All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Klassík í Bergi menningarhúsi

Laugardaginn 4. nóvember munu Ólafur Kjartan Sigurðarson og Anna Guðný Guðmundsdóttir koma fram á tónleikum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.  Ólafur Kjartan hefur ekki komið fram á einsöngstónleikum á Íslandi árum saman og það gleður hann alveg sérstaklega að fá tækifæri til að koma fram í Menningarhúsinu Bergi ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara.  Á efnisskrá tónleikanna verða aríur úr ýmsum óperum sem Ólafur Kjartan er hvað þekkastur fyrir, ljóðabálkar eftir Finzi og Ravel sem og íslensk og rússnesk sönglög.

Undanfarin 10 ár hefur Ólafur Kjartan verið búsettur í Þýskalandi og starfsvettvangur hans að mestu verið á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum. Af fjölmörgum verkefnum hans eru hlutverk í óperum Verdi, Puccini og Wagner hvað mest áberandi; Macbeth, Iago, Renato, Falstaff, Scarpia, Jack Rance, Telramund, Alberich, Klingsor, Hollendingurinn fljúgandi og síðast en ekki síst Rigoletto.  Hann hefur einnig hlotið lof fyrir túlkun sína á Barnaba, Bláskegg, Escamillo, Gérard, Jochanaan og Tonio. Ólafur Kjartan hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Rigoletto.

Ólafur Kjartan hefur einnig komið fram á fjölda tónleika víða um heim. Nýlega söng hann við vígslu nýrrar tónleikahallar í Lugano undir stjórn Vladimir Ashkenazy, í níundu sinfóníu Beethoven á tónleikaferð um Japan undir stjórn Toshiuki Kamioka og á nýliðnu sumri í Canberra, Melbourne og Sidney. Hann hefur einnig margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Meðal næstu verkefna Ólafs Kjartans er hlutverk Rigoletto við Finnsku þjóðaróperuna og hjá Minnesota Opera, Falstaff hjá Opera Colorado, Lohengrin í Prag svo fátt eitt sé nefnt.

Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, en þangað kom hún úr Barnamúsíkskólanum.  Hún hélt síðan til náms við Guildhall School of Music í Lundúnum og lauk þaðan Post Graduate Diploma. Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari.  Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur m.a. leikið á tónlistarhátíðunum  Reykjavík Midsummer Music og Reykholtshátíð.  Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum.  Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum þeirra í yfir 20 ár og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus.  Hún starfaði við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Anna hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau árið 2008 sem flytjandi ársins.

Trúðanámskeið á Akureyri

Leikfélag Akureyrar býður uppá trúðanámskeið fyrir fullorðna án endurgjalds helgina 11. og 12. nóvember næstkomandi. Námskeiðið ber titilinn Trúðboð og er byrjendanámskeið í trúðatækni fyrir alla sem hafa náð 18 ára aldri. Markmið námskeiðsins er að hver og einn þátttakandi nái að “fæða” sinn trúð og kynnast honum betur.
Á námskeiðinu verður farið í grunnreglur trúðsins. Þátttakendur munu þróa og vinna með trúðinn sinn í gegnum spuna og leiki.

Leiðbeinandi er Benedikt Karl Gröndal.  Trúðanámskeiðið er án endurgjalds og er hluti af Borgarasviði LA 2017-2018. Leikfélag Akureyrar vill með Borgarasviðinu gefa borgurum Akureyrar tækifæri til að upplifa leikhúsið sem rými þar sem fólk hittist, hefur samskipti og tengist skapandi, þvert á aldur, kyn og félagslegan bakgrunn. Trúðanámskeiðið er daganna 11. nóvember frá 13:00 til 18:00 og 12. nóvember frá 11:00 til 16.00 í Samkomuhúsinu. Skráning á námskeiðið er hér https://www.mak.is/is/um-mak/leikfelagid/skraning-a-trudanamskeid
Vinsamlegast athugið að námskeiðið takmarkast við 10 einstaklinga.

