All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Lögreglan selur óskilamuni á Akureyri

Fimmtudaginn 16. maí kl. 12:00, verður haldið uppboð á óskilamunum við lögreglustöðina við Þórunnarstræti á Akureyri.  Boðin verða upp reiðhjól, hlaupahjól, kerra, fjórhjól og aðrir óskilamunir sem verið hafa í vörslum Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í ár eða lengur. Munir verða seldir í því ástandi sem þeir eru á söludegi og lögreglustjóri tekur enga ábyrgð á ástandi þeirra muna sem verða seldir.
Krafist verður greiðslu við hamarshögg.

Image may contain: motorcycle and outdoor

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins á Siglufirði

Á morgun,  þriðjudaginn 14. maí kemur fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Siglufjarðar.  Að þessu sinni er fyrsta skipið Ocean Diamond, en það hefur komið fjölmargar ferðir síðustu árin og fer það hringferð um landið með erlenda ferðamenn. Skipið mun stoppa á Siglufirði frá kl. 8:00-13:00 og verður með um 190 farþega.  Ferðin byrjaði í Reykjavík og endar einnig þar, en um er að ræða 10 daga siglingu sem kostar frá um 350.000 kr. á hverja manneskju. Skipið siglir einnig til Grímseyjar, Akureyrar og Húsavíkur á leið sinni um Norðurland.

Gert er ráð fyrir að skipið komi til Siglufjarðar í 11 skipti í sumar. Vefurinn mun fjalla um komu skipana í sumar og einnig er hægt að sjá allar heimsóknir skipana hér á vefnum.

Sóknarnefnd Dalvíkursóknar telur þéttingu byggðar of nærri kirkjugarðinum

Sóknarnefnd Dalvíkursóknar telur að fyrirhuguð þétting byggðar ofan við kirkjugarðinn á Dalvík sé óásættanleg, þar sem sóknarnefndin sér fram á að stækkun garðsins í þessa átt og það sé mikill fengur að þurfa ekki að fara lengra með greftunarsvæði.  Í tillögu að nýju deiliskipulagi Dalvíkurbyggðar er gert ráð fyrir lóð fyrir parhús ofan við kirkjugarðinn og norðan Hringtúns.  Sóknarnefnd Dalvíkursóknar hefur óskað eftir að þeirra athugasemd verði tekin til greina varðandi skipulagið ofan við kirkjugarðinn.

Byggðarráð Dalvíkurbyggðar tók málið fyrir á fundi og vísaði málinu áfram á umhverfisráð Dalvíkurbyggðar.

Eygló Harðar sýnir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Fimmtudaginn 16. maí 2019 kl. 17.00 opnar Eygló Harðardóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.  Sýningin verður opin til 2. júní og er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00.

Eygló Harðardóttir (f.1964) vinnur gjarnan tví- og þrívíða abstraktskúlptúra og bókverk. Hráefni eins og pappír, bæði nýr og endurnýttur, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og eru drifkraftur til að kanna möguleika og takmarkanir miðilsins hverju sinni. Sköpunarferlið einkennist af rannsóknum og könnun á efninu, þar sem möguleikar og takmarkanir eru kortlagðar, og auðkenni þess rannsökuð. Eftir stendur verk sem er afsprengi ferils þar sem efnið hefur ráðið för, þar sem það er teygt og því breytt og því fengið annað hlutverk.

Verk Eyglóar eru meðal annars varðveitt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Ríkisútvarpinu og menningarsetrinu Kultuurikauppila í Finnlandi. Frá árinu 2015 hefur Eygló unnið innan ramma bókverksins og dvaldi hún nýlega hjá WSW Residency, í New York. Þar gerði hún ýmsar efnis- og litatilraunir á prentverkstæði, og varð útkoman meðal annars bókverkið Annað rými.

Eygló lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-87) og Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie í Enschede Hollandi (1987-90), en auk þess hefur hún lokið meistaragráðu í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands (2014). Á ferli sínum hefur Eygló haldið fjölda sýninga. Íslensku myndlistarverðlaunin 2019 hlaut hún fyrir einkasýningu sýna „Annað rými” í Nýlistasafninu.

Heimasíða: http://eyglohardardottir.net

Uppbyggingasjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Norðurorka og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Image may contain: table, water, outdoor and indoor
Ljósmyndari: Helga Óskardóttir

Dalvík/Reynir tapaði gegn KFG á útivelli

Dalvík/Reynir mætti KFG í Garðabænum í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin fóru upp saman í fyrra úr 3. deildinni og hafa liðin mæst fjórum sinnum fyrir þennan leik á síðustu tveimur árum.

