All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Framkvæmdir við endurbætur á Sundlaug Sauðárkróks hefjast

Framkvæmdir við endurbætur á Sundlaug Sauðárkróks eru að hefjast. Í verkinu felst endurgerð á núverandi laugarhúsi, jafnt að utan sem innan, og breytingar á skipulagi innanhúss. Við framkvæmd sem þessa er óhjákvæmilegt að starfsemi sundlaugarinnar raskist verulega og mun þurfa að loka sundlauginni á hluta verktímans en reynt verður að halda lokunum í lágmarki. Í dag er fyrirséð að fyrsta lokun mun verða mánudaginn 8. janúar og mun standa yfir í tvær vikur.  Aðalverktaki verksins er K-Tak ehf. og hljóðar verksamningur upp á 332 milljónir króna. Verklok á endurbótum innanhúss eru 15. maí 2019 og skal verkinu að fullu lokið 15. ágúst 2019.

Nánar um framkvæmdir

Á 1. hæð verður anddyri, snyrting fyrir hreyfihamlaða, gangrými, lyfta og aðstaða starfsmanna. Vesturhluti núverandi kvennaklefa á jarðhæð verður óráðstafaður, og gufubað í suðurenda jarðhæðar verður óbreytt að mestu. Á 2. hæð verður útbúinn kvennaklefi og blautgufa í austurhluta hússins þar sem nú eru geymslur, vaktrými og þrekaðstaða, en karlaklefi í vesturhlutanum. Fyrir miðju verður afgreiðsla og vaktrými, ásamt sérstökum klefa fyrir hreyfihamlaða.

Breytingar á ytra byrði hússins felast m.a. í breyttri glugga- og hurðasetningu, niðurrifi á núverandi anddyrisbyggingu við NA-horn, niðurrifi á neðsta þrepi í áhorfendastæðum og steypu á veggskífu við aðalinngang. Húsið verður einangrað, klætt með múrklæðningu og málað.
Framkvæmdunum verður í grófum dráttum skipt í tvo verkáfanga;

Í fyrri áfanga verður tekinn fyrir austurhluti sundlaugarhúss, 1. og 2. hæð. Í upphafi verkáfangans verður útbúinn nýr bráðabirgðainngangur á norðurhlið og afgreiðsla verður færð til. Einnig verður vaktrými á 2. hæð flutt út á sundlaugarsvæðið. Á meðan unnið er að þessum áfanga verða innstu hlutar núverandi kvenna- og karlaklefar notaðir. Gufubað verður lokað á meðan unnið er að þessum verkáfanga.

Í öðrum verkáfanga verður tekinn fyrir vesturhluti hússins, þ.e. núverandi kvenna- og karlaklefar. Nýr kvennaklefi verður þá tilbúinn til notkunar á efri hæð og karlaklefi verður staðsettur við núverandi gufubað á 1. hæð.

Framkvæmdin er 1. áfangi í endurbótum á Sundlaug Sauðárkróks þar sem í 2. áfanga er gert ráð fyrir viðbyggingu setlauga og rennibrauta.

Svavar Örn Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2017

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar var lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi í dag og hófst athöfnin kl. 17:00.  Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2017 var kosinn Svavar Örn Hreiðarsson, knapi frá Hestamannafélaginu Hringur.  Svavar var einnig tilnefndur í fyrra en þá vann kylfingurinn Arnór Snær Guðmundsson frá Golfklúbbnum Hamar.

Árangur Svavars

Svavar Örn hefur verið í fremstu röð á kappreiðarbrautinni undanfarin ár og sló ekki slöku við þetta árið enda var markmið hans að komast á HM í Hollandi með Heklu frá Akureyri og þangað komst hann þó leiðin hafi ekki verið bein né greið. En veltan sem þau tóku saman í sumar Svavar og Hekla, er fyrir löngu orðin heimsfræg. Flestir töldu að þar með væri draumurinn búinn en svo var aldeilis ekki Svavar lætur ekkert stoppa sig hvorki byltur né sjúkdóm sinn MS og hélt áfram að keppa og uppskar það sem stefnt var að, að komast í landsliðið og á HM í Hollandi. 

Besti tími ársins hjá Svavari í 100 m flugskeiði var á Heklu 7,25 sek,  einnig náði hann góðum árangri á Flugari eða 7,78  sek.  Í 250 m skeiði á Svabbi best á árinu 22,68 sek á Heklu og á Þyrli á hann 23,71  sek.

Á stöðulista FEIF (heimsstöðulisti) eru Svavar og Hekla í 2 sæti með meðaltímann 7,45sek.

