All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Íbúar Norðurþings orðnir 3000

Íbúar Norðurþings eru nú orðnir þrjú þúsund talsins. Þegar þau Sveinbjörn Árni Lund og Tinna Ósk Óskarsdóttir eignuðust sinn annan son þann 19. maí síðastliðinn náðu íbúar Norðurþings þessum áfanga.

Í tilefni þessara tímamóta færði Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings fjölskyldunni örlítinn viðurkenningarvott frá sveitarfélaginu.

 

Color Run hlaupið á Akureyri

The Color Run hlaupið fer fram á Akureyri laugardaginn 8. júlí.  Upphitun hefst kl. 15:00 og ræst verður út kl. 16:00. Hlaupið er nú haldið í fyrsta sinn á Akureyri en hefur verið haldið áður í Reykjavík. Takmarkað magn miða er í hlaupið. Frítt er fyrir börn yngri en 8 ára. Gert er ráð fyrir að  um 2.000 þátttakendum en aldrei hefur jafn mikill fjöldi tekið þátt í hlaupi á Akureyri. Umferðatakmarkanir verða á Akureyri meðan á hlaupinu stendur. Magni Ásgeirsson einn skipuleggjanda litahlaupsins á Akureyri.

Þetta snýst ekki um að klára hlaupið á sem skemmstum tíma heldur að hafa gaman og njóta þess að taka þátt. Það mun enginn vinna hlaupið því það er engin tímataka.

Með aðeins tvær leikreglur geta allir verið með í The Color Run:

1. Þú skalt vera í hvítum bol þegar þú byrjar!
2. Þú verður litabomba þegar þú kemur í endamarkið!

Við endamarkið verður síðan epískt litapartý, skemmtidagskrá, stuð og stemning fyrir framan sviðið.

The Color Run var fyrsta litahlaupið í heiminum og var fyrst hlaupið árið 2012 í Phoenix, Arizona og var það Bandaríkjamaðurinn Travis Snyder sem kom þessu hlaupi á laggirnar til að hvetja bæði atvinnu- og áhugahlaupara til að hlaupa saman til gamans. Hlaupið hefur farið sigurför um heiminn því um er að ræða einstakan fjölskylduviðburð sem haldinn hefur verið í meira en 40 löndum og tvær milljónir manna hafa tekið þátt.

Kajak og gönguferðir á Siglufirði með Top Mountaineering

Hjónin Gestur og Hulda stofnuðu fyrirtækið Top Mountaineering á Siglufirði fyrir nokkrum árum til að geta sinnt aukinni eftirspurn ferðamanna og hópa sem óskaði eftir leiðsögn um fjöllin í Fjallabyggð og á Tröllaskaga. Þau störfuðu áður til margra ára í Ferðafélagi Siglufjarðar, en eru nú með skrifstofu við Suðurgötu 4 á Siglufirði.  Þau hafa verið að bæta við afþreyingu á Siglufirði og fjárfest í bátum til að sigla með fólk um fjörðinn og einnig á Siglunes með gönguhópa, þar sem boðið er upp á leiðsögn. Í vor var fjárfest í nokkrum kæjökum sem hafa farið vel á stað.

Megin markmið Top Mountaineering er að bjóða uppá fjallgöngur, en það koma pantanir frá ferðaskrifstofum bæði hér heima og erlendis frá og eru um 80-90% erlendir ferðamenn. Næstu daga verður boðið upp á skipulagðar ferðir frá Siglufirði og er hægt að fá nánari upplýsingar um þær ferðir hér á vefnum.

 

 

 

 

Leggja hjólreiða- og göngustíga frá Hrafnagili til Akureyrar

Eyjafjarðarsveit hyggst leggja 7,2 km hjólreiða- og göngustíga frá bæjarmörkum Akureyrar að Hrafnagili. Tilboð óskast í verkið sem felur einnig í sér lengingu stálröraræsa, endurnýjun og gerð nýrra ræsa undir stíg og lagfæringar á girðingum.  Verklok eru 1. desember 2017.   Nánari upplýsingar um útboðið er á  vef Eyjafjarðarsveitar.

Nokkrar magntölur:

 •  Gröftur:               7.000 m³
 •  Efra burðarlag:    10.700 m³
 •  Neðra burðarlag: 12.700 m³
 •  Girðingar:              1.700 m

 

 

Markmaður Tindastóls sá rautt á Húsavíkurvelli

Tindastóll heimsótti Völsung á Húsavík í vikunni en liðin leika í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru fyrir leikinn rétt fyrir neðan miðja deild. Völsungur hafði unnið Sindra í síðasta leik og Stólarnir unnu KV örugglega.

