All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Viðburðir á Dalvík í dag vegna Fiskidagsins mikla

Í dag, miðvikudaginn 8. ágúst verða nokkrir viðburðir vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. Markaður, tónleikar, fiskidagsföndur og Zumba í sundlauginni á Dalvík.

Markaður við Dalbæ, Dvalarheimili aldraðra

Skemmtilegur “prúttmarkaður” við Dalbæ, miðvikudaginn 8. ágúst frá kl. 13.00 – 16.00. Sala á vöfflukaffi, tónlist og fjör. Fatnaður, skrautmunir, eldhúsáhöld, handverk, árstíðarvörur, bækur, sultur, bakkelsi og dót af ýmsu tagi. Allir velkomnir !

Ungversk sópransöngkona heldur tónleika í Dalvíkurkirkju
Bernadett Hegyi er frá Búdapest í Ungverjalandi heldur tónleika í Dalvíkurkirkju miðvikudaginn 8. ágúst kl. 20.30 Hún er sópran og starfar með þjóðkórnum í Búdapest. Bernadett hefur nýhafið starfsferil sinn sem sólóisti.

Fiskidagsföndur og vináttubandagerð
Miðvikudagurinn 8. ágúst milli kl.14:00 og 16:00
Í tilefni þess að allt skal í lag fyrir Fiskidag þá ætlar bókasafnið  að bjóða áhugasömum að koma á safnið og huga að Fiskidagsskreytingum. Nú er lag að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni, sjá í hvaða ferðalag þið eruð tekin og toppa skreytingarnar frá því í fyrra. Það verður hægt að nálgast einfaldan efnivið á safninu en ef hugmyndirnar eru stórar og þarfnast sérstaks efniviðs mælum við með að fólk komi með það sjálft. Við erum hins vegar til í að dást að verkinu þá er mælt með að menn taki slíkt með sér. Fyrir þá sem hafa enga hugmynd hvað þeir eiga að gera mun starfsfólkið aðstoða og verað tilbúin eitthvað einfalt og gott sem allir aldurshópar ættu að geta dúllað sér við. Í fyrra var boðið upp á kennslu í vinabandagerð verður það endurtekið í ár.

Hlökkum til að hitta ykkur öll og eiga með ykkur skapandi Fiskidagsstund.

Fjölskylduganga fram að Kofa – Dísa í Dalakofanum.

Fiskidagurinn mikli mun líkt og undanfarin ár koma upp sérstakri gestabók í kofanum sem stendur í Böggvisstaðadal. Þeir sem skrifa í gestabókina lenda í potti og á aðalsviði Fiskidagsins mikla verða vinningar dregnir út. Kofinn stendur á tóftarbrotum smalakofa sem þar stóð til skamms tíma. Sagnir herma að þar hafi Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ort kvæðið um Dísu í dalakofanum. Lagt verður upp frá Dalvíkurkirkju kl. 16:00 miðvikudaginn 8. ágúst undir leiðsögn. Gangan tekur um þrjár klukkustundir, fram og til baka og er öllum fær.

Tónleikar á Höfðanum í Svarfaðardal
Þau Jón Ólafsson og Hildur Vala verða með tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal miðvikudagskvöldið 8. ágúst kl. 21:00 Miðaverð 3.500 kr. Og miðar seldir við innganginn einnig verður hægt að forpanta miða hjá birgir@icefresh.is eða einarhaf@gmail.com.

Frítt Fiskidagszumba
Öllum verður boðið í FiskidagsAquaZumba miðvikudaginn 8. ágúst milli kl. 17.00 og 18.00 í sundlaug Dalvíkurbyggðar, frítt í tímann og í laugina. er Kennari Eva Reykjalín.

Fiskidagurinn mikli 2018

Dagskrá Fiskidagsins á hátíðarsviði, laugardaginn 11. ágúst. Kynnir er Júlíus Júlíusson.

Í hvert sinn sem Fiskidagslagið er sungið munu Zumba dívurnar Inga Magga og Eva Reykjalín kenna öllum Fiskidagssporin.

Dagskrá:

kl.11:00 – Setning, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla.

kl.11:05 – Fiskidagslagið, Matti og Friðrik Ómar  + dans

kl.11:10 – Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, Litla Fiskidagsmessan

kl.11:20 – Tónlistarskólinn. Tónlistarfólk framtíðarinnar

kl.11:50 – Ratleiks og gönguverðlaunaafhending og fl.

kl.12:05 – Fiskidagslagið. Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.12:10 – Solla Stirða, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Íþróttaálfurinn.

kl.12:45 –  Árni Þór Dalvískur Vestmannaeyingur

kl.12:55 – Ásrún Jana og Birkir Blær

kl.13:05 – Hljómsveitin Gringlo

kl.13.20 – Kvæðakona kveður nokkrar stemmur

kl.13:30 –  Karlakór Dalvíkur

kl.13:50 – Heiðrun: umsjón Svanfríður Jónasdóttir

kl.14:00 –  Ræðumaður dagsins:

kl.14:10 – Teigabandið – Sveitaballastemning af bestu gerð

kl.14:35 – Gyða Jóhannesdóttir

kl.14:50 – Snorri Eldjárn Vallenato söngvari.

kl.15:05–  Fiskidagslagið, Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.15:10 – Jón Jónsson

kl.15:25  – Jói Pé og Króli

kl.15:40 – Aron Óskars og hljómsveit

kl.16:00 –  Hljómsveitin Volta

kl.16:20 – Baldursfjölskyldan. Andi Rúnars Júl svífur yfir vötnum.

kl.16:45 – Fiskidagslagið Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.16.50 – Lokaorð – Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla

kl.17.00 – Fiskideginum mikla 2018 slitið.

Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson

 

Landsliðsæfing í Júdó á Sauðárkróki

Kvennalandsliðið í Júdó mun æfa í íþróttahúsinu á Sauðárkróki síðustu helgina í ágúst.  Sterkustu júdókonur landsins munu koma saman á Sauðárkróki helgina 24.-26. ágúst næstkomandi og æfa undir stjórn landsliðsþjálfara kvenna í Júdó, Önnu Soffíu Víkingsdóttur. Þetta kemur fram á vef Tindastóls.