Íslandsmót í blaki í Fjallabyggð

Um helgina fer fram fyrsta mót af þremur á Íslandsmóti neðrideilda í blaki. Í Fjallabyggð koma saman 24 lið sem spila í 2. og 3. deild kvenna, þ.e. 12 lið eru í hvorri deild og þar af er Blakfélag Fjallabyggðar með eitt lið í báðum deildum. Spilaðir verða 60 leikir þar sem hvert lið spilar fimm leiki (3 á laugardeginum og 2 á sunnudeginum).
Á laugardeginum hefjast fyrstu leikir kl 08:00 í báðum íþróttahúsum Fjallabyggðar. Áætlað er að leikjum ljúki kl. 10:20 á Ólafsfirði en kl. 19:40 á Siglufirði. Á sunnudeginum er spilað á Siglufirði og hefjast leikir kl 08:00 og áætlað að síðustu leikjum ljúki kl 17:20.

Leikir Blakfélags Fjallabyggðar er sem hér segir:

BF (2.deild kvenna): Laugardagur kl 08:00 við Þrótt Reykjavík, kl. 10:20 við HK F og 13:50 við Álftanes. Á sunnudeginum spilar liðið kl 12:40 við Hrunamenn og kl. 16:10 við HK G.
BF B (3.deild kvenna): Laugardagur kl. 09:10 við Gróttu, kl. 15:00 við Krækjur og kl. 18:30 við Þrótt Neskaupsstað. Á sunnudeginum spilar liðið kl. 09:10 við Grundarfjörð og kl. 13:50 við Dímon/Heklu.
Allir leikir BF liðanna fara fram í íþróttahúsinu á Siglufirði.
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að kíkja á leikina og fylgjast með blakveislunni og eiga áhorfendur á að ganga inn í íþróttahúsið á Siglufirði að sunnanverðu.
Hér er hægt að finna upplýsingar um alla leiki ásamt úrslitum í hvorri deild:
2.deild kvenna: http://bli-web.dataproject.com/CompetitionHome.aspx?ID=21
3.deild kvenna: http://bli-web.dataproject.com/CompetitionHome.aspx?ID=22

Tónleikar í Ólafsfjarðarkirkju

Íslenskar söngperlur í áranna rás er nafn á tónleikum sem verða í Ólafsfjarðarkirkju, laugardaginn 4. nóvember kl. 17:00.  Fram koma Þórhildur Örvarsdóttir, söngkona, og Helga Kvam,  píanóleikari
Á dagskrá tónleikanna eru íslenskar söngperlur allt frá Sigvalda Kaldalóns til Megasar.  Þær Þórhildur og Helga hafa starfað saman í nokkur ár og eru báðar í kvennahljómsveitinni
Norðlenskar konur í tónlist, þær opnuðu tónleikaröð Listasumars á Akureyri með dagskránni Íslenskar söngperlur í áranna rás fyrir fullum sal.  Í lok sumars fóru þær í tónleikanaferð hringinn
í kring um landið og var gríðar vel tekið. Þórhildur og Helga eru þekktar fyrir einstakan samhljóm og skemmtilega sviðsframkomu og er óhætt að lofa góðri kvöldstund þar sem íslensku
söngperlurnar í gegnum árin munu draga fram minningar þeirra sem á hlýða.

Miðaverð er krónur 2500 við innganginn.  Nánari upplýsingar gefur Helga Kvam í síma 865 8052 eða helgakvam@gmail.com.

Texi og mynd: Aðsent, fréttatilkynning.

Héldu golfmót í Ólafsfirði í lok október

Golfklúbbur Fjallabyggðar bauð upp á golfmótið Saltkjöt & baunamót GFB um síðustu helgi, eða sunnudaginn 22. október síðastliðinn. Það er ekki á hverju ári sem hægt er að halda golfmót svo seint á árinu í Ólafsfirði, en veðráttan hefur hagstæð fyrir golfið í haust í Fjallabyggð. Keppt var í punktakeppni á Skeggjabrekkuvelli og var ræst út frá öllum teigum á hádegi. Nítján spilarar skráðu sig í mótið en sautján mættu til leiks og luku keppni. Snævar Bjarki Davíðsson frá GHD fékk flesta punkta eða 21. Þrjú voru svo 20 punkta, en það voru Björg Traustadóttir, GFB, Hjörleifur Þórhallsson, GFB og Hafsteinn Þór Sæmundsson frá GFB.

Nemendur MTR gáfu leikskólabörnum leikföng

Nemendur í áfanganum Leikfangasmíði í Menntaskólanum á Tröllaskaga smíðuðu leikföng úr tré fyrir leikskólanna í Fjallabyggð og í Dalvíkurbyggð. Var meðal annars smíðaðir dúkkuvagnar, eldavélar, dúkkuhús, bílaborð og fleiri leikföng.  Allt frábærar gjafir til leikskólanna.

