All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Opinn fundur um fiskeldi á Norðurlandi í Hofi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið boðar til opins fundar í dag, í Hofi á Akureyri, um fiskeldi á Norðurlandi.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrir fundinum, en þar flytja framsögu fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fundurinn fer fram í Nausti í Hofi í dag, fimmtudaginn 11. júní og hefst klukkan 20:00.

Hafa áhyggjur af tilfærslu kennara milli skólastiga

Ekki er unnt að manna allar deildir hjá Leikskóla Fjallabyggðar með fagmenntuðum deildarstjórum á komandi skólaári vegna þess að við leikskólann starfa of fáir leikskólakennarar. Eftir að ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla tóku gildi um síðustu áramót gildir leyfisbréf kennara til kennslu á öllum skólastigum.

Áhyggjur af tilfærslu kennara milli skólastiga í kjölfarið eru á rökum reistar og finnur leikskólastigið fyrir því.

 

Sveinn Margeirsson nýr sveitarstjóri Skútustaðahrepps

Alls barst 21 umsókn um starf sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Tvær umsóknir voru dregnar til baka. Úrvinnslu umsókna í ofangreint starf er nú lokið og hefur sveitarstjórn staðfest ráðningu Sveins Margeirssonar í starfið.  Hann tekur við af Þorsteini Gunnarssyni sem hefur verið ráðinn borgarritari.

Sveinn Margeirsson er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið General Management Program frá Harvard Business School. Sveinn hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði nýsköpunar og stefnumótunar fyrir sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök síðan 2019.  Þar á undan gegndi hann starfi forstjóra, sviðsstjóra og deildarstjóra hjá Matís í 11 ár. Sveinn hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af nýsköpun, stefnumótun, stjórnun og rekstri. Hann hefur jafnframt mikla reynslu af stjórnsýslu sem forstjóri hjá opinberu hlutafélagi og ráðgjafi við sveitarfélög og stofnanir. Auk þessa hefur Sveinn komið að umhverfis- og skipulagsmálum t.d. við gerð aðalskipulags og hefur viðamikla reynslu af miðlun efnis í ræðu og riti á fjölda miðla. Sveinn hefur störf sem sveitarstjóri Skútustaðahrepps þann 1. ágúst n.k.

Capacent var sveitarstjórn innan handar í ráðningaferlinu. Umsækjendur voru:

 • Ásbjörn Ólafur Ásbjörnsson
 • Berglind Ragnarsdóttir
 • Bjarni Jónsson
 • Björgvin Harri Bjarnason
 • Einar Örn Thorlacius
 • Glúmur Baldvinsson
 • Grétar Ásgeirsson
 • Gunnar Örn Arnarson
 • Gunnlaugur A. Júlíusson
 • Jón Hrói Finnsson
 • Jónína Benediktsdóttir
 • Ólafur Kjartansson
 • Páll Línberg Sigurðsson
 • Rögnvaldur Guðmundsson
 • Sigurður Jónsson
 • Siguróli Magni Sigurðsson
 • Skúli H. M. Thoroddsen
 • Sólborg Lilja Steinþórsdóttir
 • Sveinn Margeirsson

Tvö tilboð bárust í útboði fyrir hádegismat fyrir Ársali og Árskóla

Sveitarfélagið Skagafjörður var með útboð á Evrópska efnahagssvæðinu vegna hádegisverðar fyrir leikskólann Ársali og Árskóla á Sauðárkróki. Aðeins bárust tvö tilboð í verkið, frá Stá ehf. og frá Grettistak veitingar. Stá ehf. bauð 508 kr. í hverja máltíð og Grettistak veitingar bauð 570 kr.

Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur samþykkt að taka tilboði Stá ehf, sem  er lægstbjóðandi.

 

Síldarminjasafnið fær tvo sumarstarfsmenn frá Fjallabyggð

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að bjóða Síldarminjasafninu á Siglufirði stuðning í formi tveggja sumarstarfsmanna í tvo mánuði . Áætlaður styrkur kr. 828.000. Safnstjóri Síldarminjasafnsins hafði áður óskað eftir stuðningi í formi sumarstarfsfólks, verkefnastyrks eða samstarfs um sumardagskrá. Greint hefur verið frá rekstrarerfiðleikum Síldarminjasafnsins vegna afbókana skemmtiferðaskipa og fækkunar gesta.

