Atvinnulífssýning verður í íþróttahúsinu á Sauðárkróki helgina 5.-6. maí 2018. Kynning á þjónustu, framleiðslu, mannlífi og menningu í Skagafirði.
Atvinnulífssýningin verður haldin með sama sniði og fyrri sýningar árin 2010, 2012 og 2014. Sýnendum gefst kostur á að kynna starfsemi sína í sérstökum básum í íþróttahúsinu en jafnframt er heimilt að selja þar vörur. Þá verða haldnar nokkrar málstofur um fjölbreytt málefni sömu daga. Svið verður á sýningarsvæðinu og hin ýmsu atriði sem fólk vill bjóða upp á eru mjög velkomin!
Samhliða sýningunni verður haldið upp á 20 ára afmæli Sveitarfélagsins Skagafjarðar en í ár eru 20 ár liðin síðan ellefu sveitarfélög í Skagafirði sameinuðust í eitt.
Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem er í þjónustu, framleiðslu, mannlífi og menningu í Skagafirði, vekja jákvæða athygli á samfélaginu okkar, kynna sprota og nýsköpun í atvinnulífi og síðast en ekki síst skapa skemmtilegan viðburð í lok Sæluviku Skagfirðinga.
Hvar?
Sýningin verður haldin í íþróttahúsinu á Sauðárkróki en málstofurnar verða í Árskóla.
Hvenær?
Laugardaginn 5. maí frá kl. 10-17 og sunnudaginn 6. maí frá kl. 10-16.
Fyrir hverja?
- Þjónustufyrirtæki
- Iðnfyrirtæki
- Matvælafyrirtæki
- Ferðaþjónustufyrirtæki
- Rannsóknaraðila
- Frumkvöðla/sprotafyrirtæki
- Veitufyrirtæki
- Skóla
- Veitendur opinberrar þjónustu
- Félagasamtök
- Menningarfélög
- Alla sem vilja miðla einhverju til sýningargesta