 

Íslandsmeistaratitlar (eða sambærilegt, t.d. landsliðsúrtak)

Svavar keppti á íslandsmótinu í 100mtr. skeiði á Heklu og urðu þau þar í öðru sæti og á úrtökumóti fyrir HM urður þau sigurvegarar en sá árangur ásamt góðum árangri á öðrum mótum varð til þess að Svavar komst í landsliðið með Heklu og fóru þau á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi í ágúst og kepptu í skeiði.  Þar enduðu þau í 3ja sæti í 100mtr. skeiði og 10 sæti í 250mtr. skeiði.

 

Aðrir titlar / sigrar / mót

Svavar var mjög duglegur að keppa á árinu og árangur hans í stuttu máli er:

 • 10 sinnum náði hann í fyrsta sætið
 • 9   sinnum náði hann öðru sæti
 • 5   sinnum náði hann þriðja sætinu

 

Jólaviðtölin 2017

Við heyrðum í nokkrum þekktum persónum og íbúum í Fjallabyggð skömmu fyrir jólin 2017 og fengum svör við nokkrum spurningum um hátíðarvenjur þeirra.  Mjög góð þátttaka var í þessum nýja lið hérna á síðunni og vonandi verður framhald á þessu um næstu hátíð.

Viðtölin má lesa hér:

Egill Rögnvaldsson

Aðalheiður Eysteinsdóttir

Skúli Pálsson

Kristín Sigurjónsdóttir

Anita Elefsen

Steinunn María Sveinsdóttir

Gestur Hansson

Gunnar Smári Helgason

Óskar Þórðarson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Oddgeir Reynisson

 

 

 

 

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir þetta fyrsta skrefið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir dyrum standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið með þetta að markmiði, líkt og fjallað sé um í stjórnarsáttmálanum: „Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins“ segir Ásmundur Einar.

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.

 • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
 • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:

 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Foreldrar langveikra og alvarlega fatlaðra barna fá desemberuppbót

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót, að hámarki 53.123 kr. Þetta er nýmæli en uppbótin er sambærileg þeirri sem greidd er lífeyrisþegum og atvinnuleitendum.

Samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi nr. 22/2006 rétt á desemberuppbót. Uppbótin er hlutfallsleg þannig að foreldri sem fengið hefur mánaðarlega greiðslu samkvæmt lögunum alla tólf mánuði ársins fær fulla desemberuppbót, þ.e. 53.123 kr.

Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.

Aðgengi að ljósleiðara í dreifbýli Fjallabyggðar kostar 250 þúsund

Tengir hf. á Akureyri og Fjallabyggð hafa gert með sér samning vegna uppbyggingar á ljósleiðara í dreifbýli Fjallabyggðar.  Tengir hf. leggur ljósleiðara (stofndreifikerfi) um sveitarfélagið og gefur fasteignaeigendum, þar með talið lögbýlum, kost á tengjast því með heimtaug frá stofnstreng.

Íbúar greiða inntaksgjald heimtauga samkvæmt verðskrá, að upphæð kr. 250.000.  Heimtaugar verða því aðeins lagðar frá stofndreifikerfi Tengis hf. að lögbýlum ef fyrir liggur tengibeiðni og að heimtaugagjald sé greitt.  Þeir íbúar sem ekki sjá sér fært að tengjast heimtaug í þessum fyrsta áfanga mun bjóðast að tengjast síðar eða eftir að framkvæmdum en lokið en hækkar þá tengigjald samkvæmt verðskrá í kr. 343.305.

Ljósleiðari í Dreifbýli á Siglufirði verður rúmlega 1,5 km á lengd, en hann mun meðal annars ná að Íþróttamiðstöðinni að Hóli og að Siglufjarðarflugvelli. Í Ólafsfirði er svæðið mun stærra og verður ljósleiðarinn í dreifbýli þar rúmlega 17,6 km á lengd og verður það fyrsti áfangi verksins.

Helstu skattbreytingar 2018

Ýmsar breytingar verða á skattkerfinu 1. janúar 2018 þótt þær séu færri nú en oft áður um áramót. Hér á eftir verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna, bæði þeirra sem snerta heimili og fyrirtæki.

