá skjólstæðingum sem komu á heilsugæslu eða höfðu önnur erindi á stofnunina þannig að enginn sem kom á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík í gær ætti að þurfa að óttast smit vegna þessa atburðar.

Tilkynning vegna aðgengis að Ráðhúsi Fjallabyggðar

Tilkynning frá bæjarstjóra Fjallabyggðar.

Ágætu íbúar, samkvæmt áætlun Fjallabyggðar um órofna starfsemi og þjónustu vegna COVID-19 smithættu verða breytingar á starfsemi og aðgengi að Ráðhúsinu á Siglufirði frá og með þriðjudeginum 17. mars 2020.

Skrifstofa sveitarfélagsins verður áfram opin á hefðbundnum tíma, þ.e. alla virka daga, frá kl. 09:30-15:00 en með mjög takmörkuðu aðgengi gesta.  Þangað er hægt að hringja á opnunartíma í síma 464 9100 til að fá samband við starfsmenn Ráðhússins. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallabyggd@fjallabyggd.is. Starfsfólk í afgreiðslu mun leiðbeina og leitast við að leysa úr þeim málum sem um er að ræða í hverju tilviki.

Sú tímabundna ráðstöfun verður tekin upp að þeir sem þurfa af brýnni nauðsyn að hitta einhvern starfsmann Ráðhússins þurfa að panta tíma hjá móttöku í síma 464 9100 eða með því að senda tölvupóst á viðkomandi starfsmann. Upplýsingar um netföng starfsmanna má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, www.fjallabyggd.is.

Með þessu er leitast við að lágmarka umgang um húsið, bæði gesta og starfsfólks. Tilhögun þessi gildir þar til annað hefur verið ákveðið.

Íbúum er bent á að margvíslegar upplýsingar er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins, www.fjallabyggd.is, og að einnig er hægt að sækja um ýmsa þjónustu í gegnum íbúagátt sem er að finna á síðunni.

Framangreindar ráðstafanir eru í þeim tilgangi að draga eftir mætti úr smithættu og tryggja sem best að starfsemi og þjónusta haldist órofin. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar ráðstafanir kunna að fela í sér fyrir íbúa og aðra.

Texti: Fjallabyggð.is

Lyfjaafgreiðslunni í Ólafsfirði lokað

Lyfjaafgreiðslan á Hjúkrunarheimilinu Hornbrekku í Ólafsfirði hefur verið lokað um óákveðin tíma. Lyf verða framvegis aðeins afgreidd í Siglufjarðar apóteki. Viðskiptavinir eru beðnir um að hringja á undan og láta taka saman lyfin til að stytta biðina í apótekinu. Siglufjarðar apótek tekur ekki á móti lyfjum til eyðingar á meðan smithætta er af völdum Covid19.

Skipulag Grunnskóla Fjallabyggðar næstu vikur

Grunnskóli Fjallabyggðar hefur sent út nýtt skipulag fyrir næstu vikur vegna samkomubanns.

1. – 7. bekkur

  • Kennt verður í 1. – 7. bekk alla daga  frá kl 08:30-12:30
  • Skólaakstur fellur niður og verða nemendur því í kennslu í sínum byggðarkjarna.
  • Kennt verður í hópum og ákveðnir starfsmenn stýra allri vinnu með hverjum hópi fyrir sig. Ekki verður samgangur á milli hópa og reynt að afmarka hvern stað fyrir sig í skólabyggingunum. Sundkennsla og íþróttir verða ekki með hefðbundnu sniði, þeir starfsmenn sem munstraðir eru á hvern hóp sjá um allt uppbrot, frímínútur og hádegismat.

Tjarnarstígur:

1. og 2. bekkur verða saman
3. bekkur, 4. bekkur og 5. bekkur verða stakir hópar hver
6. og 7. bekkur verða saman.

Norðurgata:

1. bekkur, 2. bekkur, 3. bekkur, 4. bekkur, 5. bekkur verða stakir hópar hver
6. og 7. bekkir verða saman

Hádegismatur verður ekki borinn fram í matsal heldur tekur hver hópur mat í sinni stofu. Ekki verður boðið upp á hafragraut á þessu tímabili. Mælst er til að nemendur hafi vatnsbrúsa með sér í skólatöskunni.

Nemendur verða ekki saman í frímínútum nema innan árgangs og þá á skilgreindum svæðum. Hver bekkur sér. Það verða því ekki venjulegar frímínútur heldur skipulögð útivera með kennara.

Frístund og Lengd viðvera fellur niður.

Ekki verður hægt að bjóða upp á frístund, né lengda viðveru á meðan þetta ástand varir en þeir foreldrar sem þegar hafa greitt fyrir lengda viðveru munu eiga það inni.

Nemendahópar ganga ekki allir inn á sama stað heldur munum við nýta neyðarútganga og allar að komur í húsið sem hægt er og í sumum tilfellum þurfa nemendur að koma á misjöfnum tíma að skólahúsinu og þá beint að þeim inngangi sem þeim er vísað á þar sem að starfsmaður þeirra hóps tekur á móti þeim. Mjög brýnt er að foreldrar virði þær tímasetningar og nemendur komi ekki að skólahúsinu fyrr en á þeirra tíma og alls ekki að þeir blandist í leik á skólalóð.  Skór og útifatnaður verður aðgreindur eins og hægt er og skólahúsnæðið ekki opið eins og alla jafnan.

8. – 10. bekkur – fjarkennsla

Til þess að geta haldið úti skóla alla daga og tekið á móti nemendum þannig að rúmt sé um þá og starfsfólk hefur verið ákveðið að unglingastig, (8.-9. -10.)  muni taka sitt nám í fjarkennslu.  Fyrirkomulaginu verður þannig háttað að nemendur nota google classroom og  verða að vera skráðir inn frá kl. 8:30 – 12:00 til að fá mætingu.  Inn á google classroom – fjarkennsla 8.-10. bekkur, verða leiðbeiningar um innskráningu og verkefni.