Þó að um landsliðið sé að ræða eru þessar æfingabúðir líka hugsaðar fyrir allar stelpur, 15 ára og eldri, sem hafa áhuga á því að æfa Júdó. Það eru ekki sett nein beltaskilyrði fyrir þátttöku og geta yngri iðkendur með nægilega reynslu fengið undanþágu frá aldurstakmarki.

Þetta er fyrsta skrefið í að gera kvennajúdó sýnilegra á Íslandi og verður öllum boðið að fylgjast með opinni æfingu sem fer fram frá klukkan 15:00-17:00 laugardaginn 25. ágúst.

Það er heiður fyrir Júdódeild Tindastóls að Sauðárkrókur hafi orðið fyrir valinu sem æfingastaður og eru allir hvattir til að leggja leið sína í íþróttahúsið á laugardagseftirmiðdaginn og fylgjast með landsliðinu æfa.

Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli – Matarveislan mikla

Í átjánda sinn er boðið til matarveislunnar miklu á Dalvík, sem flestir Íslendingar þekkja núorðið. Fiskidagurinn mikli er hátíð í sérflokki. Á Fiskideginum mikla sem er fyrsta laugardag eftir verslunarmannahelgi eru allar veitingar og skemmtanir fríar á hátíðarsvæðinu. Á síðustu árum hafa milli 27 og 31 þúsund manns komið á hátíðarsvæðið við Dalvíkurhöfn ár hvert. Dagskrá á sviði hefst klukkan 11:00 að morgni og stendur sleitulaust til klukkan 17:00. Dagskráin er alltaf fjölbreytt, bæði á sviðinu og víðar á hátíðarsvæðinu. Mikill fjöldi fólks tekur árlega virkan þátt í undirbúningi þessarar hátíðar og margir vinna mikla sjálboðavinnu, bæði dagana fyrir og á hátíðardaginn sjálfan.

 

Vináttukeðja – Setning hátíðarinnar – Mamma hljómar

Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður hlekkjuð saman neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00 föstudaginn 10. ágúst með ljúfri og skemmtilegri dagskrá. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru: Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir, Vandræðaskáldin, Selma Björnsdóttir, karlaraddir og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2018 flytur Geir Jón Þórisson, börnin fá fána, knúskort og vináttuböndum verður dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Að venju verður flutt lagið “Mamma” sem endar í háum tónum og bombum. Lagið er eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson.

 

Fiskisúpukvöldið góða

Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, er nú haldið í 14. sinn. Að venju er það fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Þungi þessa verkefnis liggur á herðum íbúanna og þátttakenda en góðir aðilar leggja þessu verkefni mikið og gott lið. Það eru: Mjólkursamsalan með rjóma, Kristjánsbakarí með brauði, Samherji með fiski og Fiskidagurinn mikli.

 

Dagskrá á sviði frá klukkan 11:00 til 17:00 – Mætum snemma á laugardagsmorgninum

Á sjálfan Fiskidaginn mikla, laugardaginn 11. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl.11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst .

Við mælum með því að gestir séu mættir strax kl 11.00, þá er gott aðgengi að öllum stöðvum og enginn missir af neinu. Bent er á að verðlaunaafhendingar fyrir fjölskylduratleik og fleira verða mun fyrr í dagskránni en áður, þeir sem eru dregnir út í verðlaunaleikjum verða að vera á staðnum. Við bendum sérstaklega á árlega heiðrun dagsins sem er í umsjón Svanfríðar Ingu Jónasdóttur fyrrverandi sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar og ræðumann dagsins sem kemur að þessu sinni yfir fjörðinn frá vinum okkar fyrir handan, Grenivík. Ræðumaður Fiskidagsins mikla 2018 er Guðný Sverrisdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Grenivík.

 

Stærsta pítsa landsins, Sushi, flatbrauð með reyktum laxi og Egils Appelsín

Matseðill Fiskidagsins í ár er ljúffengur og áhugaverður að vanda en Friðrik V. yfirkokkur dagsins er búinn að leggja línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjáfsögðu finna gamla og góða rétti, t.d. síld og rúgbrauð, filsurnar sem eru fiskipylsur í brauði með úrvali af dásamlegum Felix sósum, harðfisk og íslenskt smjör og fersku rækjurnar. Einnig verða fiskborgararnir á sínum stað þar sem verulega öflug grillsveit grillar. Líkt og á síðasta ári sameinast árgangur 1966, sem hefur staðið vaktina í mörg ár, árgangi 1965 sem þýðir einfaldlega enn meiri gleði. Nýir samstarfsaðilar eru: Egils Appelsín en nú verða allir drykkir á hátíðinni í boði þeirra og Sushi Corner á Akureyri og fáum við að smakka þeirra frábæra sushi með ferskum fiski framleiðenda á svæðinu og víðar. Fiskurinn á grillunum er með nýju sniði: fersk bleikja í rauðrófum og hunangi og ferskur þorskur í kryddjurtum og sítrus. Á bás yfirkokksins Friðrik V. og hans fólks verður í boði líkt og á síðasta ári Hríseyjarhvannargrafin bleikja og nýjung í ár verður nýbakað flatbrauð með reyktum laxi frá Arnarlaxi. Akureyri FISH og Reykjavík FISH  koma með Fish and chips og það verður sérbás með Indversku rækjusalati í boði Dögunar. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow stýrir sasimistöðinni þar sem að laxinn frá Arnarlaxi, bleikja og hrefna verða í boði. Annað hvert ár fáum við stærstu pítsu landsins og jafnvel þó víðar væri leitað, 120 tommu pítsa, úr hverri pítsu koma 640 sneiðar og þetta er einmitt þannig ár. Saltfisk pítsan er samvinnuverkefni Sæplasts, Greifans og Ektafisks. Kaffibrennslan býður uppá svartan Rúbín sem er besta kaffið. Íspinnarnir frá Samhentum – Umbúðamiðlun vinum Fiskidagsins mikla númer 1 klikka aldrei. Síðast en ekki síst býður Samherji uppá sælgæti og merki dagsins.

