Aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar – viðbrögð vegna áhrifa COVID-19 – fyrstu aðgerðir.

1. Velferð íbúa – órofin þjónusta
Lögð verður áhersla á velferð bæjarbúa, afkomu þeirra og að halda úti órofinni grunnþjónustu bæjarins. Með aðgerðum sveitarfélagsins hefur verið
lögð áhersla á að fylgja tilmælum yfirvalda, Landlæknis og Almannavarna. Fjölskyldu- og fræðslusviði verður falið að safna saman gögnum um þróun
aðstæðna hjá einstaklingum og fjölskyldum á næstu mánuðum til að leggja grunn að frekari tillögugerð. Komið verður á samtali og samstarfi milli
hagsmunaaðila með því að virkja Almannaheillanefnd þar sem sérstaklega verði hugað að börnum og ungmennum, barnafjölskyldum, fötluðu fólki,
eldra fólki, atvinnulausum, fólki í viðkvæmri stöðu og fólki af erlendum uppruna.

2. Leiðrétting á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu

Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á þjónustu leik- og grunnskóla hefur þegar verið brugðist við með breytingu á gjaldtöku þannig að ekki er greitt fyrir þjónustu sem ekki er innt af hendi. Engir reikningar verða sendir út vegna skólavistunar og skólamáltíða í grunnskólum fyrir apríl og haldið verður utan um leiðréttingar vegna skertrar þjónustu frá 16.-31. mars 2020.
Ekki verður endurgreitt vegna skertar þjónustu heldur horft til þess að inneign gangi upp í þjónustu síðar á skólaárinu.
Leikskólagjöld taka breytingum í samræmi við veitta þjónustu, þ.e. ef barn er annan hvern dag í leikskólanum er innheimt 50% gjald. Þurfi að loka
leikskóla fyrir öllum öðrum en forgangshópi er ekki innheimt gjald fyrir þá sem verða fyrir lokun. Þá er ekki innheimt gjald fyrir börn sem foreldrar hafa
heima á tímabilinu sem takmörkun á skólahaldi nær til. Niðurfellingin fæst aðeins ef fjarveran er samfelld og/eða reglubundin. Nauðsynlegt er að
tilkynna fjarveruna til skólastjórnenda viðkomandi leikskóla. Leiðrétting á skertri þjónustu vegna marsmánaðar fer fram samhliða útgáfu á reikningi
vegna aprílmánaðar. Greiðsluseðlar vegna aprílmánaðar í Tónlistarskólanum verða ekki sendir út fyrr en ljóst er hvernig kennslu verður háttað þar næstu vikurnar.

Árskort, t.d. í sundlaugar og listasafn framlengjast sem nemur skerðingu á opnunartíma. Ákvarðanir sem snúa að árskortum í Hlíðarfjalli verða teknar
síðar á árinu.
Við innheimtu gjalda verður markmiðið að veita sveigjanleika varðandi gjaldfrest í einstaka tilvikum með það að leiðarljósi við núverandi aðstæður
að innheimtan sé sanngjörn.

3. Frestun á greiðslum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði.

Eigendur atvinnuhúsnæðis sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls geta sótt um frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020, með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,
nr. 45/1987.
Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. janúar 2021. Verði gjaldandi, sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021, fyrir
miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrri rekstrarár getur hann óskað eftir lengri fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags
mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.

4. Greiðslur fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði

Einstaklingar sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli munu geta sótt um fjölgun á gjalddögum eftirstöðva fasteignagjalda sem eru á gjalddaga í
apríl til september í apríl til desember. Íbúar geta sótt um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar frá og með 8. apríl.

5. Framkvæmdir og viðhald
Lögð verður áhersla á að framkvæmdir ársins gangi eftir en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir 4,4 milljörðum króna í fjárfestingar á árinu, sem skiptist þannig
að framkvæmdir í A-hluta verði 2,1 milljarður króna og í B-hluta 2,3 milljarðar.
Viðhaldi verður flýtt og strax verður gert ráð fyrir 10% aukningu á almennu viðhaldi. Fylgst verður með þróun mála á komandi mánuðum og settir
verða fjármunir til frekari framkvæmda eða viðhalds ef ástand á vinnumarkaði kallar á það.
Unnið er að nánari útlistun framkvæmda sem verður kynnt síðar.

6. Viðspyrna vegna atvinnuleysis
Gert er ráð fyrir fjölgun í sumarvinnu fyrir ungmenni á komandi sumri bæði í vinnuskóla og með sérstöku atvinnuátaki skólafólks. Stofnanir bæjarins
taka saman tillögur að verkefnum sem nýst geta í þessu samhengi. Rafrænni þróun verður flýtt og lögð áhersla á að bæta enn frekar rafræna
þjónustu við bæjarbúa. Lögð verður áhersla á samstarf Akureyrarstofu við Markaðsstofu Norðurlands og SSNE um markaðssetningu bæjarins og Norðurlands alls á
ferðamarkaði og stuðlað þannig að öflugri endurreisn ferðaþjónustu. Greina á áhrif faraldursins á menningar-, íþrótta- og tómstundastarf í bænum.

7. Greiðslur gatnagerðargjalda
Mótaðar verða reglur um gjaldfrest á gatnagerðargjöldum til allt að 12 mánaða vegna úthlutunar á lóðum.

8. Frestun leigu
Fjársýslusviði er falið að móta reglur um frestun eða afslátt af leigu þriðja aðila í atvinnurekstri í húsnæði bæjarins á grundvelli umsókna, vegna
tímabundins tekjufalls í ljósi sérstakra aðstæðna.

9. Undirbúningi fjárfestingaverkefna í samvinnu við ríki flýtt.

Breytingum á deiliskipulagi verður flýtt og öðrum undirbúningi í samvinnu við ríkið vegna fjárfestingaverkefna sem vilji er til að flýta, s.s. uppbyggingu Akureyrarflugvallar, hjúkrunarheimilis, tveggja nýrra heilsugæslustöðva og legudeilda SAk.

10. Aukin áhersla á að hraða skipulagsvinnu á uppbyggingarsvæðum

Lögð verður áhersla á að hraða undirbúningsvinnu vegna uppbyggingar miðbæjarins og Oddeyrarinnar með það að markmiði að úthluta lóðum hið
fyrsta.

11. Annað
Kannaðir verði möguleikar á skammtímalánum og langtímafjármögnun hjá Lánasjóði sveitarfélaga og Íslandsbanka.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna að frekari úrvinnslu og framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.
Bæjarráð Akureyrarbæjar mun í framhaldinu skoða ýmsar frekari leiðir til þess að bregðast við ástandinu vegna COVID-19, fylgjast með
þróun í samfélaginu, aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem og annarra sveitarfélaga. Áhersla er lögð á að fylgja leiðbeiningum frá Landlækni,
Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Almannavörnum ríkisins.