Viðfangsefnin verða fjölbreytt, nemendur þurfa að hafa einhverjar kennslubækur en einnig verður námsefni á vef. Kennarar á unglingastigi verða til taks á þessu  tíma inn á vefnum og í samskiptum við nemendur og einnig verður hægt að senda skilaboð í tölvupósti, messenger eða öðru sem hentar. Þetta fyrirkomulag er í þróun og gæti tekið breytingum. Umsjónarkennarar unglingastigs munu verða í sambandi við sína nemendur og foreldra. Nemendur í unglingadeild sem þegar hafa greitt fyrir mat sinn í  mars munu eiga það inni.

Umgengni um skólahúsin takmörkuð

Takmörkuð umgengni verður um skólahúsin og biðjum við foreldra og aðra sem þurfa að ná á okkur að hafa samband með öðrum hætti.

Frekari upplýsingar um starfsfólk á hverri stöð, mætingu og innkomu í skólahúsið verða sendar með sérstökum pósti á viðkomandi bekki/hópa.

Við vonumst til að keyra þetta skipulag til að byrja með og höfum sett allt starfsfólk okkar undir en það má lítið út af bregða svo ekki verði hægt að standa við þetta og áskiljum við okkur rétt  til að gera breytingar með skömmum fyrirvara ef þörf er á.

Tveimur deildum lokað á leikskóla á Akureyri

Um helgina greindist foreldri barns á leikskólanum Hólmasól með Covid-19 smit. Til að gæta fyllsta öryggis hefur verið ákveðið að ráði sóttvarnalæknis og rakningateymis Almannavarna, að loka tveimur deildum leikskólans í tvær vikur.

Börn og fjölskyldur þeirra, sem og kennarar á deildunum tveimur, verða í sóttkví til 27. mars. Rétt er að ítreka að hér er fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða til að sporna gegn frekari smitum en aðrir úr fjölskyldu umrædds foreldris, öll börn og starfsfólk á Hólmasól, eru eftir því sem næst verður komist einkennalaus. Með því að grípa til réttra aðgerða verður vonandi hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdómsins.

Fræðslustjóri hefur fundað með öllum skólastjórnendum leik- og grunnskóla bæjarins þar sem gerðar voru áætlanir um skólastarf á næstu vikum. Skólastjórar funduðu því næst með starfsfólki sínu í dag, mánudag, og var mikill samhugur í fólki um að standa þétt saman, gæta fyllstu varúðar og stuðla, eftir því sem kostur er, að uppbyggilegu skólastarfi næstu vikurnar. Í ljósi þess að skólastarf verður með mismunandi hætti milli skóla eru foreldrar beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðum skólanna auk þess sem allir foreldrar munu fá nánari upplýsingar í tölvupósti í dag, mánudag.

Ljóst er að í öllu starfi leik- og grunnskóla verður lögð áhersla á að kenna börnum í aðskildum hópum og koma í veg fyrir blöndun. Vegna þessa raskast skólastarf í leikskólum og getur opnunartími breyst.

Öll sundkennsla og hefðbundin kennsla í list- og verkgreinastofum í grunnskólum fellur niður í samkomubanninu og verður íþróttakennsla í formi hreyfingar á skólalóð, inni í stofum eða með útikennslu. Frístund verður opin í framhaldi af skóladegi yngstu barna en viðbúið er að starfsemin muni að einhverju leyti skerðast. Opin hús og klúbbar á vegum félagsmiðstöðvanna falla niður vikuna 16.-23. mars. Fræðsla og val á þeirra vegum fellur einnig niður þá viku. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna hyggst nota vikuna til þess að þróa rafrænar og útivistarvænar lausnir til að halda opin hús og hvetja til virkni og gleði meðal barna og ungmenna á Akureyri. Nánari upplýsingar berast í næstu viku.

Hugað verður sérstaklega að þörfum barna með hvers konar sérþarfir auk þess að tryggja þeim foreldrum sem starfa á heilbrigðisstofnunum þjónustu fyrir þeirra börn.

Líkt og áður hefur verið tilkynnt hefur Akureyrarbær nú þegar gripið til varúðarráðstafana til að vernda viðkvæma hópa samfélagsins, svo sem á Öldrunarheimilum Akureyrar og skjólstæðinga fjölskyldu- og búsetusviðs. Hér er hægt að lesa frétt með helstu upplýsingum. Við þetta er að bæta að Lautin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, verður lokuð frá og með morgundeginum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, segir að vissulega sé það slæmt að eitt tilfelli hafi verð staðfest í bænum en að það hafi verið viðbúið og enn sem komið er sé bara um eitt tilfelli að ræða. „Við þurfum fyrst og fremst að hlíta fyrirmælum yfirvalda á sviði sóttvarna og almannavarna, treysta sérfræðingum okkar, stunda holla útiveru, forðast það að taka óþarfa áhættu og horfa jákvæð fram á veginn. Bærinn mun senda frá sér tilkynningar um stöðu mála 2-3 sinnum í viku þar sem skýrt verður frá gangi mála,” segir Ásthildur.

Heimild: akureyri.is

Skert þjónusta hjá Bókasafni Fjallabyggðar

Bókasafn Fjallabyggðar hefur tilkynnt um skerta þjónustu næstu vikur vegna samkomubanns.

Hefðbundinn afgreiðslutími frá kl. 13:00-17:00 virka daga.

Gestir safnsins eru hvattir til að nota handspritt sem staðsett er við inngang.

Skert þjónusta verður sem hér segir:

  • Dagblöðin liggja ekki frammi
  • Tímarit eru eingöngu til útláns. Ekki er leyfilegt að skoða þau á safninu
  • Öll leikföng í barnadeild hafa verið tekin úr umferð
  • Mælumst til þess að viðskiptavinir virði tilmæli um 2 metra fjarlægð
  • Lágmörkum tímann sem við erum á safninu; Biðlað er til viðskiptavina um að dvelja ekki lengur á safninu en þann tíma sem það tekur að velja sér bækur, taka og/eða skila.