Kjartan Helgason smiður, var nemendum til aðstoðar en nemendur fá frelsi til að skapa sjálfir og útfæra eftir eigin höfði. Myndir koma frá vef MTR.is og má sjá fleiri myndir þar.

 

 

Óvissumessa í Siglufjarðarkirkju

Nýtt siglfirskt messuform, Óvissumessa, verður haldin í Siglufjarðarkirkju kl. 17:00 í dag, sunnudaginn 29. október. Frá þessu er greint á Siglfirðingur.is. Íslensk og erlend dægurlög verða fyrirferðamikil í messunni. Um 40 manns sjá um tónlistarflutning. Konfektkaffi í boði SR verður í anddyri kirkjunnar að messu lokinni. Sem sagt mjög spennandi messa sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Nánari upplýsingar á vef Siglfirðings.is

 

Nýtt listaverk í Grímsey

Í lok september var nýtt listaverk vígt í Grímsey sem ber nafnið Orbis et Globus, og er nýtt kennileiti fyrir heimsskautsbauginn. Verkið er eftir Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer hjá Studio Granda.  Kúlan er 3 metrar í þvermál og hugmynd listamannanna er sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsins þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst.

Forsaga málsins er að tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013.  Nú loks er kúlan komin á sinn stað og var hún vígð í blíðskaparveðri á heimskautsbaugnum að viðstöddum fjölda gesta.

Ávörp fluttu Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Kristinn E. Hrafnsson listamaður og Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu.

Viðamesta rannsókn sem gerð hefur verið á viðburði hérlendis

Háskólinn á Hólum og Landsmót hestamanna kynntu í vikunni, á formannafundi Landssambands hestamannafélaga,  niðurstöður rannsóknar sem fjölþjóðlegur rannsóknarhópur vann á Landsmóti hestamanna á Hólum sumarið 2016.  Rannsóknahópurinn kemur frá Bretlandi, Noregi og Svíþjóð auk Íslands og eru meðlimir hans sérfræðingar á ýmsum sviðum viðburðahalds og ferðamála.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að afla heildstæðrar þekkingar um Landsmót hestamanna sem viðburð. Frumniðurstöður helstu rannsóknaþátta eru birtar í þessari ritstýrðu bók en frekari úrvinnsla gagna sem og kynning niðurstaðna er fyrirhuguð á alþjóðlegum vettvangi.
Meðal þess sem fengist var við í rannsókninni er efnahagslegt mikilvægi viðburðarins, upplifun og hagsmunir heimamanna, upplifun gesta, viðhorf ræktenda, sýnenda og sjálfboðaliða og áhrif viðburðarins á ímynd svæðisins og landsins sem áfangastaðar. Fjölþættum aðferðum er beitt við úrvinnslu og greiningu gagna.
Meginniðurstaða af rannsókninni á Landsmóti á Hólum 2016 er að mótið stóðst og fór að hluta til fram úr væntingum markhópsins. Væntingar til mótsstaðarins kunna að hafa verið minni sökum þess hve seint hann var ákveðinn, en upplifun gesta og heimamanna af honum var jákvæð. Framkvæmd mótsins fékk jákvæða dóma meðal þátttakenda og þá sérstaklega að mótsstaðurinn bauð uppá aðstöðu sem þjónaði bæði áhorfendum, keppendum, sýnendum og hrossum vel.
Önnur meginniðurstaða er að marka þarf skýrari stefnu um þjónustu við erlenda gesti og sjálfboðaliða. Ekki er gefið að ástæða sé til að markaðssetja mótið fyrir breiðari markhóp, fremur virðist þörf á að efla þjónustu við þann afmarkaða markhóp sem tilheyrir Íslandshestaheiminum í öðrum löndum. Fyrir erlenda gesti er mikilvægt að kynna dagskrá og skipulag mótsins með löngum fyrirvara. Þá er rétt að hafa í huga að þó það sé vissulega góður árangur hve stór hluti Landsmótsgesta er tryggur markhópur sem lætur sig helst ekki vanta þá er 6% nýliðun meðal innlendra gesta hugsanlegt áhyggjuefni til lengri tíma litið.
Í þriðja lagi er ljóst að efnahagsleg áhrif Landsmóts hestamanna eru umtalsverð á því svæði sem mótið er haldið en varlega áætlaðar niðurstöður gera ráð fyrir að efnahagsleg áhrif mótsins meðan á því stóð, hafi verið um 160 milljónir íslenskra króna. Eru þá ótalin önnur efnahagsleg áhrif, svo sem velta viðburðarins sjálfs.
Næsta Landsmót hestamanna fer fram í Reykjavík dagana 1.-8. júlí næsta sumar og er undirbúningur fyrir það þegar kominn í fullan gang, meðal annars með forsölu aðgöngumiða.
– Fréttatilkynning.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram í Mývatnssveit á fimmtudaginn síðastliðinn. Mývetningar tóku vel á móti sínum kollegum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir í fyrirtæki á svæðinu, áður en boðið var upp á kvöldmat og skemmtun í Skjólbrekku.

Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar.

Að þessu sinni fékk fyrirtækið Bjórböðin, frá Árskógssandi viðurkenningu sem Sproti ársins. Í flokknum Fyrirtæki ársins varð Gauksmýri í Húnaþingi vestra fyrir valinu og að lokum fékk Ólöf Hallgrímsdóttir í Vogafjósi, Mývatnssveit, viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. 

Sproti ársins

Böðin voru opnuð í júní og vöktu strax mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis. Reyndar hafði hugmyndin um byggingu baðanna vakið athygli löngu áður en ráðist var í framkvæmdir, enda eru slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun.

Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. Ferðaþjónusta á Norðurlandi nýtur góðs af þessari nýjung þar sem þarna er komin eftirsóknarverð þjónusta sem önnur ferðaþjónustufyrirtæki geta nýtt sér. Það er reyndar ekki bara vegna sjálfra bjórbaðanna, heldur einnig vegna veitingastaðarins og barsins sem hafa notið vinsælda.

Bjórböðin eru rekin af Ragnhildi Guðjónsdóttur, en hún og maðurinn hennar, bruggmeistarinn Sigurður Bragi Ólafsson eiga fyrirtækið að stærstum hluta ásamt foreldrum Sigurðar þeim Agnesi Önnu Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni.

Fyrirtæki ársins

Ferðaþjónustan á Gauksmýri er rótgróin og á sér sögu sem teygir sig aftur til síðustu aldar, því hún hófst árið 1999. Árið 2006 var þar opnað nýtt gistiheimili með 18 herbergjum, veitingasal og móttöku. Það voru hjónin Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma, en Sigríður féll frá árið 2015. Í kjölfarið komu börn þeirra að rekstri fyrirtækisins, en í dag sjá þau Hrund Jóhannesdóttir og maður hennar Gunnar Páll Helgason um reksturinn að mestu leyti.

Gauksmýri snýst fyrst og fremst um hestamennsku og öll aðstaða á sveitabænum er til fyrirmyndar. Þar er reiðvöllur, með glænýrri stúku sem var byggð í sumar, þar sem kostir íslenska hestsins eru tíundaðir og sýndir á sérstökum sýningum sem vel eru sóttar. Gestum er síðan boðið yfir í flotta aðstöðu í hesthúsinu, þar sem þeim gefst kostur á að kynnast hestunum betur.

Viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi

Í ár er það Ólöf Hallgrímsdóttir sem hlýtur viðurkenninguna, en hún hefur undanfarin 18 ár sýnt og sannað að áhugi fólks á fjósum er ekki bara takmarkaður við mjólkurafurðir. Vogafjós í Mývatnssveit er nú með bestu veitingastöðum Norðurlands og þótt víðar væri leitað, og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu í landshlutanum.

Ólöf hefur verið brautryðjandi í ferðaþjónustu lengi og svo sannarlega farið sínar eigin leiðir. Hún var snemma byrjuð að selja mat úr héraði og sagði í viðtali við fylgirit Morgunblaðsins árið 2007 að áherslan væri ekki á hamborgara og franskar, heldur rétti eins og hverabrauð með silungi úr Mývatni, hangikjöt og heimagerðan mozzarella- og fetaost. Sú áhersla hefur skilað því að Vogafjós er eitt af þekktari kennileitunum í umhverfi ferðaþjónustu í Mývatnssveit og raunar á Norðurlandi öllu. Auðvitað hefur hin sérstaka samþætting landbúnaðar og veitingareksturs þar einnig áhrif.