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik og var því staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði fyrri hálfleik af. Viktor Daði kom inná fyrir Pálma á 62. mínútu og Atli Fannar fyrir Jóhann Örn á 78. mínútu. Allt stefni í jafntefli en á 80. mínútu skoruðu heimamenn eina mark leiksins. Dalvík/Reynir gerðu allt til að jafna leikinn og kom Gunnar Már inná fyrir Jón Björgvin á 83. mínútu og Rúnar Helgi fyrir Steinar Loga á 88. mínútu.

Lokatölur 1-0 fyrir heimamenn í þessum leik, og eru Dalvík/Reynir með 1 stig eftir tvær umferðir og eru í næstneðsta sæti.

KF sigraði Augnablik – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Augnablik í Kópavogi mættust í dag á gervigrasinu í Fagralundi. Augnablik hefur verið erfitt heim að sækja og KF hefur átt erfitt með að sigra útileikina síðustu misseri. Strákarnir í KF eru enn að stilla strengina eftir að hafa fengið nýlega nokkurn liðstyrk skömmu fyrir Íslandsmótið.

Tvær breytingar voru frá síðasta leik KF, en Valur Reykjalín og Birkir Freyr komu inn í byrjunarliðið fyrir Grétar Áka og Jakob Auðunn. Aksentije Milisic kom aftur í hópinn eftir leikbann og byrjaði óvænt á bekknum.

KF byrjaði leikinn vel og komust yfir á 18. mínútu og var það Valur Reykjalín sem skoraði markið, hans fimmta mark fyrir félagið í 38 leikjum. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en þrjú gul spjöld fór þó á loft hjá dómarnum í fyrri hálfleik og fékk Patrekur hjá KF eitt þeirra. Staðan 0-1 í hálfleik.

Augnablik jafnaði metin á 57. mínútu en aðeins tólf mínútum síðar komst KF aftur yfir með marki frá varnarmanninum Jordan Damachoua, hans annað mark fyrir félagið í 18 leikjum. Staðan orðin 1-2. Nokkrum mínútum eftir markið gerði KF skiptingu þegar Andri Snær kom inná fyrir Sævar Gylfason. Mikil miðjubarátta var eftir mark KF og lyfti dómarinn gula spjaldinu fimm sinnum. Á 77. mínútu gerði KF aðra skiptingu þegar Stefán Bjarki kom inná fyrir Val Reykjalín, sem er enn að komast í leikform eftir langvarandi meiðsli. KF gerði sína þriðju skiptingu á 86. mínútu þegar Aksentije Milisic kom inná fyrir Jordan Damachoua.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma skoraði Alexander Már þriðja mark KF og gulltryggði sigurinn, staðan orðin 1-3 þegar nokkrar mínútur voru eftir af uppbótartímanum, fyrsta mark Alexanders í sumar fyrir KF.  Í uppbótartímanum gerði KF svo tvær skiptingar til viðbótar og lét þar með tíman renna út og vann góða sigur á Augnablik 1-3, eftir nokkuð svekkjandi jafntefli við Álftanes í síðasta leik.

Safna heimildum um síldarfólk með viðtölum víða um landið

Síðustu vikurnar hefur Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins ferðast um landið með kvikmyndatökumanni í þeim tilgangi að taka viðtöl við bæði menn og konur sem unnu í síld, hvort sem var í landi eða á sjó. Meginmarkmiðið er að afla heimilda um líf og störf fólks, tíðarandann, rómantíkina, erfiðið, tilfinningarnar, tónlistina, félagslífið, verkunaraðferðir, hjátrú og aðra mikilvæga þætti þessa tímabils í sögu þjóðarinnar og varðveita á Síldarminjasafninu.  Áætlað er að viðmælendur verði nálægt sjötíu í heildina – en upphaflega var stefnt að þrjátíu viðtölum. Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Jafnframt er ætlunin að velja stutt brot úr viðtölunum til miðlunar í safnhúsum Síldarminjasafnsins. Sýnt er að áhugi gesta kviknar fljótt þegar sagan er sögð út frá persónulegri reynslu eða hún persónutengd á einhvern hátt.

Viðmælendur hafa fram til þessa verið fimmtíu talsins, á Siglufirði, Dalvík, í Hrísey, á Akureyri, Húsavík, Ísafirði, Reykjavík og Akranesi. Meðal þeirra sem rætt hefur verið við eru fyrrum síldarstúlkur, verksmiðjukarlar, sjómenn, skipstjórar og netagerðarmenn.