Blaksamband Íslands frestar öllum leikjum

Blaksamband Íslands frestar öllu mótahaldi á meðan samkomubann er í gildi í landinu. Eftir tilkynningu frá heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum hefur stjórn BLÍ tekið þá ákvörðun að fresta öllum leikjum í mótum á vegum BLÍ á meðan samkomubann er í gildi í landinu.

Nánari upplýsingar verða gefnar út eins og tilefni er til en BLÍ mun fylgja tilmælum almannavarna og ÍSÍ í starfi sambandsins. Stjórn BLÍ vill beina því til forsvarsmanna og þjálfara félganna að fara að einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að starfi félaganna á meðan samkomubanninu stendur frá miðnætti á sunnudagskvöld.

Blakfélag Fjallabyggðar hefði átt að mæta Fylki í úrslitakeppni 1. deildar karla, þann 24. mars næstkomandi og aftur 27. mars.

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar átti næst deildarleik gegn KA-B þann 19. mars og aftur gegn Vestra 21. mars næstkomandi. Eftir það hefði úrslitakeppnin átt að byrja.

Öllum leikjum á vegum KSÍ frestað

Íslensk yfirvöld hafa ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur (samkomubann) frá og með miðnætti sunnudaginn 15. mars. Samkomubannið gildir í fjórar vikur frá þeim tímapunkti og nær yfir samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Á viðburðum þar sem færri koma saman er gert ráð fyrir því að tveir metrar séu milli fólks.

Vegna þessa ákvað stjórn KSÍ á fundi sínum í gær að fresta öllum leikjum á vegum KSÍ, sem og landsliðsæfingum og tengdum viðburðum á fyrrgreindu tímabili. Ákvörðunin tekur gildi frá og með deginum í dag, 13. mars. Stjórn KSÍ hvetur aðildarfélögin til að fara í öllu eftir tilmælum stjórnvalda varðandi útfærslu á sínu starfi, viðburðum og æfingahaldi.

Starfsdagur í leik- og grunnskólum Dalvíkurbyggðar á mánudag

Í samráði við fræðslu- og sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar hefur verið ákveðið að vera með starfsdag í leik- og grunnskólum Dalvíkurbyggðar mánudaginn 16. mars. Þá mun starfsfólk skólanna undirbúa kennslu næstu vikna og gera ráðstafanir í samræmi við fyrirmæli almannavarna.

Starfsemin verður með breyttu sniði frá og með 17. mars og eru foreldrar beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum frá skólunum sem sendar verða út á mánudag næstkomandi.

Skipulagsdagur í Leikskóla Fjallabyggðar og Grunnskóla Fjallabyggðar mánudaginn 16. mars

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður með breyttu sniði. Framhalds- og háskólum verður lokað og fjarkennsla útfærð en starf leik- og grunnskóla verður áfram heimilt. Nánari útfærslur þess verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda en sveitarfélög landsins vinna nú að skipulagningu skólastarfs miðað við framangreindar ákvarðanir.

Þegar hefur verið ákveðið að mánudaginn 16. mars verði starfsdagur í Leikskóla Fjallabyggðar og Grunnskóla Fjallabyggðar til þess að stjórnendur og starfsmenn geti skipulagt skólastarfið sem best á því tímabili sem takmörkunin nær til og undirbúið breytingar.

Kennsla einstaklinga í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga verður óbreytt á mánudag.

Breytingar á skipulagi skólastarfs verða kynntar foreldrum með fréttum og tölvupósti þegar þær liggja fyrir á mánudag.

Heimild: fjallabyggð.is

Takmörkun á skólastarfi í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra

Kennsla verður samkvæmt stundarskrá með fjarfundarsniði frá og með þriðjudeginum 17. mars í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra. Kennsla fellur niður mánudaginn 16. mars vegna undirbúnings kennara fyrir breytt fyrirkomulag kennslu. Greint er frá þessu á vef fnv.is.

Eftirfarandi bréf hefur verið sent á nemendur skólans og forráðamenn þeirra:

Kæru nemendur og forráðamenn

Í dag tilkynntu yfirvöld um lokun framhaldsskóla frá og með mánudeginum 16. mars.  Þessi lokun kallar á breyttar aðferðir í skólahaldi með nútíma tölvutækni.  Það vill svo til að kennarar við FNV hafa áralanga reynslu af kennslu í gegnum allskyns fjarfundatækni sem skólinn hyggst nýta  á meðan á lokun framhaldsskóla stendur.

Reglulegt skólahald með fjarfundasniði hefst þriðjudaginn 17. mars kl. 8:00. Nemendur mæta eins og áður í kennslustundir, en að þessu sinni heima hjá sér. Allir nemendur skólans hafa aðgang að Office 365 sem þeir geta hlaðið niður á tölvur sínar eða í snjallsíma.  Í þessu forriti er að finna tölvupóst og samskiptaforrit sem kallast Teams, en það er arftaki Skype sem flestir þekkja.

Kennarar skólans í bóklegum greinum munu mæta eins og áður í kennslustundir samkvæmt stundatöflu, setjast við tölvuna og hefja kennslu í gegnum Teams forritið.  Nemendurnir setjast við sínar tölvur eða snjallsíma heima hjá sér og opna Teams forritið og mæta í viðkomandi kennslustund.  Kennararnir munu styðjast við Moodle og INNU eins og áður.  Eini munurinn er sá að nemandinn situr heima og kennarinn í skólanum.

Merkt verður við skólasókn eins og áður og sömu kröfur gerðar til skólasóknar og verkefnaskila eins og verið hefur. Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um uppsetningu Office 365 fyrir þá sem ekki hafa þegar sett það upp í tölvu sína eða snjallsíma. Þá fylgja í öðrum pósti leiðbeiningar um notkun Teams en hér er að finna stutta kynningu á Teams:  https://www.origo.is/um-origo/blogg/hvernig-bokum-vid-fundi-i-teams/

Ljóst má vera að ekki er hægt að kenna verklega áfanga í gegnum Teams.  Þess vegna hefur verið ákveðið að fjölga kennslustunum í bóklegum faggreinum á kostnað verklegu kennslustundanna þann tíma sem lokun varir.  Með þessu móti verður hægt að ljúka bóklegu áföngunum fyrr en annars hefði verið og nýta síðan bóklegu kennslustundirnar fyrir verklegar kennslustundir þegar skólinn opnar á ný.