Allar nánari upplýsingar um matseðilinn veitir Frirðik V. í síma 863-6746

 

Dagskrá um allt svæðið – Fiskasýningin endurbætt meira og götudans hópur

Skemmti og afþreyingar dagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Vegleg og fjölbreytt dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn. GG sjósport leyfir öllum að prófa  Sit-On-Top kajakana, fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis, danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breytt um svæðið. Teikniveröld fyrir börnin verður á sínum stað, börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Frá Reykjavik kemur hinn magnaði Superkidsclub, danshópur ungs fólk. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands og persónur úr Latabæ dreifa happdrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem þau verða með söngva úr leikritunum sem þau hafa sýnt s.l. 10 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, texta, myndböndum og fleiru, þetta verður afar áhugaverð sýning og allir ættu að gefa sér tíma til að skoða og njóta. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Þá dansa, syngja og spila listamenn, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni en þangað er hægt að leita varðandi skyndihjálp, týnd börn og fleira.

 

Allar nánari upplýsingar um Fiskasýninguna veitir Skarphéðinn Ásbjörnsson í síma 8926662

 

 

Bílastæða mál

Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla leggja áherslu á að gestir virði leiðbeiningar björgunarsveitarfólks og lögreglumanna um bílastæði. Á Dalvík eru allar vegalengdir stuttar svo það á ekki að vera mikið mál fyrir gesti að ganga. Einnig er óskað eftir því að heimamenn og gestir þeirra geymi bílana heima um þessa helgi.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja.

Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Tónleikarnir eru   samvinnuverkefni Samherja, RIGG viðburðafyrirtækis Friðriks Ómars, Fiskidagsins Mikla, Exton og fl. Á sjöunda tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stórsýningu sem er að öllum líkindum ein sú stærsta og viðamesta sem hefur verið sett upp á Íslandi. Meðal þeirra sem koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Auk þeirra verða Ragnheiður Gröndal, Helga Möller, Helgi Björnsson, Katrín Halldóra, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Jón Jónsson, Páll Rósinkrans og Eiríkur Hauksson. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða eða með öðrum orðum landslið Íslands sem spilar undir. Dagskráin endar með risaflugeldasýningu sem Björgunarsveitin á Dalvík sér um.

 

Nánari upplýsingar um tónleikana veitir Friðrik Ómar  í síma 868-9353
Nánari upplýsingar um flugeldasýninguna veitir Haukur í síma 853-8565

 

Flokkun á rusli
Undanfarið hafa stjórnendur Fiskidagsins mikla unnið að því að skipuleggja flokkun á rusli sem fellur til á fjölskylduhátíðinni. Í ár verður skrefið tekið lengra með samvinnu fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Stefnt er að því að flokka álpappír, plast og almennt sorp ásamt því að dósir og plastflöskur eru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík og rennur ágóðinn af þeirri söfnun óskiptur til sveitarinnar. Næstu árin stefnir hugur þessara aðila til enn meiri flokkunar og að fá fleiri aðila að borðinu.

Í hvað götu átt þú heima í – kíktu á www.fiskidagurinnmikli.is 

Líkt og undanfarin ár breytum við götunöfnunum á Dalvík í Fiskidagsvikunni úr þessum venjulegu og í fiskanöfn, í ár heita allar götur eftir hvalategundum. Nafnaskilti á að vera komið í götuna þína og listann er einnig að finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla. Það væri gaman ef að sem flestir settu status á Facebook og segðu einfaldlega “ Ég á heima í …og síðan nýja nafnið á götunni”

Þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri er áhugaverð.
Á átjánda ári Fiskidagsins Mikla þegar horft er til baka er margt að hugsa um. Eitt af því sem er frábært er þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri. Það er magnað að ár eftir ár taki á fjórða hundrað sjálfboðaliðar þátt í að búa til það ævintýri sem fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn Mikli sannarlega er, þessir allra yngstu taka þátt í pökkun og skreytingum og þeir allra elstu pakka, skreyta og taka að sér dómnefndarstörf í skreytingasamkeppnum svo að fá eitt sé nefnt.

Frá forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla 2018 – Stöndum saman
Vinna nefndarinnar snýr að því að gera góða hluti enn betur og byrgja brunnin áður en barnið dettur ofan í hann. Í ár gaf forvarnarnefndin út póstkort sem hefur verið sent heim til foreldra barna/unglinga á ákveðnum aldri. Þar er m.a. að finna skilaboð eins og „Mömmu og pabbar við berum ábyrgð á börnum okkar til 18 ára aldurs  „ og“ Útivistartíminn er ekki viðmið- heldur bundinn lögum og gildir líka á sumrin“. Póstkortið liggur einnig frammi á þjónustustöðum. Virðum skilaboðin og landslög. Börnum, 18 ára og yngri er óheimilt að tjalda á tjaldsvæðunum nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum. Við þurfum öll að standa saman í að fylgja reglum eftir. Börn mega ekki vera á ferli eftir tilsettan útivistartíma nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum.

SKILABOÐ – Ekkkert pláss fyrir dóp og drykkjulæti

Það er von aðstandenda Fiskidagsins mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti. Aðstandendur hátíðarinnar leggja mikla áherslu á að íbúar og gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla og á það sérstaklega við um Vináttukeðjuna og á hátíðarsvæðinu á laugardeginum milli kl. 11:00 og 17:00 á hátíðarsvæðinu. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega.

Góða skemmtun á  fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla í Dalvíkurbyggð.