Tekjuskattur einstaklinga og útsvar

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga í ársbyrjun 2018 vegna verðlagsuppfærslu persónuafsláttar og þrepamarka. Persónuafslátturinn hækkar um 1,9% og þrepamörkin um 7,1%. Skattþrepin verða áfram tvö og skatthlutföllin óbreytt. Miðað við fyrirliggjandi ákvarðanir sveitarstjórna munu aðeins tvö sveitarfélög breyta útsvari sínu um áramótin og verður meðalútsvar í staðgreiðslu óbreytt, 14,44% . (1) Skattleysismörkin í staðgreiðslu hækka því um 1,9% og verða tæplega 152 þús.kr. á mánuði, þegar tekið er tillit til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Þrepamörkin, þar sem hærra skattþrepið tekur við, hækka úr 834.707 kr. í 893.713 kr. á mánuði.

Tilfærsla milli tekjuskattsþrepa í þeim tilvikum þegar annað hjóna eða samskattaðra aðila hefur tekjur í efra skattþrepi en hitt ekki getur að hámarki numið 446.857 kr. á mánuði í stað 417.354 kr. árið 2017. Tekið er tillit til samsköttunar við álagningu opinberra gjalda og mun framangreind fjárhæð gilda við álagningu tekjuskatts á árinu 2019.

Meðfylgjandi tafla sýnir skatthlutföll tekjuskatts og útsvars, persónuafslátt, skattleysismörk og þrepamörk árin 2017 og 2018.

Nánari upplýsingar um breytingar á tekjuskatti, útsvari, persónuafslætti og skattleysismörkum við áramótin eru í frétt ráðuneytisins frá 22. desember sl. og í auglýsingu á vef Stjórnartíðinda frá 27. desember sl.

Barnabætur og vaxtabætur

Fjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% milli áranna 2017 og 2018 og tekjuskerðingarmörk um 7,4% milli ára. Fjárhæðir og skerðingarmörk vaxtabóta haldast óbreytt milli ára. Sé tekið dæmi af barnabótum þá munu tekjuskerðingarmörkin hækka úr 225 þús.kr. á mánuði í um 242 þús.kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 450 þús.kr. á mánuði í um 483 þús kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, auk 8,5% hækkunar á bótafjárhæðunum eins og áður segir. Einstætt foreldri með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 242 þús.kr. á mánuði hefði án framangreindra breytinga fengið 66.434 kr. á mánuði í barnabætur á árinu 2018 en fær eftir breytinguna 73.892 kr., á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.458 kr. Hjá hjónum með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 483 þús.kr. á mánuði fer fjárhæð barnabóta úr 44.517 kr. á mánuði í 51.875 kr. á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.358 kr. Rétt er að taka fram að barnabætur eru skattfrjálsar.

Fjármagnstekjuskattur

Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts hækkar úr 20% í 22% um áramótin. Skatthlutfallið 22% gildir því við staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum og arði frá og með 1. janúar 2018 og við álagningu fjármagnstekjuskatts sumarið 2019 á þær fjármagnstekjur ársins 2018 sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkar jafnframt úr 125 þús.kr. í 150 þús.kr. sem þýðir að langflestir greiðendur fjármagnstekjuskatts munu ekki greiða hærri skatt þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Hér eftir sem hingað til er þó ekki tekið tillit til frítekjumarksins í staðgreiðslukerfinu heldur eftir á, við álagninguna. Hækkun frítekjumarksins er hins vegar afturvirk og mun gilda þegar álagning á vaxtatekjur ársins 2017 fer fram sumarið 2018. Skatthlutfall aðila með takmarkaða skattskyldu og tiltekinna lögaðila, eins og sameignar- og samlagsfélaga, sem tekur mið af bæði tekjuskatti lögaðila og fjármagnstekjuskatti einstaklinga, hækkar tilsvarandi úr 36% í 37,6% 1. janúar 2018.

Krónutölugjöld

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækka almennt um 2% um áramótin. Hið sama gildir um „nefskattana“ tvo, þ.e. útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkunin miðast við að gjöldin haldi verðgildi sínu miðað við almennt verðlag. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 50% í samræmi við þá stefnu að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Krónutölugjöld eru sýnd í meðfylgjandi töflu.

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en verður nú framlengd þangað til bílum hefur fjölgað í 10.000 í hverjum þessara þriggja flokka fyrir sig, en þó ekki lengur en til ársloka 2020.

Vörugjöld á bifreiðar ökutækjaleiga

Ökutækjaleigur (bílaleigur) hafa um árabil notið skattastyrks í formi afsláttar af vörugjaldi sem lagt er á við innflutning bifreiða. Fast hámark sem sett er á afsláttinn á hverja bifreið lækkar úr 500 þús.kr. í 250 þús.kr. 1. janúar 2018. Þessi ívilnun fellur úr gildi í árslok 2018.