Starfsmennirnir tveir koma í gegnum átaksstörf námsmanna í samvinnu við Vinnumálastofnun.

Sápuboltamótið haldið í Ólafsfirði í júlí

Aðstandendur Sápuboltamótsins í Ólafsfirði hafa ákveðið að halda mótið í ár þann 18. júlí. Mótið verður minna í sniðum en undanfarin ár og verður mótsgjaldið lækkað. Kvöldskemmtun eftir mótið er enn óstaðfest.

Skráningargjald er 3.500 kr. á hvern liðsmann (Einn liðsmaður greiðir fyrir allt liðið).

-Inni í því gjaldi er þátttökupassi á Sápuboltamótið.

Til þess að skrá lið þarf að senda facebook skilaboð þar sem fram kemur;
-Nafn liðs
-Fjöldi liðsmanna
-Fyrirliði liðsins

Þá fáiði skilaboð til baka um það hvernig skráningargjaldið er greitt.
Skráning er ekki staðfest fyrr en greiðsla hefur borist.

LEIKREGLUR
-Fjórir inni á vellinum í hvoru liði. Engin takmörk eru á skiptimönnum (fjölda aðila í hverju liði).
-Hver leikur er 1×10 mín.
-Frjálsar skiptingar.
-Dómari ákveður refsingar fyrir brot.
-Spilað á tánum

Á sápuboltamótinu hefur verið rík hefð fyrir því að liðin mæti til leiks í skrautlegum búningum og hvetjum við lið til að halda þeirri hefð áfram.

Eftir mót verða verðlaun veitt fyrir flottasta búninginn ásamt öðrum skemmtilegum viðurkenningum.

ALDURSTAKMARK
Mótið er einungis ætlað einstaklingum sem náð hafa 18 ára aldri.

Nýr og spennandi matseðill hjá Torginu á Siglufirði

Torgið Restaurant á Siglufirði hefur kynnt nýjan og spennandi matseðil. Heimagerðar fiskibollur eru meðal rétta sem eru nýjir á seðlinum hjá Torginu. Að vanda er hægt að fá frábærar pizzur og hamborgara auk barnamateðils. Opið er í hádeginu á virkum dögum og er þá boðið upp á hádegishlaðborð, á kvöldin frá kl. 17-21 og þá er pantað af mateðli. Um helgar opnar á hádegi og er opið fram á kvöld. Nýjan matseðil má finna á vef Torgsins.

Síldarminjasafnið óskar eftir bakjörlum vegna tekjutaps

Undanfarin ár hafa gestir Síldarminjasafnsins á Siglufirði verið hátt í þrjátíu þúsund árlega – og hvert árið á fætur öðru hafa gestamet verið slegin og hlutfall erlendra gesta hækkað. Sívaxandi fjöldi gesta og ánægja þeirra hefur verið starfsfólki safnsins sem byr í seglin og orðið til þess að stöðugildum hefur fjölgað og verkefnum sinnt af krafti. Sökum heimsfaraldurs kórónaveirunnar er ljóst að veruleg breyting verður á þetta árið.

Safnið er sjálfseignarstofnun og nýtur fjárframlaga frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélaginu Fjallabyggð. Tekjur af aðgangseyri og annarri þjónustu við safngesti eru veigamikill þáttur í rekstri safnsins og nema að jafnaði um 60% af nauðsynlegu rekstrarfé á ári hverju. Nú þegar hafa um 170 hópar afbókað komu sína, eða um 90% þeirra sem von var á í vor og sumar, og ljóst að tekjutapið mun telja í það minnsta þrjátíu milljónir króna. Af þeim sökum er rekstur safnsins í verulegu uppnámi og allra leiða leitað til að tryggja að afleiðingar þessa ástands muni ekki kosta safnið þann dýrmæta þrótt og framtakssemi sem þar hefur lengi ríkt og það er þekkt fyrir.