Allar nánari upplýsingar veitir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla 8979748

Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson

 

Hægir á aukningu umferðarinnar á Hringveginum

Umferðin á Hringveginum í nýliðnum júlímánuði jókst um 2,6 prósent sem er minni aukning en verið hefur undanfarin ár. Nú má reikna með að umferðin á Hringveginum í ár aukist um 3 prósent sem er minni aukning en verið hefur. Vegagerðin greinir frá þessu.

Umferð í nýliðnum mánuði jókst um 2,6% yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er minnsta aukning í júlí mánuði frá árinu 2012, en telst engu að síður nokkur aukning en mætti telja hæfilega.

Mest jókst umferð um lykilteljara á Suðurlandi eða um 9,3% en 2,4% samdráttur mældist um lykilteljara á Norðurlandi.

Gert er ráð fyrir hóflegri aukningu í umferð á Hringvegi eða um 3%.  Búist er við því að umferðin aukist mest á Suðurland eða um 6% en standi í stað á Norðurlandi þ.e.a.s. að engin aukning verði þar.

Fjölmenni á Sparitónleikum Einnar með öllu

Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir luku sinni dagskrá með glæsilegum Sparitónleikum og flugeldasýningu frá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri. Talið er að Sparitónleikarnir í ár hafi verið þeir fjölmennustu frá upphafi.

Skógardagurinn var haldinn á Einni með öllu og Kjarnaskógur var fullur af fólki í allan gærdag. Aldrei hafa fleiri lagt leið sína í Kjarnaskóg, metið var sett í gær.

Helgin hefur gengið eins og í sögu og fjölskyldur voru aðal gestir Akureyringa um verslunarmannahelgina.

Myndir eftir Hilmar Friðjónsson.

Reiðnámskeið í Ólafsfirði

Hestamannafélagið Gnýfari mun standa fyrir reiðnámskeiði fyrir börn, unglinga og fullorðna í Ólafsfirði.  Námskeiðið hefst þann 6. ágúst. Leiðbeinandi verður Herdís Erlendsdóttir á Sauðanesi. Einnig verður boðið upp á sameiginlegt námskeið barns og foreldra.

Upplýsingar:

 

  • Námskeiðsgjald fyrir 5 – 18 ára er kr. 15.000.-  fyrir 10 klst.
  • Systkinaafsláttur.
  • Námskeiðsgjald fyrir 19 ára og eldri er kr. 20.000.- fyrir 5 klst.
  • Boðið verður upp á sér kvennahóp og kvennareið í lokin.

 

Við skráningu tekur Herdís í s 6986518, netfang saudanes@visir.is, Þorvaldur Hreinsson s. 8669077, netfang hringverskot@gmail.com.

 

Gnýfari er aðili að samningi Fjallabyggðar um frístundarstyrk. Þeir sem ekki hafa nýtt heimsendar ávísarnir eru hvattir til að nýta sér þær.

 

Æskulýðsnefnd.

 

Hafi einhver áhuga á að komast á hestbak í eitt og eitt skipti þá hikið ekki við að hafa samband við Herdís í s. 6986518.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Gleði á Einni með öllu

Laugardagurinn á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum fór vel fram. Dagurinn einkenndist af glöðu fólki sem tók þátt í fjölbreyttri dagskrá. Mömmur og möffins voru á sínum stað og var viðburðurinn yndislegur að vanda þar sem safnað er fyrir fæðingardeildinni.

Hátíðardagskrá var á Ráðhústorgi þar sem Greifinn bauð börnum í bæinn. Sigyn Blöndal, Steps Dacnce Center og fleiri kættu börn og fjölskyldur. Kung Fu og 1862 Bistro buðu svo til stórtónleika um kvöldið þar sem Birnir, Flóni, Omotrack, Gringlo ásamt öðrum góðum listamönnum skemmti fólki.

Í dag sunnudag er hæfileika keppni ungafólksins sem er ávalt skemmtilegur viðburður þar sem yngsta kynslóðin stígur á stóra sviðið.

Skógardagurinn verður í Kjarnaskóg í dag. Gestir geta tálgað, reynt fyrir sér í bogfimi, poppað yfir eld og margt fleira.

Sparitónleikar Einnar með öllu í boði Pepsi Max eru í kvöld. Sparitónleikarnir eru ávalt stærsti viðburður hátíðarinnar og jafnframt endapunktur. Á tónleikunum koma fram Hera Björk, Emsjé Gauti, Páll Óskar, Dóri KÁ AKÁ, Úlfur úlfur og fleiri. Flugeldasýning og smábátadiskó á pollinum lokar svo tónleikunum.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á www.einmedollu.is.

 

Frítt Fiskidagszumba og AquaZumba

Öllum verður boðið í FiskidagsAquaZumba miðvikudaginn 8. ágúst milli kl. 17.00 og 18.00 í sundlaug Dalvíkurbyggðar, frítt í tímann og í laugina. Kennari er Eva Reykjalín. FiskidagsZumbasæla verður síðan með Ingu Möggu og fleiri Zumbaskvísum í Víkurröstinni fimmtudaginn 9. ágúst  milli kl. 16.30 og 18.00. Allir velkomnir frítt aðgangur.

Úrslit í fyrsta opna golfmótinu á Sigló golf

Fyrsta opna golfmótið á Siglógolf á Siglufirði var haldið í gærdag. Veður var með ágætum, skýjað, logn og um 10 stiga hiti. Alls tóku 38 keppendur þátt í mótinu.  Keppt var í karla- og kvennaflokki og voru úrslit eftirfarandi:

Karlaflokkur:
1. sæti Jóhann Már Sigurbjörnsson GKS með 37 punkta
2. sæti Hafsteinn E. Hafsteinsson GO með 34 punkta
3. sæti Tómas Kárason GL með 31 punkt.

Kvennaflokkur:
1. sæti Unnur Elva Hallsdóttir GA með 34 punkta
2. sæti Hulda Magnúsardóttir GKS með 33 punkta
3. sæti Dagný Finnsdóttir GFB með 29 punkta

 

Einnig voru veitt nándarverðulaun á par 3 brautum, 6., 7. og 9. holu og þau hlutu Jóhann Már Sigurbjörnsson, Sigríður Guðmundsdóttir og Dagný Finnsdóttir.

