Atvinnulífssýning á Sauðárkróki

Atvinnulífssýningin „Skagafjörður – lífsins gæði og gleði“ verður haldin í íþróttahúsinu á Sauðárkróki helgina 28.-29. apríl.

Á sýningunni munu á annað hundrað sýnendur á um 70 básum troðfylla íþróttahúsið og kynna allt það besta sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða í framleiðslu, þjónustu og menningu. Sambærileg sýning var síðast haldin í Skagafirði árið 2010 og sóttu hana þá um 3000 gestir.

Sýningin verður opin frá kl. 10-17 á laugardegi og 10-16 á sunnudegi. Samhliða sýningunni verður fjölbreytt málstofudagskrá báða dagana þar sem fjallað verður um allt frá skapandi greinum, fjölbreytni í ferðaþjónustu, þróun og tækifærum í iðnaði, yfir í sýn ungs fólks á framtíðina í Skagafirði – svo fátt eitt sé nefnt. Um 60 manns koma að málstofudagskrám með erindum, kynningum og/eða málstofustjórn, þannig að ljóst má vera að flestir eiga að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, og Bjarni Jónsson, forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, munu setja atvinnulífssýninguna í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 28. apríl kl. 10:30. Skagfirski kammerkórinn syngur nokkur lög við setninguna.

Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar mun setja Sæluviku Skagfirðinga á sama stað sunnudaginn 29. apríl kl. 14:00 en Sæluvika Skagfirðinga er eins og mörgum er kunnugt ein elsta menningarhátíð landsins og nær saga hennar allt aftur til ársins 1874. Karlakórinn Heimir syngur nokkur lög við setninguna.

Á sýningartíma verða fjölbreytt skemmtiatriði, tónlistaratriði og tískusýningar á sviði íþróttahússins en þessi atriði verða kynnt nánar á sýningunni.

Aðgangur að sýningunni og málstofum er ókeypis og það eru allir ávallt hjartanlega velkomnir í Skagafjörðinn!