Fjallabyggð tók þátt í lestrarátakinu Allir lesa, og eru nú úrslitin orðin ljós. Fjallabyggð var í öðru sæti þegar lesturinn var flokkaður eftir búsetu, með meðallestur á þátttakenda 49,4 klukkustundir, eða sem nemur rúmum tveimur sólarhringum á mann. Dalvíkurbyggð var í fjórða sæti með 44,7 klst. Í vinnustaðakeppni í flokkinum 10-29 starfsmenn, sigraði Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga.

Allir lesa er landsleikur í lestri, með áherslu á orðið leikur. Tilgangurinn er fyrst og fremst að vekja athygli á því hversu skemmtilegt það er að lesa, hvort sem er einn eða með öðrum. Allir lesa snýst þannig ekki um lestrarhraða eða fjölda blaðsíðna heldur er takmarkið fyrst og fremst að hvetja landsmenn til að verja tíma í yndislestur. Með því að skrá inn að minnsta kosti 15 mínútur af lestri dag hvern vonumst við til þess að bóklestur komist inn í daglega rútínu og lesturinn verði að lífsstíl.