Akureyrarstofa auglýsir eftir umsóknum í Menningarsjóð Akureyrar fyrir árið 2020. Umsóknir geta verið ferns konar því hægt er að sækja um samstarfssamning, verkefnastyrk, starfslaun listamanna og starfsstyrk ungra listamanna.
Samstarfssamningar
Verkefni sem stuðla að fjölbreyttu menningarlífi á Akureyri. Hægt er að sækja um samstarf til eins, tveggja eða þriggja ára í senn. Upphæðir samstarfssamninga geta verið á bilinu 100.000 – 800.000 kr.
Verkefnastyrkir
Verkefni sem auðga menningarlífið í bænum, hafa ákveðna sérstöðu og fela í sér frumsköpun. Styrkir eru að upphæð 50.000 – 300.000 kr. Einnig verður úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 600.000 kr. til stærri verkefna í tengslum við Jónsmessuhátíð, Listasumar eða Akureyrarvöku.
Umsóknarfrestur samstarfssamninga og verkefnastyrkja er til og með 2. febrúar 2020.
Starfslaun listamanna
Umsóknir skulu innihalda greinargóðar upplýsingar um hvernig starfslaunatíminn verður notaður, listferil og menntun. Árið 2020 eru veitt starfslaun að upphæð 2.700.000 kr. sem dreifast jafnt yfir 9 mánuði. Öllum með lögheimili á Akureyri er heimilt að sækja um í eigin nafni.
Sumarstyrkur ungra listamanna
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að í ár verði úthlutað 1-2 styrkjum til ungs og efnilegs listafólks á aldrinum 18-25 ára sem er í framhaldsnámi eða á leið í framhaldsnám í sinni grein. Upphæð hvers styrks verður 600.000 kr. og markmiðið er að viðkomandi geti dregið úr sumarvinnu með námi og þess í stað lagt stund á list sína bæði með æfingum og viðburðum. Á móti styrknum mun viðkomandi koma fram á viðburðum á sumarhátíðum bæjarins, allt eftir nánari samkomulagi við Akureyrarstofu hverju sinni.
Umsóknarfrestur starfslauna og sumarstyrkja er til og með 9. febrúar 2020.
Hagnýtar upplýsingar
Við úthlutun er litið til fjölbreytileika í starfsemi, aldurs þátttakenda, jafnréttis og sýnileika. Upplýsingar um reglur Menningarsjóðs, Samþykkt um starfslaun listamanna og Menningarstefnu Akureyrar má sjá á hér heimasíðu Akureyrarbæjar. Sótt er um rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Athugið að einungis er hægt að opna umsóknina með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Nánari upplýsingar veitir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála í netfanginu almara@akureyri.is.