Tindastóll tók forystu í leiknum á 41. mínútu með marki frá Kenneth Hogg, hans 8 mark í 10 deildarleikjum. Aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu Völsungur leikinn, en markið gerði Sæþór Olgeirsson, hans 13 mark í 9 deildarleikjum í sumar. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Á 64. mínútu var markmanni Tindastóls vikið af velli með rautt spjald, en enginn markmaður var á bekknum samkvæmt leikskrá, og fór því útileikmaður í markið það sem eftir lifði leiks. Sigurmark leiksins kom á 70. mínútu, en það gerði Gunnar Sigurður Jósteinsson leikmaður Völsungs, og hans fyrsta mark í sumar. Heimamenn héldu út og unnu 2-1 sigur og eru komnir í 4. sæti deildarinnar með 16. stig. Tindastóll er sem fyrr í 8. sæti eftir 10 umferðir.

Gönguferðir á Þjóðlagahátíð

Fyrirtækið Top Mountaineering á Siglufirði býður upp á skemmtilegar og fræðandi göngur yfir Þjóðlagahátíðina. Gengið verður á helstu tinda á Tröllaskaganum. Fyrirtækið bíður einnig upp á kajak ferðir og bátsferðir á Siglunes. Hægt er að fá nánari upplýsingar á skrifstofu Top Mountaineering á Suðurgötu 4 á Siglufirði eða hjá Gesti í síma 898-4939.

Göngur um Þjóðlagahátíðina.

 Hólshyrna  drottningin okkar

Föstudagurinn 7. júlí. Kl. 13.00.

Gengið verður framan í Hólshyrnu röðli  frá Saurbæjarás

upp á Álfhyrnu og  þaðan niður í Skútudal.

10 km. 5- 6 klst.  Hækkun 700 m.

Verð kr. 3.000

 

Leyningsbrúnir falin fjársjóður

Laugardagur 8. júlí. Kl. 13.00

Gengið frá skíðaskálanum í Skarðsdal upp á Leyningsbrúnir

og inn í Selskál síðan niður í Hólsdal.

6-7 km 4-5 klst. Hækkun 600 m.

Verð 3.000

 

Hestskarðshnjúkur hnjúkurinn okkar

Sunnudagur 9. júlí. Kl. 9.00

Gengið frá Ráeyri (gamli flugvöllurinn) að Selvíkurvita og þaðan upp í Kálfsdal. Leiðin liggur inn botn á Nesdal og upp á hnjúkinn.

Skemmtileg áskorun með stórbrotnu útsýni.

12 km 7-8 klst. Hækkun 860 m.

Verð 4.000

Skráning og upplýsingar í síma 898 – 4939 Gestur.

 

 

Lifandi viðburðir á Ljóðasetrinu

Ljóðasetur Íslands er staðsett  við Túngötu á Siglufirði.  Á sumrin eru lifandi viðburðir alla daga kl. 16:00. Ljóðasetrið var  vígt þann 8. júlí 2011 og því að verða sex ára. Þórarinn Hannesson er forstöðumaður setursins.

Lifandi viðburðir kl. 16.00 næstu daga:

5. júlí – Sungin lög við ljóð ýmissa skáldkvenna.
6. júlí – Flutt lög við ljóð Siglfirðinga og Fljótamanna.
7. júlí – Þórarinn Hannesson kveður eigin kvæðalög.
8. júlí – Fluttar gamanvísur héðan og þaðan.

Enginn aðgagnseyrir – Allir velkomnir.

Þjóðlagahátíðin hefst í dag á Siglufirði

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hefst í dag og lýkur á sunnudaginn. Dagskráin byrjar með viðburði í tanki Síldarminjasafnsins kl. 17:00. Tveir viðburðir verða í Siglufjarðarkirkju kl. 20:00 og 23:00. Klukkan 21:30 er svo viðburður í bátahúsi Síldarminjasafnsins.  Hægt er að kaupa tónleikapassa, eða staka miða á einastaka viðburði. Börn yngri en 15 ára fá frítt á alla tónleika.