Myndir og heimild: Markaðsstofa Norðurlands

Flug til Sauðárkróks frá 1. desember

Flugfélagið Ernir hefur tilkynnt að félagið hefji áætlunarflug til Sauðárkróks þann 1. desember næstkomandi. Flogið verður mánudaga,þriðjudaga og föstudaga til Alexandersflugvallar á Sauðárkróki. Á þriðjudögum verður morgunflug og síðdegisflug, og verða þetta því alls 4 flug á viku til Sauðárkróks frá Reykjavík. Almennt verð á flugsæti verður 21.900 kr., nettilboð verður 15.900 kr., börn 2-11 ára 13.900 kr. og börn 0-2 ára 3700 kr. Einnig verður boðið upp á fjölskyldutilboð fyrir 3-5 manns, og er ódýrasta tilboðið 72.900 fyrir þrjú sæti fram og til baka og er miðað við börn yngri en 16 ára ferðist með foreldri. Sala á flugi hefst í næstu viku. Nánari upplýsingar um flugáætlun er á heimasíðu Ernis.

Ernir flaug áður til Sauðárkróks frá árunum 2007-2012, en þá hætt Ríkið að niðurgreiða ferðir til Skagafjarðar og félagið hætti flugi á þessari leið, þar sem ekki reyndist nægur fjöldi viðskiptamanna til að halda úti þessari flugleið. Á þessum tíma var flogið fimm sinnum í viku til Sauðárkróks.

Myndir frá facebooksíðu Flugfélagsins Ernis.

Fjallabyggð kaupir búnað til að laga neysluvatn Ólafsfirðinga

Fjallabyggð hefur ákveðið að kaupa geislatæki fyrir um 5 milljónir króna til að setja upp við vatnstankinn í Brimnesdal í Ólafsfirði, þar sem neysluvatn hefur reynst vera mengað í nokkrar vikur. Gert er ráð fyrir að tækið verði komið í notkun eftir 2-3 vikur og er undirbúningur að uppsetningu tækisins þegar hafinn. Sýni eru áfram tekin reglulega til að kanna gæði vatnsins en staðfest er að vatnið er enn mengað og sjóða þurfi neysluvatn í Ólafsfirði.

 

Opið hús í Herhúsinu

Herhúsið á Siglufirði verður með opið hús, föstudaginn 27. október kl. 17:00-18:30. Þar verður hægt að sjá verk eftir listamanninn Andrea Krupp sem dvalið hefur undanfarið í húsinu. Hún býr í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en hún mun einnig tala um verkefnið “Northland” sem hún hefur unnið að á Svalbarða og á Íslandi. Andrea mun sýna nýja bók og tala um verk sem eru í vinnslu.

 

Leikfélag Fjallabyggðar frumsýnir Sólarferð

Leikfélag Fjallabyggðar mun frumsýna gamanleik í nóvember sem heitir Sólarferð. Alls verða 7 leikarar sem taka þátt.  Verkið er samið af Guðmundi Steinssyni og er leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir. Fjölmargir aðrir koma að sýningunni og eru á bakvið tjöldin við uppsetningu. Fyrsta sýning verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg, föstudaginn 10. nóvember næstkomandi.

Guðmundur Steinsson (1925-1996) er meðal okkar fremstu leikskálda. Leikritið Sólarferð, sem er eitt hans vinsælasta verk, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1976 við frábærar undirtektir. Verkið hefur verið sett upp einnig af Leikfélaginu Selfoss árið 2012 og af Þjóðleikhúsinu 2008 undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Um verkið:

Við fylgjumst með hópi íslenskra ferðamanna sem eru samankomnir á spænskri sólarströnd. Þessa dugnaðarforka, afkomendur víkinganna, þyrstir að njóta lífsins lystisemda á þessum heita, framandi stað, þar sem allt flóir í ódýru áfengi og boð og bönn hins venjubundna lífs eru víðs fjarri. Leit ferðafélaganna að lífshamingju í þessu „himnaríki holdsins“ birtist okkur á bráðfyndinn hátt, en undir niðri kraumar sársauki sem erfitt er að leyna.

