Hátíðarhöld á Akureyri þjóðhátíðardaginn 17. júní eru fjölbreytt að venju. Klukkan 12.45 byrjar Lúðrasveitin á Akureyri undir stjórn Alberto Carmona að spila í Lystigarðinum en þar hefst hefðbundin dagskrá klukkan 13 með fánahyllingu, hátíðarávarpi Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra og hugvekju sem Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni við Glerárkirkju flytur.

Karlakór Akureyrar – Geysir syngur undir stjórn Roars Kvam og grunnskólanemarnir Þóranna Lilja Steinke og Malik Stefán Turay flytja verðlaunaljóð sín úr ljóðasamkeppninni “Akureyri – brosandi bær” sem haldin var í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Dagskránni í Lystigarðinum lýkur klukkan 13.30 en þá verður skrúðganga þar sem leiðin liggur úr Lystigarðinum niður á Ráðhústorg.

Dagskráin á Ráðhústorgi er í umsjón Skátafélagsins Klakks og stendur frá klukkan 14-17 og svo aftur um kvöldið frá klukkan 21-01. Bæjarbúar og gestir geta reynt sig við ýmsar þrautir í hinu sívinsæla skátatívolíi. Kynnar í ár eru Gunnar Helgason og Felix Bergsson og meðal þeirra sem fram koma eru Marimbasveit Oddeyrarskóla, Dansfélagið Vefarinn, sönghópurinn Chorus, Lúðrasveitin á Akureyri, Leikhópurinn Lotta, Lilli Klifurmús, söngvarar frá Söngskóla Maríu Bjarkar, Jónsi, Ingó Hansen, atriði úr leikritinu Date, Svenni Þór og Regína Ósk. Að vanda marsera nýstúdentar úr Menntaskólanum á Akureyri á Ráðhústorg um miðnætti.

Auk dagskrárinnar á Ráðhústorgi verður árleg bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar í Boganum frá klukkan 10-20, sögusigling með eikarbátnum Húna II kl. 17 þar sem fræðst verður um gömlu húsin við Strandgötuna og Oddeyrina og Leikhópurinn Lotta sýnir barnaleikritið Stígvélaði kötturinn í Lystigarðinum kl. 11 og aftur kl. 17.