MIÐVIKUDAGUR 5. JÚLÍ

17.00 LÝSISTANKURINN Á SÍLDARMINJASAFNINU Á SIGLUFIRÐI
 • Vin í eyðimörkinni (Keitaat/Oases)
 • Innsetning í krafti tónlistar og nýmiðla
 • Amanda Kauranne söngur, Finnlandi
 • Mikko H. Haapoja myndasmiður og lýruleikari, Finnlandi
 • Sýningin verður opin alla þjóðlagahátíðina
20.00 SIGLUFJARÐARKIRKJA 
 • Stúlkan á heiðinni – Tónlist eftir Grieg
 • Svafa Þórhallsdóttir söngur
 • Ella Vala Ármannsdóttir horn
 • Sandra Mogensen píanó
21:30 BÁTAHÚSIÐ – HYVÄ TRIO, FINNLAND
 • Finnsk þjóðlagatónlist og frumsamið efni
 • Amanda Kauranne söngur
 • Ulla-Sisko Jauhiainen kantele
 • Elina Lappalainen kontrabassi
23:00 SIGLUFJARÐARKIRKJA – SOPHIE OG FIACHRA, KANADA
 • Írsk þjóðlagatónlist meðal innflytjenda í Kanada
 • Fiachra O’Regan flautur
 • Sophie Lavoie fiðla og söngur

Fjallabyggð styrkir landssöfnun vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi

Fjallabyggð hefur samþykkt að styrkja landssöfnunina Vinátta í verki vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi sem urðu þann 18. júní síðastliðinn um 100.000 kr. Það er Hjálparstarf kirkjunnar, í samvinnu við KALAK, Hrókinn og fleiri Grænlandsvini, sem hafa hrundið af stað landssöfnuninni. Sveitarfélögin Skagaströnd, Skagafjörður og Grýtubakkahreppur hafa meðal annars gefið í söfnunina.

Flóðbylgja olli gríðarlegu tjóni í þorpinu Nuugaatsiaq.  Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga og milli þjóðanna eru sterk og traust vinarbönd. Þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995 var efnt til landssöfnunar á Grænlandi og safnað hárri upphæð.

Margir eiga nú um sárt að binda á Grænlandi og mikilsvert að þeir finni að Íslendingar eru þeim vinir í raun. Söfnunarfé rennur óskert til neyðarhjálpar og uppbyggingar í samvinnu við sveitarfélagið og hjálparsamtök á svæðinu.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur opnað söfnunarreikninginn 0334-26-056200, kennitala 450670-0499. Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Hríseyjarhátíð

Hríseyjarhátíðin hefst föstudaginn 7. júlí með því að nokkrir Hríseyingar og sumarhúsaeigendur bjóða heimafólki og gestum í kaffisopa í görðunum sínum. Upplagt er að rölta á milli garðanna og njóta gestrisni og samvista við skemmtilegt fólk í fallegu umhverfi. Einnig verða óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna.

Aðaldagskráin er laugardaginn 8. júlí og er þá í boði dagskrá frá hádegi og fram á kvöld, sem felst í fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðum, litla kirkjutröppuhlaupið, kaffisala kvenfélagsins, vatnaboltar, leiktæki, Vandræðaskáld, Stulli og Danni og fleira.  Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu, varðeldi og brekkusöng. Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hægt er að taka ferjuna Sævar til Hríseyjar frá Árskógssandi

Nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar fá ritföng að gjöf

Grunnskóli Fjallabyggðar afhendir nemendum ritfangapakka að gjöf frá Fjallabyggð við skólabyrjun haustið 2017. Ætlast er til að nemendur í 1.-5. bekk geymi og noti umrædd ritföng í skólanum og til þess fá þau litla hvíta plastkörfu. Nemendum í 6.-10.bekk verður falið að halda utan um þessi ritföng sjálf. Glatist eða skemmist þessi ritföng þurfa foreldrar að útvega ný í staðinn. Ritfangapakkinn er svipaður milli árganga og felur í sér skriffæri, stíla- og reikningsbækur, skæri, teygjumöppu, tréliti, reglustikur o.þ.h. eftir þörfum hvers árgangs. Það sem ekki er í ritfangapakkanum þurfa foreldrar að útvega. Þetta kemur fram á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar.

Meistaramót Golfklúbbs Fjallabyggðar

Meistaramót Golfklúbbs Fjallabyggðar hefst í dag á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði og stendur til 8. júlí.  Þetta mót er flokkaskipt og höfðar til allra kylfinga í Golfklúbbi Fjallabyggðar. Alls eru  14 skráðir til leiks.

Fyrstu 36 og 18 holurnar skulu vera spilaðar frá mánudegi 3. júlí til fimmtudags 6. júlí.  Allir leika svo 18 holur föstudaginn 7. júlí kl. 17:00 og 18 holur laugardaginn 8. júlí kl. 13:00.  Byrjendaflokkur kvenna og unglingar leika 9 holur hvorn daginn.  Að móti loknu verður grillað í golfskálanum og verðlaunaafhending.

