Við undirritaðir fulltrúar þriggja fyrirtækja í ferðaþjónustu við Kjalveg, sem tökum alls á móti að minnsta kosti 75.000 ferðamönnum í ár, viljum hér með draga athygli stjórnvalda, nýkjörins Alþingis og landsmanna allra að hörmungarástandi þessarar vinsælu ökuleiðar ferðafólks þvert yfir hálendi Íslands.

• Ástand Kjalvegar ógnar íslenskri ferðaþjónustu og skaðar ímynd hennar og Íslands. Í bókstaflegum skilningi er það reyndar líka svo að ástandið er afar skaðlegt fólksflutningafyrirtækjum. Þau þurfa ítrekað að þola tjón á stórum og smáum bílum sínum á Kjalvegi, stundum stórfellt tjón.
• Niðurgrafinn og ósléttur vegslóðinn stendur engan veginn undir nafni sem „vegur“ og er hvorki boðlegur ferðafólki né farartækjum.
• Við biðjum ekki um malbikaða „hraðbraut“ yfir hálendið og teljum raunar slíkar hugmyndir hvorki æskilegar, raunhæfar né þjóna hagsmunum ferðamennsku og íslensks þjóðarbús.
• Þarna á einfaldlega að vera góður „ferðamannavegur“, framkvæmd sem er raunhæf og þarf að komast á dagskrá strax til að leysa brýnan vanda.
• Við hvetjum til þess að Vegagerðinni verði gert kleift að halda áfram þar sem frá var horfið sumarið 2010 þegar vegarkafli að Grjótá, sunnan við Bláfellsháls, var breikkaður og hækkaður. Sú vegagerð var velheppnuð og til fyrirmyndar.
o Um 80 km langur og 6 metra breiður vegur, sem risi hálfan metra upp úr umhverfi sínu í stæði núverandi vegslóða að mestu leyti, myndi kosta um 330 milljónir króna og allt að 60 milljónum króna til viðbótar ef tengileiðir Kjalvegar eru taldar með (skv. upplýsingum frá Vegagerðinni).

Greinargerð

Í upphafi sumarferðatímans er rétt að beina sjónum að ástandi Kjalvegar. Umferðin eykst þar ár frá ári án þess að viðhald vegarins aukist að sama skapi. Þvert á móti býr Vegagerðin við fjársvelti sem meðal annars birtist í skertum framlögum til hálendisvega. Afleiðingarnar blasa nú við.

Það segir sína sögu að forráðamenn fyrirtækja í fólksflutningum ræddu það í alvöru í ágúst 2012 að hætta að aka um Kjalveg. Nú eru dæmi um fyrirtæki sem neita sér um viðskipti með því að aka ekki þessa leið sumarið 2013, enda alkunna að hver einasta ferð kallar að líkindum á verkstæðisheimsókn með tilheyrandi kostnaði.

Eigendur bílaleiga ráðleggja viðskiptavinum sínum eindregið að aka ekki fólksbílum um Kjalveg eða hafa beinlínis sett „veginn“ á bannlista.

Því skal til haga haldið að ástandið er gott eða viðunandi til beggja enda leiðarinnar yfir Kjöl. Þar á milli eru um 80 km þar sem vegslóðinn er niðurgrafinn og fínu efnin í ofaníburði fokin eða flotin á brott. Eftir stendur þá gróft efni sem hvergi á heima í vegklæðningu, enda er yfirborð grófara og ósléttara en svo að hugtakið þvottabretti nái að lýsa því. Tennur veghefla koma þarna að litlu gagni þá sjaldan heflað er en það gerist að jafnaði tvisvar á sumri.

 Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þessi niðurgrafna ýtuslóð er barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.

Endurbætur á Kjalvegi eru brýnar í margvíslegum skilningi. Þær myndu auka öryggi í umferð og stuðla að því að menn kæmu ökutækjum sínum heilum heim úr hálendisferðum.

Endurbættur Kjalvegur myndi auk heldur gera kleift að aka þarna yfir hálendið lengur á hverju ári en nú er unnt. Leiðin myndi opnast fyrr á sumrin og lokast síðar á haustin.

Allt rímar þetta vel við þá opinberu stefnu stjórnvalda að auka öryggi í umferð og lengja ferðamannatímann á Íslandi. Nægir í því sambandi að minna á „Ísland allt árið“, yfirskrift áætlunar íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020. Markmið hennar er að auka arðsemi atvinnugreinarinnar með því að fjölga ferðamönnum, einkum utan sumartímans.

 Kjalvegur er dragbítur í ferðaþjónustunni og samræmist að óbreyttu ekki efnislegu inntaki stefnuyfirlýsingar um „Ísland allt árið“, enda er hann ekki einu sinni almennilega bílfær um hásumarið!

Herbert Hauksson
f.h. Fjallamanna ehf.

696 5116
herbert@mountaineers.is Gunnar Guðjónsson
f.h. Hveravallafélagsins ehf.

894 1293
gun@internet.is Páll Gíslason
f.h. Fannborgar ehf.

664 7000
pg@pg.is

Fjallamenn sérhæfa sig í jeppaferðum og vélsleðaleigu og hafa aðsetur við suðausturhorn Langjökuls.
Hveravallafélagið annast gisti-
og veitingaþjónustu á Hveravöllum.
Fannborg þjónar útivistar- og göngufólki í Kerlingarfjöllum og rekur þar veitinga- og gistiþjónustu.