Almenn ánægja með Vestnorden ferðakaupstefnuna á Akureyri

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin á Akureyri í síðustu viku en hún hefur mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Á kaupstefnunni voru rúmlega 600 aðilar skráðir til leiks frá alls 30 löndum, þar af um 370 að sýna og bjóða fram vöru eða þjónustu og hátt í 200 að kynna sér og kaupa það sem í boði er. Um 70 kaupendur voru að koma í fyrsta sinn og blaðamenn og opinberir gestir voru einnig um 70 talsins.

Afar mikil ánægja var meðal kaupenda og seljenda og ekki síst með þá nýbreytni að gestum var boðið upp á ferðir og upplifun á Norðurlandi á meðan á kaupstefnunni stóð. Engan bilbug var á aðilum að finna og almenn bjartsýni gagnvart horfum á næsta ári, jafnvel þó óvissa sé meiri en oft áður.

Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum og Grænlandi. Kaupstefnan var síðast haldin á Akureyri árið 2010 og þar á undan 2002.

Myndir og texti: akureyri.is