Samhliða gestamóttöku og miðlun sögunnar sinnir starfsfólk safnsins jafnframt faglegu safnastarfi, rannsóknum og skráningu af metnaði, árið um kring. Verkefnin eru fjölbreytt og sem dæmi má nefna að undanfarin misseri hefur mikil vinna verið lögð í safnkennslu og aukið samstarf við skóla, greiningar á ljósmyndum í samvinnu við eldri borgara úr hinum mikla ljósmyndakosti sem varðveittur er á safninu, heimildaöflun um líf fólks í síldarvinnu – með viðtölum víða um land, endurskoðun á sýningum safnsins og bókaútgáfu. Þekking og reynsla starfsmanna er verðmæt og framlag safnsins til íslensks safnastarfs hefur þótt eftirtektarvert og til fyrirmyndar.

Í þessari erfiðu stöðu kallar Síldarminjasafnið nú til samfélagsins og býður einstaklingum og fyrirtækjum að styðja við starfsemi þess til framtíðar með árlegu framlagi. Uppbygging Síldarminjasafnsins hefur að mörgu leyti verið einstök og má þakka fórnfýsi, velvilja og framtíðarsýn sjálfboðaliða fyrir þann góða grunn sem lagður var og leiddi til áframhaldandi vaxtar safnsins. Nú er þess farið á leit við almenning á nýjan leik að stutt verði við starfsemi safnsins, en þó með öðrum hætti, til að tryggja áframhaldandi blómlega starfsemi. Hægt er að velja um að leggja safninu til 5.000 kr., 30.000 kr. eða 350.000 kr. árlega auk þess sem boðið er upp á frjálst framlag. Áhugasamir fylli út meðfylgjandi eyðublað með því að smella á gráa hnappinn hér að neðan.

Í þakklætisskyni fyrir veittan stuðning viljum við gefa á móti – og munu því allir þeir sem gerast bakhjarlar safnsins njóta ókeypis aðgangs að safninu allan ársins hring, en fyrir hærri framlög býðst jafnframt að nýta sér þjónustu safnsins.

Hægt er að gerast bakjarl hér.

 

 • 5,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
 • 30,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
  einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að tíu gesti.
 • 350,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
  einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að fimmtíu gesti.
  afnot af Bátahúsi Síldarminjasafnsins til einkaviðburðar einu sinni á ári.
 • Frjáls framlög – upphæð að eigin vali

Samtakamáttur almennings, bæði einstaklinga og fyrirtækja, skipar stóran sess í sögu safnsins – en fyrir tilstilli sjálfboðaliða og einstakrar framtíðarsýnar varð safnið til í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag. Við leyfum okkur því að biðla til almennings á ný, svo sækja megi fram af þrótti.

Við Síldarminjasafnið

Ný útisýning opnar á Síldarminjasafninu

Á morgun, sunnudaginn 7. júní, heldur Síldarminjasafnið á Siglufirði sjómannadaginn hátíðlegan.

Slysavarnardeildin Vörn mun að venju leggja blómsveig að minnisvarðanum um týnda sjómenn og hefst athöfnin klukkan 14:00. Tveir sjómenn verða heiðraðir og Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins flytur ávarp.

Klukkan 15:00 verður opnuð ný útisýning á bryggjunum við Síldarminjasafnið. Sýningin er samsýning Síldarminjasafnsins og Byggðasafnsins í Gamvik. Starfsfólk safnanna vann rannsókn á sögu staðanna, sem eiga margt sameiginlegt í þátíð og nútíð.

Börnum verður jafnframt boðið að taka þátt í ratleik um safnsvæðið. Þeir sem ljúka við ratleikinn geta skilað kortinu sínu í afgreiðslu safnsins og í lok dags verður einn heppinn þátttakandi dreginn út og fær að gjöf bókina Saga úr síldarfirði sem safnið gaf út árið 2011.

Samkvæmt samningi við Fjallabyggð er ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu fyrir alla lögskráða íbúa Fjallabyggðar. Heimamenn, sem og gestkomandi eru hvattir til að gera sér glaðan dag í tilefni sjómannadagsins og heimsækja safnið.

KF sló Dalvík úr Mjólkurbikarnum

Dalvík/Reynir tók á móti Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í dag á Dalvíkurvelli í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Búist var við jöfnum leik enda hafa þessir nágrannaleikir liðanna verið fjörugir síðustu árin og aldrei neitt gefið eftir.

Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir strax á 16. mínútu og staðan orðin 1-0. KF jafnaði leikinn mínútu síðar með marki frá Sævari Gylfasyni og var staðan aftur orðin jöfn 1-1. Jafnt var í hálfleik 1-1 og átti eftir að vera dramatík í síðari hálfleik.

