Mennirnir þrír sem voru á togaranum sem talinn er hafa farist undan ströndum Noregs í dag, eru enn ófundnir. Norska strandgæslan hefur leitað þeirra með tveimur björgunarþyrlum og einni herflugvél í kvöld.
Þyrlunum hefur nú verið snúið til lands, að sækja eldsneyti, en flugvélin hefur nægt eldsneyti til að leita til miðnættis. Hún leitar mannanna með radar og hitanæmri myndavél. Þá er norskt fiskiskip komið á slysstað og aðstoðar við leitina. Norskir fjölmiðlar greina frá því að fundist hafi brak, sem talið sé úr bátnum, en norska strandgæslan hefur ekki staðfest að togarinn hafi farist.
Togarinn hafði verið seldur í brotajárn og var af þeim sökum á leið til Noregs með fjóra um borð. Einum úr áhöfninni var bjargað en þriggja er enn leitað. Maðurinn sem fannst er nú kominn til Álasunds og er sagður vel á sig kominn, miðað við aðstæður. Hann var í flotbúningi þegar hann fannst.
Norskir fjölmiðlar segja að björgunarlið hafi fundið mannlausan björgunarbát, en aftakaveður er á svæðinu, og nemur ölduhæðin allt að 15 metrum. Togarinn heitir Hallgrímur SI-77, nærri þrjúhundruð tonna togari frá Siglufirði.Hallgrímur var þrjátíu og fimm metra langur, smíðaður 1974 á Englandi og var gerður út frá Siglufirði frá 2010.
Heimild: Rúv.is