Verkefnið er styrkt af Safnaráði en þar að auki hafa söfn og menningarstofnanir lagt verkefninu lið með vinnuaðstöðu sem hefur komið sér afar vel.

Heimild: sild.is

Næturfrost á Norðurlandi og vetrarfærð

Það hefur snögg kólnað á Norðurlandi í nótt og var -3,4 gráður á Akureyri í nótt. Á morgun og í næstu viku mun aftur hlýna samkvæmt veðurspá. Mörgum brá í vikunni þegar snjóa fór í byggð í Fjallabyggð.

Það er vetrarfærð allvíða um norðan- og austanvert landið. Fólk ætti því alls ekki að aka þar á sumardekkjum fyrr en ástandið hefur skánað.

Hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga á Akureyri

Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl. Þetta var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga á Akureyri, í Grímsey, Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík og á Hveravöllum. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi. Þurrt og bjart var norðanlands en blautara syðra. Ekki hefur rignt eins lítið á Akureyri í aprílmánuði síðan árið 2000.  Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Á Akureyri var meðalhitinn 6,9 stig, 5,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Aldrei varð alhvítt á Akureyri en þar eru að jafnaði 9 alhvítir dagar í apríl.  Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 168,5, sem er 38,8 stundum fleiri en í meðalári.

 

Skólastjóri Árskógarskóla segir upp störfum

Gísli Bjarnason sviðsstjóri fræðslu-og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar hefur tilkynnt um uppsögn Jónínu Garðarsdóttir, skólastjóra Árskógarskóla og Fjólu Daggar Gunnarsdóttir, kennsluráðgjafa á fræðslusviði Dalvíkurbyggðar. Uppsagnir þeirra beggja taka gildi frá og með 31. júlí 2019.
Lagt hefur verið til að störfin verði auglýst sem fyrst. Þetta kemur fram í fundargerð Fræðsluráðs Dalvíkurbyggðar.

Samstarf um markaðssetningu Diamond Circle á Norðurlandi

Markaðsstofa Norðurlands og Húsavíkurstofa hafa gert með sér samstarfssamning um notkun á heitinu Diamond Circle sem er í eigu Húsavíkurstofu. Markaðsstofan vinnur nú að þróun ferðamannaleiða á Norðurlandi, en á grundvelli þessa samnings verður hægt að þróa vörumerki og efla markaðssetningu fyrir Diamond Circle eða Demantshringinn.  Í ljósi þess að áætlað er að klára vinnu við lagningu á bundnu slitlagi á Dettifossvegi í sumar, skapast enn betri tækifæri fyrir markaðssetningu og þróun ferðaþjónustufyrirtækja sem njóta nálægðar við þær náttúruperlur sem finna má á Demantshringnum.

Samkvæmt samninginum mun Markaðsstofan gera greiningu á innviðum á leiðinni, búa til vörumerki og efla markaðssetningu. Á næstu vikum verður haldinn fundur fyrir hagsmunaaðila til þess að kynna betur hvað felst í þessum samningi og kynna betur það starf sem framundan er í þróun ferðamannaleiðarinnar.

Beint flug frá Hollandi til Akureyrar

Hollenska flugfélagið Transavia hefur hafið beina sölu á flugsætum til Akureyrar frá Rotterdam, í ferðir sem farnar verða í sumar og næsta vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem hollenskt flugfélag selur sjálft sæti í ferðir til Akureyrar, en flugið er tilkomið vegna ferða á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel sem býður upp á skipulögð ferðalög um Ísland frá Akureyri. Transavia selur hins vegar aðeins sætin, óháð Voigt Travel, og má því segja að í fyrsta sinn sé áætlunarflug í boði til og frá Akureyri til Hollands.

Ljóst er að þetta skapar gríðarleg tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, en einnig fyrir aðrar atvinnugreinar. Norðlendingar hafa nú enn fleiri tækifæri til að kaupa stök flugsæti til Rotterdam, en þessu til viðbótar selur Ferðaskrifstofa Akureyrar stök sæti, sem og pakkaferðir, til Rotterdam. Vert er að minnast á að frá Rotterdam er svo hægt að fljúga áfram til annarra áfangastaða, en þeir skipta tugum.

Markaðsstofa Norðurlands fagnar þessum stóra áfanga, sem er árangur af áralöngu starfi Flugklasans AIR 66N sem Markaðsstofan heldur utan um. Það er mjög ánægjulegt að geta tilkynnt um aukna umferð um Akureyrarflugvöll og meiri sýnileika áfangastaðarins Norðurlands og auka þannig framboð á flugsætum til Íslands.