Á 80. mínútu fékk Rúnar Þórhallsson sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt og lék Dalvík/Reynir því einum færri eftir það. Í uppbótartíma skoraði Kristófer Andri Ólafsson fyrir KF og tryggði þeim dramatískan sigur í blálokin. Kristófer hafði komið inná sem varamaður á 63. mínútur. Lokatölur 1-2 og KF mætir Magna í næstu umferð.

Frábær úrslit fyrir strákana í KF. Halldór Mar Einarsson lék sinn fyrsta leik fyrir KF og fór beint í byrjunarliðið, en var skipt út af á 63. mínútu. Jón Óskar Sigurðsson lék einnig sinn fyrsta deildarleik fyrir KF í dag, en hann er lánsmaður frá Þór. Bjarki Baldursson lék einnig sinn fyrsta leik fyrir KF í dag en hann kom inná sem varamaður á 63. mínútu, hann er einnig lánsmaður frá Þór.

Fyrirtæki geta keypt auglýsingar til að styrkja umfjöllun um leiki KF í sumar. Leitað er að styrktaraðilum til að halda úti umfjöllun í sumar um leiki KF og leiki BF í haust og vetur í blakinu.

Vitor Vieira Thomas farinn frá KF í annað sinn

Miðjumaðurinn ungi Vitor Vieira Thomas hefur sagt skilið við KF, og það í annað sinn. Hann hefur núna fengið samning við Víking í Ólafsvík. Vitor er 21 árs og var einn af lykilmönnum KF í fyrra og spilaði 23 leiki í deild og bikar. Árið 2018 var hann á mála hjá Val í Reykjavík. Vitor á 41 leik með KF og skoraði 5 mörk. Óskum honum velfarnaðar hjá nýju félagi.

Víkingur Ólafsvík leikur í Lengjudeildinni, og er það gott skref fyrir þennan unga knattspyrnumann.

Halldór Mar Einarsson til KF

KF hefur fengið til sín Halldór Mar Einarsson, sem spilaði með Ægi í vetur í Lengjubikarnum en var á síðasta tímabili með Völsungi. Hann er kominn með leikheimild með KF. Halldór er 22 ára og hefur leikið 32 leiki fyrir meistaraflokk Völsungs í deild og bikar. Halldór spilaði upp yngri flokkana með Þór á Akureyri. Halldór leikur á miðjunni og á vonandi eftir að koma sterkur inn í sumar.

KF og Dalvík/Reynir mætast í bikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mætast á Dalvíkurvelli kl. 14:00 í dag, í Mjólkurbikarnum. Sigurvegarinn úr viðureigninni mætir liði Magna, laugardaginn 13. júní kl. 14:00. 2. deildin fer svo af stað 17. júní en KF á leik gegn ÍR 20. júní á útivelli og Dalvík/Reynir eiga leik gegn Þrótti Vogum á Dalvíkurvelli.

Fjallabyggð fer í markaðsherferð með Pipar/TBWA

Fjallabyggð hefur samþykkt að fara í markaðsherferð með auglýsingastofunni Pipar/TBWA fyrir um rúmar 2 milljónir króna samkvæmt áætlun.  Herferðin miðast við að því að Íslendingar ferðist innanlands til Fjallabyggðar í sumar, og einnig verður möguleiki að nýta markaðsvinnuna í að kynna möguleika fólks til að flytja til Fjallabyggðar. Fyrsti fasi auglýsinganna verður um þrír mánuðir.

Farið verður í framleiðslu myndbanda sem bæði draga fram kosti þess að ferðast á svæðið og kosti þess að starfa og búa í Fjallabyggð. Einnig verður unnin auglýsingaherferð fyrir samfélagsmiðla, uppsetning og rekstur ásamt hönnun vefborða og leitarvélaherferð fyrir google, þar sem keypt eru leitarorð sem beinast að þeim leitum sem Íslendingar leita eftir við val á áfangastað innanlands.

Miði í sund fylgir hverri gistinótt á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að með gistinótt á tjaldsvæðinu á Ólafsfirði fylgi einn sundmiði fyrir hvern gest. Með því móti er komið til móts við gesti tjaldsvæðisins vegna aðstöðuleysis en ekki er hægt að fara í sturtu á svæðinu. Þessi lausn að laða að fjölskyldufólk að svæðinu.