Um höfundinn:

Guðmundur Steinsson var fæddur 19. apríl 1925 á Eyrarbakka. Hann ólst upp í Reykjavík og varð stúdent frá MR 1946. Næsta áratuginn dvaldi hann erlendis við nám og ferðalög og seinna var hann fararstjóri til Suðurlanda. Guðmundur kenndi í Iðnskólanum 1959-65. Fyrsta skáldsaga hans Síld kom út 1954 og Maríumyndin 1958. Eftir það sneri hann sér alfarið að leikritun og hefur síðan verið mikilvirkur leikritahöfundur.

Blakfélag Fjallabyggðar skellti Vestra

Blakfélag Fjallabyggðar gerði góða ferð á Ísafjörð í dag og mætti Vestra í 1. deild karla í blaki. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsinu Torfunesi á Ísafirði kl. 13:00 í dag. Vestramenn höfðu ekki spilað leik á mótinu en BF hafði spilað þrjá leiki. BF mætti aðeins með sex leikmenn og engan til skiptana ef upp kæmu meiðsli. BF vann fyrstu hrinuna 22-25 eftir nokkuð jafnræði og tók hrinan 26 mínútur. BF vann svo næstu hrinu nokkuð örugglega, 18-25 og stóð hrinan í 22 mínútur.  Í þriðju hrinu var BF mun sterkara og sigurinn aldrei í hættu, lokatölur hrinunnar 10-25. BF vann því 0-3 á þessum útivelli á aðeins 67 mínútum og er nú með 6 stig í deildinni, í 2. sæti. Þess má geta að þrír kvendómarar sáu um dómgæsluna í þessum leik.
BF hefur nú leikið 4 leiki, unnið 2 og tapað 2, unnið 9 hrinur og tapað 8

Guðmundur Skarphéðinsson í heiðurssæti Sjálfstæðisflokksins

Guðmundur Skarphéðinsson er í heiðurssæti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Guðmundur er 69 ára, fæddur og uppalinn á Siglufirði, kvæntur Elínu Önnu Gestsdóttur og eiga þau þrjú börn og ellefu barnabörn. Guðmundur lærði vélvirkjun hjá Sildarverksmiðju ríkisins og fékk meistararéttindi 6. apríl 1973. Hann vann við iðngreinina í mörg ár og sá um vélaverkstæði Þormóðs Ramma í ellefu ár. Auk þess útskrifaði Guðmundur nokkra nemendur í iðngreininni og var prófdómari í nokkur ár. Guðmundur hefur verið virkur í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins í áratugi, sat í bæjarstjórn Siglufjarðar í tvö kjörtímabil og við sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í Fjallabyggð var hann eitt kjörtímabil í bæjarstjórn. Guðmundur var formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra í fjögur ár,  eftir að Siglufjörður fór í Norðausturkjördæmi var hann starfsmaður Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni og formaður kjördæmisráðs í sex ár. Guðmundur hefur að auki starfað sem umsjóna- og sjúkraflutningamaður hjá HSN á Siglufirði og starfar í dag við akstur skólabarna í Fjallabyggð.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

1. Kristján Þór Júlí­us­son mennta­málaráðherra, Ak­ur­eyri
2. Njáll Trausti Friðberts­son alþing­ismaður, Ak­ur­eyri
3. Val­gerður Gunn­ars­dótt­ir alþing­ismaður, Húsa­vík
4. Arn­björg Sveins­dótt­ir, bæj­ar­full­trúi og fyrr­ver­andi alþing­ismaður, Seyðis­firði
5. Samú­el K. Sig­urðsson svæðis­stjóri, Reyðarf­irði
6. Gauti Jó­hann­es­son sveit­ar­stjóri, Djúpa­vogi
7. Hún­bogi Gunnþórs­son há­skóla­nemi, Norðfirði
8. Sæ­unn Gunn­ur Pálma­dótt­ir hjúkr­un­ar­fræðing­ur, Ólafs­firði
9. Dýrunn Pála Skafta­dótt­ir, versl­un­ar­stjóri og bæj­ar­full­trúi, Norðfirði
10. Lára Hall­dóra Ei­ríks­dótt­ir grunn­skóla­kenn­ari, Ak­ur­eyri
11. Guðmund­ur S. Kröyer, um­hverf­is­fræðing­ur og bæj­ar­full­trúi, Eg­ils­stöðum
12. Jón­as Ástþór Haf­steins­son, laga­nemi og knatt­spyrnuþjálf­ari, Eg­ils­stöðum
13. Elv­ar Jóns­son lög­fræðing­ur, Ak­ur­eyri
14. Bald­ur Helgi Benja­míns­son búfjárerfðafræðing­ur, Eyja­fjarðarsveit
15. Rann­veig Jóns­dótt­ir rekstr­ar­stjóri, Ak­ur­eyri
16. Mel­korka Ýrr Yrsu­dótt­ir mennta­skóla­nemi, Ak­ur­eyri
17. Ketill Sig­urður Jó­els­son há­skóla­nemi, Ak­ur­eyri
18. Anna Al­ex­and­ers­dótt­ir, verk­efna­stjóri og bæj­ar­full­trúi, Eg­ils­stöðum
19. Soffía Björg­vins­dótt­ir sauðfjár­bóndi, Sval­b­arðshreppi
20. Guðmund­ur Skarp­héðins­son vél­virkja­meist­ari, Sigluf­irði