 • Keppt verður í eftirfarandi flokkum:
 • Meistaraflokkur karla (fgj 0-12):  72holur
 • 1. flokkur karla (fgj 12,1-24):  54 holur
 • 2. flokkur karla: (fgj 24,1-36):  36 holur
 • Öldungaflokkur kk 67 ára og eldri:  36 holur  (rauðir teigar)
 • 1. flokkur kvenna (fgj 10 – 39,9):   54 holur
 • 2. flokkur kvenna (fgj 40,0 – 54,0):  18 holur
 • Unglingar :  18 holur

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði haldin í 18. sinn dagana 5.-9. júlí. Hátíðin hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og í ár.

Á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði verður flutt tónlist frá fjórum heimsálfum í öllum regnbogans litum. Leikin verður tónlist frá Afríku, Suður-Ameríku, Kanada, Norðurlöndunum, Bretlandseyjum, Rússlandi og Balkanskaga auk íslenskrar tónlistar. Mamady Sano frá Gíneu kennir dansa og trumbuslátt frá Vestur-Afríku og kennd verður írsk þjóðlagatónlist. Þá verður sjalaprjón kennt, sérstakt barnanámseið verður haldið og í Þjóðlagaakademíunni er bæði kennd íslensk og erlend þjóðlagatónlist sem og þjóðdansar.

Dagskrá Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og í ár. Í fyrsta sinn koma listamenn frá Afríku og halda bæði tónleika og námskeið á hátíðinni.  Mamady Sano er heimsfrægur tónlistarmaður frá Gíneu í Vestur-Afríku. Hann kemur með flokk sinn Barakan Dance and Drums. Með honum í för er Sandra Sano Erlingsdóttir, en þau hafa bæði kennt dansa og trumbuslátt frá Gíneu hér á landi og erlendis. Frá Kanada kemur margverðlaunað þjóðlagadúó Sophie and Fiachra. Þau eru af írsku bergi brotin og leika þjóðlagatónlist sem írskir innflytjendur báru með sér vestur um haf. Sophie og Fiachra munu einnig halda námskeið í írskri þjóðlagatónlist á hátíðinni.

Svanlaug Jóhannsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir frábæran flutning á tangósöngvum frá Argentínu. Hún kemur fram á hátíðinni með hljómsveit sinni og flytur tangóa eftir Piazolla og fleiri afburða argentísk tónskáld. Á meðal annarra listamanna má nefna Ragnheiði Gröndal og Guðmund Pétursson gítarleikara sem flytja íslenska og enska ástarsöngva ásamt Helois Pilkington söngkonu og fiðluleikaranum Gerry Diver. Finnska þjóðlagatríóið Hyvä Trio leikur frumsamda þjóðlagaskotna tónlist, sænska söngkonan Malin Gunnarsson kemur fram og sænska Krilja-tríóið flytur rússneska sígaunatónlist. Þá leikur þjóðlagasveitin Trato frá Síle þjóðlög frá Suður-Ameríku.

Íslenskir tónlistarhópar láta ekki sitt eftir liggja á Þjóðlagahátíðinni. Svafa Þórhallsdóttir syngur sönglög eftir Grieg og Tinna Árnadóttir lög austfirskra tónskálda á borð við Inga T og Jón Múla í nýstárlegum útsetningum,  harmónikutríóið Í-tríó heldur bæði tónleika og leikur fyrir dansi á sérstökum harmonikudansleik, kvennakórinn Vasele Bebe syngur kröftug lög af Balkanskaga, Kalmanskórinn syngur Ljóð og lög úr safni Þórðar Kristleifssonar og Björg Brjánsdóttir frumflytur hér á landi nýlegan flautukonsert í þjóðlagakenndum stíl eftir pólska tónskáldið Marcin Blazewicz ásamt Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.

Að auki verður boðið upp á magnaða innsetningu Vin í eyðimörkinni (Keitaat / Oases) í tanki Síldarminjasafnsins á Siglufirði þar sem finnska þjóðlagasöngkonan Amanda Kauranne og finnski vídeólistamaðurinn Mikko H. Haapoja flytja tónlist í takt við náttúruhljóð og náttúrumyndir sem þau hafa safnað í hinu forna finnska Kirjálahéraði, við Helsinki og á Siglufirði. Gestum gefst tækifæri á að spila og syngja með og taka þátt í innsetningunni, allt eftir því hvað sýningin blæs þeim í brjóst. Vin í eyðimörkinni eða Keitaat / Oases stendur alla hátíðina.

Listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði er Gunnsteinn Ólafsson og framkvæmdastjóri er Monika Dís Árnadóttir.

Opna einstaka póstkortasýningu á Akureyri

Mánudaginn 3. júlí kl. 15:00 mun Þórhallur Ottesen safnari opna sýningu á Amtsbókasafn á póstkortum sem sýna myndir af Akureyri og nágrenni frá tímabilinu 1880-1950.

Þórhallur Ottesen er brottfluttur Akureyringur, fæddur árið 1959 og er mikill safnari. Hann á stærsta póstkortasafn í einkaeigu sem vitað er um og hafa sum kortanna aldrei verið sýnd opinberlega áður. Þórhallur hefur safnað kortunum síðastliðin 40 ár og hafa þau verið fengin víða um heim, bæði frá einkaaðilum sem og á uppboðum. Gestum Amtsbókasafnsins á Akureyri býðst nú tækifæri á að skoða kortin þegar póstkortasýning Þórhalls mun opna í safninu mánudaginn 3. júlí. Léttar veitingar verða í boði og eru allir velkomnir.

Fimm mörk frá Tindastóli tryggðu sigur

Tindastóll og Knattspyrnufélag Vesturbæjar(KV) mættust í dag á Sauðárkróksvelli í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru í neðri hluta deildarinnar fyrir þennan leik og því mikilvægt fyrir bæði lið að ná í öll stigin. KV leiddi í fyrri hálfleik 0-1. Í síðari hálfleik komu 7 mörk. Tindastóll minnkaði muninn í 1-1 á 54. mínútu með marki frá Kenneth Hogg, en KV svaraði strax aftur á 57. mínútu og komu þeim aftur yfir í 1-2. Kenneth Hogg skoraði svo tvö mörk með stuttu millibili og kom Tindastóli í 3-2. KV jafnaði metin í 3-3 á 77. mínútu, en Kenneth var ekki hættur, og skoraði sitt 4 mark á 83. mínútu, staðan 4-3 og lítið eftir. Arnar Ólafsson skoraði svo lokamarkið á sjöttu mínútu uppbótartíma og tryggði 5-3 sigur. Tindastóll er eftir sigurinn í  8. sæti með 12 stig.

Silver Explorer kemur til Siglufjarðar

Skemmtiferðaskipið Silver Explorer kemur til Siglufjarðar á morgun, sunnudaginn 2. júlí. Áætlað er að skipið stoppi frá 7:30-11:30 á Siglufirði og haldi þaðan til Grímseyjar.  Þetta verður eina stoppið hjá skipinu á Siglufirði í sumar samkvæmt áætlun. Skipið kom síðast til Siglufjarðar árið 2015.  Skipið var í Reykjavík 30. júní og er í dag á Ísafirði. Um borð eru 130 farþegar og um 111 áhafnarmeðlimir.

Fjöldi listamanna sýnir í Síldarminjasafninu

Í dag, laugardaginn 1. júlí kl. 17.00 – 18.30 mun fjöldi listafólks úr Fjallabyggð leggja undir sig tvö af húsum Síldarminjasafns Íslands, Bátahúsið og Gránu, og vinna þar að list sinni, sýna hana eða flytja. Hver vinnur að sínu og enginn fæst við það sama svo úr verður ein allsherjar listasinfónía.

Vel á annan tug listafólks mun taka þátt má þar t.d. nefna leikara, ljóðskáld, kvæðakonu, rithöfund, söngvaskáld, harmonikkuleikara og píanóleikara auk myndlistarfólks sem vinnur fjölbreytt verk með ýmsum aðferðum.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir að njóta og kynna sér hið fjölbreytta listalíf í Fjallabyggð.

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkir verkefnið.

Tilboð opnuð í Gervigrasvöll á Sauðárkróki

Þann 27.júní síðastliðinn voru opnuð tilboð í útboðsverkið Gervigrasvöllur á Sauðárkróki, jarðvinna, lagnir og uppsteypa. Um var að ræða opið útboð og aðeins barst eitt tilboð í verkið sem var nokkuð yfir kostnaðaráætlun.

Nöfn bjóðenda:
Friðrik Jónsson ehf 149.999.999 – 145,4%
Kostnaðaráætlun 103.157.050 – 100 %

Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt að hafna tilboði Friðriks Jónssonar ehf. þar sem það er 45,4% yfir kostnaðaráætlun.

Einherji tók þrjú stig á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Ungmennafélagið Einherji frá Vopnafirði mættust í kvöldleik á Ólafsfjarðarvelli í 3. deild karla í knattspyrnu í gær. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið til að blanda sér betur í toppbaráttuna. Einherji endaði í 3. sæti 3. deildar á síðast árið og 4. sæti árið 2015. Einherji fékk Grasrótarviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2016, en þá héldu þeir úti meistraflokki karla og kvenna ásamt 4.-5. flokki karla og 5. flokki kvenna í rúmlega 500 manna samfélagi.

KF vann Reyni Sandgerði örugglega í síðustu umferð á meðan Einherji náði jafntefli við topplið Kára. Leikurinn í gærkvöld var jafn í fyrri hálfleik og náði hvorugu liðinu að skora mark, staðan 0-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik var meiri hasar en samkvæmt leikskýrslu KSÍ þá voru þrjú rauð spjöld í lok leiks. Bozo Predojevic leikmaður KF fékk rautt spjald á 88. mínútu leiksins og einnig þjálfari KF og liðstjóri Einherja. KF lék því einum færri síðustu mínútur leiksins. Á lokamínútum leiksins fékk Einherji svo vítaspyrnu og úr henni skoraði markahæsti maður Einherja, Todor Hristov með sitt sjöunda mark í átta leikjum liðsins, og er meðal markahæstu manna deildarinnar. Þetta mark kom á 92. mínútu leiksins og fengu leikmenn KF nokkrar mínútur til að reyna jafna leikinn en það tókst ekki.

Þetta var annar tapleikur KF á heimavelli í deildinni í sumar, en liðið er áfram í 6. sæti deildarinnar með 12. stig. Næsti leikur KF er útileikur gegn Ægi í Þorlákshöfn.

Enn bremsa á byggingarframkvæmdum í sumum landshlutum

Mjög lítið hefur verið reist af nýju íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra síðastliðin 13 ár. Það er ekki hækkun fasteignaverðs sem plagar íbúa í þessum landshlutum, heldur fremur skortur á hentugu húsnæði.  Íbúðalánasjóður reynir nú, í samvinnu við sveitarfélögin í þessum landshlutum, að varpa ljósi á þennan vanda og hvers vegna nær ekkert nýtt íbúðarhúsnæði hafi verið byggt á sumum svæðum landsins undanfarin ár.

Sjóðurinn hefur hrundið af stað samstarfi við sveitarfélög sem felst í gerð húsnæðisáætlana. Íbúðalánasjóður verður sveitarfélögunum til ráðgjafar þegar kemur að gerð áætlananna og því hvaða upplýsingar þurfi að vera til staðar í húsnæðisáætlunum þeirra. Þannig megi bera saman áform og aðstæður milli sveitarfélaga og koma auga á stað- eða svæðisbundinn vanda. Uppbygging og endurnýjun húsnæðis er mikilvæg fyrir öll samfélög til að geta þróast. Húsnæðisáætlanir munu draga fram árlega mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir ólíkum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf, bæði til skamms og langs tíma. Eitt af markmiðunum er að draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði og einnig tryggja að brugðist sé við ef eitthvað hindrar að eftirspurn eftir húsnæði sé mætt, t.d. í minni sveitarfélögum.

Niðurstöður húsnæðisáætlana kynntar á Húsnæðisþingi í haust

Fjallað er um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga í húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var fyrir skömmu. Í honum kemur fram að halda skuli sérstakt húsnæðisþing á haustmánuðum 2017 þar sem niðurstöður úr húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna verði kynntar. Fyrsta slíka húsnæðisþingið er nú í undirbúningi hjá Íbúðalánasjóði og verður það haldið annað hvort í lok október eða byrjun nóvember næstkomandi.

Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs: Vestfirðir og Norðurland vestra hafa nánast alveg setið eftir í uppbyggingu húsnæðis, bæði í góðærinu og eftir hrun. Starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafa undanfarna mánuði ferðast um landið og rætt við bæjar- og sveitarstjórnarmenn og er upplifunin sú að skortur sé á húsnæði nánast sama hvar drepið er niður fæti. Í mjög mörgum bæjarfélögum treystir sér enginn til þess að byggja. Það borgar sig einfaldlega ekki. Vissulega eru margir ólíkir þættir sem liggja að baki á mismunandi stöðum. Mikilvægt er að greina þessa þætti og hvaða leiðir séu færar til að bregðast við ástandinu.“

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, í síma 663-3621.


Mynd: Fjöldi nýrra íbúða eftir landshlutum. Tölur frá Þjóðskrá Íslands.

Texti: Aðsent efni.

Fiskisöfnunarsamkeppni fyrir Fiskidaginn mikla 2017

Aðstandendur Fiskidagsins mikla á Dalvík skora á áhafnir og einstaklinga að taka þátt í léttri keppni og um leið að hjálpa til við að safna sem flestum  tegundum af fiskum fyrir fisksýninguna á Fiskidaginn mikla 12. ágúst 2017.  Glæsileg verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin.

Það sem þarf að gera er að búa vel um fiskana, setja með miða með frá hverjum eða hvaða áhöfn sendingin er, tenglið og símanúmer og merkja Fiskidagurinn mikli -Fiskmarkaðurinn á Dalvík, senda með Samskip og þá er flutningurinn frír.

Stjórnendur sýningarinnar fara yfir sendingarnar og gefa stig, því sjaldgæfari sem að fiskarnir eru því fleiri stig en það um að gera að senda allar tegundur, það gefa allir fiskar stig.
Nánari upplýsingar um keppnina veitir Júlíus 897-9748.
Nánari upplýsingar um fiska og annan fróðleik Skarphéðinn 892-6662.

Keppnin stendur yfir í allt sumar og alveg fram að 10. ágúst.

Hér koma nokkur fiskanöfn sem að þátttakendur geta notað til að merkja við hjá sér.

Áll
Álsnípa
Áttstrendingur
Barri
Bergsnapi
Berhaus
Bersnati
Bjúgtanni
Bláflekkur
Blágóma
Blákjafta
Blálanga
Bláriddari
Bleikja
Blettaálbrosma
Blettamjóri
Bretahveðnir
Broddabakur
Brúna Laxsíld
Búrfiskur
Deplaháfur
Deplalaxsíld
Digra Geirsíli
Dílamjóri
Djúpáll
Djúpkarfi
Djúpskata
Drekahyrna
Drumbur
Dvergbleikja
Dökkháfur
Ennisfiskur
Fjólumóri
Fjörsungur
Flekkjamjóni
Flundra
Fýlingur
Fölvi Mjóri
Gapaldur
Geirnyt/Rottufiskur
Gíslaháfur
Gjölnir
Gleypir/Búksvelgur
Gljáháfur
Gljálaxsíld
Glyrnir
Grálúða
Grásleppa
Guðlax
Gullkarfi / Karfi
Gulllax
Hafáll
Háfur
Hákarl
Hálfberi mjóri
Hlýri
Hnúðlax
Hornfiskur
Hornsíli
Hveljusogsfiskur
Hvítaskata
Ingólfshali
Ískóð
Jensenháfur
Kambhaus
Karfalingur
Keila
Knurri
Kolbíldur
Kolmunni
Kolskeggur
Krækill
Kuðungableikja
Langa
Langhalabróðir
Langlúra
Langnefur
Lax
Litla brosma
Litla Frenja
Litli Gulllax
Litli karfi
Litli Loðháfur
Litli Lúsífer
Loðháfur
Loðháfaseyði
Loðna
Lúða
Lúsífer
Lýr
Lýsa
Lýsingur
Makríll
Makrílsbróðir
Marhnútur
Marhnýtill
Marsilfri
Marsnákur
Násurtla
Nefáll
Rauðháfur
Rauðmagi
Rauðskinni
Regnbogasilungur
Sandhverfa
Sandkoli
Sandsíli
Sardína
Sars Álbrosma
Sexstrendingur
Silfurbrami
Síld
Sjóbirtingur
Skarkoli/Rauðspretta
Skata
Skjótta skata
Skrápflúra
Skötuselur
Sláni
Slétthali
Slétthaus
Slétthverfa
Slóans Gelgja
Snarpi Langhali
Sólflúra
Sprettfiskur
Spærlingur
Steinbítur
Stinglax
Stjarnmeiti
Stóra geirsíli
Stóra Sænál
Stóri Mjóni
Stóri Silfurfiskur
Stórkjafta / Öfugkjafta
Stórriddari
Stuttnefur
Surtla
Surtlusystir
Surtur
Svartgóma
Svarthveðnir
Svartsilfri
Sædjöfull
Sæsteinssuga
Tindabikkja
Tómasarhnýtill
Trjónuáll
Trjónufiskur
Trjónuhali
Tvírákamjóri
Ufsi
Uggi
Urrari
Urriði
Vígatanni
Vogmær
Ýsa
Þorskur
Þráðskeggur
Þrömmungur
Þykkvalúra/Sólkoli
Ægisangi

Aða
Einbúakrabbi
Gaddakrabbi
Hörpudiskur
Kolkrabbi / Kraki
Kræklngur
Kúfskel
Leturhumar
Óskabjörn
Pétursskip
Rauða risarækja
Rækja
Rækjukóngur
Sandrækja
Smokkfiskur
Sæbjúga
Sæeyra
Sækönguló
Trjónukrabbi
Töskukrabbi
Vörtusmokkur
Ígulker / Skollakoppur
Ígulker / Marígull
Krossfiskur
Sæstjarna
Beitukóngur
Slöngustjörnur
Marfló
Kórallar

Banaslys í Öxnadal

Ökumaður fólksbifreiðar lét lífið í umferðarslysi í Öxnadal sem tilkynnt var til Lögreglu um rétt yfir klukkan 16:30 í dag. Tvær bifreiðar sem voru að koma úr gagnstæðri átt lentu saman og höfnuðu út fyrir veg í kjölfarið. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni og farþega úr annarri bifreiðinni. Þrír voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem annar ökumaðurinn var úrskurðaður látinn. Hinir eru ekki taldir mjög alvarlega slasaðir. Nánari tildrög slyssins liggja ekki fyrir en rannsókn málsins heldur áfram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Erlendur stúlknakór syngur í Ólafsfjarðarkirkju

Stúlknakórinn The Grenaa Church Girls’ Choir heldur tónleika í Ólafsfjarðarkirkju föstudaginn 30. júní kl. 20:00.
Kórfélagar eru 21 stúlka á aldrinum 14 til 21 árs og á ein þeirra á ættir að rekja til Ólafsfjarðar.
Kórinn kemur frá Aarhus í Danmörku og hefur ferðast víða og heimsótt Þýskaland, England, Pólland og Bandaríkin.

Kórinn heldur einnig tónleika í Húsavíkurkirkju fimmtudaginn 29. Júní kl. 20:00.

Stjórnandi er Lise-Lotte Kristensen.

Enginn aðgangseyrir.

Útboð á skólaakstri í Fjallabyggð

Fjallabyggð hafði samþykkt að framlengja samning við Hópferðabíla Akureyrar sem séð hafa um skólaakstur í Fjallabyggð, en fyrirtækið segist ekki geta haldið óbreyttum verðum í nýjum samningi. Fjallabyggð hefur því ákveðið að halda útboð um skóla- og frístundaakstur í Fjallabyggð sem verður auglýst nánar síðar.

 

Anna Mjöll og Svanhildur með tónleika á Siglufirði

Mæðgurnar Anna Mjöll Ólafsdóttir og Svanhildur Jakobsdóttir halda tónleika á Kaffi Rauðku, föstudaginn 30. júní. Efnisskráin er fjölbreytt en Anna Mjöll mun m.a. flytja sígild lög sem þekkt eru í flutningi Ellu Fitzgerald, Astrud Gilberto, Söruh Vaughan, Billie Holiday, Marilyn Monroe og fleiri slíkra. Líka er Anna Mjöll þekkt fyrir að segja einstakar skemmtisögur á milli atriða, sem jafnan vekja mikla lukku.  Anna Mjöll heldur einnig tónleika á Græna Hattinum á Akureyri, laugardaginn 1. júlí.

Fjallabyggð stendur fyrir málþingi um sjókvíaeldi

Fjallabyggð stendur fyrir málþingi um sjókvíaeldi í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði föstudaginn 30. júní 2017 frá kl. 13:00 – 17:00.  Fundarstjóri er Dr. Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.  Aðgangur að málþinginu er ókeypis og allir velkomnir.

Umræðuefni málþingsins eru:

 • Efling dreifðra byggða
 • Þjóðhagsleg hagkvæmni
 • Umhverfismál


Eftirtalin erindi verða flutt:

13:00 -13:20   Ásthildur Sturludóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur (bæjarstjóri í leyfi)
                          Samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Vesturbygg.

13:20 -13:40   Gísli Jónsson, dýralæknir fiskisjúkdóma
                         Eru sjúkdómar vandamál í íslensku sjókvíaeldi?

13:40 -14:00  Dr. Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands
Þjóðhagsleg áhrif sjókvíaeldis

14:00-14:20    Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar
Framtíð, áhrif og áskoranir sjókvíaeldis í Fjarðabyggð

14:20 – 14:40        Kaffihlé

14:40 -15:00  Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála
                         Áhrif sjókvíaeldis á byggðaþróun

15:00-15:20   Marita Rasmussen, forstöðumaður Industriens Hus í Færeyjum
     Reynsla Færeyinga af sjókvíaeldi

15:20-15:40   Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra
                        Framtíð sjókvíaeldis á Íslandi

15:40-16:00   Róbert Guðfinnsson, athafnamaður
                        Er sjókvíaeldi ógn eða viðskiptatækifæri ?

16:00 – 17:00  Almennar fyrirspurnir og umræður

Fjallabyggð hlaut styrk fyrir Heilsueflandi samfélag

Ríkisstjórnin hefur úthlutað rúmum 90 milljónum til lýðheilsu- og forvarnaverkefna til 139 verkefna og rannsókna. Við auglýsingu eftir umsóknum árið 2017 var meðal annars lögð áhersla á aðgerðir til eflingar geðheilsu, forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis-, tóbaks- og vímuvarnir og verkefni sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu.  Fjallabyggð hlaut 350 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Heilsueflandi samfélag.

Markmið lýðheilsusjóðs er að stuðla að heilsueflingu og forvörnum ásamt því að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga um landlækni og lýðheilsu.