Nokkrir möguleikar voru skoðaðir vegna þessa aðstöðuleysis en ljóst var að ekki væri mögulegt að setja upp nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði fyrir komandi sumar. Ekki var heldur mögulegt að leigja aðstöðuhús, og var því talinn góður kostur að nýta sturtuaðstöðuna í sundlauginni sem tímabundna lausn í sumar.

Samkvæmt gjaldskrá er verð á gistinótt í Fjallabyggð kr. 1.300- en börn yngri en 16 ára gista frítt.
Samkvæmt gjaldskrá er verð á sundmiða í Fjallabyggð fyrir fullorðna kr. 820 og kr. 400 fyrir börn.

Mynd frá Tjaldsvæði Fjallabyggðar.
Tjaldsvæði Fjallabyggðar í Ólafsfirði

 

Tíu sumarstörf námsmanna auglýst í Fjallabyggð

Fjölbreytt og áhugaverð sumarstörf í Fjallabyggð eru í boði fyrir námsmenn sem eru 18 ára og eldri og á milli anna í námi. Námsmenn í háskólanámi eru sérstaklega hvattir til að sækja um. Störfin eru hluti af atvinnuátaki Fjallabyggðar í samstarfi við Vinnumálastofnun og eru 10 störf í boði í tvo mánuði hvert.

Störfin eru af ýmsum toga og má nefna:

 • Umhverfisstörf sem felast í fegrun umhverfis og ásýndar sveitarfélagsins
 • Störf sem snúa að menningarstarfi m.a. vinnu við ljósmyndun og skráningu á Listaverkasafni Fjallabyggðar
 • Störf sem snúa að markaðsvinnu í sveitarfélaginu
 • Störf við flokkun og skráningu skjala
 • Störf sem snúa að félagslegri þátttöku eldri borgara

Eftirfarandi hæfniskröfur eru gerðar:

 • Lipurð í mannlegum samskiptum, háttvísi og kurteisi
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Jákvæðni, starfsgleði, frumkvæði og sveigjanleiki
 • Samviskusemi og stundvísi

Sótt er um störfin í gegnum Íbúagátt og er umsóknarfrestur til og með 4. júní 2020.

Upplýsingar um menntun og fyrri störf sem og staðfestingu á námi þurfa að fylgja umsókn. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.

Nánari upplýsingar um störfin veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála gudrun@fjallabyggd.is, sími 4649104.

32 brautskráðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga

Tuttugasta brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram við mjög óvenjulegar aðstæður um helgina. Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust en samtals hafa 343 útskrifast frá skólanum frá upphafi. Tólf brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, sjö af íþrótta- og útivistarbraut, fimm af kjörnámsbraut, þrír af myndlistarsviði listabrautar, þrír af náttúruvísindabraut, einn af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og einn af starfsbraut.  Af þeim 32 sem brautskráðust voru 22 fjarnemar sem koma víða að. Í upphafi vorannar voru nemendur við skólann 388. Þar af voru 312 í fjarnámi. Meira en helmingur þeirra býr á höfuðborgarsvæðinu. Á vorönninni voru nemendur flestir á félags- og hugvísindabraut 172, næst flestir voru á náttúruvísindabraut 63, á listabraut voru 44 og 35 á íþróttabraut. Þetta kemur fram á vef mtr.is.

Talið að yfir 1000 fái sumarstörf á Akureyri

Um 100 störf fyrir námsmenn voru auglýst í atvinnuátaki Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar. Þetta eru fjölbreytt störf, meðal annars á söfnum, útivistarsvæðum, íþróttafélögum og skrifstofum bæjarins. Meðal verkefna eru smíði, stígagerð, merking gönguleiða, safnvarsla, vefsíðuvinna og almenn skrifstofustörf. Umsóknarfrestur rann út 24. maí fyrir þessi störf.

Hins vegar er almennt atvinnuátak Akureyrarbæjar fyrir 18-25 ára og þar er markmiðið að tryggja öllum vinnu sem sækja um og uppfylla skilyrði. Gert er ráð fyrir að í boði verði vinna í fimm vikur, sjö tíma á dag, en komið gæti til þess að tímafjöldi verði endurskoðaður ef fjöldi umsókna verður umtalsverður. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí nk.