Vorráðstefna Markaðsstofu Norðurlands

Vorráðstefna Markaðsstofu Norðurlands verður haldin á morgun, þriðjudaginn 7. maí kl. 13:00 á Fosshótel Húsavík.  Heiti ráðstefnunnar að þessu sinni er „Okkar Áfangastaður“ og verður þar fjallað um þrjú viðamikil verkefni hjá Markaðsstofunni.
Fyrst ber að nefna Arctic Coast Way, en nú styttist mjög í opnun leiðarinnar sem verður þann 8. júní næstkomandi. Mikill áhugi er á verkefninu bæði hjá ferðaskrifstofum, innlendum og erlendum, og hjá erlendum fjölmiðlum en markaðsstofan hefur fengið ótal fyrirspurnir um leiðina og það sem hún býður upp á.

Í öðru lagi verður fjallað um millilandaflug um Akureyrarflugvöll, farið verður yfir það sem er að baki í Bretlandsflugi Super Break og það sem framundan er, flug til og frá Rotterdam í Hollandi og tengiflug til Keflavíkur við Akureyri.

Að lokum verður sagt frá viðamestu rannsókn sem ráðist hefur verið í á norðlenskri ferðaþjónustu, en niðurstöður úr henni eru væntanlegar á haustmánuðum.

Dagskráin er eftirfarandi:

Fundarsetning

-Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN

Arctic Coast Way – Norðurstrandarleið

Mörkun Norðurstrandarleiðar

Þróun upplifana og aðkoma fyrirtækja

Opnun Norðurstrandarleiðar

Flug og markaðir

Holland

Bretland

Keflavík

Markaðsrannsókn á Norðurlandi

Viðamesta rannsókn í ferðaþjónustu á Norðurlandi

Fundarstjóri: Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands

Dalvík/Reynir gerði jafntefli við Þrótt Vogum

Dalvík/Reynir heimsótti Þrótt í Vogum í dag í fyrstu umferð í 2. deild karla í knattspyrnu. Þróttarar hafa sterkt lið og reynslumikla einstaklinga í sínu liði og er spáð í efri hluta deildarinnar. Því var búist við erfiðum leik í dag fyrir D/R sem eru nýliðar í deildinni.  Fyrri hálfleikur fór fjörlega af stað en heimamenn fengu vítaspyrnu á 11. mínútu og úr henni skoraði Pape Mamadou Faye og kom Þrótti í 1-0. Aðeins rúmum tíu mínútum síðar fengu D/R vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Lopez Laguna. Staðan var því 1-1 í hálfleik og gerðu heimamenn strax skiptingu á 46. mínútu þegar Brynjar Kristmundsson kom inná fyrir Miroslav Babic, sem var kominn á gult spjald.

Dalvík/Reynir gerði þrjár skiptingar í síðari hálfleik, en allt virtist stefna í jafntefli, en síðustu mínútur leiksins voru fjörugar.  Jóhann Örn skoraði á 88. mínútu fyrir D/R og kom þeim í 1-2. En aðeins þremur mínútum síðar skoraði Þróttur jöfnunarmark og var það varamaðurinn Brynjar Kristmundsson sem það gerði og tryggði heimamönnum stig í leiknum. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-2 á Vogaídýfuvelli. Fyrsta stigið komið í hús hjá D/R og næsti leikur er gegn KFG á útivelli 11. maí kl. 16:00.

KF gerði jafntefli við Álftanes – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Fyrstu leikir Íslandsmótsins í 3. deild í knattspyrnu fóru fram núna um helgina. Það voru fjórir leikir á laugardag og keppti meðal annars Knattspyrnufélag Fjallabyggðar við Ungmennafélag Álftanes (UMFÁ). KF strákarnir tóku rútuna á laugardagsmorgun og væru tilbúnir í slaginn á Bessastaðavelli.  Veðbankarnir reiknuðu með sigri KF í þessum leik en Álftanes er ný komið upp úr 4. deildinni en KF hefur verið í toppbaráttu í 3. deild síðustu árin.

KF hefur verið að styrkja liðið á síðustu vikum með öflugum leikmönnum sem komu beint í byrjunarliðið í þessum leik. Sævar Gylfason kom frá Dalvík í vor og hefur leikið tvo bikarleiki fyrir KF, en þetta var hans fyrsti deildarleikur. Alexander Már er kominn aftur til KF og var kominn beint í byrjunarliðið. Pétur Búason er annar nýr leikmaður sem kom á láni til KF fyrir nokkrum dögum frá Magna, og spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir félagið.