Heimild: stjornarradid.is

Fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því fellst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimild: stjornarradid.is

Íþróttafólk Þórs 2017

Körfuknattleiksmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason og knattspyrnukonan Sandra Stephany Mayor Gutierrez eru íþróttafólk Þórs 2017, en þetta var gert opinbert á hófi sem fram fór 27. desember síðastliðinn. Kynnir kvöldsins var Haraldur Ingólfsson og voru gestir alls um 120.

Hápunktur kvöldsins var þegar kjöri á íþróttafólki Þórs var lýst, í kjöri var íþróttafólk deilda:

 • Knattspyrna: Orri Sigurjónsson og Sandra Stephany Mayor Gutierrez
 • Körfuknattleikur: Tryggvi Snær Hlinason og Heiða Hlín Björnsdóttir
 • Keila: Guðbjörg Sigurðardóttir og Ólafur Þór Hjaltalín
 • Píla: Bjarni Sigurðsson og Jóhanna Bergsdóttir
 • Handknattleiksmaður Þórs – Hafþór Már Vignisson
 • Taekwondodeild Þórs tilnefndi engan að þessu sinni.

  Það er aðalstjórn Þórs sem kýs íþróttafólk Þórs úr þessum hópi þ.e. karl og konu.

  Félagar voru heiðraðir, Brynjar Davíðsson flutti lag Bjarna Hafþórs Helgasonar ,,Ég er Þórsari“. Þorgrímur Þráinsson fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu var aðalræðumaður kvöldsins.

  Heiðursviðurkenningar

  Aðalstjórn Þórs upplýsti að á fundi stjórnar þann 21. desember síðastliðinn að gera Hreiðar Gíslason að heiðursfélaga í Þór. Einnig var samþykkt á sama fundi að veita þeim Svanbergi Snorrasyni og Önnu Friðjónsdóttur silfurmerki Þórs og Þorsteini Veigari Árnasyni gullmerki Þórs.

Heimild og mynd: Thorsport.is

Fimm vinsælustu fréttir ársins 2017

Birtum hér fimm vinsælustu fréttir ársins 2017 hér á vefnum. Þetta voru fimm mest lesnu og vinsælustu fréttirnir úr Fjallabyggð og Tröllaskaga.

Í 5. sæti: Aðsend grein vegna breyttrar fræðslustefnu í Fjallabyggð.

Í 4. sæti: Allt sem þú vissir ekki um Depla í Fljótum

Í 3. sæti: Rakarinn opnaði nýjan bar á Siglufirði.

Í 2. sæti: Aðsend grein um öryggi íbúa í Fjallabyggð eftir breytingar á sjúkraflutningum HSN.

Í 1. sæti:  Aðsend grein um ósætti íbúa við nýja fræðslustefnu Fjallabyggðar.

26 þúsund heimsóttu Síldarminjasafnið

Á árinu 2017 var nýtt aðsóknarmet sett í heimsóknum hjá Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði. Rúmlega 26.000 gestir heimsóttu safnið en um 25.000 heimsóttu safnið árið 2016. Er þetta í þriðja árið í röð og í sögunni sem gestir fara yfir 20 þúsund á safninu.

Fjöldi erlendra gesta var um 62% árið 2017 en var um 60% árið 2016. Frá árinu 2010 hefur erlendum gestum á safninu fjölgað mikið, meðal annars með fleiri skemmtiferðaskipaheimsóknum til Siglufjarðar. Þess má geta að fyrstu ár safnsins voru aðeins um 5000 gestir og sárafáir erlendir gestir í þeim tölum.

Síldarsöltun

Áramótabrennur í Skagafirði

Fjórar áramótabrennur verða í Skagafirði á gamlársdag og verður kveikt í þeim öllum kl. 20:30.   Á Sauðárkróki er brennan norðan við hús Vegagerðarinnar. Á Hofsósi við Móhól, á Hólum sunnan við Víðines og í Varmahlíð við afleggjarann upp í Efri-Byggð.  Á þessum sömu stöðum verða flugeldasýningar sem allar hefjast kl. 21:00.

 

Brennur og flugeldasýningar

Það er ýmsilegt á dagskrá á gamlársdag í Fjallabyggð. Í Ólafsfjarðarkirkju er aftansöngur kl. 16:00 og kl. 17:00 í Siglufjarðarkirkju. Áramótabrenna verður kl. 20:00 og flugeldasýning í framhaldinu í Ólafsfirði og brenna kl. 20:30 og flugeldasýning kl. 21:00 á Siglufirði. Flugeldasalan lokar kl. 16:00 á Siglufirði og kl. 15:00 í Ólafsfirði.