Að frátöldum átaksverkefnum hjá Akureyrarbæ þá hafa 344 verið ráðin í almenn sumarstörf á hinum ýmsu sviðum Akureyrarbæjar. Flestar sumarafleysingar eru hjá Öldrunarheimilum Akureyrar en einnig eru býsna mörg sumarstörf í búsetu- og heimaþjónustu. Þá er þó nokkur fjöldi sem kemur til með að vinna við umhirðu í bæjarlandinu, í leikskólum, sundlaugum og margt fleira.

Akureyrarbær sótti einnig um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna vegna 13 sumarstarfa. Þar er um að ræða spennandi verkefni fyrir háskólanema í grunn- og meistaranámi sem verða auglýst nánar fljótlega.

Vinnuskóli Akureyrar verður starfræktur í sumar fyrir börn og ungmenni á aldrinum 14-17 ára. Nú þegar hafa yfir 500 börn og ungmenni sótt um í Vinnuskólann.

Þegar allt er talið má ætla að yfir eitt þúsund fái vinnu hjá Akureyrarbæ í sumar.

Vinnuskóli Fjallabyggðar hefst 8. júní

Vinnuskóli Fjallabyggðar er fyrir ungmenni sem nýlokið hafa 8., 9. eða 10.bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Skólinn hefst mánudaginn 8. júní kl. 8.30 hjá öllum. Nemendur búsettir á Siglufirði mæta í Áhaldahús FJallabyggðar. Nemendur búsettir á Ólafsfirði mæta í aðstöðu Áhaldahúss (norðan við Skiltagerð).

Áætlaður lokadagur Vinnuskólans er 31. júlí. Þó gefst ungmennum sem lokið hafa 10. bekk kostur á að vinna til 7. ágúst.

Vinnutími:

Ungmenni sem nýlokið hafa 8. bekk: Mætt er fyrir hádegi fimm daga í viku, frá kl.8:30 til kl.12. Einnig er hægt að haga vinnu þannig til ef einstaklingur vill frekar vinna frá 13:00 – 16:30 þá er það í boði líka.Daglegur vinnutími reiknast 3,5 klst. eða 17,5 tímar á viku.

Ungmenni sem nýlokið hafa 9. eða 10. bekk: Unnið frá kl.8:30 til 12 og frá kl. 13:00 til 16:30. Daglegur vinnutími reiknast 7 klst. Unnið er 3,5 klst. fyrir hádegi á föstudögum. Samtals möguleiki á 35 klst. vinnu á viku.

Vinnuskólinn áskilur sér rétt til að takmarka frekar vinnutíma ef skráning fer fram úr áætlunum.

Dagskrá

Almenn störf og áherslur í Vinnuskóla eru garðyrkja, gróðursetning, hirðing á lóðum og opnum svæðum bæjarins. Einnig eru í boði nokkur aðstoðarstörf hjá íþróttafélögum við leikjanámskeið fyrir þau ungmenni sem eru að ljúka 9. eða 10. bekk. Hægt er að merkja við þessi aðstoðarstörf inn á skráningareyðublaðinu. Ofangreindir aðilar fá síðan listann og velja til sín af honum.

Athugið að vinnutími unglinga í aðstoðarstörfum hjá félögum er í einhverjum tilvikum aðlagaður að tímasetningu sumarnámskeiða sem sum hver geta verið fram í ágúst.

Smíðaskóli fyrir börn sem nýlokið hafa 1. – 7. bekk hefur verið rekin tvö undanfarinn ár og gengið vel á Siglufirði.  Hann verður í boði í báðum byggðarkjörnum.

Laun

Allar tölur eru án orlofs:

 • Unglingar sem nýlokið hafa 8. bekk 35% af lfl. 117 kr. 675,98 pr.klst. 3,5 klst. á dag mán-fös.
 • Unglingar sem nýlokið hafa 9. bekk 40% af lfl. 117 kr. 772,55 pr.klst. 7 klst. á dag mán-fim 3,5 klst á fös.
 • Unglingar sem nýlokið hafa 10. bekk 60% af lfl. 117 kr. 1.158,73 pr.klst. 6,0 klst. á dag mán-fim 3,5 klst á fös.

Fimm sóttu um stöðu Lögreglustjóra á Norðurlandi eystra

Fimm umsóknir bárust um stöðu lögreglustjóra á Norðurlandi eystra sem auglýst var laus til umsóknar, en umsóknarfrestur rann út 25. maí síðastliðinn. Hæfnisnefnd mun í framhaldinu meta umsækjendur.