Eins og fyrr segir hefst kennsla með fjarfundasniði þriðjudaginn 17. mars, en kennarar munu nota mánudaginn til að undirbúa kennslu með breyttu fyrirkomulagi. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag kennslu verða sendar nemendum mánudaginn 16. mars og kennarar munu upplýsa nemendur sína um fyrirkomulag kennslu í einstökum áföngum í næstu viku.

Texti: fnv.is.

BF lék fyrir luktum dyrum í Fjallabyggð

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Ými í gærkvöldi í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Tilkynnt var fyrr um daginn að leikið yrði fyrir luktum dyrum og voru því engir áhorfendur aðrir en umsjónarmenn leiksins, dómarar, stigaverðir og boltamenn. Búist var við jöfnum leik en Ýmir var ofar í stigatöflunni og þurfti BF á sigri að halda til að nálgast toppbaráttuna enn frekar.

Leikmenn Ýmis náðu sér ekki á strik í þessum leik, framspilið var ekki nógu gott á köflum og talsvert um mistök og voru smössin frá BF oft að rata beint í gólfið og var Maria Sageras sérstaklega hættuleg í framlínunni, og fékk hún boltann oft frá uppspilara liðsins.

BF leiddi alla fyrstu hrinu og komst þægilega frá þeirri hrinu. BF komst í 10-6 og 15-10 áður en Ýmir minnkaði muninn í 15-13. Í stöðunni 19-14 tóku gestirnir leikhlé til að reyna stöðva BF, en það gekk ekki eftir í þessari hrinu og BF vann 25-16 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina var aðeins jafnari og náðu gestirnir að komast yfir í eitt skipti, í stöðunni 0-1 ! Jafnt var í stöðunni 6-6 en BF náði þá fjórum stigum í röð og komst í 10-6 og 13-7 þegar gestirnir tóku leikhlé. Fljótlega var staðan orðin 17-11 og 18-12 en þá kom góður kafli hjá Ými sem minnkaði muninn í 18-17 og var skyndilega komin smá spenna í leikinn. BF voru mun sterkari í lokin og unnu hrinuna örugglega 25-20 og voru komnar í 2-0.

Gestirnir byrjuðu ágætlega í þriðju hrinu og komust í 1-3 og 5-6 en BF náði góðum kafla og breyttu stöðunni í 11-9. Leikurinn var jafn á þessum tímapunkti og Ýmir skoraði 4 stig í röð og BF svaraði með þremur til baka og var staðan orðin 14-13. BF stelpurnar voru aftur sterkari í lokin og komust í 20-16 og tóku gestirnir leikhlé. BF gerði fljótlega tvöfalda skiptingu og kláruðu leikin 25-18.

Frábær leikur hjá BF sem kláruðu Ými á 70 mínútum, Gonzalo þjálfari var líflegur á hliðarlínunni og gaf góð fyrirmæli til stelpnanna. BF er núna með 32 stig eftir 18 leiki, hafa unnið 10 leiki og tapað 8. Liðið getur komist í 4. sæti með sigri í næsta leik. BF á leik gegn KA-B 19. mars og Vestra 21. mars.

Breytt skólastarf í MTR – tilkynning frá skólameistara

Nú hafa yfirvöld tekið ákvörðun um að loka húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga og staðbundinni viðveru nemenda vegna covid-19 veirunnar. Öll kennsla fer því fram á netinu á meðan banninu stendur. Þetta kemur fram á vef mtr.is.

Kennslustundir
Nemendur mæta á réttum tíma í kennslustundir, kennarar eru með netstofur (sjá í Moodle) og taka mætingu. Kennt er samkvæmt stundaskrá.

Vinnutímar
Nemendur skrá sig inn og úr vinnutímum eins og venjulega. Búið er að taka út takmarkanir sem voru þar sem nemendur gátu bara skráð sig í vinnutíma í húsinu þannig að nú er hægt að skrá sig í og úr vinnutímum alls staðar frá.

Kennarar sem skráðir eru í vinnutímana eru með netstofur sínar opnar í sínum vinnutímum (sjá Moodle).

Mætingar
Enginn afsláttur er gerður á mætingum, nemendur mæta á neti.

Verkefnaskil
Sömu reglur og áður: „Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Lára Stefánsdóttir, lara@mtr.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma.“

Viðtalstímar
Viðtalstímar kennara eru á sama tíma og venjulega en sjá má hér hvernig ná má sambandi við þá í viðtalstímanum. https://www.mtr.is/is/namid/vidtalstimar-umsjonarkennara

Val fyrir næstu haustönn
Nemendur geta leitað til umsjónarkennara sinna varðandi val fyrir haustönn en einnig áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa eftir því sem við á. Valtímabil verður ekki framlengt. Munið að þið tryggið skólavist næsta haust með því að velja.

Námsráðgjöf
Námsráðgjöf mun einungis breyta frá staðveru á netið. Nemendur geta haft samband við ráðgjafa í tölvupósti, í námsþjónustunni fyrir nemendur í Moodle og í síma mánudaga til miðvikudags. Hægt er að panta tíma.

Sálfræðiþjónusta
Náms- og starfsráðgjafi heldur utan um pantanir í sálfræðiþjónustu, sálfræðingur verður til taks á miðvikudögum eins og verið hefur. Viðtalstímar verða útfærðir á neti.

Starfsbraut
Útfærsla náms á starfsbraut verður sú sama og hér að ofan greinir í flestum tilfellum. Beinið spurningum til Hólmars Hákons Óðinssonar, holmar@mtr.is

Heimild: mtr.is

 

Starfsdagur í leik- og grunnskólum á mánudag á Akureyri

Bæjarráð Akureyrarbæjar og sviðsstjórar hafa fundað í dag um viðbrögð við útbreiðslu Covid-19 veirunnar í landinu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem varða samkomur og kennslu í skólum.