En það voru KF strákarnir sem byrjuðu leikinn betur og skoruðu strax á 3. mínútu leiksins eftir hornspyrnu og var þar að verki nýliðinn Sævar Gylfason, hans fyrsta mark fyrir félagið í deild og bikarleik. Staðan 0-1 í upphafi leiks og reiknuðu nú stuðningsmenn KF með stórsigri. KF fengu fá opin tækifæri í fyrri hálfleik og var staðan því 0-1 í hálfleik eftir mikla baráttu beggja liða. Áður hafði þó nýliðinn Patrekur Búason hjá KF náð sér í gult spjald, og Valur Reykjalín kom inná fyrir Grétar Áka sem tognaði á 40. mínútu, en Grétar var fyrirliði liðsins í þessum leik.

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik en fátt var um opin marktækifæri. Halldór Logi kom inná fyrir Jakob Auðun á 76. mínútu og heimamenn gerðu einnig fjórar skiptingar í síðari hálfleik. Undir lok leiksins fengu svo Álftanes vítaspyrnu, en Halldór Ingvar markmaður KF varði vel, en frákastið fór til heimamanna sem skoruðu og jöfnuðu leikinn á 88. mínútu. Ekki fleiri færi voru í þessum leik og endaði með 1-1 jafntefli sem mætti telja sanngjarnt miðað við leikinn í heild sinni, en svekkjandi hjá KF að tapa niður forskotinu sem þeir höfðu frá upphafi leiks.

KF leikur næst gegn Augnablik á gervigrasinu í Fagralundi, 11. maí kl. 16:00.

Lægstbjóðandi í ræstingu Ráðhúss Fjallabyggðar

Tilboð í ræstingu á Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði voru opnuð 29. apríl síðastliðinn. Alls bárust þrjú tilboð en kostnaðaráætlun var 13.973.271 kr. Minný ehf. var lægstbjóðandi og hefur bæjarráð Fjallabyggðar samþykkt að taka tilboði lægstbjóðenda.

 

Eftirfarandi tilboð bárust :
Guðrún Brynjólfsdóttir kr. 16.385.544.-
Minný ehf kr. 14.313.982.-

Kostnaðaráætlun kr.13.973.271.- án sumarþrifa.

Heimasíða Bókasafns Fjallabyggðar fær nýtt útlit

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að taka tilboði Stefnu ehf. í uppfærslu á vefsvæði Bókasafns Fjallabyggðar sem er komið til ára sinna. Samkvæmt vinnuskjali markaðs- og menningarfulltrúa þá var mælt með að uppfæra heimasíðuna og vefumsjónarkerfi, sem er bakendinn á heimasíðunni, en sú útgáfa er orðin 9 ára gömul.  Tilboð Stefnu ehf. hljóðaði upp á 184.000 kr. fyrir uppfærslu og gagnaflutning.  Þá er gert ráð fyrir uppfærslu á vefsvæði Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar og Listaverkasafns Fjallabyggðar á árinu 2020.

Á núverandi heimasíðu bókasafnsins kemur fram að hlutfall útlána á barnaskírteini hafa verið í stöðugri aukningu síðustu fimm árin. Árið 2013 var hlutfallið tæp 7% af útlánum en árið 2018 var það komið uppí 12.3%. Þetta segir þó ekki alla söguna þar sem mjög algengt er að foreldarar taki bækur fyrir börnin á sín skírteini.

Jordan kominn aftur í KF

Varnarmaðurinn stóri og sterki Jordan Damachoua er kominn aftur til KF og fær leikheimild með liðinu 4. maí. Hann var kosinn leikmaður ársins 2018 hjá liðinu og lék 16 leiki og skoraði eitt mark með KF á síðasta ári.

Jordan verður 28 ára þann 10. júlí næstkomandi og er fæddur í Frakklandi. Hann hefur spilað undanfarin ár í Frönsku 3. deildinni. Mikill styrkur að fá Jordan aftur í liðið.

KF leikur sinn fyrsta leik gegn Álftanesi á Bessastaðavelli, laugardaginn 4. maí kl. 16:00.

Aðalbakarí á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallana um leiki KF í sumar og Arion banki í Fjallabyggð er einnig styrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF og unglingaflokka. Með þessum stuðningi er hægt að halda úti öflugum fréttaflutningi um KF í sumar eins og undanfarin ár hér á síðunni.

Mynd frá PFC Sports Management.