Sigurbjörg ÓF-1 seld til Noregs

Rammi hf. hefur selt togarann Sigurbjörgu ÓF-1 til Noregs. Skipið er frystitogari og var með 26 manns í áhöfn. Fjallabyggð bauðst forkaupsréttur á skipinu núna í október en sveitarfélagið féll frá boðinu. Skipið er nú farið til Noregs, en skipið þótti eitt fullkomnasta fiskiskip íslenska flotans á sínum tíma og var oft kallað Drottningin. Nýi togarinn Sólberg ÓF-1 hefur leyst skipið af hólmi ásamt Mánabergi ÓF-42.

Skipið var smíðað árið 1979 og er tæplega 55 metrar að lengd og rúmir 10 metrar á breidd. Skipið hafði staðið við höfnina í Fjallabyggð síðan í júní, en fór til Póllands í byrjun árs í vélarupptekt. Núna í október fór skipið svo í slipp til Akureyrar áður en það var selt. Skipið er nú í höfn á eyjunni Vigra við Noreg, við bæinn Roald.

Í landlegu eftir Þórarinn Hannesson

Í landlegu er einleikur eftir Þórarinn Hannesson sem hann samdi með Bátahús Síldarminjasafnsins í huga. Hugmyndina fékk hann í lok árs 2012 og rúmu ári síðar hóf hann að koma því á blað, og lauk að mestu við skrifin á Spáni árið 2014. Verkið var svo frumsýnt í Bátahúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði þann 29. júlí árið 2014. Einleikurinn er um 40 mínútna langur og hefur Þórarinn sýnt verkið 17 sinnum, oftast í Bátahúsi Síldarminjasafnsins.  Sýningin hefur meðal annars verið sýnd reglulega fyrir nemendur Menntaskólans á Akureyri.

Sögusvið einleiksins er Siglufjörður á árunum 1955-1960 og lífið og fjörið í kringum síldina. Ýmis fróðleikur er falinn í verkinu en það er þó létt og skemmtilegt, kryddað með söng, dansi og kveðskap.

  • Höfundur og leikari: Þórarinn Hannesson
  • Búningar: Síldarminjasafn Íslands og Elín Anna Gestsdóttir.
  • Tónlist: Þórarinn Hannesson – auk íslenskra þjóðlaga og vinsælla laga frá árunum 1955 – 1960.

 

Hausttónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Fyrstu hausttónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga eru í næstu viku og dreifast þeir á nokkra daga. Bæði verða tónleikar á Dalvík og í Fjallabyggð.

  •  Hausttónleikar þriðjudaginn 24. október í sal skólans í Víkurröst á Dalvík frá kl. 16.30 – 17.30.
  •  Hausttónleikar þriðjudaginn 24. október í sal skólans í Víkurröst á Dalvík frá kl. 17.30. – 18.30.
  •  Hausttónleikar miðvikudaginn 25. október í Tjarnarborg í Ólafsfirði frá kl. 16.30. – 17.30.
  •  Hausttónleikar fimmtudaginn 26. október í sal skólans á Siglufirði frá kl. 16.30. – 17.30.
  •  Hausttónleikar fimmtudaginn 26. október í sal skólans á Siglufirði frá kl. 17.30 . – 18.30.

 

Rokkhátíð í Dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir heldur fjáröflunarviðburð um helgina sem þeir kalla Rokkhátíð. Allur hagnaður hátíðarinnar fer í rekstur og endurnýjun á búnaði félagsins. Hátíðin verður haldin í Árskógi, laugardaginn 21. október og hefst veislan kl. 20:00.  Fram koma fjölmargir listamenn úr Dalvíkurbyggð og svo mun Magni Ásgeirsson klára nóttina með sveitaballi.  Boðið verður uppá rútuferðir frá Árskógi til Dalvíkur gegn vægu gjaldi.