Í Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum bæjarins verður einungis fjarkennsla en áfram verður starfað í leik- og grunnskólum. Til þess að starfsmenn og kennarar í leik- og grunnskólum geti ráðið ráðum sínum og skipulagt framhaldið hefur verið ákveðið að starfsdagur verði í öllum leik- og grunnskólum Akureyrar mánudaginn 16. mars. Þetta þýðir að grunn- og leikskólabörn verða ekki í skólanum á mánudaginn. Foreldrar eru beðnir að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn m.a. á heimasíðu Akureyrarbæjar og heimasíðum grunn- og leikskóla.

Akureyrarbær hefur nú þegar og mun eftir atvikum grípa til varúðarráðstafana sem eru fyrst og fremst til að vernda viðkvæma hópa og koma í veg fyrir rof á mikilvægri starfsemi. Líkt og áður hefur verið tilkynnt eru Öldrunarheimili Akureyrar lokuð fyrir heimsóknum og er í skoðun hvernig megi enn frekar tryggja öryggi íbúa og starfsfólks.

Búsetu- og fjölskyldusviði, Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi og Hæfingarstöðinni Skógarlundi hefur verið lokað fyrir gestum og gangandi. Ekki verður starfsemi á vegum Akureyrarbæjar í félagsmiðstöðvum fyrir eldri borgara í Víðilundi og Bugðusíðu næstu daga eða vikur.

Önnur starfsemi og þjónusta verður með venjulegu sniði. Opið verður í Sundlaug Akureyrar, söfnum bæjarins og Hlíðarfjalli en þar verður þó veitingasalan lokuð frá og með mánudeginum 16. mars.

Í dag hefur verið lögð sérstök áhersla á að moka og hreinsa göngustíga innan bæjarins til að auðvelda íbúum að njóta útiveru í fallegu veðri. Fólk er hvatt til að halda ró sinni, njóta lífsins áfram og fylgjast vel með helstu tíðindum, bæði hér á heimasíðunni og á heimasíðu Landlæknis.

Stjórnendur og starfsfólk Akureyrarbæjar vinnur úr þeirri stöðu sem upp er komin, fundar daglega ef þess þarf og metur hvernig tilmæli stjórnvalda snerta starfsemi sveitarfélagsins. Viðbragðsáætlanir hafa verið uppfærðar í samráði við almannavarnir og landlækni og er staðan metin daglega.

Texti: Akureyri.is

Skólarútan bilaði á Siglufirði

Skólarútan var biluð í morgun á Siglufirði og var því ekkert um skólaakstur til Ólafsfjarðar. Kennt var eftir óveðursskipulagi í Grunnskóla Fjallabyggðar í báðum bæjarhlutum. Kennsla féll niður í Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag þar sem enginn rúta kom frá Siglufirði, og einnig var Ólafsfjarðarmúli ófær í morgun. Einhverjir kennarar buðu samt upp á kennslu yfir netið í MTR.

Samfélags- og menningarsjóður Siglufjarðar auglýsir eftir umsóknum

Samfélags- og menningarsjóður Siglufjarðar auglýsir eftir umsóknum um styrki til samfélags- og/eða menningarmála á Siglufirði. Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl n.k. en aðeins er tekið við umsóknum sem uppfylla skilyrði sjóðsins.  Árið 2019 var úthlutað 20 styrkjum úr sjóðnum eða samtals 9.535.000 kr.

Úthlutunarreglur:
Stjórn sjóðsins mun veita styrki til samfélags- og/eða menningarmála á Siglufirði. Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir á Siglufirði.
Óska þarf eftir umsóknareyðublaði með því að senda póst á elsa.gudrun@arionbanki.is.

Í umsókn skal koma fram ítarleg greinargerð þar sem kemur fram:
– upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur.
– Nafn umsækjanda, nafn forsvarsmanns félags, kennitala, símanúmer og netfang.
– í hvað styrknum verður varið.
– hvernig sú ráðstöfun bætir samfélagið og/eða menningarmál Siglufjarðar.
– verk- og tímaáætlun og ítarleg fjárhagsáætlun sundurliðuð niður á kostnaðarliði og einingarverð.
– upplýsa skal hvort umsækjandi hafi fengið styrk(i) vegna verkefnisins úr öðrum sjóðum.

Úthlutunarnefnd getur beðið umsækjendur um viðbótarupplýsingar varðandi styrkbeiðnina.
Styrkir geta verið veittir í einni upphæð við upphaf verkefnis eða eftir framgangi verks. Ef greitt er eftir framgangi verks hefur stjórnin heimild til að kalla eftir áfangaskýrslu og öðrum gögnum.
Úthlutunarnefnd mun forgangsraða styrktarbeiðnum og getur samþykkt eða hafnað umsóknum á þeim forsendum.
Umsækjendur skili inn greinargerð með upplýsingum um verkið eftir að því er lokið.
Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl nk. en aðeins er tekið við umsóknum sem uppfylla skilyrði sjóðsins.

Styrkbeiðni sendist til Samfélags- og menningarsjóðs Siglufjarðar, Túngötu 3, 580 Siglufirði eða á póstfangið elsa.gudrun@arionbanki.is með fyrirsögnina: „Samfélags- og menningarsjóður – styrkumsókn“.

Kvennalið BF gerði góða ferð til Húsavíkur

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Húsavík í gær og spiluðu við Völsunga, sem voru fyrir leikinn í neðsta sæti deildarinnar. Liðin léku í janúar á þessu ári og vann BF öruggulega 3-0, og hefur liðið verið að sækja á toppliðin í deildinni. Þjálfari Völsungs er Guðbergur Eyjólfsson (Beggi), en hann gerði garðinn frægan sem uppspilari HK fyrir um tveimur áratugum.