Plöntuskiptidagur hjá Fríðu

Plöntuskiptidagur verður á Frida Súkkulaðikaffihúsi á Siglufirði, föstudaginn 3. maí milli 16.00-18:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Pottaplöntur hafa orðið æ vinsælli að undanförnu og þar sem nú er tíminn til að umpotta þeim og jafnvel skipta upp plássmiklum plöntum þá er hugmyndin að opna fyrir möguleikann á því að koma með alla afleggjarana sem hafa orðið til við það að umpotta, skipta á þeim við einhvern sem langar og fara kannski heim með alveg nýja plöntu sem þú átt ekki heima.  Frítt uppáhellt kaffi í tilefni dagsins.

Hægt er að skrá sig á viðburðinn á fésbókinni.

Umf Glói og Ljóðasetur Íslands bjóða í leikhús

Umf Glói og Ljóðasetur Íslands bjóða í leikhús á Siglufirði laugardaginn 4. maí. Tilefnið er 25 ára afmæli Umf Glóa, sem var þann 17. apríl sl. og Ljóðasetrið vill með þessu boði þakka fyrir þann mikla stuðning sem íbúar sveitarfélagsins hafa sýnt starfsemi setursins að undanförnu.
Sýnt er í Bláa húsinu hjá Rauðku kl. 15.00 laugardaginn 4. maí og er verkið sérstaklega sniðið að yngsta aldurshópnum, 3ja til 8 ára, en allir hafa gaman af.
Það er Kómedíuleikhúsið sem sýnir hið ástsæla leikrit Dimmalimm sem sýnt hefur verið í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir núna í vor.
Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðarinnar. Sagan er eftir listamanninn Mugg frá Bíldudal. Ævintýrið fjallar um prinsessuna Dimmalimm sem eignast góðan vin sem er stór og fallegur svanur. En eins og í öllum góðum sögum þá gerist eitthvað óvænt og ævintýralegt.
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Þröstur Leó Gunnarsson
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Sögumaður: Arnar Jónsson
Dimmalimm: Vigdís Hrefna Pálsdóttir
Pétur: Sigurður Þór Óskarsson
Tónlist: Björn Thorodssen
Brúður: Alda Veiga Sigurðardóttir, Marsibil G. Kristjánsdóttir
Leikmynd: Elfar Logi Hannesson, Marsibil G. Kristjánsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson
Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson

Valur Reykjalín kominn aftur í KF

Valur Reykjalín Þrastarson er kominn með leikheimild með KF. Hann fór yfir í Val Reykjavík í byrjun árs 2018. Valur hefur leikið 36 leiki fyrir KF í deild og bikar og skorað í þeim 4 mörk. Hann mun klárlega styrkja hóp KF verði hann laus við meiðsli og í góðu leikformi í sumar. Valur lék upp yngri flokkana hjá KF, er tvítugur og efnilegur leikmaður. Hann hefur mest leikið framarlega á miðju eða sókn.

KR vann Dalvík/Reyni 5-0 í Mjólkurbikarnum

Eftir frækinn sigur á móti Þórsurum í Mjólkurbikarnum þá var næsti mótherji Dalvíkur/Reynis KR-ingar. Fyrirfram var búist við mjög erfiðum leik enda KR með sterkt lið í efstu deild en Dalvík/Reynir nýkomið í 2. deildina.

Leikurinn fór fram á Meistaravöllum í Vesturbænum í dag. KR skoraði strax á 5. mínútu og komu ákveðnir til leiks. Á 20. mínútu skoraði KR aftur og voru komnir í 2-0 og þannig var staðan í leikhlé. KR gerði eina skiptingu í leikhlé þegar Óskar Örn kom inná fyrir Kennie Chopart. Á 49. mínútu fengu KR-ingar víti og komust í 3-0. Nokkrum mínútum síðar gerði D/R skiptingu þegar Sveinn Margeir kom inná fyrir Gunnlaug.

Bæði lið gerðu áfram skiptingar um miðjan síðari hálfleik og kom Gunnar Már inná fyrir Pálma á 62. mínútu. KR skoraði svo fjórða mark sitt á 71. mínútu. Á 75. mínútu gerði D/R sína síðustu skiptingu þegar Jóhann Örn kom inná fyrir Borja Laguna.

Á fyrstu mínútu í uppbótartíma gerðu KR-ingar sitt fimmta mark, og kláruðu leikinn 5-0.

KR er því komið áfram í 16 liða úrslit Mjólkurbikarsins og Dalvík/Reynir eru úr leik.

Fjölmenni í kröfugöngu á Akureyri

Fjölmenni safnaðist saman  á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. –  Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

Kjörorð dagsins eru “Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla.” Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Drífa Snædal, forseti ASÍ, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Örn Smári Jónsson söng frumsamin lög og Svenni Þór og Regína Ósk sungu lög úr myndinni A star is born. Hátíðardagskrá lauk með sameiginlegum söng á Maístjörnunni undir stjórn Svenna og Regínu. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI.