Aukning á gistinóttum á hótelum á Norðurlandi í nóvember

Gistinætur á hótelum á Norðurlandi í nóvember síðastliðnum voru alls 12.070, sem er 15% aukning frá nóvembermánuði árið 2016.  Á tímabilinu desember 2016 til nóvember 2017 voru gistinætur á hótelum á Norðurlandi alls 296.375, en voru 281.652 frá 2015-2016, og er því aukning um 5%.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Heimild: hagstofa.is

Elsa Guðrún íþróttamaður Fjallabyggðar annað árið í röð

Val á íþróttamanni ársins í Fjallabyggð fór fram í gærkvöld. Það var skíðagöngukonan Elsa Guðrún Jónsdóttir frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar sem var valin íþróttamaður ársins og skíðakona ársins í Fjallabyggð og er það annað árið í röð sem hún hlítur þann titil.  Elsa Guðrún átti frábært ár í göngubrautinni, þar sem hápunkturinn var sigur í forkeppni HM, sem tryggði henni þáttökurétt í öllum keppnisgreinum á HM í Finnlandi. Með árangri sínum á árinu tryggði Elsa sér þáttökurétt á Vetrarólympíuleikunum sem fram fara í Suður Kóreu í febrúar næstkomandi.

Það eru ÚÍF og Kiwanisklúbburinn Skjöldur sem standa að vali íþróttamanns ársins 2017.  Einnig voru valin efnilegasta og besta íþróttafólk hverrar greinar en 39 voru tilnefndir í ár.

Hvert aðildarfélag tilnefndi allt að þrjá iðkendur í kjörinu á íþróttamanni hverrar greinar (19 ára og eldri) en þeir sem urðu fyrir valinu voru eftirtaldir:

Blakmaður ársins: Þórarinn Hannesson frá BF
Boggiamaður ársins: Hrafnhildur Sverrisdóttir frá Snerpu
Knattspyrnumaður ársins: Andri Freyr Sveinsson frá KF
Kraftlyftingarmaður ársins: Hilmar Símonarson frá KFÓ
Kylfingur ársins: Sigurbjörn Þorgeirsson frá GKF
Skíðamaður ársins: Elsa Guðrún Jónsdóttir frá SÓ

Aðildarfélögin tilnefndu líka unga og efnilega iðkendur í báðum kynjum og fengu eftirtaldir viðurkenningu fyrir árangur sinn í eftirfarandi íþróttagreinum:

Badminton: Hörður Ingi Kristjánsson og Anna Brynja Agnarsdóttir
Blak: Eduard Constantin Bors og Oddný Halla Haraldsdóttir
Hestamennska: Hörður Ingi Kristjánsson og Marlis Jóna Karlsdóttir
Knattspyrna: Vitor Vieira Thomas og Anna Brynja Agnarsdóttir
Golf: Þorgeir Örn Sigurbjörnsson og Sara Sigurbjörnsdóttir
Skíði: Alexander Smári Þorvaldsson og Helga Dís Magnúsdóttir

Ármann Þórðarson var heiðraður fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttamála í Fjallabyggð en Ármann hefur tekið þátt í og komið að íþróttamálum í Ólafsfirði í um 7 áratugi og var m.a. einn af stofnendum Golfklúbbs Ólafsfjarðar árið 1968. Síðan þá hefur Ármann unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn.
Kara Gautadóttir, úr Ólafsfirði, var einnig heiðruð á hátíðinni fyrir frábæran íþróttaárangur á árinu en Kara keppir fyrir Kraftlyftingarfélag Akureyrar. Hún var m.a. í 2. sæti á Norðurlandamótinu og í 3. sæti á Evrópumóti unglinga í sínum þyngdarflokki.

Myndir: Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð.

Tilnefningar frá Golfklúbbi Fjallabyggðar

Golfklúbbur Fjallabyggðar tilnefnir 9 aðila í þremur flokkum til íþróttamanns ársins í Fjallabyggð.  Kjör á íþróttamanni Fjallabyggðar fer fram í kvöld.

Tilnefningar GFB

13-18 ára kvk
Sara Sigurbjörnsdóttir
Alexandra Nótt Kristjánsdóttir
Guðrún Fema Sigurbjörnsdóttir

13-18 ára kk
Þorgeir Örn Sigurbjörnsson
Björgvin Grétar Magnússon
Víðir Freyr Ingimundarson

19 ára og eldri
Sigurbjörn Þorgeirsson
Dagný Finnsdóttir
Bergur Rúnar Björnsson

Fótboltamót Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar stendur fyrir innanhússfótboltamót, laugardaginn 30. desember kl. 14:00, sem haldið verður í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Keppt verður í karla- og kvennaflokki, 15 ára og eldri. Lágmarksfjöldi er 5 í hverju liði, en hámark 8. Þátttökugjald er 2000 kr. á einstakling og eru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokki.

Flugeldasala Björgunarsveitarinnar Dalvík og UMFS

Flugeldasala Björgunarsveitarinnar Dalvík og UMFS er hafin.  Vakin er athygli á breyttri tímasetningu á brennu á Böggvisstaðasandi þann 31. desember kl. 17:00, sem og breyttri staðsetningu á brennu á Árskógsströnd, en í ár verður hún haldin í malarkrúsunum við Árskógssand kl. 20:00

Sölusýning verður haldin föstudagskvöldið 29. desember kl. 20:00, ofan við hús Björgunarsveitarinnar Dalvík við Gunnarsbraut 4.

Opnunartímar eru sem hér segir:

 • Fimmtudagurinn 28. desember kl. 18 – 20
 • Föstudagurinn 29. desember kl. 12 – 22
 • Laugardagurinn 30. desember kl. 12 – 22
 • Sunnudagurinn 31. desember kl. 10 – 16
 • Laugardagurinn 6. janúar kl. 14 – 18

 

Frjálsíþróttamaður er Íþróttamaður Skagafjarðar 2017

Íþróttamaður Skagafjarðar UMSS 2017 var valinn við hátíðlega athöfn í gærkvöld, en í þetta sinn hlaut frjálsíþróttamaðurinn Ísak Óli Traustason frá Tindastól titillinn, lið ársins hlaut meistaraflokkur kvenna hjá Golfklúbbi Sauðárkróks(GSS) og þjálfari ársins hlaut Israel Martin hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls.  Þá var UMF Tindastóll einnig með viðurkenningu fyrir íþróttamann Tindastóls 2017 og hlaut Pétur Rúnar Birgisson, körfuknattleiksmaður þann titil.
Einnig var ungu og efnilegu íþróttafólki í Skagafirði veittar viðurkenningar. Nokkur fjöldi þeirra var fjarverandi, en æfingabúðir landsliðsverkefna hjá KKÍ, KSÍ og SKÍ standa yfir dagana milli jóla og nýs árs.

Myndir: skagafjörður.is

Jólaviðtalið – Egill Rögnvaldsson

Egill Rögnvaldsson er fæddur og uppalinn á Siglufirði og er símvirki að mennt. Hann hefur verið umsjónarmaður Skíðasvæðisins í Skarðsdal frá árinu 2008 og var valinn úr fjögurra manna hópi umsækjanda og þar á meðal var Gestur Hansson, snjóeftirlitsmaður.  Egill var kosinn íþróttamaður Siglufjarðarkaupstaðar árið 1979. Egill var í bæjarráði Fjallabyggðar, fyrir og eftir sameiningu sveitarfélaganna, og bauð sig fram fyrir S-lista Samfylkingar og Jafnaðarmanna. Egill hefur verið framkvæmdastjóri Valló ehf. sem hefur verið rekstraraðili Skíðasvæðisins í Skarðsdal, séð um rekstur knattspyrnuvalla á Siglufirði og leigumiðlun fasteigna. Við heyrðum í Agli skömmu fyrir jól og vildum fá að vita nánar með hans jólahefðir.

Jólaviðtal

1. Hvað finnst þér best við jólin?  Að fjölskyldan sé saman yfir jólin.
2. Hvað kemur þér í jólaskap?  Ilmurinn af villigæsunum á aðfangadag.
3. Hvað borðar þú á jólunum?  Villigæsir, að sjálfsögðu, sem tengdasonurinn veiðir og færir okkur hjónunum.
4. Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót?  Borða góðan mat, lesa úkallsbókina eftir Óttar Sveinsson og horfa á bíó með krökkunum.
5. Ferðu í kirkju um jólin?  Ávallt í kirkju á aðfangadag. PS: Siggi má færa messuna aftur til kl. 18:00.  Eg hugsa að hann fengi fleiri kirkjugesti.
6. Hvernig jólatré ertu með?  Lifandi tré úr Skarðsdalsskógi.
7. Ferðu á brennu um áramótin?  Stundum.

Tilnefningar vegna Íþróttamanns ársins í Fjallabyggð

Föstudaginn 29. desember næstkomandi fer fram uppskeruhátíð íþróttafólks í Fjallabyggð þegar valið á Íþróttamanni ársins í Fjallabyggð fer fram. Hátíðin í ár fer fram á Kaffi Rauðku og hefst kl 20:00 en hátíðin er samstarfsverkefni UÍF (Ungmenna- og Íþróttasamband Fjallabyggðar) og Kiwanisklúbbsins Skjaldar í Fjallabyggð.
Á hátíðinni verður fjölmargt íþróttafólk verðlaunað fyrir árangur sinn á árinu 2017. Öll aðildarfélög UÍF gátu tilnefnt íþróttafólk í þremur flokkum, þ.e. besti íþróttamaður greinarinnar (19 ára og eldri), ungur og efnilegur í íþróttagreininni og loks ung og efnileg í íþróttagreininni (13-18 ára). Níu af þrettán aðildarfélög tilnefndu í einum flokki eða fleirum.

Íþróttamaður Fjallabyggðar verður svo valinn úr þeim hópi íþróttafólks sem var tilnefnt í flokknum besti íþróttamaður hverrar greinar en Elsa Guðrún Jónsdóttir skíðagöngukona varð fyrir valinu árið 2016.
Að lokum verða tveir aðilar heiðraðir sérstaklega á hátíðinni. Annar fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttamála í Fjallabyggð og hinn fyrir frábæran árangur í sinni íþróttagrein, sá aðili er búsettur í Fjallabyggð en keppir fyrir félag utan Fjallabyggðar.

Hér að neðan má sjá lista yfir allt það íþróttafólk sem tilnefnt er í ár, en alls eru 39 aðilar tilnefndir. Hátíðin er öllum opin og hvetjum við áhugasama til að mæta á þessa árlegu uppskeruhátíð, þó sérstaklega alla þá sem tilnefndir eru.

Eftirtaldir aðilar eru tilnefndir í ár:

Alexander Smári Þorvaldsson
Alexandra Nótt Kristjánsdóttir
Amalía Þórarinsdóttir
Andri Freyr Sveinsson
Andri Snær Elefsen
Anna Brynja Agnarsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Bergur Rúnar Björnsson
Björgvin Grétar Magnússon
Dagný Finnsdóttir
Eduard Constantin Bors
Elísabet Alla Rúnarsdóttir
Elsa Guðrún Jónsdóttir
Erla Marý Sigurbjörnsdóttir
Gísli Marteinn Baldvinsson
Grétar Áki Bergsson
Guðrún Fema Sigurbjörnsdóttir
Hafsteinn Úlfar Karlsson
Helgi Már Kjartansson
Hrafnhildur Sverrisdóttir
Halldór Ingvar Guðmundsson
Halldóra Helga Sindradóttir
Helga Dís Magnúsdóttir
Helga Hermannsdóttir
Hilmar Símonarson
Hörður Ingi Kristjánsson
Líney Bogadóttir
Marlis Jóna Karlsdóttir
Oddný Halla Haraldsdóttir
Ronja Helgadóttir
Sara Sigurbjörnsdóttir
Sigurbjörn Þorgeirsson
Skarphéðinn Sigurðsson
Sævar Birgisson
Valur Reykjalín Þrastarson
Vitor Vieira Thomas
Víðir Freyr Ingimundarson
Þorgeir Örn Sigurbjörnsson
Þórarinn Hannesson

 

 

Aðalfundur Sjómannafélags Ólafsfjarðar

Aðalfundur Sjómannafélags Ólafsfjarðar verður haldinn í Menningarhúsinu Tjarnarborg, fimmtudaginn 28. desember kl. 14:00. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í starfi félagsins og kjarabaráttu sjómanna.

Fundarefni:

 1. Setning og kosning fundarstjóra
 2. Kjaramál, Gestur Hólmgeirsson SSÍ
 3. Skýrsla stjórnar, ársreikningar 2017
 4. Sjómennt
 5. Sjómannadagurinn 2017, uppgjör
 6. Sjómannadagurinn 2018, kosning í sjómannadagsráð 2018
 7. Önnur mál
 8. Happadrætti
 9. Kaffiveitingar

Jólaviðtalið – Aðalheiður Eysteinsdóttir

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir er fædd og uppalin á Siglufirði en fluttist á Akureyri árið 1986. Aðalheiður á og rekur vinnustofu í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, en húsið keypti hún árið 2011. Alla Sigga, eins og hún er jafnan kölluð er þekkt fyrir sína stóru skúlptúra sem er að finna víða á landinu, meðal annars á Icelandair hótelum, Húsdýragarðinum og víða á Siglufirði. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri á árunum 1989-93. Aðalheiður starfrækti Kompuna, gallerí á Akureyri í 8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu Listagilsins á Akureyri og er einn af stofnenda Verksmiðjunar á Hjalteyri. Aðalheiður hefur haldið fjölmargar einkasýningar frá árinu 1994, samsýningar, gjörninga og kennt listir við Þelamerkurskóla, Brekkuskóla og Háskólann á Akureyri. Við heyrðum í Aðalheiði skömmu fyrir jól til að heyra um hennar jólahefðir.

Jólaviðtal

1. Hvað finnst þér best við jólin?  Samvera með fjöslkyldu og vinum.
2. Hvað kemur þér í jólaskap?  Að útbúa eða kaupa jólagjafir.
3. Hvað borðar þú á jólunum?  Sjávar- og grænmetisrétti.
4. Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót?  Borða góðan mat með góðu fólki, spila og dansa.
5. Ferðu í kirkju um jólin?  Nei.
6. Hvernig jólatré ertu með?  Smíðað blátt tré.
7. Ferðu á brennu um áramótin?  Stundum.
Myndir frá Icelandair hotels.

Jólaviðtalið – Skúli Pálsson

Skúli Pálsson er íbúi í Ólafsfirði, fæddur árið 1944. Hann er maður sem allir þekkja í Ólafsfirði, enda gert mikið fyrir bæinn.   Hann hefur síðustu ár haldið úti vefmyndavélum í Ólafsfirði á síðunni Tindaöxl.com. Þá hefur hann verið varamaður í Öldungaráði Fjallabyggðar. Í kringum árið 1990 var hann umboðsmaður fyrir Stöð 2 í Ólafsfirði og dreifði erlendum rásum í gegnum kapalkerfi, en hann átti á þessum tíma fyrirtækið Video-skann og tók um mikið myndefni í Ólafsfirði. Hann var með um 120 áskrifendur á þessu tímabili, og dreifði rásum eins og Sky-one, Sky-movies og Eurosport. Tók hann merkið niður með gervihnetti og dreifði svo um kapalkerfi bæjarins. Skúli var frumkvöðull í sjónvarpsmálum í Ólafsfirði.  Árið 1988 gekk Skúli í öll hús í Ólafsfirði og safnaði undirskriftum fyrir gerð jarðganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla, listinn var síðar færður Þorsteini Páls, þáverandi forsætisráðherra. Múlagöng voru svo tekin í notkun í desember 1990. Við fengum Skúla til að svara nokkrum spurningum um hans jólahefðir.

Jólaviðtal

1. Hvað finnst þér best við jólin?  Að vera heima í rólegheitum.
2. Hvað kemur þér í jólaskap?  Lyktin af hangikjöti.
3. Hvað borðar þú á jólunum?   Svínakótelettur í raspi steiktar á rafmagns pönnu.
4. Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót?  Horfa á Guðrúnu mína púsla, á orðið erfitt með það.
5. Ferðu í kirkju um jólin?  Nei, enn við Guðrún mín horfum á messuna kl. 18:00.
6. Hvernig jólatré ertu með?   Við eigum 50 sentimetra hátt tré sem er reyndar byggt úr járnherðatrjám og það er vafið með grænu greni og rauðri seríu.
7. Ferðu á brennu um áramótin?  Nei-við horfum á bíómynd heima.
Mynd: Morgunblaðið, 1990.

Jólaviðtalið – Kristín Sigurjónsdóttir

Kristín Sigurjónsdóttir er íbúi á Siglufirði og við heyrðum í henni skömmu fyrir jólin til að fá að vita um hennar jólahefðir. Kristín er fædd og uppalin á Siglufirði og hefur lengi haft áhuga á ljósmyndun. Kristín stofnaði nýlega fyrirtækið KS-Art Photography og tekur þar fjölbreyttar ljósmyndir af viðskiptavinum. Kristín lærði listljósmyndun í Menntaskólanum á Tröllaskaga og hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga síðustu árin á Tröllaskaga og í Reykjavík. Kristín hefur einnig verið formaður Ljósmyndaklúbbs Fjallabyggðar.

 1.  Hvað finnst þér best við jólin?  Rólegheitin.
 2.  Hvað kemur þér í jólaskap?  Að kúra með elskunni minni og horfa á væmna jólamynd.
 3.  Hvað borðar þú á jólunum?  Aspassúpu eins og mamma gerir, hamborgarahrygg og jólaís.
 4.  Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót?  Facetæma á börn og barnabörn.
 5.  Ferðu í kirkju um jólin?  Já, það er ómissandi að taka þátt í helgihaldinu í Siglufjarðarkirkju.
 6.  Hvernig jólatré ertu með?  Postulínstré sem mamma bjó til.
 7.  Ferðu á brennu um áramótin?  Já, með myndavélina.