Mynd: Golfklúbbur Siglufjarðar

 

Valgerður Gunnarsdóttir skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík

Valgerður Gunnarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík. Að fenginni umsögn skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið að skipa Valgerði í embættið en skipað er til fimm ára frá og með 1. ágúst 2018. Tvær umsóknir bárust um embættið.

Valgerður lauk B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, námi í kennslu- og uppeldisfræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómanámi í stjórnun og forystu í skólaumhverfi frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Valgerður hefur víðtæka reynslu af skólastarfi sem kennari, námsráðgjafi, deildarstjóri í Framhaldsskólanum á Húsavík og skólameistari Framhalds¬skólans á Laugum.

Valgerður hefur einnig víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum sem bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar. Hún hefur enn fremur gegnt ýmsum trúnaðar¬störfum, þar á meðal formennsku í Skólameistarafélagi Íslands, setið í stjórn Útgerðarfélagsins Höfða og í stjórn Menningarsjóðs þingeyskra kvenna. Valgerður sat á Alþingi 2013-2017 og var formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2016-2017. Hún hefur verið varaþingmaður frá í maí 2018.

Heimid: stjornarrad.is

Heimir Ingi skrifar undir samning hjá KF

Heimir Ingi Grétarsson leikmaður KF hefur ákveðið að taka skóna af hillunni eftir að hafa tekið sér pásu árið 2016 vegna meiðsla. Hann hefur skrifaði undir samning hjá KF og hefur ákveðið að taka slaginn með KF út tímabilið. Heimir Ingi er fæddur árið 1996 og er hann sóknarsinnaður leikmaður sem getur spilað út á kanti, inná miðju og sem framherji. Heimir hefur alltaf spilað undir merkjum KF,  upp alla yngri flokka og spilaði hann sína fyrstu meistaraflokks leiki með KF árið 2013. Heimir mun koma til með að styrkja hópinn mikið, þar sem að hann er líkamlega sterkur og mjög yfirvegaður leikmaður. KF greindi fyrst frá þessu á vef sínum.

Heimir hefur leikið 14 leiki fyrir KF í meistaraflokki í deild og bikar en á ennþá eftir að skora mark í opinberum leik KSÍ. Hann lék síðast 8 leiki þegar KF var í 2. deildinni árið 2016, en hefur svo komið inná sem varamaður í einum leik í sumar.

Mynd: KFbolti.is

 

Fleiri myndir frá Trilludögum

Trilludagar á Siglufirði voru haldnir um síðastliðna helgi og var það í þriðja sinn sem hátíðin hefur verið haldin, það er Fjallabyggð sem skipuleggur hátíðina.

Mikill tími fer í að skipuleggja svona hátíð svo allt fari vel fram, en hátíðin hefur lukkast vel í þau skipti sem hún hefur verið haldin, þótt góða veðrið hafi ekki alltaf verið á svæðinu. Mörg fyrirtæki leggja hönd á plóginn, en það eru Rauðka, Kjörbúðin, Aðalbakarí og Síldarminjasafnið, auk annara félaga.  Mjög vinsælt hefur verið síðustu árin að fara á sjóstöng og grilla aflann á hátíðarsvæðinu og eins hefur mætingin á hátíðargrillið verið góð.  Þetta er mjög gott dæmi um fjölskylduvæna hátíð. Hérna koma nokkrar síðbúnar myndir af síðustu Trilludögum.

 

 

Líf á smíðavöllunum í Fjallabyggð

Smíðavellir voru starfræktir í Fjallabyggð í júlí fyrir börn fædd árin 2006-2009.  Smíðavellirnir voru opnir þrisvar í viku í tvo tíma á dag. Starfsmaður Vinnuskóla Fjallabyggðar hafði umsjón með börnunum. Börnin fengu nagla og timbur til að smíða kofa, en þurftu sjálf að koma með hamar og sög. Myndir með fréttinni eru af smíðavöllunum á Siglufirði.

Fjölmenni á Einni með öllu á Akureyri

Föstudagurinn á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum fór vel fram og margmenni hefur lagt leið sína til Akureyrar um verslunarmannahelgina.  Kirkjutröppuhlaupið fór fram með góðum undirtektum, sól gladdi mannskapinn fram á kvöld. Hátíðardagskrá í miðbænum vakti mikla lukku þar sem Dúndúrfréttir, Marína og Mikael, Hamrabandið, Gréta Salóme, Kristín Tómasar og Anton skemmtu fólki.

Laugardagurinn er ávalt stór á hátíðinni og þar má nefna viðburði eins og Mömmur og möffins, Barnadagskrá Greifans, Þríþraut og Hátíðardagskrá kvöldsins þar sem Brinir og Flóni stíga á stokk ásamt fleirum.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á www.einmedollu.is. Tjaldsvæði á og við Akureyri eru þétt setin en þó er ennþá pláss fyrir þá sem vilja leggja leið sína norður.

Aðsend fréttatilkynning. Ljósmyndir tók Hilmar Friðjónsson.

Forsætisráðherrahjónin heimsækja Íslendingaslóðir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og eiginmaður hennar, Gunnar Sigvaldason eru í heimsókn á Íslendingaslóðum í Kanada og Bandaríkjunum fram til 7. ágúst nk.  Ráðherrahjónin verða heiðursgestir á Íslendingahátíðum sem haldnar verða í Gimli í Manitoba og Mountain í Norður-Dakóta og munu taka þátt í hátíðarhöldum í tengslum við þær. Ráðherrahjónin verða viðstödd ýmsa menningarviðburði og munu heimsækja staði sem tengjast vesturförunum.

Forsætisráðherra mun einnig eiga fund með Brian Pallister, forsætisráðherra Manitoba, Rochelle Squires, ráðherra Manitoba fyrir sjálfbæra þróun og stöðu kvenna, og Janice C. Filmon, fylkisstjóra Manitoba.