Jóhann sagði m.a. í ávarpinu að „hlutverk verkalýðshreyfingar í dag er, auk hefðbundinnar kjarabaráttu er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings til að geta lifað mannsæmandi lífi þar sem jafnrétti kynja og tækifæra ríkir og jafnt aðgengi allra sé að menntun, heilbrigðiskerfi, lyfjum og að húsnæði standi hverjum og einum til boða á viðráðanlegum kostnaði út frá þeirra stöðu. Þetta er sannarlega markmið hreyfingarinnar og í vinnslu á hverjum tíma. Við höfum náð árangri en eigum samt langt í land víða.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan.

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2019

Kæru félagar fyrir hönd stéttarfélaganna á Akureyri Akureyri býð ég ykkur velkominn á þessa hátíðardagskrá.

Þetta árið hefur Félag málmiðnaðarmanna Akureyri verið falin forsjá að þessum baráttudegi okkar ég heiti Jóhann Rúnar Sigurðsson og er formaður þess félags.

Í dag 1. maí á hátíðs- og baráttudegi verkalýðshreyfingarinnar komum við saman til að líta yfir farinn veg. Við komum líka saman til að horfa fram á veginn, til að velta fyrir okkur – hver næstu verkefni okkar verða.

Kjörorð dagsins í dag er Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla en hvað þýðir það á mannamáli.

Í mínum huga merkir þetta að við eigum öll skilið jöfn tækifæri til að geta lifað mannsæmandi lífi og að enginn eigi að hafa laun undir framfærsluviðmiðum sem samfélagið hefur reiknað út. Þetta viðmið á einnig að gilda um laun aldraðra og öryrkja.

Framfærsluviðmið sem nú er upp gefið hjá ríkinu er talsvert ofar en útgreidd lágmarkslaun og er án kostnaðar við húsnæði sem skekkir enn myndina gagnvart lágmarkslaununum.

Þeir sem svo leggja á sig 4 ára menntun eru einnig þó nokkra stund að komast upp fyrir framfærsluviðmiðið í útgreiddum launum og sérstaklega þegar húsnæðisliðnum og þeim kostnaði sem því fylgir er bætt við.

Hvar erum við stödd í dag – erum við sátt. Mín skoðun er nei ekki á meðan að framfærsluviðmið ríkisins eru hærri en útgreidd laun þá getum við ekki verið sátt.

Stilla þarf þjóðfélagið af og þeir samningar sem hluti af félögunum innan ASÍ hafa samþykkt gætu verið tímamótasamningar þ.e.a.s. ef að ríkið stendur við sinn hlut þá gætu þessir samningar verið þróun í þá átt að ná framfærlsuviðmiðinu ásamt því að hægt verði að vinna að bættum lífskjörum fyrir alla og er ég þá sérstaklega að tala um þá sem minnst mega sín í þessum samningum og eru með lægstu launin og ekki má gleyma öldruðum og öryrkjum og þær ósanngjörnu skerðingar sem þessir hópar þurfa að lifa við.

Hlutverk verkalýðshreyfingar í dag er, auk hefðbundinnar kjarabaráttu er að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafna tækifæri launafólks og alls almennings til að geta lifað mannsæmandi lífi þar sem jafnrétti kynja og tækifæra ríkir og jafnt aðgengi allra sé að menntun, heilbrigðiskerfi, lyfjum og að húsnæði standi hverjum og einum til boða á viðráðanlegum kostnaði út frá þeirra stöðu. Þetta er sannarlega markmið hreyfingarinnar og í vinnslu á hverjum tíma. Við höfum náð árangri en eigum samt langt í land víða.

Kæru félagar þetta er barátta sem seint verður unnin því að markmið hennar breytast sífellt og á meðan að atvinnurekendur og ríksstjórnir leggjast ekki á árarnar af fullum þunga með okkur þá nást þessi takmörk ekki.

Við erum ekki ein við samningaborðið og margt sem við viljum gera betur í hverjum samningum fyrir sig. Þetta eru samt sigrar sem við sjáum með mismunandi augum. Þau réttindi sem við höfum í dag eru tilkomin eftir rúmlega 100 ára baráttu því skulum við ekki gleyma og margir horfa til okkar öfundaraugum á því fyrirkomulagi sem við höfum er lítur að stéttarfélagsaðild.

Ég sagði áðan að það gætu verið breytingar á því hvernig samningar verða gerðir í framtíðinni með þeim samningum sem  voru undirritaðir af hluta vinnumarkaðarins á dögunum og vona ég það innilega.