Eftirtaldir sóttu um stöðuna. Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðarsaksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, Halldóra Kristín Hauksdótti, lögmaður hjá Akureyrarbæ, Hreiðar Eiríksson, lögfræðingur hjá Fiskistofu, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og Sigurður Hólmar Kristjánsson, saksóknarfulltrúi og staðgengill lögreglustjóra á Norðurlandi vestra.

Átta opinber störf færast á Sauðárkrók

Átta opinber störf færast á Sauðárkrok á næstunni með breytingum á sviði brunavarna, en þær heyra undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) eftir sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Sú eining sem sinnir skipulagningu brunaeftirlits verður þar með hluti af starfsstöð HMS á Sauðárkróki. Fyrir starfa þar um tuttugu manns við úthlutun húsnæðisbóta, í þjónustuveri og bakvinnslu fyrir húsnæðissvið HMS. Fjölgun þeirra sem sinna brunamálum er ein af þeim aðgerðum sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leggur áherslu á til að að efla umgjörð brunamála og brunavarna á Íslandi. Um er að ræða bæði stjórnunarstörf og störf sérfræðinga og verða nokkur þeirra auglýst laus til umsóknar á næstunni.

 

Með þessu er ráðherrann að bregðast við ábendingum í nýrri skýrslu um málaflokkinn sem gerð verður opinber á næstunni. Í skýrslunni, sem unnin var af starfshópi skipuðum af stjórn HMS, kemur m.a. fram að nauðsynlegt sé að efla og stækka slökkviliðin á landsbyggðinni. Einnig þurfi að uppfæra regluverk brunamála og gefa út leiðbeiningar um eftirfylgd reglugerða. Þá þurfi heilt yfir að efla stjórnsýslu málaflokksins. Skýrslan mun verða birt í heild sinni á næstu dögum.

 

Aðdragandi skýrslugerðar um stöðu brunamála hér á landi

Við framlagningu frumvarps um sameiningu Mannvirkjastofnunar og íbúðalánasjóðs í HMS lýstu sumir umsagnaraðilar yfir áhyggjum af því hvort vægi brunamála yrði nægilega mikið innan nýrrar stofnunar. Til að bregðast við þessum sjónarmiðum var, fljótlega í kjölfar sameiningarinnar, stofnaður starfshópur um stöðu brunamála með aðkomu ytri ráðgjafa. Starfshópnum var falið að greina núverandi stöðu bruna brunamála, kanna skipulega viðhorf helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila málaflokksins og gera tillögur að úrbótum.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að staða brunamála á Íslandi sé nokkuð góð í samanburði við nágrannalöndin. Tjón af völdum eldsvoða sé minna hér á landi, hvort sem litið sé til mannslífa eða eigna. Þó telja skýrsluhöfundar það áhyggjuefni að síðustu ár hafi tjón vegna bruna verið að aukast og brýnt sé að finna leiðir til að stöðva þá þróun. Nauðsynlegt sé að stórefla brunaeftirlit og gerð brunavarnaráætlana. Vilja skýrsluhöfundar koma í veg fyrir að tjón vegna eldsvoða aukist enn frekar hér á landi vegna stærri, flóknari og dýrari bygginga sem reistar hafa verið á síðustu árum.

Ríkisvaldið hefur ríkum skyldum að gegna í brunamálum

Slökkvilið á hverjum stað eru á forræði sveitarfélaga en ríkisvaldið fer, sem áður segir, með stjórnsýslu brunamála á vettvangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ríkið hefur því bæði skyldum að gegna sem eftirlitsaðili auk þess að sinna víðtæku samræmingar- og stefnumörkunarhlutverki. Félags- og barnamálaráðherra hyggst á næstunni beita sér fyrir sérstöku átaki í bruna- og eiturefnavörnum og hefur hug á að veita auknu fjármagni í málaflokkinn sem mun stuðla að menntun slökkviliðsmanna og efla starf slökkviliða á landsbyggðinni.