BF mætti með sitt sterkasta lið en í upphafi fyrstu hrinu þá meiddist Libero hjá Völsungi og gat hún ekki haldið áfram og varð önnur að koma í hennar stað. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en BF náði svo góðu forskoti og leiddu alla hrinuna fyrir utan þegar staðan var 1-0 fyrir Völsungi í upphafi leiks. BF komst í 5-9 og tók þá Völsungur leikhlé. BF hélt áfram að skora og komst í 9-14 og aftur tók Völsungur leikhlé. Heimakonur minnkuðu muninn í 15-18 og gerði þá BF tvöfalda skiptingu. BF hafði yfirhöndina alla hrinuna og í stöðunni 19-23 gerði liðið aftur tvöfalda skiptingu. BF kláraði svo hrinuna 19-25 og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var mun meira spennandi en sú fyrri og var jafnræði með liðunum nánast allan tíman og komst Völsungur yfir í nokkur skipti.  Í stöðunni 7-8 skoraði BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12. Völsungur svaraði þessu með sex stigum í röð og var staðan skyndilega orðin 13-12. BF kom til baka og komst yfir í stöðunni 14-16 og tóku þá heimakonur leikhlé. Völsungur komu sterkar til baka og komust yfir 19-18 og aftur var tekið leikhlé. Mikil spenna var síðustu mínúturnar og komst BF í góða stöðu 20-22 og 21-24. Völsungur minnkaði muninn í 23-24 en BF náði síðasta stiginu og vann 23-25 með minnsta mun og var komið í 0-2.

Í þriðju hrinu hafði BF mikla yfirburði og gott forskot allan tímann. BF komst í 2-7 og tóku heimakonur strax leikhlé. BF komst í 2-10 og höfðu þá skoraði 8 stig í röð, og fljótlega í 5-15 og aftur tóku heimakonur leikhlé. BF var mun sterkara í þessari hrinu og stefndi allt í góðan sigur í stöðunni 9-19 og 12-22. Völsungur náði hinsvegar nokkrum stigum til viðbótar og urðu lokatölur 18-25 og vann BF öruggan 0-3 sigur.

Glæsilegur sigur hjá BF stelpunum á þessum útivelli. BF leikur næst við Ými föstudaginn 13. mars á Siglufirði.

 

Ófært til Fjallabyggðar

Enn á ný er ófært til Fjallabyggðar, Siglufjarðarvegur er lokaður, hættustig er í gildi vegna snjóflóðahættu. Ólafsfjarðarmúli er einnig lokaður og hættustig er í gildi vegna snjóflóðahættu. Lokað er í Héðinsfirði á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar vegna ófærðar.

Öxnadalsheiði er lokuð vegna veðurs, Þverárfjall er lokað vegna veðurs. Ófært er um Víkurskarð og til Grenivíkur. Ófært er á milli Akureyrar og Húsavíkur.

Nýr bæjarstjóri mættur til starfa í Fjallabyggð

Nýráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar, Elías Pétursson mætti til vinnu í dag og var það hans fyrsti dagur í nýju starfi. Björn Valdimarsson tók þessa ljósmynd af honum á skrifstofunni í dag, og er birt hér með hans góðfúslegu leyfi. Elías starfaði áður sem sveitarstjóri í Langanesbyggð, en hefur nú eins og áður sagði hafið störf í Fjallabyggð.

Bjóðum Elías velkominn til starfa.

 

Mynd frá Björn Valdimarsson.
Mynd: Bjornvald.is – Birt með leyfi.

Síðustu sýningar af Þreki og Tár í Fjallabyggð

Leikfélag Fjallabyggðar sýnir nú síðustu tvær sýningar af verkinu Þrek og Tár í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði næstu daga. Íbúar eru hvattir til að sjá þetta verk á meðan sýningar standa.

Leikritið segir frá kaupmannsfjölskyldu í Reykjavík í byrjun sjöunda áratugarins. Tónlistarhæfileikar fjölskyldunnar brjótast út á mismunandi hátt hjá meðlimum hennar og krydda verkið, tónlistin er dægurflugur þess tíma. En undir niðri krauma óuppgerð átakamál, breyskleiki, og útskúfun takast á við umburðarlyndi og mannúð.

Um 20 leikarar og 5 manna hljómsveit taka þátt í þessari sýningu, en hljómsveitina skipa nemendur úr Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Næstu sýningar:

3. sýning 10. mars kl. 20
4. sýning 12. mars kl. 20

Miðaverð kr. 3.500
Aldraðir, öryrkjar og undir 14 ára: 3.000 Kr.
Miðapantanir: 8495384 – Vibekka // 8632604 – Guðrún

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

BF vann Hamar í 5 hrinu leik

Blakfélag Fjallabyggðar og Hamar í Hveragerði mættust í síðasta deildarleik 1. deildar karla í blaki í dag í Hveragerði. Þróttararnir Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ og Sævar Már Guðmundsson sá um dómgæslu í þessum leik. BF gat með sigri gulltryggt sig inn í úrslitakeppnina og einnig lyft sér úr neðsta sætinu.

Hamar hafði tapað síðustu þremur leikjum en hafði fengið lengri hvíld en BF sem átti leik í gær.

Fyrsta hrinan var kaflaskipt hjá BF, liðin voru jöfn framan af en heimamenn náðu svo upp ágætu forskoti á BF, sem kom þá til baka í lok hrinunnar. Hamar komst í 7-3 og 9-4 og settu strax tóninn og leiddu nánast alla hrinuna. Hamar var að spila vel og komst í 17-9 og tók þá BF leikhlé til að stilla saman strengi. Hamar komst í 20-15 og BF saxaði jafnt og þétt á forskotið. Hamar komst í 24-18 en með góðu spili tókst BF að minnka muninn í 24-22 og hleypti mikilli spennu í leikinn síðustu mínúturnar. Hamar tók leikhlé og gerðu eina skiptingu og náðu síðasta stiginu og unnu fyrstu hrinuna 25-22 eftir mikla baráttu.