Það er nú einu sinni þannig að enginn getur án annars verið, við launþegar þurfum á þjónustu ríkisins að halda sem og launa frá atvinnurekendum en atvinnurekendur gætu ekki verið til án okkar. Við erum þeirra stærsti viðskipavinur hvort sem það eru vörur eða þjónusta og eins má segja um rekstur ríkisins hann er undir okkur kominn.

Það er því löngu orðið tímabært að við hugsum heildstætt og tökum upp bættari og sameiginlegri vinnubrögð í kjarasamningum til framtíðar. Nú í þessum hófsömu kjarasamningum  óska ég eftir því að aðilar standi við þau loforð sem þeir gefi og virði.

Atvinnurekendur mega ekki setja óábyrgar hækkanir á vörur umfram það sem eðlilegt er, slíkar hækkanir munu leiða til verðbólgu sem vegur að grundvelli kjarasamninga.

Atvinnurekendur verða að leita leiða til að hagræða í rekstri án þess að velta því á launþegann og ríkið verður að standa við sín loforð  til tilbreytingar og það væri líklega það mikilvægasta við þann samning sem undirritaður var á dögunum af hluta vinnumarkaðarins.

Í dag ætti enginn að þurfa að berjast fyrir mannsæmandi launum. Það ætti að vera sjálfgefið í skiptum fyrir átta tíma vinnudag.

Undanfarið hefur hefur verið mikið í umræðunni um þátttökuleysi í kosningum og áhugaleysi ungu kynslóðarinnar á réttindum sínum en ég tel að með því að gera stéttarfélags og fjármálalæsi að skyldufræðum í grunnskóla þá værum við að búa til upplýstara og hæfara fólk í framtíðinna. Fólk sem mun hugsa öðrvísi en við gerum í dag.

En góðir félagar  verkefni okkar er að halda áfram að standa vörð um sjálfsögð mannréttindi. Markmiðin eru háleit en raunhæf. Lærum af fortíðinni hvort sem það felur í sér að læra af mistökunum eða horfa til þess sem reynst hefur vel.

Flestir hljóta að samþykkja að það séu algild sannindi

að manneskjur séu óendanlega mikils virði, alveg óháð formlegu vinnuframlagi eða kyni; hvort sem við erum launafólk, atvinnulaus, verktakar, öryrkjar, eigendur fyrirtækja eða á ellilífeyri.

Allt sem dregur lífsandan á skilið virðingu, án tillits til efnahags eða árangurs á tilteknum sviðum. Við erum öll jafn mikilvæg í samfélaginu.

Verklýðsfélögin eru samtök ykkar og þið eruð grasrótin og þeim mun virkari sem hún er    þeim mun betur gengur okkur og aðeins þannig getum við nálgumst það markmið að geta lifað mannsæmandi lífi af þeim launum sem við höfum hvert og eitt okkar.

Valdið er ætíð í ykkar höndum og aðeins þannig byggjum við saman betra samfélag. Við erum í vinnu fyrir ykkur ekki öfugt.

Til hamingju með baráttudaginn 1. maí.

Texti: Ein.is – Eining-Iðja

Karlakórinn í Fjallabyggð syngur í Tjarnarborg ásamt hljómsveit

Karlakórinn í Fjallabyggð ásamt hljómsveit verður með söngskemmtun í Menningarhúsinu Tjarnarborg laugardaginn 4. maí næstkomandi, undir yfirskriftinni GLEÐI LÉTTIR LUNDU. Tónleikar hefjast kl. 21.00.

Á söngskemmtuninni verður flutt fjölbreytt efnisskrá, hefðbundin karlakórslög, einsöngur, tvísöngur, þekkt dægurlög úr ýmsum áttum, lög úr kvikmyndum, smá kántrý, o.fl.

Gestir kórsins verða hin frábæru Ronja og ræningjarnir!

Verð á tónleikana er 3.000 kr.

Umsækjendur um stöðu skólastjóra Dalvíkurskóla

Alls sóttu þrír um stöðu skólastjóra Dalvíkurskóla sem rann út þann 26. apríl síðastliðinn. Ein umsókn var dregin til baka. Meðal umsækjanda er Friðrik Arnarson, sem er núna skólastjóri skólans í afleysingu.

Eftirtaldir aðilar sóttu um:

Ásgeir Halldórsson, matreiðslumaður.

Friðrik Arnarson, deildarstjóri í Dalvíkurskóla og nú sem skólastjóri í afleysingu frá 1. apríl 2019.