 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Brunamálin eru gríðarlega mikilvægt hagsmuna- og öryggismál, eins og við erum því miður reglulega minnt á. Líkamstjón, svo ekki sé talað um manntjón, er hræðilegt gjald sem við greiðum fyrir skort á fræðslu, brunaeftirliti og brunavörnum almennt. Við getum ekki komið í veg fyrir allt brunatjón en við getum fækkað tilfellunum og stuðlað að því að þau verði ekki of dýru verði keypt fyrir samfélagið allt. Við viljum og eigum að stórefla brunavarnir. Einn liður í því er að fjölga þeim sem sinna eftirliti með að lögum og reglum sé framfylgt á öllum stigum, allt frá byggingu mannvirkja til þjálfunar slökkviliða, rannsókna á orsökum og fræðslu til almennings. Ríkisstjórnin hefur skýran vilja til að styðja og styrkja þær fáu stofnanir sem eru á landsbyggðinni. Þessar umbætur sem við höfum sett á oddinn í brunamálum eru mjög mikilvægar og munu skila okkur sterkari innviðum og viðbúnaði um land allt og um leið fjölga störfum.“

 

Davíð Snorrason, forstöðumaður brunavarna hjá HMS: „Það hefur verið þörf á að bæta verulega í brunamálin í dálítinn tíma. Við verjum ekki nema hluta þeirra gjalda sem innheimt eru með byggingaröryggisgjaldinu til þeirra verkefna sem áskilið er í lögunum. Ráðherra hefur sagst vilja lyfta grettistaki í málaflokknum og þannig styrkja innviði og viðbúnað um land allt. Það er í takti við það sem fram kom í umsögnum og umræðum í kringum sameiningu þessarar stofnana í HMS. Við vitum að það þarf að sinna betur lögbundnu eftirliti með slökkviliðum og brunavörnum. Hluti starfsemi HMS er nú þegar á Sauðárkróki og það er mat sameinaðrar stofnunar að það henti vel að vera með brunamálin þar. Brunaeftirliti á vettvangi er í dag útvistað til byggingarfulltrúa og annarra aðila á hverjum stað. Alls eru það um 500 manns sem koma að því. Umsjón með eftirlitinu getur verið hvar sem er á landinu, sem og þróun og umsjón með menntun slökkviliðsmanna. Ég tek fram að þó að sú eining verði framvegis á Sauðárkróki þá mun kennslan í Brunamálaskólanum áfram fara fram á SV-horninu og víða um land, í samvinnu við stærri slökkviliðin.“

Ársreikningur Fjallabyggðar samþykktur í bæjarstjórn

Jákvæð rekstrarniðurstaða A og B hluta bæjarsjóðs Fjallabyggðar fyrir árið 2019 var jákvæð um 391,7 millj. kr. og A hluta um 266,7 millj. kr. Veltufé frá rekstri nam 671 millj. kr. eða 21.5% af tekjum og batnaði lítillega á milli ára. Vaxtaberandi skuldir voru um áramót 348 millj. kr. en voru 582 millj. kr 2018. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.820 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi en eigið fé A hluta um 3.414 millj. kr.

Fram kemur í áritun bæjarstjóra og bæjarstjórnar Fjallabyggðar, að Covid-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim þar með talið efnahagsleg. Veruleg óvissa ríkir um endanleg áhrif faraldursins s.s. vegna óvissu um hve lengi hann muni vara og hver áhrifin verða eftir að honum líkur. Vænta má að áhrif á rekstur Fjallabyggðar verði umtalsverð á yfirstandandi ári m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda. Sú sterka staða Fjallabyggðar sem birtist í framlögðum ársreikningi mun klárlega hjálpa á núverandi og komandi óvissutímum.

Hægt er að lesa allan ársreikninginn á síðu Fjallabyggðar.

Herbergjanýting hótela á Norðurlandi aðeins 2,5% í apríl

Heildarfjöldi greiddra gistinátta á landinu í apríl síðastliðnum dróst saman um 96% samanborið við apríl 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 97% og um 93% á gistiheimilum. Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 20.800 í apríl en þær voru um 519.000 í sama mánuði árið áður. Um 68% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 14.200, en um 32% á erlenda gesti eða um 6.600 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 13.500, þar af 9.200 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 7.300.

Á Norðurlandi voru aðeins 689 herbergi í boði í apríl og er það 40,3% fækkun frá apríl 2019. Herbergjanýting á Norðurlandi var aðeins 2,5% í apríl miðað við 36% í apríl 2019. Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands.