Eyjafjarðarsveit harmar þá staðreynd að opinberir innviðir hafi brugðist í veðuráhlaupi síðastliðinnar viku.
Ljóst er að nútímasamfélag er háð raforku í nánast öllu daglegu starfi og er því óásættanlegt að kerfið sé ekki öruggara en svo að veður geti haft svo víðtæk áhrif sem raun ber vitni. Á stórum svæðum höfðu íbúar ekki aðgang að rafmagni, heitu vatni, útvarpi, alneti né síma og þannig hvorki með upplýsingar um stöðu mála eða leiðir til að kalla eftir aðstoð í neyð. Á stórum hluta landsins var öryggi íbúa því raunverulega ógnað og hefði víða geta farið illa ef ekki hefði verið fyrir elju og óeigingirni björgunarsveitaraðila og annarra sjálfboðaliða.
Öryggi íbúa, hvar svo sem þeir búa, þarf að vera forgangsmál þjóðarinnar.