Meðalhitinn á Akureyri í júlí var 11,4 gráður

Júlí mánuður var hlýr og bjartur austanlands en fremur svalur og sérlega sólarlítill sunnan- og vestanlands. Úrkoma var yfir meðallagi um mest allt land og mánuðurinn var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Snögg hitabylgja gekk yfir landið þann 29. júlí þegar hiti fór allvíða yfir 20 stig. Veðurstofa Íslands greinir frá þessu á vef sínum. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, úrkoma mældist úrkoman 72,8 mm.  Á Akureyri mældust 122,5 sólskinsstundir, 36 færri en í meðalári.

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig sem er jafnt meðaltali áranna 1961 til 1990, en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,0 stig og 11,1 stig á Höfn í Hornafirði. Á Dalatanga var meðalhitinn 10,2 stig sem er hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á þeim stað.

Úrkoma var yfir meðallagi um nær allt land og var mánuðurinn víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið.

Úrkoma í Reykjavík mældist 62,3 mm sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 72,8 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma á Akureyri í júlímánuði, síðast árið 2014. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 74,9 mm sem er um 75% umfram meðallag og það mesta í júlí frá 1977. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 109,7 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16, sex fleiri en í meðalári. Alveg þurrir dagar voru aðeins 5 í Reykjavík, þeir voru jafnfáir árið 1982 en aðeins þrír árið 1955. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 17 daga mánaðarins, 10 fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga.

Ný júlíúrkomumet voru sett á Grímsstöðum (116 mm), Litlu Ávík (159 mm) og Hænuvík (106 mm).

Sólarlítið var í Reykavík í júlí. Sólskinsstundirnar mældust 89,9, sem er 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið eins sólarlítið í júlímánuði í Reykjavík síðan árið 1989. Á Akureyri mældust 122,5 sólskinsstundir, 36 færri en í meðalári.

Heimild og texti: Vedur.is

Úrslit í Norðurlandsmótaröðinni í golfi í Ólafsfirði

Norðurlandsmótaröðin í golfi fór fram á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði þriðjudaginn 31. júlí síðastliðinn. Alls tóku 68 þátttakendur þátt og gekk mótið vel.  Þessi mótaröð er hugsuð sem fyrstu skref og stuðningur við keppnisþátttöku væntanlegra framtíðarkylfinga. Hér á að vera gaman og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í að gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur. Fyrsta mótið í sumar var haldið á Sauðárkróki 17. júní og mót númer tvö var haldið á Dalvík 15. júlí, og loks í Ólafsfirði 31. júlí. Lokamótið verður haldið á Akureyri 2. september. Myndir með fréttinni koma frá Golfklúbbi Fjallabyggðar.

Eftirfarandi golfklúbbar eru aðilar að mótaröðinni:

Golfklúbbur Akureyrar
Golfklúbbur Dalvíkur
Golfklúbbur Fjallabyggðar
Golfklúbbur Sauðárkróks

Úrslit:

Piltar 18-21 ára
1. Arnór Snær guðmundsson GHD 73 högg
2. Þorgeir Örn Sigurbjörnsson GFB 79 högg

Drengir 15-17 ára
1. Lárus Ingi Antonsson GA 70 högg
2. Hákon Ingi Rafnsson GSS 81 högg
3. Gunnar Aðalgeir Arason GA 83 högg

Stúlkur 15-17 ára
1. Marianna Ulriksen GA 81 högg
2. Hildur Heba Einarsdóttir GSS 86 högg
3. Sara Sigurbjörnsdóttir GFB 94 högg

Drengir 14 ára og yngri
1. Einar Ingi Óskarsson GFB 84 högg
2. Bogi Sigurbjörnsson GSS 97 högg (vann bráðabana)
3. Atli Hrannar Einarsson GA 97 högg

Stúlkur 14 ára og yngri
1. Anna Karen Hjartardóttir GSS 87 högg
2. Guðrún María Aðalsteinsdóttir GA 107 högg
3. Kara Líf Antonsdóttir GA 116 högg

Drengir 12 ára og yngri
1. Snævar Bjarki Davíðsson GHD 44 högg (vann bráðabana)
2. Skúli Gunnar Ágústsson GA 44 högg
3. Veigar Heiðarsson GHD 46 högg
4. Árni Stefán Friðriksson GHD 46 högg

Stúlkur 12 ára og yngri
1. Birna Rut Snorradóttir GA 53 högg
2. Auður Bergrún Snorradóttir GA 53 högg
3. Rebekka Helena b. Róbertsdóttir GSS 56 högg

Byrjendaflokkur eftir stafrófsröð:
Arna Margrét r. Jónsdóttir GFB 69 högg
Ásdís Ýr Kristinsdóttir GFB, 83 högg
Askur Bragi Heiðarsson GA, 72 högg
Berglind Eva Ágústsdóttir GA, 66 högg
Bergrós Níelsdóttir GA, 71 högg
Bríet Brá Gunnlaugsdóttir GFB, 71 högg
Dagbjört Sísí Einarsdóttir GSS, 60 högg
Elena Soffía Ómarsdóttir GA, 60 högg
Elis Beck Kristófersson GFB, 90 högg
Fjóla María Gunnlaugsdóttir GFB, 90 högg
Hákon Bragi Heiðarsson GHD, 52 högg
Hallur Atli Helgason -, 60 högg
Haukur Rúnarsson GFB, 64 högg
Helena Reykjalín Jónsdóttir GFB, 54 högg
Hinrik Aron Magnússon GA, 54 högg
Ívar Torfi Rögnvaldsson GA, 64 högg
Jón Arnór Magnússon GA, 55 högg
Karen Helga Rúnarsdóttir GFB, 67 högg
Kjartan Orri Johnsson GFB, 52 högg
Kolfinna Ósk Andradóttir GFB, 57 högg
Linda Rós Jónsdóttir GA, 78 högg
Mikael Máni Jensson GA, 65 högg
Ólöf Elísabet Friðriksdóttir GFB, 70 högg
Ragnhildur Vala Johnsdóttir GFB, 74 högg
Sigurlaug Sturludóttir GFB, 73 högg
Silja Rún Þorvaldsdóttir GFB, 61 högg
Svava Rós Kristófersdóttir GFB, 66 högg
Sveinbjörg Lilja Ingólfsdóttir GA, 52 högg
Unnar Marinó Friðriksson GHD, 45 högg
Viktor Skuggi Heiðarsson GA, 53 högg