BF byrjaði aðra hrinu með látum og komst í 0-5 en heimamenn jöfnuðu 6-6 og aftur var jafnt 11-11. Liðunum gekk erfiðlega að ná upp miklu forskoti í þessari hrinu og skiptust á að leiða með 1-2 stigum. Hamar komst í 16-12 en BF minnkaði strax muninn 16-15 og aftur var jafnt 18-18 og tók nú Hamar leikhlé. Hamar skoraði næstu tvö stig en BF svaraði strax til baka og var aftur jafnt 20-20 og mikil spenna í leiknum. Jafnt var 22-22 og 23-23, og gerðu nú BF eina skiptingu og kom Daníel Pétur inná fyrir Guðjón. Jafnt var 24-24 og var nú hver misstök dýr. BF náði síðustu tveimur stigunum og vann 24-26 eftir upphækkun, og staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var líka gríðarlega jöfn og spennandi, hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu og skiptust á að leiða alla hrinunna.  Jafnt var á tölunum 6-6, 8-8 og 14-14 og tóku þá heimamenn leikhlé. Hamar svaraði strax með tveimur stigum en BF skoraði þá 5 stig í röð og var staðan orðin 16-19 og mikil spenna. BF komst í 18-21 en þá hrökk allt í lás og heimamenn skoruðu 5 stig í röð og komust í 23-18 og tók þá þjálfari BF mikilvægt leikhlé. BF komst í 23-24 og vantaði aðeins þetta eina dýrmæta stig, en Hamar jafnaði og komst yfir 25-24. BF jafnaði aftur 25-25 og tóku leikhlé, og var gríðarleg barátta hérna í lokin. BF gerði aftur eina skiptingu, en Hamar náði síðustu tveimur stigunum og vann hrinuna 27-25 eftir upphækkun og staðan orðin 2-1.

Í fjórðu hrinu var að duga eða drepast fyrir BF, en liðin voru jöfn framan af en BF var sterkara heilt yfir í hrinunni og náði upp góðu forskoti á köflum.  BF komst í 3-6 og 6-8 en Hamar komst aðeins í gang og náðu smá forskoti 12-8 og BF gerði skiptingu þegar Þórarinn kom inná fyrir Marcin. BF náði nú góðum kafla og komust yfir 14-16 og skoruðu 6 stig í röð og tóku nú heimamenn leikhlé og gerðu skiptingu. BF gáfu ekkert eftir og keyrðu áfram og komust í 15-20 og 19-24. Hamar klóraði aðeins í bakkann og gerðu tvö stig, 21-24 en BF náði þessu dýrmæta stigi og unnu hrinuna 21-25 eftir gott leikhlé og skiptingu og jöfnuðu leikinn 2-2.  Allt stefndi í spennandi oddahrinu.

Oddahrinan var jöfn og spennandi en BF komst í 2-5 en Hamar komst yfir 6-5. BF komst í 10-11 og 11-13 og tóku nú heimamenn leikhlé. BF náði tveimur síðustu stigunum og unnu hrinuna 11-15 og leikinn 2-3 eftir gríðarlega baráttu og spennandi hrinur.

BF endar nú með 7 stig í deildinni og í næst neðsta sæti eftir erfiðan vetur. Liðið hefur spilað 12 leiki, unnið þrjá og tapað 9.

 

 

Skólarnir á Norðurlandi kepptu í Skólahreysti

Tveimur riðlum er lokið í Skólahreysti en skólarnir á Norðurlandi hafa lokið keppni. í riðli 1 voru tólf skólar utan Akureyrar og var hörð barátta þar um efstu sætin. Skólarnir úr Skagafirði enduðu í fyrstu þremur sætunum og Grunnskóli Fjallabyggðar fylgdi fast á eftir.

Varmahlíðarskóli fékk flest stig og keppnisrétt í úrslitum keppninnar sem verður í apríl. Lundaskóli vann riðil 2, þar sem skólarnir á Akureyri kepptu og hlaut keppnisrétt í úrslitum.

Varmahlíðarskóli sigraði með nokkrum yfirburðum í riðli 1, en skólarnir í 2.-4. sæti voru mjög jafnir.

Úrslit:

Skóli Gildi Stig
Varmahlíðarskóli 63 63,00
Gr Austan Vatna 54,5 54,50
Árskóli 52 52,00
Gr Fjallabyggðar 51,5 51,50
Húnavallaskóli 48,5 48,50
Hrafnagilsskóli 45 45,00
Dalvíkurskóli 35,5 35,50
Blönduskóli 34,5 34,50
Grenivíkurskóli 32 32,00
Þelamerkurskóli 19,5 19,50
Valsárskóli 17,5 17,50
Gr Þórshöfn 14,5 14,50

Úrslit:

Skóli Gildi Stig
Lundarskóli 30 30,00
Brekkuskóli 29 29,00
Oddeyrarskóli 25,5 25,50
Glerárskóli 22,5 22,50
Giljaskóli 22 22,00
Naustaskóli 20,5 20,50
Síðuskóli 18,5 18,50
Mynd frá Skólahreysti.
Mynd: skolahreysti.is

KF mætti Dalvík/Reyni í Lengjubikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Dalvík/Reyni í Boganum á Akureyri í gær. Sannkallaður nágrannaslagur í Lengjubikarnum, en það er alltaf hart barist þegar þessi lið mætast.

KF nældi sér í þrjú gul spjöld í fyrri hálfleik, en rétt undir lok fyrri hálfleiks þá fékk Dalvík/Reynir vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Lopez Laguna og kom Dalvík/Reyni í 1-0. Aðeins mínútu síðar skoraði Dalvík/Reynir aftur, og var það Númi Kárason sem átti það mark, staðan orðin 2-0 og dómarinn flautaði til leikhlés.