VMA kjörstaðurinn á Akureyri

Í komandi alþingiskosningum verður Akureyrarbær skipt í tólf kjördeildir þannig að tíu verði á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Á Akureyri verður kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verður kjörstaður í Hríseyjarskóla og í Grímsey í Grímseyjarskóla.  Kjörfundur mun standa frá kl. 09:00 til kl. 22:00 á Akureyri, Hrísey og Grímsey.

Fyrsti vetrardagur í Tjarnarborg

Þrjár konur úr Fjallabyggð sýna verk sín í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, laugardaginn 21. október næstkomandi. Opið frá klukkan 13-17. Sýnendur eru: Arnfinna Björnsdóttir bæjarlistamaður Fjallabyggðar, Helena Reykjalín Jónsdóttir saumakona og Hulda Gerður Jónsdóttir hannyrðakona.

Arnfinna Björnsdóttir verður með sínar kunnu klippimyndir frá Siglufirði frá síldarárunum. Einnig tekur Arnfinna með sér kertastjaka sem hún hefur verið að gera úr fjörugrjóti ásamt hekluðum hannyrðavörum.

Bjarni Ben fundar í Fjalla- og Dalvíkurbyggð

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur nú opna fundi á Norðurlandi næstu daga. Hann mun vera í Dalvíkurbyggð og Fjallbyggð, laugardaginn 21. október.

Opinn fundur á Gregor´s Pub á Dalvík, laugardaginn 21. október kl. 10:00-11:30.

Opinn fundur í veitingahúsinu Höllinni í Ólafsfirði, laugardaginn 21. október kl. 12:00-13:30.

Opinn fundur í Fríðu súkkulaðikaffihúsi á Siglufirði, laugardaginn 21. október kl. 13:30.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verða á staðnum.

 

 

 

Sveigjanleiki í sumarlokun Leikskóla Fjallabyggðar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að sumarlokun Leikskóla Fjallabyggðar verði frá 16. júlí til og með 3. ágúst 2018 og að foreldrar hafi val um að nýta vikurnar 9.-13. júlí og 7.-11. ágúst til sumarleyfa.  Hver nemandi þarf að ná 4 vikna samfelldu sumarleyfi.

Gerð var könnun meðal foreldra leikskólabarna í Fjallabyggð til þess að meta hvaða vikur henta best til sumarlokunar Leikskóla Fjallabyggðar. Niðurstaðan var sú að lokun frá 16. júlí – 3. ágúst hentaði flestum nemendum best.

Vinadagur hjá skólum í Skagafirði

Vinadagurinn var haldinn hátíðlegur hjá öllum skólum í Skagafirði í dag. Dagurinn var haldinn í sjötta skipti og var vel heppnaður. Öll grunnskólabörn í Skagafirði komu saman ásamt skólahópum leikskólanna og nemendum Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

Vinadagurinn er hluti af stærra verkefni, Vinaverkefninu, sem er samstarfsverkefni leik-, grunn- og framhaldsskóla, fjölskyldusviðs og foreldra í Skagafirði. Hátíðahöldin fóru fram í Árskóla á Sauðárkróki og lá mikil gleði í loftinu og tóku krakkarnir virkan þátt í söng, leik og dansi.

Staðsetning af styttu Gústa guðsmanns samþykkt

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að stytta af Gústa guðsmanni verði staðsett á Ráðhústorgi á norðausturhorni, þar sem Gústi var vanur að standa. Listamaðurinn Ragnhildur Stefánsdóttir sér um gerð styttunnar. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur einnig staðfest málið með 5 atkvæðum, en Steinunn M. Sveinsdóttir hjá S-lista Samfylkingar sat hjá í atkvæðagreiðslu.
Árið 1897 fæddist Guðmundur Ágúst Gíslason, sem er betur þekktur undir nafninu Gústi Guðsmaður. Hann lést 12. mars 1985.  Gústi var þekktur fyrir að boða drottins orð á Ráðhústorginu á Siglufirði. Gústi gerði út bátinn Sigurvin og gaf hann allan ágóða af útgerðinni til hjálparstarfs fyrir börn í Afríku.