 

Stöðvaður á Ólafsfjarðarvegi á 126 km hraða

Nú er ein mesta ferðahelgi ársins hafin og þá gildir að hafa tímann fyrir sér, fylgja umferðarreglum og sýna þolinmæði í umferðinni. Ekki hefur hann alveg verið búinn að tileinka sér þetta leiðarljós, ungi ferðamaðurinn sem ók hringveginn í Hörgárdal nú eftir hádegið. Hann mætti lögreglubíl og var mældur með radar og reyndist vera á 133 kílómetra hraða. Lögreglan snéri við og hóf eftirför á eftir manninum með blá ljós. Ekki virtist hann veita því athygli en ók inn á Ólafsfjarðarveg, þar sem hann ók fram úr nokkrum bílum. Lögreglumönnunum í eftirförinni sóttist seint að draga manninn uppi vegna mikillar umferðar í báðar áttir og þess að hann virtist ekkert slá af. Þá bar svo við að önnur lögreglubifreið var einmitt við eftirlit á Ólafsfjarðarvegi á sama tíma og kom ferðamaðurinn hraðskreiði nú inn í radargeisla þeirrar bifreiðar á 126 kílómetra hraða. Loks tókst að stöðva för hans áður en slys hlaust af. Aðspurður um aksturslagið sagði ökumaðurinn að hann væri nýkominn til Íslands og hefði ekki að fullu verið búinn að kynna sér þær reglur sem gilda hér um leyfðan hámarkshraða. Hann er trúlega einhvers vísari eftir að hafa fengið leiðsögn lögreglu og greitt 172.500.- kr. í sekt á staðnum.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu.

Fimm Andarnefjur eru mættar á Fiskidaginn mikla á Dalvík

Það er afar sjaldgæft að Andarnefjur séu inní í höfninni á Dalvík og fróðir menn telja þetta jafnvel að þetta sé í fyrsta skipti. Þær voru tignarlegar að sjá í morgunblíðunni og ferðamenn tóku andköf og áttu ekki til orð. Þær sáust fyrst fyrir utan hafnarmynnið í gær fimmtudag en í dag hafa þær komið inn í höfnina nokkrum sinnum. Það er von okkar að þær dvelji hjá okkur í vikunni og steli síðan senunni á Fiskidaginn mikla eftir eina viku.

Andarnefja eða Hyperoodon ampullatus er allstór tannhvalur, álíka stór og hrefna en mjög ólík henni. Hún er með mjótt trýni og hátt og kúpt enni. Trýnið minnir á andarnef og af því fær hún nafn sitt. Höfuðið er nokkuð aðgreint frá bolnum. Augun eru rétt aftan við munnvikin.

Tarfarnir eru um átta til níu metrar á lengd og um 3600 kg að þyngd. Kýrnar eru um sjö metrar á lengd og vega um þrjú tonn.

Gistinóttum fjölgaði á Norðurlandi í júní

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 5% í júní á Norðurlandi, miðað við júní 2017. Alls voru 38.154 gistinætur á Norðurlandi í júní 2018.  Þetta kemur fram í gögnum frá Hagstofu Íslands.
Um 54% allra gistinátta á Íslandi í júní voru á höfuðborgarsvæðinu eða 221.300.

Um 90% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 369.100. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (131.200), síðan Þjóðverjar (43.900) og Bretar (31.300), en gistinætur Íslendinga voru 41.600.

Verslunarmannahelgin á Kaffi Rauðku og tilboð á Sigló hótel

Það verður kvölddagskrá um verslunarmannahelgina hjá Kaffi Rauðku á Siglufirði frá fimmtudegi til sunnudags. Tilboð verður á gistingu á Sigló hótel, en nánar má lesa um það neðar í fréttinni.

Dagskrá:

  • Fimmtudagur: Lög unga fólksins 1960-1970
  • Föstudagur: Hjálmar
  • Laugardagur: Landabandið
  • Sunnudagur: DJ Birgitta

Kristbjörg Edda framkvæmdarstjóri Sigló hótel segir í samtali við vefinn að þau geri líka ráð fyrir að það verði mikið sótt á golfvöllinn Sigló golf um helgina en þar verður líka mót um helgina.

Rauðka vonast til að sjá sem flesta gesti koma á viðburðina og einnig verður frábært tilboð á Hótel Sigló þ.e. 30% afsláttur af gistingu með morgunmat, gildir dagana 1. – 6. ágúst.

Image may contain: text

Páll Óskar í fyrsta skiptið í Hofi

Páll Óskar heldur dansleik í Hofi á Akureyri, sunnudaginn 5. ágúst. Er þetta í fyrsta sinn sem hann heldur tónleika í húsinu.  Hvergi verður slegið af í glamúr og glæsileika til að gera þetta fyrsta Pallaball í Hofi að stórkostlegri upplifun. Miðaverð er frá 3500 kr. og er 22 ára aldurstakmark. Tónleikarnir hefjast á miðnætti.

Palli keyrir ballið pásulaust alla nóttina og þeytir bestu partítónlist veraldar auk þess sem hann syngur öll sín bestu lög, þar á meðal Stanslaust Stuð, Einn dans, La Dolce Vita, Allt fyrir ástina, International, Betra Líf, Ég er eins og ég er, Þú komst við hjartað í mér og Gordjöss.

Ballgestir geta kosið að vera á dúndrandi dansgólfinu, en einnig verður boðið upp á mun rólegra rými með borðum og stólum fyrir þá sem þurfa að fara á trúnó.

