Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélagið Hlíðarendi mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag. KH var stofnað árið 2010 og er varalið Vals í Reykjavík. Þetta eru strákar sem æfa við topp aðstöðu allt árið um kring, eitthvað sem KF strákarnir láta sig bara dreyma um í Fjallabyggð.  KF hefur styrkt sig fyrir sumarið og búast aðdáendur þeirra við því að þeir verði í toppbaráttunni í sumar. Miklar vonir eru bundnar um markaskorarann Alexander Már sem kom til félagsins skömmu fyrir mót, en liðinu hefur sárlega vantað alvöru markaskorarar frá því hann fór frá KF árið 2015.

Völlurinn var í topp standi í dag og hitinn var aðeins 6° og skýjað. Tvær breytingar voru á byrjunarliði KF frá sigurleiknum gegn Augnabliki í síðustu umferð, Halldór Logi og Stefán Bjarki voru í byrjunarliðinu en Óliver var ekki í hóp og Ljubomir á bekknum. Þá var Aksentije Milisic ekki í leikmannahóp heldur í liðstjórn KF í dag.

KF byrjaði leikinn mjög vel og þurftu áhorfendur ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. KF fékk hornspyrnu á upphafsmínútum leiksins, og úr henni skoraði Alexander Már (Nr.10), með góðum skalla, og staðan orðin 1-0  eftir fjórar mínútur. KF skoraði aftur á 17. mínútu með marki frá Alexander Már, 2-0 og frábær byrjun hjá KF.

Á 38. mínútu komst KF í 3-0 þegar Vitor Vieira (Nr. 14) skoraði, og var KF því með örugga forystu í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks þá skoruðu gestirnir beint úr aukaspyrnu og minnkuðu muninn í 3-1 á 51. mínútu. Aðeins fimmtán mínútum síðar skoraði KF aftur og var það Alexander Már sem það gerði, hans þriðja mark í leiknum og breytti stöðunni í 4-1.  Á 71. mínútu kom Ljubomir inná fyrir Halldór Loga, og Jakob Auðun fyrir Patrek.  Á 79. mínútu kom svo þriðja skiptingin hjá KF, þegar Grétar Áki kom inná fyrir Val Reykjalín. Á 85. mínútu kom Þorsteinn Már inná fyrir Vitor og skömmu síðar kom Sævar inná fyrir Ljubomir sem hafði aðeins verið inná í tæpar tuttugu mínútur. Varamennirnir voru semsagt vel nýttir í þessum leik.

Það var svo markaskorarinn mikli, Alexander Már sem kórónaði leik sinn og KF og skoraði fjórða mark sitt í leiknum og fimmta mark KF á lokamínútunni. Frábær leikur hjá KF og stórsigur á KH í dag.

KF er núna í 2. sæti í deildinni eftir þrjá leiki með 7 stig. Frábær byrjun á mótinu.

Núna er meiri samkeppni um stöður hjá KF en undanfarin ár og breiðari hópur. Þetta heldur leikmönnum á tánum því enginn vill missa sæti sitt í byrjunarliðinu. Það verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum hjá KF.