Í upphafi síðari hálfleiks lendir markmaður Dalvík/Reynis í samstuði við annan leikmann og þurfti hann að yfirgefa svæðið í sjúkrabíl. Dalvík/Reynir hafði engan varamarkmann á bekknum í þessum leik, en 7 aðrir útileikmenn voru klárir í slaginn. Sóknarmaðurinn Jóhann Örn var settur í markið og stóð fyrir sínu. Dalvík/Reynir gerði sem sagt tvær skiptingar strax í upphafi síðari hálfleiks, og tvær skiptingar um miðjan hálfleikinn. Á 79. mínútu fékk Birkir Freyr Andrason leikmaður KF sitt annað gula spjald, og þar með rautt og spilaði KF með 10 menn til loka leiks. Undir lok leiksins fékk KF kjörið tækifæri til að minnka muninn þegar þeir fengu vítaspyrnu dæmda, en Jóhann Örn gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

KF gerði tvær skiptingar undir lok leiksins en Gabríel Reynisson kom inná en hann hefur ekki leikið mótsleik fyrir KF síðan árið 2015, en hefur núna tekið fram skóna. Gabríel er 30 ára og hefur leikið 144 leiki í deild og bikar fyrir KF og KS/Leiftur og skorað 23 mörk.

Inn vildi boltinn ekki hjá KF í þessum leik og voru lokatölur 2-0.

HSN lokar fyrir heimsóknir

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands hefur tekið þá ákvörðun að loka sjúkra- og hjúkrunardeildum fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 7. mars þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við sóttvarnayfirvöld eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir vegna COVID-19 veirunnar.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekur sjúkra- og hjúkrunarrými á Húsavík, Fjallabyggð,  Sauðárkróki og Blönduósi og eru skjólstæðingar HSN flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og því í sérstökum áhættuhópi á að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.

Leitað er allra leiða til að draga úr hættu á að íbúar á hjúkrunardeildum og sjúklingar á sjúkradeildum veikist og lokunin er liður í því.
Við sérstakar aðstæður má leita undanþágu hjá yfirhjúkrunarfræðingum.

HSN bendir fólki einnig á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.

Heimild: hsn.is

BF í neðsta sæti eftir tap

Blakfélag Fjallabyggðar og HKarlar úr Kópavogi mættust í Fagralundi í dag í næstsíðasta leik BF í deildinni. HKarlar voru í neðsta sæti fyrir leikinn og gátu með sigri komist upp fyrir BF. HKarlar höfðu tapað síðustu 4 leikjum í deildinni og BF hafði tapað síðustu 5 leikum. HKarlar búa yfir reynslumiklu liði og eru nokkrir þar sem hafa leikið fyrir landsliðið og í efstu deildinni á Íslandi á árum áður. BF mætti með sitt sterkasta lið í þennan mikilvæga leik áður en úrslitakeppnin hefst. BF hafði unnið síðasta leik gegn HKörlum 3-0 og voru heimamenn staðráðnir í að kvitta fyrir þau úrslit í þessum leik. Zdravko Demirev fyrrum leikmaður og þjálfari ÍS (Íþróttafélag Stúdenta) var aðaldómari leiksins.

Leikurinn átti eftir að vera jafn og spennandi og fóru tvær hrinur í upphækkun. Fyrsta hrina byrjaði jafnt og var staðan 8-7 þegar BF skorar fjögur stig í röð og kemst í 8-11 og 10-14. BF komst í 11-16 eftir góðan kafla og tóku þá heimamenn leikhlé. BF var með góða forystu 15-20 en heimamenn jöfnuðu jafnt og þétt og var staðan orðin æsispennandi í lokin, 22-23 og jafnt 24-24. Daníel Pétur kom inná fyrir Óskar í blálokin og BF náði sigri 24-26 eftir upphækkun.

BF byrjuðu einnig vel í annarri hrinu en HKarlar áttu svo góðan endasprett. BF komst í 3-5 og 7-8 en þá komst HKarlar betur inn í leikinn og komust yfir 10-8. BF svöruðu strax til baka og komust yfir 11-12 og tóku einnig leikhlé. BF náði í framhaldinu góðum kafla og komst í 14-18 og 15-19 og allt leit vel út. Heimamenn voru hinsvegar ekki hættir og skoruðu sex stig á móti einu og breyttu stöðunni í 21-20 og aftur var kominn æsispennandi lokakafli. BF jafnaði 21-21 en heimamenn tóku síðustu stigin og unnu hrinuna 25-21 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Þriðja hrina var löng og tók 28 mínútur að klára. Leikur liðanna var kaflaskiptur en aftur voru æsispennandi lokamínútur. HKarlar komust í 3-0 og 5-1 og settu strax tóninn. BF minnkaði muninn í 6-5 og 7-6 en heimamenn hrukku þá aftur í gang og skoruðu 5 stig í röð og var staðan orðin 12-6. HKarlar komust í 16-11 en BF náði upp góðu spili og minnkuðu jafnt og þétt muninn og var staðan orðin jöfn 18-18. BF komst í 19-21 og tóku þá heimamenn leikhlé til að stöðva gott spil BF á þessum kafla. Tók nú við langur og spennandi lokakafli í hrinunni og var jafnt 24-24 og 27-27. BF komst í 27-28 og vantaði aðeins eitt stig til að sigra hrinuna, en heimamenn náðu síðustu stigunum og unnu 30-28. Ansi svekkjandi að ná ekki sigri í hrinunni fyrir BF eftir mikla baráttu og gott spil á köflum. Staðan hér orðin 2-1 fyrir heimamenn.

BF byrjuðu fjórðu hrinuna ágætlega en erfiðlega gekk að sækja stigin eftir sem leið á hrinuna. BF komst í 2-5, 4-7 og 7-8, en þá tóku heimamenn völdin og skoruðu 5 stig í röð og komust í 12-8 og tóku nú BF strákarnir leikhlé. HKarlar komust í 18-10 og 20-11 og allt stefndi í auðvelda hrinu hjá þeim, en BF strákarnir börðust eins og þeir gátu í lokin til að sækja fleiri stig. BF minnkaði muninn í 21-15 og 22-19 og var komin smá spenna í hrinuna og tóku heimamenn leikhlé. HKarlar kláruðu hrinuna 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Svekkjandi niðurstaða fyrir BF eftir mikla baráttu allan leikinn. BF er þar með komið í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig og leikur við Hamar í Hveragerði á morgun í lokaleik deildarinnar.