Rýmið sem notað verður fyrir ballið leyfir aðeins ákveðinn fjölda fólks, svo það borgar sig að versla miðana í forsölu.
Miði á Pallaball er gulltrygging fyrir góðri skemmtun, enda besti skemmtikraftur Íslands.

Mætið í glamúr-dressinu og reddið pössun.

www.palloskar.is

Nýr frisbígolfvöllur á Sauðárkróki

Nýr og glæsilegur frisbígolfvöllur er kominn í Sauðárgilið á Sauðárkróki, nánar tiltekið í og við Litla skóg. Þetta kemur fram á skagafjordur.is.

Folf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska þar sem markmiðið er að klára hverja braut á sem fæstum köstum. Á vellinum er að finna teiga, brautir og flatir þar sem markmiðið er að koma diskunum í þar til gerðar körfur sem gegna hlutverki hola.

Folf er skemmtileg íþrótt og tilvalin fyrir alla fjölskylduna.

Golfskálinn á Siglufirði á eftir áætlun

Enn er unnið af kappi að koma upp nýjum golfskála fyrir Sigló golf á Siglufirði, en það er nafnið á nýja vellinum. Í upphafi var áætlað að skálinn yrði tilbúinn um miðjan júlí, en ljóst er að nokkur seinkun er á verkinu. Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun núna í ágústmánuði, en tíminn verður að leiða það í ljós hvort það standist. Veður hefur hefur sett strik í reikninginn samkvæmt Sigló Hótel þegar spurt var um ástæðu seinkunar.

Byggingafélagið Berg hefur unnið af krafti við að koma upp húsinu í sumar. Myndir með fréttinni koma frá Byggingafélaginu Berg.

 

Myndir: Byggingafélagið Berg.

10700 heimsóttu Síldarminjasafnið í júlí sem er met

Alls heimsóttu um 10.700 manns Síldarminjasafnið á Siglufirði í júlímánuði en fyrir 10 árum voru gestir 7600 á ársgrundvelli. Þetta er met í fjölda heimsókna í einum mánuði hjá safninu, en fjöldi skemmtiferðaskipa, Norræn Strandmenningarhátíð og Þjóðlagahátíð hjálpuðu til með þennan fjölda gesta. Alls voru 19 skemmtiferðaskipakomur í júlí á Siglufirði, og er Síldarminjasafnið einn hápunktur heimsóknarinnar til Siglufjarðar.

Heildarfjöldi gesta fyrstu sjö mánuði ársins er 18.500, þar af um 80% erlendir gestir. Síldarsaltanir hafa verið í alls 49 skipti á planinu við Róaldsbrakka og 200 hópar hafa fengið leiðsögn um safnið það sem af er ári.

Síldarminjasafnið greinir frá þessu á vef sínum.

22 sóttu um starf sveitarstjóra Eyjarfjarðarsveitar

Alls bárust 22 umsóknir um stöðu sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, en umsóknarfrestur um starfið var til 29. júlí.   Lista yfir umsækjendur má sjá hér að neðan.

Anna Bryndís Sigurðardóttir Akureyri
Arnar Kristinsson                Akureyri
Bjarki Ármann Oddsson       Fjarðarbyggð
Björg Erlendsdóttir              Grindavík
Finnur Yngvi Kristinsson       Fjallabyggð
Friðjón Már Guðjónsson       Hafnarfirði
Guðbjartur Ellert Jónsson     Húsavík
Guðbrandur Stefánsson       Reykjanesbæ
Gunnar Axel Axelsson         Hafnarfirði
Hjörleifur Hallgríms Herbertsson Akureyri
Hlynur M. Jónsson              Akureyri
Ingunn Ósk Svavarsdóttir   Akureyri
Jóhannes Valgeirsson         Akureyri
Magnús Már Þorvaldsson    Vopnafirði
Ragnar Jónsson                 Reykjavík
Sigurður Jónsson               Selfossi
Skúli Gautason                  Hólmavík
Snæbjörn Sigurðarson       Húsavík
Sveinbjörn F. Arnaldsson    Kópavogi
Sævar Freyr Sigurðsson     Akureyri
Valdimar Leó Friðriksson    Mosfellsbæ
Þór Hauksson Reykdal       Eyjafjarðarsveit

Ástralskur trúbador með tónleika í Siglufjarðarkirkju

Laugardagskvöldið 4. ágúst klukkan 20:00 í Siglufjarðarkirkju mun hinn víðförli ástralski trúbador Ben Salter flytja söngdagskrá með eigin lögum og textum. Tónleikarnir eru hluti af alþjóðlegu tónleikaferðalagi Salters víða um lönd, þ.á.m. Japan, Bretland, Frakkland, Danmörk og Ísland – en tónleikaferðalagið ber yfirskriftina „2018 International Madness Tour“. Salter hefur getið sér gott orð í heimalandi sínu fyrir kraftmikla og perónulegu tónlistarnálgun, hefur honum oft verið lýst sem einum af vönduðustu lagasmiðum Ástralíu.
Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Þjóðlagasetrið, miðaverð er 1.000.- og eru allir velkomnir.

Ásthildur ráðin bæjarstjóri Akureyrarbæjar

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Ásthildi Sturludóttur um að taka að sér starf bæjarstjóra á Akureyri. Hún tekur við af Eiríki Birni Björgvinssyni var bæjarstjóri síðustu átta ár.  Alls sóttu 18 um starf bæjarstjóra en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Eftir úrvinnslu umsókna og viðtöl ákvað meirihluti bæjarstjórnar að ganga til samninga við Ásthildi.  Gert er ráð fyrir að Ásthildur komi til starfa um miðjan september.

Ásthildur starfaði sem bæjarstjóri í Vesturbyggð frá árinu 2010. Hún er uppalin í Stykkishólmi og er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu (Master of Public Administration) í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Ásthildur starfaði áður sem verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Hún var einnig verkefnisstjóri við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

Ãsthildur Sturludóttir.
Texti og mynd: akureyri.is